Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Már Wolfgang Mixa - Afnám endurkaupa eigin bréfa og hækkun arðgreiðslna

Eins og áður hefur komið fram þá er ég að bjóða mig fram í stjórnir nokkurra skráðra félaga á Íslandi. Í tengslum við framboð mín verð ég með þrjár áherslur. Þær eru:

  1. Skýr arðgreiðslustefna, sem felur meðal annars í sér að endurkaup eigin bréfa verði afnumin og að aukið vægi verði á hærri arðgreiðslum til hluthafa.
  2. Vernd fyrir minni hluthafa.
  3. Fyrirtæki eigi nægan varasjóð til að hafa borð fyrir báru.

Fyrstu tvær áherslurnar eiga að stuðla að því að almenningur sjái betur sinn hag í því að fjárfesta aftur í hlutabréfum, en íslenskur almenningur gerir slíkt almennt ekki eftir slæma og afar eftirminnilega reynslu árið 2008. Sú þriðja snýr að stöðugleika í rekstri félaga að því leyti að þau geti staðið af sér tímabundin mótbyr án ríkisaðstoðar. Þessar áherslur stuðla vonandi að auknu trausti almennings til fjárfestinga í hlutabréfum. Ég skýri hér nánar fyrsta liðinn.

Traust og hlutabréf

Traust almennings til hlutabréfakaupa hefur, skiljanlega, engan veginn náð fótfestu á nýjan leik eftir að íslensk hlutabréf hröpuðu í virði árin 2008-2009 og urðu í mörgum tilvikum verðlaus. Í dag er til dæmis hlutfall almennings sem á með beinum hætti hlutabréf innan við helmingur af því sem þekkist víða í Evrópu og aðeins brot af hlutfallinu í Bandaríkjunum. Nú, þegar afar lágir vextir fást á  bankainnstæðum (í flestum tilvikum 0,05%, sem í kringum 4% verðbólgu þýðir að raunvirði peninga inná bankainnstæðum rýrnar árlega sem nemur verðbólgunni), er eðlilegt að margir fari að beina fjárfestingum sínum annað. Því skiptir meira máli en áður að gera hlutabréfakaup fyrir almenning á nýjan leik eftirsóknarverðan fjárfestingarkost, og skiptir þar traust til stjórna félaga miklu máli.

Annað sem skiptir máli er að almenningur geti nýtt sér betur nýlega breytingu á lögum. Ég hef fjallað um þetta áður en fer hér stutt yfir sögu.

Fjármagnstekjuskattur

Nýlega var gerð lagabreyting í tengslum við fjármagnstekjuskatt. Í dag getur einstaklingur notið skattfrelsis upp að 300.000 krónur á ári (600.000 hjón). Það var áður helmingi minna.

Það sem skiptir einstaka fjárfesta jafnvel enn meira máli er að nú geta einstaklingar ekki bara nýtt frítekjumark vaxtatekna (það er vaxtatekjur vegna innstæðna og vaxtagreiðslur skuldabréfa), eins og verið hefur hingað til, heldur nær frítekjumarkið nú einnig til arðstekna og söluhagnaðar félaga sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, eða markaðstorgi fjármálagerninga. Þetta þýðir að einstaklingar þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af samanlögðum vaxtatekjum og tekjum af hlutafjáreign í formi arðs eða söluhagnaðar allt að 300.000 kr. á árinu 2020 í slíkum félögum.

Samkvæmt umsögn Ríkisskattstjóra í tengslum við frumvarpið voru vaxtatekjur einstaklinga miðað við nýjustu gögn í tæplega 93% tilvika undir ofangreindum frítekjumörkum (þ.e. 300.000 krónur á einstakling, samtala vaxtatekna, arðgreiðslna og söluhagnaðar). Í sömu umsögn kemur fram að fjármagnstekjur einstaklinga í tengslum við arðgreiðslum hlutabréfa er um 50% hærri en vaxtatekjur og svipaða sögu má segja um söluhagnað hlutabréfa. Sú prósenta væri töluvert hærri, augljóslega, ef hlutfall einstaklinga sem ættu hlutabréf hérlendis væri hærra.

Nú, þegar að flestir einstaklingar geta fengið skattlausan hagnað af bæði vaxtatekjum og hlutabréfum (í formi arðgreiðslna og gengishagnaðar) ættu íslensk félög skráð á hlutabréfamarkaði að móta stefnu við að gera þau að áhugaverðari kosti. Sú stefna ætti að miða að því að annaðhvort hafa jafnar arðgreiðslur ár frá ári þannig að þau svipi til skuldabréfa eða að ákveðið hlutfall af hagnaði sé greitt út til hluthafa sem arðgreiðslur.

Kaup eigin bréfa og arðgreiðslur

Eitt af því sem að íslensk félög hafa gert í auknum mæli undanfarin ár er að kaupa eigin bréf. Þetta er í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum en þar er vægi slíkra endurkaupa orðið meira en arðgreiðslur. Endurkaup eigin bréfa, í stuttu máli, felur almennt í sér að félögin kaupa eigin bréf og taka þau síðan af markaði. Með því eru færri bréf sem eiga tilkall til hagnaðar, þannig að virði hvers hlutabréfs ætti að hækka í hlutfalli við fjölda bréfa sem félagið sjálft tekur af markaði.

Það er hins vegar engin virðissköpun að eiga sér stað. Svo lengi sem að félög eru að skapa arðsemi umfram vaxtakostnaði, þá eykst hagnaður á hverju bréfi. Sá hagnaður er hins vegar tengdur því að skuldsetning félagsins eykst, sem ætti að endurspeglast í áhættu og ávöxtunarkröfu gerða til félagsins.

Auk þess er niðurstaðan sú sama og að greiða hluthöfum arð, það er að peningur fer úr vörslu fyrirtækis til hluthafa, í formi færri bréfa (endurkaup) eða einfaldlega penings (arðgreiðslna). Því má við bæta að sum íslensk skráð félög héldu áfram kaup eigin bréfa þegar að Covid-19 skall á en hættu samtímis við arðgreiðslur í því skyni að byggja upp varasjóð, þó svo í raun hafi báðar aðgerðir haft sömu áhrif, það er að peningur er tekinn úr sjóði þeirra og skilað til hluthafa.

Kostir og gallar

Stundum hefur verið sagt að endurkaup bréfa séu góð leið fyrir skráð félög að senda skilaboð til markaðarins um að stjórnendur þeirra telji þau vera vanmetin. Töluleg gögn sýna, aftur á móti, að tímasetningar endurkaupa félaga í S&P 500 hlutabréfavísitölunni hafa verið einstaklega slakar, og hefðu verið betri hefðu þau einfaldlega verið gerðar með reglulegum og jöfnum kaupum (sjá til dæmis McKinsey skrif*). Rétt er að taka það fram að íslensk félög kaupa almennt eigin bréf með reglulegum kaupum. Það má einnig velta því fyrir sér hvort að hlutverk stjórnar sé að senda einhver skilaboð til markaðarins varðandi mat hennar á virði félags sem hún ber ábyrgð á og enn frekar hvort að slíkt eigi að vera í formi endurkaupa.

Nýleg breyting á fjármagnstekjuskatti gerir það vænlegra fyrir minni hluthafa að fá arðgreiðslur. Fræðilega séð ætti það ekki að skipta máli, því þeir gætu einfaldlega selt bréf sín á aðeins hærra gengi (af því að búið er að taka af markaði keypt eigin bréf) og þannig innleyst fjármagnstekjur. Í raunveruleikanum er það hins vegar erfitt. Bæði þurfa einstaklingar þá að fylgjast með gengi verðbréfa, reikna út gengishagnað og lenda auk þess í viðskiptakostnaði og enn frekari útfyllingu á skattskýrslum. Auk þess gengi það í berhögg við þá hugsun að hlutabréf séu langtímafjárfestingarkostur ef fólk þurfi stöðugt að selja hlutabréf sín til að innleysa gengishagnað.

Hærri arðgreiðslur, minni kaup

Því ættu íslensk skráð félög að afnema að mestu kaup eigin bréfa. Mestur hluti (ég fer síðar nánar í hinn hlutann) af þeim peningum sem hingað til hafa verið settir í slík kaup færu þess í stað í arðgreiðslur til hluthafa, sem væri undir skattleysismörkum flestra einstaklinga eins og kom fram að ofan. Hægt væri að takmarka endurkaup eigin bréfa við einskiptishagnað.

Traust hlutafélög sem greiða jafnar arðgreiðslur ættu með þessu að vera álitlegri kostur fyrir íslenska einstaklinga. Tveir þættir spila þar mikilvægt hlutverk. Hið fyrsta er lágt vaxtastig sem kemur fram í bankainnstæðum og skuldabréfum gerir hlutabréf að álitlegri fjárfestingarkosti. Í öðru lagi geta flestir einstaklingar sem fjárfesta í hlutabréfum fengið skattfrjálsar arðgreiðslur. Með því að auka vægi arðgreiðslna hjá íslenskum skráðum hlutafélögum, í stað endurkaupa eigin bréfa, þá ættu fleiri einstaklingar að sjá hag í því að fjárfesta í hlutabréfum og nýta þannig það skattleysi fjármagnstekjuskatts sem nú er til staðar.

MWM

*Lítil fyrirtæki hafa reyndar haft betri tilfinningu fyrir því hvort að þau væru vanmetin eða ekki.


Már Wolfgang Mixa - Stjórnarframboð

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnarsetu í nokkrum skráðum félögum á Íslandi. Markmið mín í setu stjórna verður að leitast við að skapa virði í rekstri fyrirtækja með skynsömum hætti.

Sjálfur hef ég kennt virðismat fyrirtækja í mörg ár í Háskólanum í Reykjavík, þar sem lögð er áhersla á skilning varðandi virðisaukningu fyrirtækja með tilliti til vaxtar og hagræðingar og þeirri áhættu sem slíku fylgir. Auk þess vann ég áður við margvísleg störf í fjármálageiranum og tel reyndar nokkuð víst að enginn einstaklingur hafi jafn víðtæka reynslu innan fjármálageirans og ég. Í því fólst meðal annars vinna í tengslum við uppsetningu verðbréfasjóða, lífeyrissparnaðar og stofnun fjármálafyrirtækja, sem þurfti að sjálfssögðu að vinna í samstarfi með stjórnum sem þurftu að fylgja ströngum lögum og reglum varðandi fjármálamarkaði.

Í tengslum við framboð mín verð ég með þrjár sérstakar áherslur. Þær eru:

1.       Arðgreiðslustefna, sem felur meðal annars í sér að endurkaup eigin bréfa verði afnumin.

2.       Vernd minni hluthafa.

3.       Fyrirtæki eigi nægan varasjóð ef á móti blási.

Fyrstu tvær áherslurnar eiga að stuðla að því að virkja almenning í því að fjárfesta aftur í hlutabréfum, en íslenskur almenningur gerir slíkt almennt ekki eftir slæma og afar eftirminnilega reynslu árið 2008. Sú þriðja snýr að stöðugleika í rekstri þeirra. Ég skýri hvern lið um sig betur næstu daga.

Fari svo að ég verði kosinn í einhverja af þessum stjórnum mun ég skipta launum mínum eftir skatta vegna stjórnarsetu í tvo jafna hluta. Annar helmingurinn fer í kaup bréfa í því fyrirtæki sem ég er kosinn í stjórn. Sjálfur tel ég að stjórnarmenn eigi að fjárfesta ákveðinn hluta af sparnaði sínum í þau fyrirtæki sem þeir bera ábyrgð á. Hinn helmingurinn verður varið til að styrkja fimm góðgerðarsamtök. Þau eru Ljósið, Félag heyrnalausra, Rauði Kross Íslands, Þroskahjálp og Kvennaathvarfið.

Már Wolfgang Mixa

 

Gamestop - skortur á bréfum eru ekki ný sannindi, en í dag þó öðruvísi

Mikið er rætt um skortsölu þessa daganna í framhaldi af því að margir fjárfestar græddu ógurlega á því að keyra upp gengið á hlutabréfum Gamestop verslana. Margir fjárfestar höfðu tekið skortstöðu í bréfum Gamestop, sem felur í sér að þeir veðjuðu á að bréfin myndu lækka, ekki hækka, í virði. Hámarkið sem menn geta hagnast á slíku er hversu mikið þeir skortselja bréfin.

Dæmi um einstaklinga í stöðutökum sem högnuðust á svona er að í október árið 2008 voru viðskipti enn að eiga sér stað með bréf Kaupþings banka í Svíþjóð, jafnvel þó að bankinn hefði þá þegar verið yfirtekinn af stjórnvöldum og bréfin því í sjálfu sér verðlaus. Skortsalar voru einfaldlega að kaupa til baka bréfin sem þeir höfðu fengið lánuð til að skila þeim til eigendanna, sem höfðu lítið augljóslega að gera með þau. Þeir fjárfestar fengu nánast alla stöðu sína til baka.

Hækki aftur á móti gengi bréfa sem skortsalar hafa tekið stöðu í þá er í raun engin takmörk fyrir tapi þeirra, rétt eins og skortsalar Gamestop hafa nýlega verið minntir á. Hópur manna á netinu, aðallega Reddit spjallhópnum, "réðust" á skortsalanna með því að kaupa bréf í fyrirtækinu og keyrt gengi þess þannig upp í ótrúlegar hæðir, og hafa hingað til hagnast gífurlegar fjárhæðir. Rétt er að taka það fram að þetta getur snúist við með undraverðum hraða, og reyndar tel ég að slíkt geti hæglega gerst.

Þetta er þó alls ekki í fyrsta sinn í sögunni sem slíkt gerist. Það var reyndar afar algengt að stórir fjárfestar, sem höfðu oft ítök í fjölmiðlum, léku þennan leik. Fyrsta þekkta dæmið um slíkt hafði þó ekkert með fjölmiðla að gera. Árið 1834 tók þekktur fjárfestir, Jacob Little, eftir því að töluvert margir fjárfestar höfðu tekið skortstöðu í Morris Canal and Banking, en gengi hlutabréfa fyrirtækisins höfðu hækkað mikið. Little gerði sér lítið fyrir og keypti með hópi manna hér um bil öll bréf sem tiltæk voru á markaðinum á meðalgengi í kringum $10. Skortsalarnir áttuðu sig ekki á þessu tímanlega og mánuði seinna hafði gengi þeirra hækkað í $185 á hvern hlut. Little og samreiðamenn hans græddu stórkostlegar fjárhæðir. 

Það sem gerir þetta dæmi hins vegar sérstakt er að þetta er í fyrsta sinn sem smáir fjárfestar, að því er ég best veit, tóku snúning á þeim reyndari og stóru.

Gamestop skortsalar hefði líklegast þurft að hafa betri þekkingu á sögu fjármála áður en þeir tóku þessa miklu áhættu. Þeir sem vilja núna taka áhættu með Gamestop bréfum ættu þó einnig að hafa það í huga að Little gekk ekki alltaf jafn vel með stöðutökur sínar og varð nokkrum sinnum gjaldþrota og dó auralaus maður.

Ég fjallaði um þetta í Silfrinu um helgina - hér er upptaka af þættinum.

MWM

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband