Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Verðtryggingarhugmyndir Sjálfstæðisflokksins ofl.
8.4.2013 | 00:51
Nýlega kom Sjálfstæðisflokkurinn fram með efnahagstillögur þar sem að húsnæðislánamál eru meðal annars á dagskrá. Eins og hjá öllum flokkum er verðtrygging ofarlega á baugi í þeim málum. Sjálfstæðismenn vilja draga úr vægi verðtryggingar en hvernig gera eigi slíkt er ekki útskýrt með markvissum hætti. Það er einföld leið til þess og hún er að íbúðalán verði ekki veitt að fullu með verðtryggðum lánum heldur verði ákveðið hlutfall ávallt í óverðtryggðum lánum, til dæmis ekki lægra en 30%. Þar sem að óverðtryggð lán fylgja almennt vaxtaþróun þá er líka eðlilegt að fólk geti ekki tekið óverðtryggð lán því að ef vaxtastig hækkar - fer til dæmis úr 7% í 14% - þá tvöfaldast greiðslubyrði fólks vegna vaxtakostnaðar og ljóst er að margir myndu ekki ráða við slíkt. Það er með ólíkindum að þegar að kemur að fjárfestingum þá er almennt viðurkennt að dreifa eigi áhættu en þegar það kemur að hinni hliðinni, það er að taka lán, þá virðast fáir hafa áhuga á slíkri áhættudreifingu og vilja einungis taka eina tegund lána.*
Sjálfstæðisflokkurinn vill að viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs geti umbreytt verðtryggð lán sín í óverðtryggð lán. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða árangri það eigi að skila. Gylfi Arnbjörnsson benti nýlega á að óverðtryggðir vextir hafi síðustu 20 ár verið 1-3% hærri en vaxtakostnaður verðtryggðra lána. Gylfi bendir á að það er hár vaxtakostnaður sem er að draga úr Íslendingum allan lífsneista. Því væri eðlilegra að benda á hvernig hægt sé að lækka vaxtakostnað, sem er meðal stefnumarkmiða Sjálfsstæðismanna.
Ein leið sem Ingvi Örn Kristinsson bendir á er að lækka lánshlutföll. Með því lendir fólk síður í greiðsluerfiðleikum og þurfa fjármálastofnanir því síður að afskrifa lán, en auknar afskriftir leiða einfaldlega til hærri vaxtakostnaðar fyrir alla hina til að dekka tapið sem hlýst af slíkum afskriftum. Samhliða því hefur enn á ný komið fram hugmynd um að koma hér á landi á svokölluð lyklalög, sem tryggja það að hægt sé að "skila lyklunum" ef virði húsnæðis fari undir markaðsvirði og einstaklingar þurfi að greiða mismuninn. Þetta er liður númer 7 í tillögum Sjálfsstæðismanna: sjá hér - http://2013.xd.is/. Það er mér hulin ráðgáta af hverju þetta einfalda mál hafi ekki orðið að lögum fyrir löngu síðan, þetta getur vart verið flókið mál. Slík lög draga úr vilja lánastofnanna að veita óábyrg lán og er ég til dæmis sannfærður um að lán í erlendri mynt hefðu aldrei verið veitt af slík lög hefðu verið ríkjandi misserin fyrir Hrun.
Eitt sem þyrfti einnig að gera, en yrði óvinsælt, væri að stytta lánstíma lána. 40 ára lán, í nánast sama hvaða lánafyrirkomulagi sem er, gerir það að verkum að eignamyndum fólks er hér um bil engin í mörg ár. Skiptir þá engu hvort um sé að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Að mínu mati ætti hámarks lán óverðtryggðra lána að vera 25 ár og verðtryggðra lána ekki lengur en 20 ár (höfuðstóll verðtryggðra lána greiðist hægar niður nema ef verðbólguhjöðnun eigi sér stað). Þetta er einföld staðreynd.
Eitt þykir mér afar jákvætt varðandi tillögur Sjálfsstæðisflokksins er að fólk geti nýtt sér séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán. Þau rök hafa heyrst að þá eigi fólk minni ráðstöfunartekjur síðar á ævinni en svo lengi sem fólk fer ekki að eyða þeim mun meira í aðra hluti af því að það skuldar svo lítið í húsnæðinu þá jafnast það út því að það skuldar einfaldlega minna þegar það kemst á ellilífeyrisaldur. Rétt er að taka fram að þetta er erfitt fyrir fólk sem hefur skuldbundið sig í tryggingarsöfnun með séreign sína.
Umræða um alla þessa ofangreinda þætti auk kosti og galla verðtryggingar (og einnig óverðtryggðra lána) er í skýrslu sem ég skrifaði fyrir VR árið 2010. Hægt er að nálgast hana á þessari slóð - http://www.vr.is/Uploads/VR/utgefid_efni_vr/Verdtrygging%20fjarskuldbindinga.pdf
Auk þess fjallaði ég um kosti og galla mismunandi húsnæðislána í Speglinum nýlega, sem var hluti af umræðu þar sem meðal annars er talað við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Hægt er að hlusta á viðtalið á þessari slóð - http://www.ruv.is/frett/verdtrygging
MWM
* Það eru margir ósammála þessum rökum mínum.
Kynning Gylfa - http://www.sff.is/sites/default/files/gylfi_arnbjornsson_erindi_a_radstefnu_um_fasteignalan.pdf
Kynning Ingva Arnar - http://www.sff.is/sites/default/files/yngvi_orn_kristinsson_-erindi_a_radstefnu_um_framtid_fasteignalana.pdf
Nýleg frétt varðandi lyklalögin - http://www.vb.is/frettir/82566/
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Íslensk skuldabréf - langtímasjónarmið
21.3.2013 | 09:11
Miklar sveiflur urðu á gengi íslenskra skuldabréfa í síðustu viku. Helsta ástæða þess var sú sýn að erlendir fjárfestar í "gíslingu" með fé sitt á Íslandi mættu ekki eiga áfram þau skuldabréf sem mest viðskipti eru með og því væri tímabundin söluþrýstingur í farvatninu. Einhver lýsti þessu sem "slátrun" á skuldabréfamarkaði. Nú þegar að lækkunin er að mestu gengin til baka kallast þetta leiðrétting (Már Guðmundsson tók þannig til orða), eitthvað sem ég hef aldrei skilið; kom í millitíðinni í ljós einhver skekkja í útreikningum á markaðsvirði skuldabréfa?
Það sem skiptir þó öllu máli er að skuldabréf eru enn verðlögð á þeim kjörum að þau eru góður kostur (hér skauta ég framhjá því að íslensk ríkistryggð skuldabréf eru ekki nauðsynlega án skuldaraáhættu, en í skugga gjaldeyrishafta má segja að þau séu sá kostur sem komist næst því). Vöxtur vergrar landsframleiðslu jókst aðeins um tæp 2% á síðasta ári og ekki virðist breyting til batnaðar vera í farvatninu. Í ljósi þess sterka sambands sem ríkir á milli þjóðarframleiðslu og ávöxtunarkröfu sem hægt er að gera til ríkispappíra (og reyndar hlutabréfa líka) var hækkun ávöxtunarkröfunnar byggð á skammtímasjónarmiðum.
Til samanburðar má benda á að bandarísk verðtryggð skuldabréf tryggð af ríkinu (þau eru til) bera nú enga raunávöxtun á meðan að á Íslandi bera svipuð bréf í kringum 2,5% raunávöxtun.
Skuldabréf eru langtímafjárfesting og því þarf að líta fyrst og fremst til langtímasjónarmiða þegar verið er að fjárfesta í slíkum pappírum.
Því skiptir það litlu máli til lengri tíma hvort að einhverjum fjárfestum sé bannað eða ekki að eiga í íslenskum ríkispappírum. Sé erlendum kröfuhöfum bannað að eiga í þeim þá aukast líkur á því að gjaldeyrishöftum sé aflétt og litið sé á nýjan leik á fjárfestingakosti með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Íslensk skuldabréf eru enn með það háa ávöxtunarkröfu að ekki er ástæða til þess að selja þau á þessum kjörum.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrirlestramaraþon HR - Menning og fjármál
19.3.2013 | 11:02
Á morgun, miðvikudaginn 20. mars, verður hið árlega fyrirlestramaraþon HR haldið. Allir fyrirlestrar eru stuttir, í kringum 6-8 mínútur, sem þýðir að verið er að kynna í afar stuttu máli ýmsar rannsóknir og verkefni sem verið er að vinna að innan fræðisamfélagsins.
Ég mun kynna hluta af mínum rannsóknum í PhD námi mínu í HR. Fyrirlesturinn heitir Menning og fjármál sem er lýsandi titill viðfangsefnisins og verður hann fluttur klukkan 13.15 í stofu V101. Sýnt verður hvernig Íslendingar eru almennt svipaðir öðrum Norðurlandaþjóðum. Um þetta hefur verið skrifað og telst vera almenn vitneskja. Rannsóknir í anda menningarvídda Hofstede styðja slík almenn viðhorf.
Aftur á móti virðumst við sem þjóð hegða okkur meira í anda annarra þjóða þegar kemur að fjármálum, aðallega þjóða sem eru í fréttum vegna óskynsamlegrar stefnu í þeim efnum. Farið verður yfir hvaða atriði það er sem hefur líklegast mestu áhrif á slíka hegðun í fari okkar. Þessu stefni ég að koma á framfæri á innan við 8 mínútum; gangi mér vel.
MWM
Óskilvirkur íslenskur hlutabréfamarkaður
13.3.2013 | 13:09
Ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa hefur hækkað afar mikið í dag (um klukkan 13), sér í lagi óverðtryggðra bréfa. Nemur hækkunin á styttri bréfum yfir 100 punktum en 19, 22 og 25 flokkar ríkisbréfa hafa hækkað um í kringum 35-75 punkta.
Þetta þýðir að þeir sem áttu bréfin fyrir sjá fram á verri ávöxtun því að skráð ávöxtun í þeirra bókum er lægri en sú sem ríkir á markaðinum. Þeir sem eru í dag aftur á móti að fjárfesta í þeim fá þeim mun hærri ávöxtun fram að gjalddaga, svo lengi sem þau eru ekki seld með tapi eða hagnaði í millitíðinni.
Almennt ríkja sterk tengsl á milli gengi hlutabréfa og skuldabréfa. Bæði tegund verðbréfa eru í eðli sínu langtímafjárfestingar og því eðlilegt að ávöxtun þeirra haldist í stað. Það sem ræður gengi hlutabréfa er hagnaður fyrirtækja og ríkjandi ávöxtunarkrafa á hverjum tíma. Þar sem að hagnaður almennt eykst smám saman en ávöxtunarkröfur á markaði sveiflast örar þá eru þær oftar en ekki óbeinn áhrifavaldur á gengi hlutabréfa. Vaxtastig hefur með öðrum orðum ekki einungis áhrif á gengi skuldabréfa heldur einnig gengi hlutabréfa. Ef skuldabréf fara að veita hærri ávöxtun þá fara fjárfestar eðlilega að færa fjárfestingar sínar í skuldabréf á kostnað hlutabréfa nema að hagnaður hlutabréfa hækki sem því nemur.
Því er það svo að sveiflur í ávöxtunarkröfu skuldabréfa hafa almennt mikil áhrif á gengi hlutabréfa. Ætti slík hækkun á ávöxtunarkröfu ríkistryggðra skuldabréfa sér stað á flestum alþjóðlegum mörkuðum myndi gengi hlutabréfa almennt lækka um 3 til 4 prósent samhliða slíkri þróun. Íslenska hlutabréfavísitalan hefur hins vegar nánast staðið í stað í dag. Samkvæmt þessu "hlustar" hlutabréfamarkaðurinn ekki á þau merki sem skuldabréfamarkaðurinn sendir frá sér. Því má segja að íslenskur hlutabréfamarkaður lífi ekki í veröld þar sem að ávöxtunarkrafa sem gerð sé til hlutabréfa sé skilvirk og sé því óskilvirkur.
MWM
Á ekki að aðskilja bankanna?
12.3.2013 | 14:05
Fjárfestingarbankar eru aftur á móti bankar sem fjármagna verkefni og fjárfesta jafnvel sjálfir í slíkum verkefnum. Eigendur slíkra banka græða mikið þegar að vel gengur en taka á sig tap þegar á móti blæs. Það er engin ástæða fyrir því að eigendur slíkra banka fái innstæðutryggingu frekar en að ríkið ábyrgist skipaflota Eimskips eða kvóta sjávarfyrirtækja, svo dæmi séu tekin.
Því er rétt að aðskilja slíka starfsemi sem allra fyrst. Tillaga til þingsályktunar - http://www.althingi.is/altext/140/s/1010.html - kom um málið fyrir töluvert löngu síðan en málið virðist hafa dagað uppi.
Ein af helstum rökunum fyrir því að ekki eigi að gera þetta á Íslandi er að lítill áhugi sé fyrir slíku erlendis. Það er alls ekki rétt. Þingmenn í Bretlandi eru til dæmis að kalla eftir því að slík lög verði sett í gildi - http://www.ft.com/intl/cms/s/0/57e63c4e-4f72-11e2-a744-00144feab49a.html#axzz2NK6rFDXm - og fækkar röddum um að nóg sé að mynda múra innan banka í þessu sambandi.
MWM
Að neðan er grein sem ég skrifaði um þetta skömmu eftir hrun og birtist í Morgunblaðinu. Hún hefur staðist tímans tönn og endurbirti ég því hana.
Aðskilnaður fjármálaþjónustu
Hrun fjármálakerfisins í dag sem er að eiga sér stað á alþjóðavísu er ekki ósvipað hruninu í kreppunni miklu sem hófst árið 1930. Verið er að þjóðnýta banka víðsvegar í heiminum með beinum og óbeinum hætti. Þrátt fyrir slíkar aðgerðir er vantraust meðal almennings til þeirra það mikið að það hefði þótt vera óhugsandi fyrir einungis nokkrum mánuðum.
Eins og í kreppunni miklu hafa margir sem lögðu fé sitt í banka í þeirri góðu trú að þar væri það öruggt einnig tapað miklum fjármunum. Árið 1933 voru lög, sem almennt er vitnað í sem Glass-Steagall Act, samþykkt í Bandaríkjunum sem kváðu um aðskilnað í fjármálaþjónustu á fjárfestingarbankastarfsemi og hefðbundinni bankaþjónustu.
Þessi lög stóðu í 66 ár en voru afnumin árið 1999. Þau þóttu þá vera gamaldags enda töldu menn sig orðið vita mun betur hvernig stýra ætti hagkerfum og áhættustýringu innan banka. Þetta er að mínu mati ein af helstu orsökum þess að margir bankar heims fóru offörum í starfsemi sinni með þeirri afleiðingu að þeir eru í dag tæknilega gjaldþrota.
Hægt er að benda á nokkra aðra þætti svo sem mikinn samdrátt í efnahagslífinu, flata vaxtakúrfu í Bandaríkjunum síðustu ár (sem neyðir fjármálafyrirtæki til að taka meiri áhættu í stað hefðbundinna lána) og blöndu af óskynsamlegri vaxta- og hagstefnu. Sé rýnt í sögubækur fjármálafræðinnar er aftur á móti ljóst að helsti orsakavaldur slíkra hamfara sem nú ganga yfir er auðvelt aðgengi að fé og misnotkun á slíku aðgengi. Fyrst í stað liðkar auðvelt aðgengi að fjármagni fyrir einstaklingum og fyrirtækjum til framkvæmda.
Sé slík stefna hins vegar of lengi látin viðgangast er það oftast ávísun á harða lendingu. Með því að opna dyrnar á að sameina hefðbundna bankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi voru innlán, sem í áratugi var að mestu varið í hefðbundin útlán, sett í að fjármagna miklu flóknari og áhættumeiri verkefni. Augljóst er að fjármálaeftirlit heimsins höfðu ekki bolmagn til að fylgjast með og bregðast við þessari þróun. Rétt er að benda á að sú þróun átti sér stað á afar fáum árum og aðlögunartímabilið því nánast ekkert frá því að blanda fjárfestinga- og hefðbundinnar bankastarfsemi hófst og þar til ljóst varð að í óefni væri komið.
Aftur til 1999
Nú þarf aftur að aðskilja rekstur fjármálastofnana; það er ekki eftir neinu að bíða. Bankar sem sinna einstaklingsþjónustu eiga að njóta ríkisábyrgðar. Þeirra hlutverk er fyrst og fremst að þjónusta einstaklinga landsins og smærri fyrirtæki. Fjárfestingarbankar, sem einblína á stóra lánapakka og fjárfestingar, eiga ekki að njóta hennar. Fjárfestar sem að koma með fé í slík verkefni bera einir sér ábyrgð á nauðsynlegu aðhaldi í rekstri þeirra. Slík endurskipulagning eykur gegnsæi og einfaldleika í rekstri aðskilinnar fjármálaþjónustu. Útlánatöp bankanna snúa fyrst og fremst að lánum til stórra fyrirtækja og áhættufjárfestingum, sem þýðir að erfitt er að átta sig á nettóeign bankanna og gerir þetta endurreisn þeirra erfiðari fyrir vikið. Með þessu næst á nýjan leik nauðsynlegt traust almennings gagnvart bönkum. Með auknu trausti innstæðueigenda lækkar ávöxtunarkrafan sem þeir gera til fjármagns síns í bönkunum (hún væri miklu hærri í dag ef ríkisábyrgð væri ekki ótakmörkuð). Lækkun ávöxtunarkröfunnar veitti svigrúm til vaxtalækkana og væri þannig fyrsta jákvæða skrefið í langan tíma. Slíkir bankar væru í þjóðareign og ríkisafskipti takmörkuð við slíkar fjármálastofnanir.
Fjárfestingarbankar
Ólíkt tillögum samræmingarnefndar undir forystu Mats Josefsson varðandi stofnun eignarhaldsfélags í eigu ríkisins yrði nýr fjárfestingarbanki stofnaður. Slíkur banki ætti aftur á móti að fara sem fyrst úr ríkiseigu og verða settur í hendur fjárfesta. Hlutafé væri gefið út fyrir hönd bankans sem sneri fyrst og fremst að rekstri þess. Fjárfestingarverkefni innan bankans væru fjármögnuð sjálfstætt með tilliti til atvinnugreina og jafnvel einstakra verkefna. Skilgreining á hlutverki bankans er einföld, arðsemissjónarmið ráða för. Pólitísk afskipti verða alltaf hluti af slíkri starfsemi, en með þessu móti væru þau eins takmörkuð og unnt er í smáu þjóðfélagi sem Ísland er.
Það er raunar líklegt að slíkur rekstur verði í framtíðinni meira í formi sjálfstæðra eignarhaldsfélaga sem skilgreina sig sem fjárfestingarbanka. Ofangreinda hugmynd um fjárfestingarbanka má útleiða með þeim hætti að þau fyrirtæki sem héldu velli einungis vegna þjóðfélagslegs ábata væru þar áfram inni, þau félög sem hefðu framtíð fyrir sér frá fjárfestingarsjónarmiði einu færu í sjálfstæð fjárfestingarfélög. Slík félög sérhæfa sig á ýmsum sviðum og veita nauðsynlegt aðhald í fjárfestingum innan þeirra raða.
Breytt mynd óhjákvæmileg
Í framhaldi af þeim umskiptum sem átt hafa sér stað í fjármálaheiminum undanfarna mánuði er óhjákvæmilegt að mikil endurskipulagning sé framundan. Ísland hefur tekið mestu dýfuna niður á við. Við höfum aftur á móti bestu tækifærin til að umbylta kerfinu með skynsamlegum hætti. Látum tækifærið ekki renna úr höndum okkar.
Að negla niður lengd húsnæðislána
18.2.2013 | 00:48
Karl Garðarson skrifar grein í Fréttablaðinu í síðustu viku þar sem hann gagnrýnir verðtryggð lán -http://www.visir.is/uns-verdtryggingin-okkur-adskilur-/article/2013702159981 - og hampar það að Framsóknarflokkurinn (sem hann er nú í framboði fyrir) vilji afnema verðtryggingu á húsnæðislánum. Í sömu grein fjallar Karl um sína persónulegu reynslu um að hann hafi verið að endurfjármagna lán sitt. Karl segir: Reyndar leist mér betur á óverðtryggða sambandið sem sjóðurinn bauð mér líka upp á, en greiðslubyrði þess í byrjun var allt of mikil fyrir tóma budduna. Það var því ekkert val. Karl með öðrum orðum tók verðtryggt lán þó að hann vilja afnema það.
Þarna hittir Karl naglann á höfuðið, þó ekki þann verðtryggða heldur hinn er varðar lengd lána. Ein af þeim rökum sem iðulega heyrast varðandi ókostum verðtryggðra lána er að fólk greiði lánin svo hægt niður. Það er ástæða fyrir því; verðtryggð lán dreifa greiðslubyrði mikið. Aðeins eru greiddir raunvextir af láninu en hækkun lána vegna verðtryggingar eru tekin að láni og greidd smám saman. Það er því að ákveðnu leyti kostur að vera með verðtryggt lán því að greiðslubyrðin er viðráðanleg. Ókosturinn er augljóslega sá að eignarmyndun er afar hæg.
Ein leið til að auka hraða eignamyndunar á húsnæði er einfaldlega að stytta þann lánstíma sem er í boði. Þetta yrði sjálfssagt jafn óvinsælt og það var vinsælt á sínum tíma að fara að veita 40 ára verðtryggð lán. Með því að lengja lánstímann lækkaði greiðslubyrði fólks gríðarlega. Þetta sést vel með því að bera saman verðtryggð jafngreiðslulán með mismunandi lengd lána. Miðað við 10 milljóna króna lánsfjárhæð, 4% raunvaxta og verðbólguvæntinga greiðist í afborgun af 40 ára láni á fyrsta ári tæplega 110 þúsund krónur. Á móti kemur að greiðslubyrði þess árs er aðeins um 525 þúsund krónur. Sé lánstími af sambærilegu láni aftur á móti 20 ár þá hækkar upphæð afborgunar á fyrsta ári í rétt tæpar 350 þúsund krónur. Eignamyndunin er meiri en þreföld af sama verðtryggða láninu nema hvað nú er lánstími styttri. Ókosturinn er að greiðslubyrði þess árs er þeim mun meiri eða um 765 þúsund krónur.
Sú ákvörðun á sínum tíma að lengja lánstíma lána jók aðgengi fólks að fjármagni af því að þannig var hægt að standast reiknaða greiðslubyrði. Auðvelt aðgengi að fé er af sumum talin vera helsta orsök þess að fjármálabólur myndist. John Kenneth Galbraith segir til að mynda að stemmningin sem myndist við slíkar aðstæður geti orðið svo rótgróin í þjóðfélaginu að breyting vaxtastigs skiptir litlu máli (vaxtastig á samkvæmt fræðunum á hafa öfuga fylgni við ásókn fólks í lántökur). Með lengri lánum getur fólk tekið hærri lán en það greiðir þau seint upp og á meðan hleðst vaxtakostnaður á þeim. Gildir einu hvort um sé að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán*.
Því vil ég sjá stjórnmálaflokk koma með hugmyndir um lausnir varðandi lengd lána veitt til húsnæðiskaupa. Í núverandi ástandi eignast fólk hlut í húsnæði sínu seint ef nokkurn tíma ef veitt eru jafn löng lán og almennt er gert. Að afnema verðtryggð lán dugar ekki í þeim efnum.
MWM
*Óverðtryggð lán eru í eðli sínu þannig að þau greiðast fyrr upp. Greiðslubyrði þeirra er hins vegar hærri.
Hægt er að leika sér að ýmsum forsendum varðandi húsnæðislán í þessu Excel skjali - https://www.dropbox.com/s/yie4iwvvn1wsq9f/verdtryggd%20lan%20mar%20mixa%20benedikt%20helgason.xlsx
Ég var í útvarpsviðtali í Speglinum í síðustu viku þar sem fjallað var um kosti og galla verðtryggðra- og óverðtryggðra lána. Hægt er að nálgast viðtalið hér - http://www.ruv.is/frett/verdtrygging
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Atferlisfjármál og voða flón
11.1.2013 | 19:47
Eitt af því sem kennt er í atferlisfjármálum (e. Behavioral Finance) er tilhneiging fjárfesta að bregðast seint við nýjum fréttum (e. Conservatism) en gera ráð fyrir að þróun í ákveðinn tíma - 4 til 5 ár - haldi áfram í hið óendanlega (e. Representation).
Gott dæmi um þetta er tæknibólan á tíunda áratugnum. Fjárfestar voru tiltölulega seinir að átta sig á því hvað ný tækni í tölvugeiranum ætti eftir að hafa víðtæk áhrif. Þegar að almennir fjárfestar fóru að átta sig á þessu tóku þeir hækkunum með trompi og fóru í umvörpum, 4-5 árum eftir að hlutabréfavísitölur tæknibréfa fóru upphaflega að hækka, að taka þátt í einni af augljósustu hlutabréfabólu sögunnar.
Annað frekar alþekkt dæmi sem stundum er flokkað undir atferlisfjármál er svokölluð janúar áhrif. Hlutabréf hafa sögulega hækkað meira í þeim mánuði en öðrum mánuðum, sérstaklega fyrstu 2 vikur mánaðarins.
Ísland
Ofangreind fræði eiga hugsanlega vel við á Íslandi í dag. Eftir eitt mesta hrun sögunnar í hlutabréfum haustið 2008 vildu margir ekki koma nálægt fjárfestingum í hlutabréfum, ekki ósvipað því sem gerðist í kjölfar Kreppunnar miklu þegar að hlutabréfavísitala Bandaríkjanna lækkaði álíka mikið (sú þróun gerðist þó hægt og bítandi á 3 árum). Fjórum árum eftir upphaflegt hrun hækkuðu hlutabréf aftur á móti mikið.
Síðan Hrunið átti sér stað í Íslandi hefur Icelandair komið á markað á gengi sem ég sjálfur taldi ekki vera spennandi, en skoðun mín um að aldrei eigi að fjárfesta í flugfélögum hefur hugsanlega haft full mikil áhrif skoðun mína. Virði þeirra hlutabréfa hefur margfaldast síðan þá á örfáum árum.
Fyrir rúmu ári síðan voru hlutabréf í Högum boðin almenningi á gengi sem ég taldi veita meira en viðunandi ávöxtunarkröfu. Markaðurinn í heild virtist vera sammála þeirri skoðun minni enda hækkaði gengi bréfanna um 25% á fyrsta degi. Síðan þá hefur gengi bréfanna smám saman haldið áfram að hækka og hefur gengið hækkað um 50% síðastliðið ár.
Þetta hefur aukið áhuga margra á hlutabréfum og virðist það ekki hafa farið framhjá þeim sem sjá um útboð bréfa. Gengi bréfa í Reginn var í hærri kantinum að mínu mati í útboðinu og hefur síðan þá hækkað um næstum því 50% (jákvæðar fréttir hafa þó komið í millitíðinni). Ég skrifaði í pistli fyrir útboð Eimskips nýlega að ég teldi að útboðsgengi bréfanna væri í hærri kantinum. Gengi bréfa þess hefur hins vegar engu að síður hækkað enn frekar og er nú í kringum 10% hærra en útboðsgengið.
Í framhaldi af útboði Eimskips seldi Framtakssjóður Íslands stóran hlut sinn í Vodafone. Sem óbeinn hluthafi í sjóðnum er ég afar ánægður með verk þeirra. Bæði tókst sjóðnum að halda fyrirtækinu á floti í gegnum hrunið og auk þess hefur hann selt stærstan hluta bréfa sinna á gengi sem er að mínu mati um það bil tvöfalt hærra en það sem ég tel vera eðlilegt. Þó hefur gengið haldist stöðugt í kringum útboðsgengið og því er það ef til vill einfaldlega ég sem er voðalegt flón í greiningu hlutabréfa.
Janúar áhrif og atferlisfjármál
Mikil stemmning, ef svo mætti að orði komast, hefur verið á hlutabréfamörkuðum í byrjun þessa árs. Ísland er þar engin undantekning. Það er eðlilegt; farið er að fenna í spor taps tengd hlutabréfum, flestir hafa hagnast á slíkum fjárfestingum undanfarin ár og janúar áhrif eru ríkjandi. Þeir fjárfestar sem taka þátt í þessari gleði nú hafa það þó vonandi í huga að samkvæmt hluta af fræðum atferlisfjármála fer sú gleði að dvína næstu misseri. Því er um að gera að ganga hægt um gleðinnar dyr.
MWM
ps. Hér er yfirlit yfir gamlar veislur á íslenskum verðbréfamarkaði - http://www.slideshare.net/marmixa/varad-vid-erlend-lan-2007-05-04
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.1.2013 kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Norskur Landsbanki Íslands
7.1.2013 | 03:22
Í aðsendri grein Helga Magnússonar í síðasta mánuði kemur hann fram með þá skoðun að selja eigi ákveðinn hluta ríkisins í Landsbanka Íslands. Telur hann að ríkið ætti að halda eftir þriðjungs hlut (sem veitir ákveðinn réttindi innan stjórnar) og selja einstaklingum og fagfjárfestum afganginn.
Einhver kann að spyrja hvort að þetta hafi ekki verið gert áður, meira að segja skömmu áður, með hrikalegum afleiðingum. Þetta fyrirkomulag hefur hins vegar verið við lýði í Noregi í áratugi (er hluti af reynslu þeirra í sambandi við mikla bankakreppu árin 1987-1988) og reynst vel. Með þessu helst ákveðin valdbeiting af hálfu ríkisins á rekstri fyrirtækja sem eru "of stór til að falla" en á sama tíma fækkar þeim ókostum sem fylgja ríkisreknum fyrirtækjum. Því má reyndar einnig bæta við að lagaramminn varðandi spillingu er afar strangur í Noregi.
Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni. Í grein sem ég skrifaði sumarið 2010 varðandi HS Orku kemur eftirfarandi texti fram: Ég furða mig á því að engin(n) í stjórnkerfinu hafi komið fram með hugmyndir í orkumálum Íslands á svipaðan veg og norsku leiðina. Ríki og sveitafélög gætu átt 40% í félagi, leiðandi fjárfestir gæti átt ákveðna prósentu og almenningur gæti svo átt afganginn. Með þessu héldist aðhald í rekstri, ákveðinn aðili hefði hag af meiri hagnað en opinberir aðilar hefðu ákveðið neitunarvald á aðgerðum sem fælu í sér of mikla áhættu (það þyrfti augljóslega að skilgreina það hlutverk í ljósi reynslunnar).
Eftirspurn eftir hlutabréfum á Íslandi er mikil þessa stundina (hugsanlega að hluta til vegna gjaldeyrishafta). Því er ég sammála Helga í þessu máli; ríkið á að selja hlut sinn í Landsbanka Íslands samkvæmt norsku leiðinni. Stjórnvöld ættu að vinna í því máli sem allra fyrst.
MWM
ps. Ketill Sigurjónsson hefur fjallað um heppilega kosti eignarhalds íslenskra orkufyrirtækja; sjá meðal annars grein hans Eignarhald á íslenskum virkjunum og orkufyrirtækjum - http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1159568/.
Bílalán og íbúða(lánasjóðs)lán
3.12.2012 | 01:48
Bílalán
Fyrir um það bil áratug síðan hitti ég mann sem unnið hafði við bílasölu. Bílasalar selja ekki aðeins bíla heldur sjá þeir um að ganga frá pappírum svo að kaupendur geti fengið lán. Þeir gengu frá pappírunum og komu þeim síðan áfram til lánastofnanna sem í flestum tilvikum veittu lánin, enda unnið innan fyrirfram skilgreinds ramma.
Hann lýsti því hvernig bankar væru stöðugt að hygla að honum og samstarfsmönnum hans með boðum og veitingum. Slíkt hafði vissulega áhrif á bílasalanna; þeir bankar sem voru duglegastir að bjóða þeim í ýmiskonar kynnisferðir var launað með óbeinum hætti. Þau lán sem bílasalar töldu vera öruggustu lánin var beint til lánastofnanna sem gerðu best við þá. Þær lánastofnanir sem veittu ekki sömu "þjónustu" fengu líka lán beint til sín, en það voru lánin sem bílasalarnir sjálfur töldu vera líklegri til að lenda í vanskilum.
Einn stofnun var sérstaklega nefnd í þessu sambandi. Hún hafði farið nýlega inn á þennan markað og vildi gjarnan stækka sitt lánasafn sem fyrst. Lánastofnunin hafði, aftur á móti, ekki byggt náið samband með bílasölunum. Þeir beindu lánum til hennar en þau voru aftur á móti almennt slök að gæðum. Afskriftir urðu á endanum miklar og lánastofnunin hætti þessari starfsemi enda töluvert tap sem á endanum tengdist þessari aðferð.
Íbúðalán
Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér nokkrum árum síðar er ég ræddi við mann innan fjármálageirans. Á þessum tímapunkti var Íbúðalánasjóður (ÍLS) farinn að kaupa lán af lánastofnunum (sem voru á sama tíma upptekin af því að binda enda á tilvist ÍLS). Lánastofnanir með öðrum orðum lánuðu fólki pening til íbúðakaupa sem sum hver voru síðan seld ÍLS.
Maðurinn lýsti fyrirkomulagi íbúðalána innan stofnunninnar með eftirfarandi hætti. Tekinn var saman bunki af lánum. Þau lán sem voru talin líkleg til að fást endurgreidd var haldið innan stofnunninnar; önnur lán sem þóttu ekki vera jafn traust voru hins vegar seld ÍLS.
Samkvæmt þessu ættu núverandi vandræði ÍLS ekki að koma á óvart. Stofnunin var að kaupa slöku lán bankanna án affalla. Þetta er ekki ósvipað fyrirkomulaginu í Bandaríkjunum þar sem að lánastofnanir hömuðust við að útbúa lán og fá bónusa fyrir það. Galdurinn var að áframselja lánin til aðila sem ekki áttuðu sig á áhættustigi þeirra lánveitinga.
Því má segja að hluti vandræða ÍLS í dag stafi af því að stofnunin tók við slöku lánin í kerfinu, jafnvel af aðilum sem voru samtímis því á opinberum vettvangi að gera sitt besta að enda tilvist ÍLS.
MWM
ps. Stöð 2 tók viðtal við mig í síðustu viku varðandi ÍLS; hægt er að sjá það á þessari vefslóð - http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV4B519524-141F-45E7-BC43-1FECE0E3C4B7
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íbúðalánasjóður - ferlið var hafið árið 2001
27.11.2012 | 14:48
Því er oft haldið fram, meðal annars í nýlegri greiningu IFS, að núverandi vandamál ÍLS megi rekja aftur til ársins 2004. Það var á þeim tíma sem 90% lánin komu fram á sjónarsviðið og skömmu síðar bættist við í lítt ígrundaða flóru lán tengd erlendum gjaldmiðlum til kaupa á innlendum fasteignum.
Lýsing á þróuninni er rétt en hún hófst mikið fyrr. Að neðan er hlekkur sem sýnir sjónvarpsviðtal, fyrsta frétt á RÚV, í nóvember 2001, sem sem ég vara við að Íbúðalánasjóður sé farinn að skapa þenslu og verðbólgu og sé að breytast í hraðbanka.
http://www.slideshare.net/marmixa/varad-vid-vaxtabotum-og-husnaedislanum-thensluhvetjandi
Tilefni sjónvarpsviðtalsins var að ég hafði verið að tjá mig í hinum ýmsu miðlum varðandi þessa aðsteðjandi hættu. Hafði ég til dæmis hringt í Kastljósið og "lofað" því að þetta yrði aðalumræðuefni Íslands eftir nokkur ár. Áhugi þáttastjórnanda var hér um bil núll. Ein af greinum mínum varðandi þetta hefur varðveist en þar bendi ég á að sparnaður landans væri að minnka sem væri ekki furða: Kerfið verðlaunaði aðallega þá sem skulda.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/614694/
Því er það svo að búið var að sá það sem í dag eru rætur vandamála ÍLS fyrir meira en áratug síðan. Rétt eins og í Hruninu skiptir litlu máli hvað forstjóri eða alþingismaður segir á lokastigum óheppilegs ferlis. Gárur á vatni af því sem varð að núverandi ölduróti voru sýnileg árið 2001, það einfaldlega stigmagnaðist næstu árin. Vandamálið var að engin(n) sá sér hag í því að bregðast við þessari þróun.
MWM
Hann heitir Jónas Sigurðsson, platan hans ber nafnið Þar sem himinn ber við haf, umslagið er mynd af skipi sem svífur fyrir ofan hafinu og Lúðrasveit Þorlákshafnar spilar undir; verður þetta hallærislegra? Það er samt eitthvað heillandi við þessa afurð og því mæli ég með þessum grip, enda afar skemmtileg og einlæg tónlist.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)