Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Vodafone uppgjör
13.8.2013 | 17:58
Vodafone birtu 2Q uppgjör sitt í gær. Hagnaður annars ársfjórðungs nam 207 milljónum króna og jókst um 138% milli ára. Þetta kunni verðbréfamarkaðurinn á Íslandi að meta og hækkaði gengi bréfanna um rúmlega 2% í dag en hafði um tíma hækkað í kringum 4%.
Þó svo að tölurnar séu betri en á fyrsta ársfjórðungi, þá sannfæra þessar tölur mig ekki um að gengi bréfanna endurspegli núvirtan framtíðarhagnað fyrirtækisins. Fram kemur í fréttatilkynningu Vodafone að seldar vörur og þjónusta hafi lækkað á milli ára, bæði ef miðað er við annan ársfjórðung hvers árs og fyrstu sex mánuði ársins. Veltan er því ekki einungis að dragast saman í krónum talið heldur enn meira í raunkrónum talið því að óbreytt velta að raungildi hefði samt hækkað tölurnar í rekstrarreikningnum, sem nemur verðbólgu. Samdráttur í veltu ef bornir eru saman 2Q ársfjórðungar áranna 2012 og 2013 er því töluverður, eða 4% að nafnvirði en um 8% að raunvirði.
Kostnaðarverð hefur aftur á móti lækkað sem skýrir ögn betri framlegð. Nú veit ég þó ekki hvort að slíkt hafi verið vegna skerðingar í þjónustu eða hvort að betur sé unnið úr þeim starfskröftum sem eru fyrir í Vodafone. Vonandi er það betri nýting því skert þjónustu gæti orðið til enn frekari samdráttar í veltu Vodafone. Þetta gerir það að verkum að framlegðin hefur aukist á öðrum ársfjórðungi en hún hefur samt dregist saman fyrstu sex mánuði ársins.
Fjármagnsgjöld minnka og munar þar töluvert miklu. Ef þau minnka enn frekar gæti slíkt haft töluvert jákvæð áhrif í rekstri sem virðist vera í járnum.
Vegna þessa er ég efins um að kaup í hlutabréfum Vodafone sé góður kostur þrátt fyrir að gengi bréfanna hafi lækkað mikið undanfarna mánuði. Ef félagið nær að auka veltu á nýjan leik og halda samhliða því kostnaði í skefjum gæti skoðun mín breyst.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Íslandsbanki í eigu erlendra fjárfesta
8.8.2013 | 13:41
Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag hefur hópur erlendra fjárfesta frá Asíu áhuga á því að kaupa 95% hlut kröfuhafa í Íslandsbanka.
Íslandsbanki var stofnaður árið 1904. Þrátt fyrir nafngiftina, sem hugsanlega gefur í skyn að þetta hafi verið banki fyrir innlenda lánafyrirgreiðslu, þá var hann fjármagnaður af dönskum fjárfestum og var hann jafnframt fyrsti vísirinn að fjármálastarfsemi með alþjóðlegu ívafi.
Þróun íslensk bankakerfis byrjaði tiltölulega seint miðað við önnur evrópsk ríki. Það var ekki fyrr en á þúsund ára afmæli landsfundar árið 1874 að Íslendingar fengu fjárforræði með stjórnarskránni. Fjármálakerfið hélst þó staðbundið og takmarkaðist við nokkra litla sparisjóði og í raun kaupmenn í dreifbýlum. Landsbanki Íslands var stofnsettur af ríkisstjórninni árið 1885. Nafnið endurspeglaði tilgangi þess, það er að vera blanda af hefðbundnum banka og seðlabanka, sem með leyfi ríkisstjórnar mátti prenta takmarkað magn peninga tryggðum af ríkinu. Íslendingar höfðu þó varhug gagnvart peningum en þó jókst notkun þeirra smám saman á síðari hluta 19. aldar þar sem að þörfin fyrir notkun fjármagns og krafan um sjálfstæði jókst.
Stofnun Íslandsbanka var eins og vítamínssprauta í íslenskt efnahagslíf. Fram að því hafði fjármagnshungur heftað íslenskt atvinnulíf en með tilkomu Íslandsbanka fóru bankarnir tveir í harða samkeppni og var haft eftir Sveini Björnssyni að "peningarnir voru svo að segja boðnir út". Samhliða þessum jákvæðu hliðum jókst einnig áhættan í atvinnulífinu.
Íslandsbanki varð gjaldþrota (í fyrsta sinn) árið 1930 og töpuðu erlendir fjárfestar töluverðum upphæðum (hið sama gerðist síðan 78 árum síðar, en hann hét þá reyndar á þeim einstaka tímapunkti Glitnir).
Það sem að erlent fjármagn og þekking gerði var hins vegar það að hér jókst hagur atvinnulífsins. Svipuð rök áttu sér stað fyrir um það bil 15 árum síðan þegar sala ríkisbankanna var á dagskrá. Voru til dæmis fulltrúar SEB bankans boðnir til Íslands en ekkert varð af kaupum af hálfu þess banka. Í því sambandi var mikið rætt um að aðkoma erlendra fjárfesta myndi skapa heilbrigða samkeppni á íslenskum fjármagnsmarkaði, tengja landið betur við erlenda markaði og nýta þekkingu frá alþjóðlegum mörkuðum. Slík rök eiga enn við í dag.
Þar sem að erlent fjármagn hefur sögulega verið umdeilt á Íslandi er líklegt að sama sagan verði ef ske kynni að Íslandsbanki verði á nýjan leik í eigu erlendra fjárfesta. Það er örugglega hægt að benda á ókosti varðandi slíkt eignarhald. Það eru, hins vegar, einnig ótvíræðir kostir við að fá erlent eignarhald inn í íslenskt fjármálallíf.
MWM
Hægt er að lesa sig betur til um sögulega þróun íslensks fjármálakerfis í bókinni Rætur Íslandsbanka, ritstýrð af Eggerti Þór Bernharðssyni. Ég studdist í þessum pistli við kaflann Myndun fjármálakerfis á Íslandi eftir Guðmund Jónsson.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Michael Lewis - fjármálabækur í sumarfríinu
5.7.2013 | 06:14
Árlega þegar við hjónin erum að spá i hvaða bækur eigi að taka með í sumarfríið lendum við í samningaferli sem felst í því að ég vil bara taka með mér bækur varðandi fjármál en hún bendir (réttilega) á að ég ætti að lesa eitthvað annað en fjármál, sérstaklega þegar ég eigi að vera í alvöru hvíld frá heimi fjármála. Oftast endar þetta með því að ég tek eina bók varðandi fjármál og aðra um allt annað en það tiltekna efni.
Fyrir þá sem vilja frekar blanda saman áhugavert efni og fjármál þá eru bækur eftir Michael Lewis tilvaldar. Hann skrifar með þeim hætti að maður gleymir því oft að verið sé að fjalla um fjármál. Í hugum sumra er það reyndar ókostur, enda ýkir hann stundum i skrifum sínum til að skapa skemmtilegri lesningu.
Slíkt kemur fram í bókinni Boomerang. Helsti ókostur hennar er að maður fær það oft á tilfinningunni að verið sé að einblína of mikið a staðalmyndir þjóða. Bókin tekur fyrir fimm þjóðir og hegðun þeirra í tengslum við fjármál. Er þá sjónum aðallega beint að því hvaða hegðun varð til þess að þjóðir töpuðu mismiklu magni af peningum í fjármálakreppunni nýlega og með hvaða hætti (sem var afar mismunandi). Það þarf kannski ekki að koma mjög á óvart að fyrsti kaflinn er um Island.
Þessi bók er stórskemmtileg lesning sem sýnir hvernig ákveðinn einkenni þjóða (sem erfitt er að skilgreina en réttlætir að ákveðnu leyti óhófleg not Lewis á staðalmyndum) kom fram í darraðardansi fjarmala i upphafi þessa áratugar.
Önnur afar áhugaverð bók eftir Lewis er The Big Short. Hún fjallar um nokkra einstaklinga sem högnuðust gífurlega á því að taka skortstöður á húsnæðismarkaðinum í Bandaríkjunum árin 2005 til 2008. Það er ótrúlegt að lesa í einni lotu hversu augljós bóla hafði myndast og hversu fáir sáu hana. Hún lýsir því einnig vel hversu erfitt það er fyrir menn í fjárfestingum að synda á móti straumnum. Eitt sláandi dæmi er maður sem hafði skapað eigendum sjóðs sem hann stýrði gífurlegan hagnað en þrátt fyrir það var hann bitur eftir reynsluna. Honum fannst þetta hreinlega vart hafa verið þess virði eftir að hafa þurft að sannfæra fjárfesta sína í mörg ár að stefna hans væri rétt og þegar að slíkt kom í ljós voru þakkirnar takmarkaðar.
Að lokum er vert að benda á sígilda bók Lewis, Liar's Poker, sem fjallar um reynslu hans í verðbréfaheiminum á áttunda áratugnum. Hann hefur sjálfur sagt í viðtölum síðar að hann telji að landslagið hafi einungis versnað síðan þá. Ég hef áður skrifað um þá bók og er slóð að þeim skrifum hér - http://www.slideshare.net/marmixa/20030227-liars-poker.
Sjálfur mæli ég eindregið með Boomerang sem lesningu í sumarfríinu í ár. Íslendingar geta flestir haft gaman af kaflanum um sitt eigið land og jafnvel ekki síður önnur lönd, sérstaklega ef verið sé að heimsækja þau. Konan mín gæfi mér í hið minnsta grænt ljós á hana.
MWM
Fjármálabók alþingismanna í sumarfríinu
24.6.2013 | 13:19
Meðal ókosta sem nefndir eru til sögunnar varðandi tillögum ríkisstjórnaflokka um niðurfærslu lána er að niðurfærslurnar skapi óeðlilega mikla þenslu og ýti enn frekar undir hækkun verðbólgu. Fólk fær tékka sendan heim til sín og í stað þess að nota hann til að greiða upp skuldir þá rjúki það í umvörpum og kaupi enn stærri flatskjái og alls kyns ónauðsynjar sem keyra upp eftirspurn sem innstæða er ekki fyrir.
Það er einföld leið framhjá þessu. Í stað þess að senda tékka heim til fólks þá er höfuðstóll lána lækkaður, sem þýðir að greiðslubyrðin verður viðráðanlegri. Það sem meira er, slíkt dregur úr peningafjármagni í umferð. Búið var að mynda peninga úr nánast loftinu einu saman við það að skapa skuld (og því þenslu) en þegar að hún er að hluta til endurgreidd þá hverfur sá hluti peningamagnsins úr umferð.
Þannig mun verðbólga ekki aukast. Ástæðan er að peningamagn í umferð dregst saman. Ómögulegt er að reikna út hversu margir munu sporna við þeim áhrifum en ólíklegt er að lækkun höfuðstóls lána að ákveðnu marki leiði til einhvers neyslubrjálæðis.
Auk þess er vert að líta til sögunnar. Svíar greiddu niður húsnæðisskuldir sínar í kjölfar bankakreppunnar sem var hrikaleg þar í upphafi tíunda áratugarins. Ástandið þar á því tímabili minnti mjög á aðstæður núna á Íslandi. Því má við bæta að eitt af loforðum Sjálfsstæðisflokksins, sem ég sakna í umræðunni, var að hvetja fólk að niðurgreiða húsnæðislán og fá á móti skattaafslátt. Með því dregur enn frekar úr peningamagni í umferð (og verðbólguþrýsting) og hvetur til aðhalds í fjármálum.
Stjórnmálamenn sem eru að karpa um þessi mál ættu að lesa í sumarfríinu bókina The Origin of Financial Crisis eftir George Cooper. Titillinn er að ákveðnu leyti villandi því hún lýsir því fyrst og fremst hvernig ofþensla myndast vegna of mikilla lánveitinga í samfélaginu, ekki peningaprentunar (sem er þó ekki til eftirbreytni). Hún lýsir því hvernig óhófleg myndun lánveitinga myndar óstöðugleika í efnahagslífinu en fjallar líka hvernig draga megi úr henni. Cooper sýnir með skemmtilegum hætti hvernig óhóflegar lánveitingar geta skapað fjármálakreppu og er titill bókarinnar dreginn af þeim hluta umræðunnar.
Hægt er að fá bókina hér á amazon.com - http://www.amazon.com/The-Origin-Financial-Crises-Efficient/dp/0307473457/ref=cm_cr_pr_pb_t en ég held að hún sé einnig fáanleg í Bóksölu Stúdenta - http://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-48908/ .
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kvenréttindadagurinn - Hetty Green
19.6.2013 | 20:04
Í dag er kvenréttindadagurinn (19.6) eða það sem er stundum kallaður kvennafrídagurinn (ég kann betur við fyrri titilinn, sá seinni gefur í skyn að konur eigi að fá frí af óútskýrðri ástæðu - viðbót; sjá athugasemd Halldóru Friðjónsdóttur). Markaðurinn, viðskiptafylgiblað Fréttablaðsins, beinir sjónum í tilefni dagsins að kvenmönnum sem eru áberandi í viðskiptalífinu. Ég er ánægður með að hlutverk kvenna sé stöðugt að aukast á öllum stigum í þjóðfélaginu enda finnst mér einstaklega skemmtilegt að vinna með kvenmönnum. Finnst mér þó gaman að vinna líka með karlmönnum, en bland í poka er þó best.
Eitt af því sem sagt var eða var með margvíslegum hætti gefið í skyn í kjölfar Hrunsins var að það hefði ekki átt sér stað með þeim svakalega hætti hefðu fleiri kvenmenn verið við stjórn. Þessu er ég alfarið ósammála. Slíkar fullyrðingar gefa í skyn að kvenmenn séu allt öðruvísi en karlmenn. Það að kvenmenn hafi hugsanlega aðrar áherslur breytir því ekki að þeir kvenmenn sem ná langt í viðskiptum eiga oftar en ekki svipaða kosti og galla og karlmenn sem gera einnig slíkt. Til að verða óskaplega ríkir þarf oftar en ekki að mynda sérstakan karakter. Hetty Green, eina konan í hópi 100 ríkustu Bandaríkjamanna frá upphafi er gott dæmi um slíkt (og einnig afar öfgafullt). Auðvelt er að afskrifa hana sem sérlundaða og hálfbilaða konu en vafalaust má segja hið sama um stóran hóp þeirra manna sem eru með henni í þeim hópi.
Að neðan er ritdómur sem ég skrifaði um ævisögu hennar fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er skemmtileg lesning sem er tilvalin í handfarangurinn þegar farið er í sumarfrí. Viva Konur!
HETTY GREEN
Oft er bent á ósýnileika kvenna í almennri umræðu, bæði í fjölmiðlum sem fjalla um viðburði líðandi stundar og í sögubókum. Hetty Green er líklega eitt besta dæmið um það hvernig ritarar móta söguna oft með því að draga úr vægi kvenna og jafnvel ýkja ákveðnar staðalmyndir um þær sem veita villandi sýn um raunveruleikann.
Árið 1996 gáfu Micheal Klepper og Robert Gunther út bókina The Wealthy 100. Í bókinni leitast höfundar við að áætla ríkustu einstaklinga í sögu Bandaríkjanna. Erfitt er að meta slíkt vegna þess að virði eigna, hvort sem er verðbréf, fasteignir eða aðrar eignir, er síbreytilegt hugtak, jafnvel í fjármálageiranum. Því brugðu höfundar á það ráð að meta eigur fólks þegar eignir þess voru sem mestar í hlutfalli við landsframleiðslu á þeim tímapunkti.
Samkvæmt þeirra útreikningum var John D. Rockefeller ríkasti einstaklingur sögunnar sem árið 1937 átti eigur sem námu um 1/65 af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna. Tveir samtíðarmenn eru á listanum, Bill Gates hjá Microsoft er númer 31 og ofurfjárfestirinn Warren Buffett er í 39. sæti. Þeir eiga það reyndar nýverið sameiginlegt að einbeita sér saman við góðgerðarmál. Mitt á milli þeirra í 36. sæti má sjá einu konuna á listanum, en ólíkt vinsælum staðalmyndum um konur sýndi hún góðgerðarmálum lítinn áhuga. Virði eigna hennar þegar hún lést nam rétt tæplega 1/500 af landsframleiðslu ársins 1916. Verðmæti þeirra uppreiknað til dagsins í dag væri vel rúmlega 100 milljarðar króna. Þrátt fyrir að vera eina konan á listanum er Hetty Green nánast óþekkt nafn í annálum fjármálaheimsins.
Nýlega kom út ævisaga hennar eftir Charles Slack sem heitir einfaldlega Hetty. Titillinn vitnar í nafnið sem flestir tengdu við hana, sem er vísbending um hversu þekkt hún var meðal samtíðarmanna sinna. Slack hefur gert nokkra bragarbót á þessu minnisleysi samtímans enda hefur bókin vakið töluverða athygli og auk þess sumpart leiðrétt aðeins hina afar neikvæðu goðsögn varðandi Hetty. Hinn 3. júlí verða 90 ár frá láti hennar og er það verðugt tilefni að fjalla um Hetty og þessa bók.
Grunnur að goðsögn
Henrietta Howland Robinson fæddist í New Bedford í Massachusetts-ríki árið 1834, tæplega 130 árum áður en Warren Buffett keypti þar vefnaðarverksmiðjuna Berkshire Hathaway sem fjárfestingarfélag hans er kennt við í dag. Bærinn var þá þekktur fyrir hvalveiðar enda var þar helsta slíka höfnin á norðausturströnd Bandaríkjanna, sem á þeim tíma skipti miklu máli vegna olíunnar sem fékkst úr hvölum (þetta er áður en hún var boruð úr jörðinni). Fjölskylda hennar hagnaðist vel á hvalaiðnaðinum og var því afar vel efnuð. Lítið fór þó fyrir ríkidæmi hennar, enda fylgdi hún kvekaratrú þar sem áhersla er lögð á einfalda lifnaðarhætti. Trúarskoðanir kvekaratrúfélagsins gengu í berhögg við viðurkenndar skoðanir um samskipti manna og Guðs sem ríktu í Bandaríkjunum á þessum tíma og að auki þótti margt í fari þeirra vera sérlundað. Ofsóknir í garð þeirra leiddu meðal annars til stofnunar nýlendu þeirra í New Bedford. Margir kvekarar urðu auðugir sem trúlega má að einhverju leyti þakka þeirri naumhyggju sem þeir aðhylltust í sínu daglega lífi. Þessi velgengni skapaði ákveðna mótsögn því að margir þeirra urðu moldríkir og vissu vart hvað gera ætti við auðinn. Hetty var ekki sögð vera sérstaklega trúuð en þessi bakgrunnur skýrir að sumu leyti mótun þeirrar persónu sem átti síðar meir eftir að heilla almenning. Hún einkenndist af hörku í viðskiptum, söfnunaráráttu á peningum sem hún naut engan veginn að eyða, fyrirlitningu á þeim sem gerðu slíkt og jafnframt að stöðugri áherslu á fátækt og auðmýkt.
Grunnur að auðæfum Hetty var arfur frá föður hennar, en hún var eina barn foreldra sinna sem náði að vaxa úr grasi. Hetty fékk jafnframt arf frá móðursystur sinni sem var barnlaus. Á þeim tíma fengu flestar konur engu ráðið um fjárfestingar sem tilheyrðu þeim, enda litið á þær sem ósjálfbjarga og óskynsamar. Talið var að í tengslum við fjármál væri konum sérlega hætt við taugaveiklun og þeim því talið fyrir bestu að fá ákveðnar jafnar greiðslur. Hetty las hins vegar fjármálatíðindi fyrir föður sinn frá blautu barnsbeini og sá um bókhald fjölskyldunnar sem ungur táningur. Hún hafði jafnframt um langt skeið ávaxtað sitt eigið fé vel og var skiljanlega hvorki á því að aðrir fengju neitt af arfinum né síður hafði hún áhuga á að aðrir stjórnuðu umsýslu hans.
Með mikilli hörku sá Hetty til þess að frænka hennar arfleiddi hana sjálfa að nánast öllum arfi fjölskyldunnar, í stað þess að láta hann renna til líknarfélaga, vina eða annarra ættingja. Þeir sem sáu um umönnun frænkunnar fengu hana þó til að breyta þeirri erfðaskrá og rýra hlut Hetty verulega samhliða því að auka þeirra eigin hlut töluvert. Hetty tókst þó með ótrúlegum klækjabrögðum að koma stórum hluta arfsins í sína umsjá og virtist fátt heilagt í þeim efnum. Ekki aðeins beitti Hetty öllum þeim brögðum sem nauðsynleg voru meðan móðursystir hennar var enn á lífi heldur einnig eftir dauða hennar. Var hún t.a.m. grunuð um skjalafals en með her lögmanna fékk hún mörgum, þó ekki öllum, kröfum sínum framgengt.
Fjárfestingar
Hetty sýndi snemma mikla kænsku í fjárfestingum þó svo að hún einblíndi að mestu á áhættulítil verðbréf. Fram kemur í bók Slacks hvernig hún nýtti sér oft neikvæða umræðu til að fjárfesta í slíkum verðbréfum sem voru sérlega lágt metin vegna tímabundins tíðaranda. Fjárfestingarstefnu hennar mætti lýsa á almennum nótum sem varkárri en hún var þó ávallt tilbúin að nýta tækifæri til að kaupa stöndug verðbréf þegar ofsahræðsla greip um sig á verðbréfamörkuðum. Hún skuldaði aldrei peninga og átti reyndar ávallt peninga á hliðarlínum þannig að á slíkum tímum gat hún keypt verðbréf sem skuldugir fjárfestar neyddust til að selja á tombóluverði. Það er merkilegt að hún fjárfesti nánast einungis í fasteignum og skuldabréfum en lét hlutabréf eiga sig.
Slack bendir á að í nokkur ár eftir borgarastyrjöldina þóttu ríkisskuldabréf ótraust. Hetty nýtti tækifærið og keypti stöðugt ríkisskuldabréf svo mánuðum skipti enda taldi hún með réttu að lítill grundvöllur væri fyrir almennt viðurkenndum getgátum um að ríkisstjórnin gæti ekki staðið í skilum vegna kostnaðar stríðsrekstrarins. Önnur dæmi eru lán hennar til New York-borgar á erfiðum tímum og fjárfestingar og lánveitingar hennar þegar ofsahræðslan á verðbréfamörkuðum reið yfir árið 1907. Hún þótti auk þess hafa nef fyrir því hvenær slíkar fjárfestingar urðu eftirsóttar og þá seldi hún gjarnan. Hún varð einnig fljótlega tengd margskonar fasteignabraski, þar sem hún lánaði oft með veðum í fasteignum og hélt almennt þeim eignum sem féllu henni í skaut vegna vangoldinna skulda. Hún hafði jafnan þann háttinn á að hún hélt fasteignunum lítt við heldur lét þær hækka í virði einfaldlega vegna þess að lóðirnar sem þær voru á urðu oft verðmeiri en fasteignirnar sjálfar. Á þessu tímabili kom mikill straumur innflytjenda til Bandaríkjanna sem jók stórlega eftirspurn eftir lóðum. Þó að Slack lýsi í stórum dráttum hvernig Hetty stóð að fjárfestingum sínum skortir nákvæmari lýsingar á þeim. Það væri áhugavert að vita hvernig ákveðnar fjárfestingar skiluðu sér vegna þess að hér er um að ræða ríkustu konu sögunar. Hugsanlegt er þó að slíkar upplýsingar fyrirfinnist einfaldlega ekki lengur.
Litrík ævi
Það var ekki einungis auður hennar sem gerði Hetty að þeirri goðsögn sem hún varð í lifanda lífi. Persónulegt líf hennar og lifnaðarhættir voru á tíðum lyginni líkastir. Hún giftist þekktum verslunarmanni og fluttist eftir nokkurra ára dvöl í Evrópu til heimabæjar hans. Fólk þar bjóst við hefðarfrú en fékk í þess stað konu sem reifst og skammaðist við tengdafjölskyldu sína, þjónustufólk og aðra heimamenn. Sérstaka athygli vakti sá siður hennar að prútta stöðugt við verslunarmenn um verð vara og kaupa helst ódýran mat, t.a.m. mulið kex í poka.
Eiginmaður hennar, sem hún krafðist að skrifaði undir samning um aðskyldan fjárhag fyrir brúðkaup þeirra, varð gjaldþrota vegna glæfralega viðskipta. Áður en kom til gjaldþrots hafði Hetty sjálf þó reynt að gera bankann sinn gjaldþrota vegna skulda hans því að hún vildi taka sinn pening út, sem var stærsta innstæðan. Ekki hefði neitt fengist upp í skuldir hans hefði hún fengið sínu framgengt og tekið peninginn út því bankinn hafði ekkert annað fé milli handanna. Með góðum lögfræðingi tókst bankanum að fá Hetty til að gera upp skuldir hans en lengi vel reyndi hún að ná sér niðri á þeim einstaklingum. Reyndar voru lögfræðingar stöðugur fylgifiskur hennar, enda var hún stöðugt í réttarsölum vegna ýmissa mála, m.a. fyrrverandi lögfræðingar til að innheimta greiðslu vegna vinnu sinnar.
Það sem gerði Hetty þó frægasta, jafnvel meira en auður hennar einn sér, voru nánasarlegir lifnaðarhættir hennar. Heimsmetabók Guinness fjallar sérstaklega um nísku hennar í tengslum við þegar fjarlægja þurfti fót á syni hennar því hún reyndi að finna lækni sem veitti ókeypis aðstoð á meðan ástand fótarins versnaði að því marki að honum var ekki við bjargandi. Þetta er ekki að öllu leyti rétt en hér má þó finna ákveðið sannleikskorn því Hetty var gjörn á að leita sér læknisþjónustu og þóttist vart hafa efni á að borga. Ávallt komst þó upp um hana og læknar nánast fleygðu henni út þegar þeir uppgötvuðu að ríkasta kona Bandaríkjanna væri að gera þá (og kannski einnig sjálfa sig) að fíflum. Hetty leitaði til margra lækna (og borgaði fyrir) vegna fótar sonar síns og Slack lýsir því vel hversu væntumþykja hennar á honum gerir það ólíklegt að hún hafi ekki gert allt sem í hennar valdi stóð til að laga meinið, jafnvel þó að það kostaði dágóða upphæð.
Lýsingar á Hetty draga upp skýra mynd af konu sem var haldin þráhyggju varðandi auðsöfnuð og nauman lífsstíl sem erfitt er fyrir flesta að skilja. Hún leigði ódýrar íbúðir sem hún sjaldan hitaði upp í óhrjálegum hverfum New York-borgar og flutti reglulega til að forðast skattheimtu. Hún var iðulega klædd gömlum svörtum fötum, var rytjulega til fara og borðaði ódýran mat sem hún prúttaði niður, eins og í heimabæ húsbónda síns, í nærliggjandi verslunum. Þessi lífsstíll hennar og klæðnaður, og jafnvel ekki síst harka hennar í viðskiptum, leiddu til niðrandi viðurnefnis hennar: Nornin á Wall Street.
Endalok alls auðsins
Til að koma í veg fyrir að auður hennar kæmist út fyrir fjölskylduna passaði Hetty upp á að hvorki sonur hennar né dóttir giftust með þeim hætti að aðilar utan fjölskyldunnar gætu notið hans. Því fór það svo að sonurinn giftist fyrrverandi gleðikonu, sem hann hafði svo árum skipti verið í sambúð með, eftir lát móður sinnar, en gerði þó samning um að kona sín fengi aðeins hluta eigna sinna. Dóttir hennar, sem var afar lokaður einstaklingur, giftist ekki fyrr en hún var nærri fertug og dó maður hennar töluvert á undan henni. Hvorugt þeirra átti börn og voru því engir erfingjar til.
Þó að sonurinn hafi ekki sóað öllum auðæfunum lagði hann litla áherslu á að ávaxta þau og þeim mun meiri áherslu á að njóta lífsins. Eftir hans dag rann flest af því sem eftir var til systur hans. Erfðaskrá hennar fannst inni á baðherbergi hennar þegar hún lést, 35 árum eftir að Hetty dó. Hluti arfsins rann sjálfkrafa til fjarskyldra ættingja sem höfðu ekki hugmynd um að þeir tengdust Hetty og var erfðaskrá hennar einnig afar tilviljunarkennd. Virtist hún t.a.m. styrkja rúmlega 60 háskóla einungis af því að hún þekkti nafnið á þeim í stað þess að velja ákveðna háskóla sem hefðu mikil not af slíkri gjöf. Má því segja að auðurinn sem Hetty gætti svo vel hafi dreifst út um allar trissur, þvert á vilja hennar.
Það er athyglisvert við lestur bókarinnar hversu margt er líkt með Hetty og frægasta núverandi fjárfesti heimsins, Warren Buffett. Bæði eru þau sérvitur með afbrigðum og þekkt fyrir að hallast meira að auðsöfnun en að njóta hans. Buffett býr húsi sem hann hefur átt í hálfa öld og níska hans í garð barna sinna, í skjóli kenninga hans um arðsemi sparnaðar, er þekkt. Til eru fjöldamargar sögur og dæmi um þau bæði þar sem þau horfa í hverja einustu krónu. Þekkt saga um Buffett lýsir því þegar hann ætlaði að skipta fjórðungi úr dollara í smærri einingar til að borga í síma á flugvelli. Vinkona hans varð önug vegna tímaeyðsluna svo Buffett hætti við.
Nornin og vitringurinn
Lýsingarnar á þeim í almennri umræðu eru hins vegar eins og svart og hvítt. Hetty er nánast óþekkt í dag en það sem helst er fjallað um hana er níska hennar og sérviska og vísun til hennar sem nornarinnar á Wall Street. Buffett er aftur á móti þekktur og dáður, sérviska hans og níska þykir almennt ljá honum einfaldlega sterkari persónuleika og er oft vitnað í hann sem vitringinn frá Omaha.
Hetty er skemmtileg lesning um konu sem þorði að fara eigin leiðir og gera það sem samtímafólki hennar þótti ómögulegt fyrir kvenmann að gera. Augljóst er að Hetty var sérvitringur fram í fingurgóma og sparsemi hennar tæpast nálægt því sem talist getur eðlilegt. Aftur á móti er hægt að færa góð rök fyrir því að háttalag hennar hafi sumpart verið til komið vegna stöðu hennar í samfélagi þar sem kvenmenn voru ekki taldir eiga neitt erindi í heim fjármála. Fáir karlmenn buðu henni birginn og fæstir þeirra sem það gerðu höfðu eitthvað upp úr krafsinu. Sparsemi hennar, vitfirringsleg sem hún var, lagði þó að ákveðnu leyti grunninn að auði hennar því hún var fyrst og fremst í langtímafjárfestingum þar sem vaxtavextir yfir langt tímabil skiptu miklu máli.
Það er umhugsunarefni hvort Hetty hefði náð svona langt í auðsöfnun hefði þráhyggja hennar ekki verið jafnmikil og raun bar vitni. Í það minnsta eru fá teikn á lofti um að annar kvenmaður sé í þann mund að verða jafnríkur og Hetty á tímum allt annars landslags í réttindum kvenna en í því umhverfi sem Hetty upplifði.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu, 29. júní, 2006
Viðskipti og fjármál | Breytt 20.6.2013 kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orðræða og kröfuhafar ÍLS
9.6.2013 | 22:20
Oft er athyglisvert að fylgjast með orðræðu í tengslum við fjármál. Umræðan er stundum á þá vegu að það felist til dæmis meiri áhætta í að kaupa ekki hlutabréf frekar en að geyma pening inná bankabók (það eru reyndar til dæmi um ákkúrat slíkt), aðeins til að þróast yfir í þá áttina að hlutabréfakaup séu almennt tóm vitleysa (þau er sjaldan slíkt að ákveðnu marki). Stundum breytist þessi umræða smám saman; hjöðnun netbólunnar var gott dæmi um slíka þróun, en umskipti í orðræðu varðandi hlutabréf áttu sér stað hins vegar nánast á einni nóttu í Hruninu þegar að sparifé margra fuðraði upp á örfáum augnablikum.
Almennt breytist orðræða tengdum þáttum í fjármálum smám saman. Síðasta vika var afar athyglisverð varðandi orðræðu fjármála. Frétt sem lítið bar á birtist í fjölmiðlum þar sem að fram kom að gert væri ráð fyrir því að kröfuhöfum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verði kynntar skilmálabreytingar á útgefnum skuldabréfum sjóðsins í sumar. Framkvæmdastjóri hjá lífeyrissjóði sagðist gera ráð fyrir þessum breytingum í sumar og stjórnarmaður ÍLS staðfesti að slíkar tillögur hefðu verið ræddar innan stjórnar sjóðsins.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá að eigendur skuldabréfa sjóðsins væru ekki lengur venjulegir skuldabréfaeigendur heldur kröfuhafar.* Kröfuhafar eru almennt skilgreindir sem aðilar sem hafa lögvarna heimild til að krefjast þess af öðrum aðila (skuldara) að gera eitthvað eða láti eitthvað ógert. Eigendur skuldabréfa gera almennt ráð fyrir greiðslu og eiga því almenna kröfu um greiðslu, en þeir breytast í kröfuhafa þegar að skuldari lendir í vandræðum með að standa í skilum við skuldbindingar sínar. Oft er sagt að skuldabréfaeigendur ráði engu svo lengi sem skuldarar (fyrirtæki) standa í skilum, en þegar að skuldarar geta ekki staðið við skuldbindingar sínar þá breytast skuldabréfaeigendur í kröfuhafa og taki yfir rekstur fyrirtækjanna. Þetta er orðin almenn vitneskja í kjölfar Hrunsins á Íslandi þegar að kröfuhafar tóku yfir rekstur banka.
Snemma daginn eftir að ofangreind fréttist birtist komu yfirlýsingar frá starfsmanni lífeyrissjóðsins sem sagði að orð sín hefðu verið tekin úr samhengi og stjórnarmanni ÍLS sem ítrekaði að ekkert nýtt væri að eiga sér stað; skilmálum útgefinna skuldabréfa verður ekki breytt nema með samkomulagi við eigendur þeirra. Samkvæmt þessu hafði blaðamaðurinn (sami blaðamaður hjá Bloomberg í öllum tilvikum) fyrir einhvern misskilning breytt skuldabréfaeigendum ÍLS í kröfuhafa á augabragði vegna ónákvæmni í vinnubrögðum.
Á föstudaginn birtist svo viðtal við Bjarna Benediktsson undir fyrirsögninni á RÚV: Vonar að kröfuhafar verði sveigjanlegir, þar sem enn á nýjan leik er vitnað í frétt af Bloomberg fréttaveitunni. Þegar að fjármálaráðherra tekur þannig til orða á öðrum fréttamiðli er augljóst í huga margra að þetta mál er að fara í farveg sem er óhagstætt eigendum ÍLS skuldabréfa, sem eru farnir að vera skilgreindir óþægilega oft sem kröfuhafar.
Þetta var, andstætt því sem stjórnarmaður ÍLS sagði, augljóslega eitthvað nýtt því í framhaldi af þessari orðræðu fjármálaráðherrans hækkaði ávöxtunarkrafa ÍLS skuldabréfa í þremur helstu flokkum sjóðsins að meðaltali um 15 bps (0,15%) í Kauphöll Íslands (ég er vel að merkja að tala um ávöxtunarkröfu, ekki verð; skuldabréf lækka í virði þegar að ávöxtunarkrafa hækkar). Slík breyting er afar sjaldgæf og gefur til kynna að fjárfestar eru að endurmeta virði skuldabréfa ÍLS og er það að lækka töluvert mikið.
Þetta er dýrkeypt orðræða. Mörg lán bera breytilega vexti. Öll ný lán taka mið af ávöxtunarkröfu á markaði. Þessi lán hækkuðu 0,15% síðastliðinn föstudag vegna óvissu sem tengist því að verið er að endurskilgreina eigendur ÍLS skuldabréfa sem kröfuhafa í stað skuldabréfaeigenda. Segja má að árlegur vaxtakostnaður íslenskrar fjölskyldu sem skuldar 20 milljónir með breytilega vexti á húsnæðislánum sínum hækkaði vegna þessa um 30 þúsund krónur.
Auk þess verður dýrara að fjármagna húsnæðiskaup á Íslandi í framtíðinni. Raunvaxtastig hérlendis er allt of hátt og ekki er við bætandi frekari hækkun á ávöxtunarkröfu ÍLS bréfa, sem Bjarni ítrekaði væru með ríkisábyrgð. Því þarf að skýra sem fyrst hvaða skilmálabreytingar sé verið að líta til og vanda valið í orðræðu varðandi skuldabréfaeigendur ÍLS bréfa. Annars gæti óvönduð orðræða skapað snjóbolta í framtíðarvaxtakostnaði húsnæðislána sem margar fjölskyldur ráða illa við.
MWM
*Það hafði reyndar birst viðtal við Eygló Harðardóttur í lok maí þar sem að slík skilgreining var notuð en ég, og líklegast flestir, taldi að um ritvillu væri að ræða.
http://www.vb.is/frettir/84735/
http://www.visir.is/ekkert-nytt-i-malinu-segir-ils/article/2013130609579
http://www.vb.is/frettir/84525/
http://www.ruv.is/frett/vonar-ad-krofuhafar-verdi-sveigjanlegir
Viðskipti og fjármál | Breytt 13.6.2013 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðbréfaumræða í gerviveröld
16.5.2013 | 01:35
Umræða, eða vöntun hennar, um bólumyndun á íslenskum verðbréfamarkaði hefur í gegnum tíðina verið undarleg. Vert er að rifja hana aðeins upp því í dag er hún enn eina ferðina stödd í gerviveröld, nema hvað nú er sú veröld á öndverðum meiði við þá gerviveröld sem áður ríkti.
Gerviveröld 1 - engin varnaðarorð
Árið 2003 hækkaði íslenska hlutabréfavísitalan 54%, árið 2004 var hækkunin 57% og árið 2005 gerði hún enn betur og hækkaði um 60%. Þeir fáu sem í undanfara Hrunsins settu spurningarmerki um verðhækkanir íslensku hlutabréfavísitölunnar voru almennt úthrópaðir sem svartsýnisrausarar.
Slíkar hækkanir áttu sér enga hliðstæðu í sögu alþjóðlegra hlutabréfa og má í því sambandi nefna að besta árlega (mælt frá upphafi til loka árs) sögulega ávöxtun hlutabréfa mæld í Dow Jones hlutabréfavísitölunni í Bandaríkjunum var 54%. Sú ávöxtun fékkst árið 1933 þegar að hlutabréfavísitalan hafði frá 5.9.1929 lækkað um næstum því 90% (þetta er ekki innsláttarvilla hjá mér).
Eftir örlítið bakslag árið 2006 í skugga orða frá öfundssjúkum Dönum hófst ballið á nýjan leik árið 2007 og hafði hlutabréfavísitalan um miðbik ársins hækkað enn eina ferðina um rúmlega 50%. Á sama tíma styrktist íslenska krónana sem gerði innfluttar vörur ódýrari sem tímabundið jók velsæld Íslendinga. Hér voru tekin lán tengd erlendum myntum til fasteigna- og hlutabréfakaupa og greiningardeildir hömuðust við að spá enn frekari verðhækkunum á gengi hlutabréfa og að krónan héldist stöðug.
Heyrðust varnaðarorð? Það voru nokkur en þeir sem slíkt gerðu lentu almennt í svipaða stöðu og Paul Warburg, helsti arkitekt af stofnun Seðlabanka Bandaríkjanna árið 1913, þegar hann varaði 15 árum síðar við of mikilli áhættusækni rétt áður en Kreppan mikla skall á. Hann var úthrópaður fyrir að veitast að bandarískri hagsæld. Margir hins vegar komu fram með alls kyns útskýringar til að réttlæta slíkar hækkanir. Greiningardeild Glitnis spáði meira að segja hækkunum í upphafi árs 2008 sem námu á þeim tímapunkti sem spáin birtist almenningi um (aftur) 50% hækkun. Gerviveröld 1 sá fátt athugavert við árlega 50% hækkun, ár eftir ár.
Gerviveröld 2 - varnaðarorð í tíma og ótíma
Nú er öldin önnur. Þegar að útboð Haga átti sér stað fússuðu margir og bentu (réttilega) á að hlutabréf væru áhættusöm. Hins vegar var verið að bjóða út bréf sem voru tiltölulega ódýrt verðlögð og rekstur fyrirtækja í smásölu eins og eignasafn Haga er byggt upp verður vart stöðugri.
Einhverra hluta vegna fylgdi því lítil umræða þegar að bréf í Eimskip og Vodafone voru boðin út á gengi sem ég taldi vera heldur dýru verði keypt (það á sérstaklega við Vodafone) og gengi hlutabréfa í Högum hafði meira en tvöfaldast frá útboðsgenginu á rétt rúmlega ári. Það hefur þó verið umræða um hækkunum á gengi Icelandair en virði þeirra hafa margfaldast á nokkrum árum. Gengi bréfa í flugfélögum hafa aftur á móti sveiflast mikið í gegnum tíðina og því er í tilfelli Icelandair ekkert nýtt um að ræða.
Allt varð aftur á móti "vitlaust" þegar að gengi hlutabréfa tveggja tryggingafélaga hækkaði nýlega um 25-30% í kjölfar útboðs. Þetta var sérstaklega áhugvert í ljósi þess að bréfin voru samkvæmt langflestum stöðlum frekar ódýrt verðlögð í útboðunum.
Í framhaldi af því kom fram yfirlýsing um að Seðlabankinn hefði verulegar áhyggjur af hækkunum á hlutabréfamörkuðum. Það hlýtur að vera einsdæmi að Seðlabanki einvers ríkis gefi út slíka yfirlýsingu af því að bréf í tveimur tryggingarfélögum hækki í virði um 30%.
Fleiri hafa bæst í hópinn. Nú virðast "allir" vera sammála um að hér hafi eignarbóla myndast á verðbréfamörkuðum Íslands. En er það svo?
Hlutabréfabólan
Eins og ég hef skrifað um áður þá tel ég gengi nokkurra félaga á Íslandi vera orðið nokkuð hátt metið. Rétt er að taka það fram að þessi umræða á við um örfá félög, ekki safn fjöldamargra bréfa.
Að segja að gengi þeirra hafi fjarlægst öllum raunveruleika er hins vegar fjarstætt. Ég fæ ekki betur séð en að raunhæf árleg ávöxtun af bréfum tryggingarfélaganna, eftir undanfarnar hækkanir, sé í kringum 9-10%. Hún er töluvert lægri af öðrum bréfum en af þeim (afar fáu) hlutabréfum sem eru nú í boði fyrir almenning þá virðist ávöxtunarkrafan sem gerð er til þeirra eilítið hærri en til skuldabréfa.
Einn af þeim aðilum sem líklegast hefur bestu hugmynd um þetta er einn af forstjórum annars tryggingarfélagsins, sem keypti bréf í útboðinu fyrir 40 milljónir króna. Forstjórinn hlýtur að hafa góða hugmynd um núverandi rekstur fyrirtækisins og vænta afkomu þess í framtíðinni. Eðlilegt er að spyrja hvort að það sé líklegt að hann hafi fjárfest svo mikið ef hann teldi fyrirtækið ekki hafa verið töluvert vanmetið í útboðinu?
Ef góð rök væru færð fyrir því að núverandi hagnaðarmyndun þessara fyrirtækja sé byggð á sandi þá væri ef til vill mark takandi á varnaðarorðum um gengi hlutabréfa; ég hef hreinlega ekki enn séð þau. Þangað til má vera að sum hlutabréf séu háu verði keypt, en gengi hlutabréfa er almennt samkvæmt núverandi hagnaðartölum ekki nálægt bóluhæðum.
Bólur í verðbréfum með föstum tekjum
Ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa er almennt sögð hækka (og gengi þeirra því lækka) þegar að gjaldeyrishöft eru afnumin. Rökin eru að erlendir og jafnvel innlendir fjárfestar rjúki upp til handa og fóta og selji þau með miklum afföllum þegar að höftin eru afnumin. Með þessu er gefið sterklega í skyn að þau séu nálægt einhverskonar verðmyndum sem líkja megi við bólu sem óhjákvæmilega hjaðni.
Þó skipta ríkistryggð verðbréf enn hendur sem veita verðtryggða ávöxtun til fjölda ára sem er nálægt 3%. Þetta er að mínu mati allt of há ávöxtun í umhverfi þar sem að hagvöxtur hefur dregist saman og ólíklegt að nái þeim "gullaldarhæðum" sem hann náði í 25 í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar (hagvöxtur sem auk þess náðist aldrei fyrir þann tíma). Ég fæ raunar ekki séð að jafn skuldugt ríki og Ísland geti greitt svo háa vexti til lengri tíma. Slík bréf eru því ef eitthvað er afar hóflega verðlögð; af hverju ættu menn að selja þau með frekari afföllum?
Óverðtryggð bréf veita í kringum 6% ávöxtun sem (aftur) er að mínu mati hærri ávöxtun en raunhæft að ríki geti til lengri tíma greitt án greiðsluþrots (nema að hagvöxtur aukist töluvert meira en raunhæft má ætla).
Í dag eru ríkisskuldabréf útgefin af Bandaríkjunum að veita rétt rúmlega 3% óverðtryggða vexti og verðtryggð ríkisskuldabréf eru einfaldlega ekki að veita neitt annað en verðtryggingu og styttri bréfin jafnvel neikvæða raunvexti!
Slíkar ávöxtunarkröfur til íslenskra ríkisskuldabréfa geta því vart talist til bóla. Ef eitthvað er þá eru ríkistryggð innlend bréf að veita afar góða ávöxtun.
Ef innstæður eru flokkaðar sem verðbréf með fastar tekjur þá hefur sá flokkur færst nær því að veita viðunandi ávöxtun þar sem að bankar hafa í auknum mæli hækkað innlánsvexti fyrir þá aðila sem eru reiðubúnir til að binda pening sinn í 6 mánuði eða lengur. Almennt veita slíkir reikningar rúmlega 5% ef upphæðin er bundin allt að 36 mánuði.
Af ofangreindu má ráða að verðbréfamarkaðurinn á Íslandi sé frekar skilvirkur í dag. Mesta ávöxtunarkrafan er gerð til hlutabréfa, aðeins lægri ávöxtunarkrafa er gerð til skuldabréfa og innstæður veita svo minnstu ávöxtunina en þó ekki afbrigðilega lága ávöxtun. Munurinn á ávöxtunarkröfu þessara flokka er innan eðlilegra marka. Ef eitthvað er þá er vaxtastig enn of hátt og lækki það leynast nú kauptækifæri í skuldabréfum og einnig verða langtímafjárfestingar í hlutabréfum enn meira aðlaðandi kostur.
Út vil ek, eða hvað?
Hvað gerist þegar að gjaldeyrishöft eru afnumin? Víðtæk skoðun er að íslenska krónan veikist mikið (ég tel að hún veikist hreint alls ekki það mikið en er í minnihluta). Ef hún veikist verður aftur á móti eftirfarandi spurning nærtæk: Ætla lífeyrissjóðir landsins virkilega að æða út með innlent fjármagn, veikja krónuna enn meira og með dýrkeyptustu krónum sögunnar kaupa erlendan gjaldeyri til að fjármagna kaup á erlendum hlutabréfum, sem eru til dæmis nú í methæðum í Bandaríkjunum, og skuldabréfum sem eru með töluvert lægri ávöxtunarkröfu en íslensk skuldabréf?
Þetta væri í algjörri andstöðu við hina einföldu Buy Low - Sell High regluna. Ég leyfi mér því að efast um að lífeyrissjóðir fari að rjúka upp til handa og fóta að fjárfesta í erlendum áhættusömum fjárfestingum. Nær væri að fjárfesta í innlendum iðnaði sem skapar gjaldeyristekjur til að mynda á ný jafnvægi í þjóðarbúskap Íslands.
Verðlagning ekki hluti af gerviveröld
Gengi hlutabréfa er á frekar eðlilegum slóðum á Íslandi. Sum félög eru að mínu mati dýr en slíkt á ekki við um gengi allra skráðra hlutabréfa. Gengi bréfa í tryggingarfélögunum er innan skekkjumarka þess sem teljast má vera eðlileg verðlagning. Ef eitthvað er þá eru skuldabréf tiltölulega ódýrt verðlögð og tel ég til dæmis að eðlileg ávöxtunarkrafa íslenskra verðtryggðra ríkisbréfa ætti að vera í kringum 1,5% til 2,0%. Þó svo að skammtímasveiflur eigi sér stað við afnám gjaldeyrishafta þá eru engar forsendur fyrir því að verðlagningin breytist mikið til lengri tíma.
Helsta skekkjan tengist því ekki verðlagningu verðbréfa Íslands. Það er frekar umræðan í kringum hana sem er stödd í gerviveröld sem er ekki til í alvörunni.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Q. Hlutabréfabóla? A. Já og nei
12.5.2013 | 23:34
Í kjölfar mikilla hækkana á gengi þeirra örfáu skráðra hlutabréfa á innlendum markaði í upphafi þessa árs hófst umræðu um það að gengi margra hlutabréfa væri orðið of hátt. Ég var í þeim hópi.
Síðan þá hefur gengi þeirra bréfa sem þá voru skráð sveiflast lítið. Gengi bréfa í Högum hefur hækkað í kringum 10% en það má að einhverju leyti rekja til styrkingar krónunnar sem eykur, til styttri tíma í það minnsta, framlegð fyrirtækisins. Gengi bréfa í Högum á hlutabréfamarkaði er vel í lagt að mínu mati en ég tel að gengi hlutabréfa í Eimskip vera í kringum 40-50% ofmetin og bréf Vodafone eru að mínu mati jafn enn ofmetnari.
Bóla!
Nú er á nýjan leik verið að fjalla um hugsanlegt ofmat hlutabréfa og er þá helst vísað í það að gengi hlutabréfa í tveimur nýlegum útboðum tryggingarfélaga hafi hækkað um 25-30% frá útboðsgengi. Einnig er fjallað um tilvik þar sem fólk tók lán til hlutabréfakaupa.
Þetta tel ég hins vegar ekki standast nánari skoðun. Við útboð Eimskips og Vodafone fyrir síðustu jól mat ég bréf beggja fyrirtækja á lægra gengi en útboðsgengi þeirra, sérstaklega Vodafone bréfin. Ég taldi raunvirði hvers bréfs í Eimskip vera í kringum 170-180 krónur en útboðsgengið var 208 krónur. Ég mat eðlilegt markaðsvirði Vodafone vera í kringum 5 milljarða króna en það er í dag rúmlega tvöfalt hærra. Því tók ég ekki þátt í þessum útboðum.
Síðan þá hefur gengi bréfa Eimskips hækkað í kringum 25% sem þýðir að annaðhvort er ég að vanmeta fyrirtækið gróflega eða það er allt of hátt skráð á markaði. Gengi Vodafone bréfa eru á svipuðum slóðum og þau voru boðin út til almennings. Ég keypti í hvorugu útboðinu og hef augljóslega misst af skjótfengum gróða.
Bóla! Redux
Þar sem að útboðsgengi hlutabréfa ofangreindra fyrirtækja var jafn hátt og raun bar vitni var ég undrandi á því við útreikning á útboðsgengi tryggingarfélaganna hversu lágt það var. Fékk ég ekki betur séð en að það væri vanmetið í báðum tilvikum í kringum 25-30% og fjárfesti ég því í hlutabréf beggja fyrirtækja. Það hefur reynst vel og hefur gengi beggja félaga hækkað hér um bil jafn mikið og útreikningar mínir gáfu til kynna að væri munurinn á raunvirði þeirra og útboðsgengisins. Ég bar mínar tölur undir aðra einstaklinga með sérfræðiþekkingu og var það almenn skoðun að útboðsgengið væri töluvert vanmetið.
Því er það ekki óeðlilegt að gengi beggja fyrirtækja hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni. Núverandi gengi er samkvæmt frekar stöðluðum mælingum ekki hátt né lágt heldur nálægt eðlilegum slóðum.
Lán til hlutabréfakaupa
Það að fólk hafi skráð sig fyrir stærri hlut en í sumum tilvikum hafi verið raunhæfur skýrist að sumu leyti af því að vitað var að margföld eftirspurn yrði staðreynd. Slíkt hefur verið ríkjandi í undanförnum útboðum. Auk þess hafa sjálfssagt margir talið að útboðsgengi tryggingarfélaganna væri lágt og því hafi hvatinn til skuldsetningar aukist. Það er auk þess langt síðan það spurðist út að lán til hlutabréfakaupa væri að ágerast hérlendis. Slík lán eru oft merki um að bólur væru að myndast en almennt tengist það einnig því að almenningur sé farinn að verða stór þátttakandi í slíkum viðskiptum. ég veit ekki til þess að slíkt ástand sé ríkjandi á Íslandi í dag.
Bóla? Já & Nei
Það má því segja að ákveðin bóla ríki nú á þeim litla hlutabréfamarkaði sem nú ríkir á Íslandi í dag. Sú bóla tengist aftur á móti ekki gengi bréfa í nýlegum útboðum þó svo að mikil hækkun hafi nýlega átt sér stað. Þar sem að raunverðmæti hlutabréfa tengist ríkjandi ávöxtunarkröfu skuldabréfa þá má að sama skapi spyrja hvort að þeir einstaklingar sem telja hlutabréf séu ofmetin telji ekki að skuldabréf séu í dag að sama skapi vanmetin?
MWM
Sjá fyrri umræðu um íslenskar bólur 2012-2013:
http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1276478/
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Úr séreign í húseign
7.5.2013 | 23:03
Nýlegar tillögur Sjálfsstæðisflokksins varðandi leiðir til að lækka höfuðstól húsnæðislána á Íslandi verða vonandi eitt af þeim málum sem verða sett í forgang á þessu ári.
Skattaafsláttur
Ein leiðin er að veita sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af íbúðaláni. Í stað þess að fjármagnið fari út í meiri neyslu í samfélaginu þá er afslátturinn nýttur til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána, sem Sjálfstæðisflokkurinn "lofaði" yrði allt að 40 þúsund krónur á mánuði eða tæplega hálfa milljón króna á ári.
Þetta er í raun merkileg stefnubreyting frá því kerfi sem hefur verið við lýði í mörg ár, þar sem að ríkið nánast hvatti til skuldsetningar með vaxtabótakerfi (sem átti að mínu mati vel að merkja rétt á sér nú nýlega í skugga kreppu). Langtímasjónarmið skynsamrar stefnu hlýtur hins vegar að liggja í hvatningu til sparnaðar en ekki skuldsetningar og vonandi er þetta upphafið að slíkri breytingu.
Með því að örva uppgreiðslu lána sem fer einungis í að lækka höfuðstól lána myndast einnig önnur jákvæð áhrif, sem eru þau að slíkt dregur úr verðbólguþrýsting. Aukning peningamagns í íslenska hagkerfinu var ein af helstu birtingarmyndum þess að þensla hér fór úr böndunum í undanfara Hrunsins. Í áhugaveðri bók eftir George Cooper, The Origin of Financial Crises: Central Banks, Credit Bubbles, and the Efficient Market Fallacy, er sýnt með skemmtilegum hætti hvernig uppgreiðsla lána verður til þess að peningar í hagkerfinu nánast hverfa eins og um galdur sé að ræða.
Með sama hætti myndi hvatning til uppgreiðsla lána flýta þá þróun að hérlendis nái peningamagn því jafnvægi aftur til að verðbólga hjaðni. Loforð Framsóknarflokksins um "leiðréttingu" lána ætti með sama hætti að takmarkast við lækkun höfuðstól almennings í stað þess að senda tékka heim til þess með tilheyrandi eftirkasta þenslu og eyðslufyllirís.
Séreignasparnaður
Hin leiðin er að nota framlag séreignasparnaðar til að lækka höfuðstól láns. Sumir aðilar eru andvígir þessari stefnu og telja að þetta dragi úr sparnaðarvitund fólks. Ég tel aftur á móti að hún þvert á móti auki hana þar sem að hún stuðlar að eignamyndun heimilanna í húsnæði. Fólk á augljóslega minni séreignasparnað þegar það fer á eftirlaun en á móti kemur að afborganir og vaxtagreiðslur vegna húsnæðis eru lægri og munar jafnvel miklu.
Auk þess eru raunvextir almennt af húsnæðislánum á Íslandi svo háir að vart er hægt að finna betri fjárfestingarkost en að greiða niður slík lán. Lífeyrissjóðslán vegna húsnæðiskaupa bera að jafnaði í kringum 3,5-4,0% raunvexti (Lífeyrissjóður Verzlunarmanna veita betri kjör, sjá www.live.is) á meðan að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa er í kringum 2,5-2,9%. Það þýðir að árlega fær fólk 1% betri ávöxtun af því að greiða niður lán sín.
Þessi rök eiga augljóslega ekki við um aðila sem gert hafa langtímasamninga varðandi séreignasparnað í gegnum tryggingarfélög eins og til dæmis Allianz. Þeirra hagur liggur augljóslega í því að halda sinni stefnu.
Rétt eins og með tillögur um lækkun höfuðstóls með því að veita skattaafslátt, þá myndar notkun séreignasparnaðar til lækkunar á höfuðstól húsnæðislána aukin stöðugleika í íslenskt samfélag, eykur sparnað og dregur úr verðbólgu.
MWM
Bók Cooper fæst til dæmis í Bóksölu Stúdenta - http://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-48908/ - Bagus og Howden fjalla um aukningu peningamagns í undanfara Hruns í bókinni Deep Freeze en hægt er að nálgast hana hér löglega í pdf formi ókeypis eða gegni vægu gjaldi í formi e-bókar - http://mises.org/document/6137/Deep-Freeze-Icelands-Economic-Collapse - og ég og Þröstur Olaf Sigurjónsson fjölluðum líka um þenslu því tengdu í grein okkar Áfram á rauðu ljósi sem er aðgengileg hérna - www.efnahagsmal.is/.../2010/12/1_2_Afram-a-raudu-ljosi_final1.pdf.
Ég hefur áður fjallað um séreignasparnað til greiðslu húsnæðislána, t.d. hérna - http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1257494/ - og hér er (held ég) fyrsta greinin þar sem þessari hugmynd var komið á framfæri í Viðskiptablaðinu tæpu ári eftir Hruni - http://www.slideshare.net/marmixa/20090922-sereignarsparnadur-husnaedislan.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka
2.5.2013 | 02:35
Það er merkilegt að aðeins rúmum fjórum árum eftir að eitt mesta hrun fjármálasögunnar átti sér stað á Íslandi var sáralítil umræða varðandi fjármál í nýliðinni kosningabaráttu. Af fjórflokkunum fjölluðu tveir nánast ekki neitt varðandi stefnu í fjármálum.
VG komu ekki fram með nokkra einustu stefnu í þeim efnum. Ef mér skjátlast þá var hún vel falin.
Samfylkingin fjallaði einnig nánast ekkert um fjármál. Það var eiginlega aðeins eitt atriði; upptaka evru.
Þrátt fyrir að almenningur virtist hafa takmarkaðan áhuga á Evrópumálin í aðdraganda kosninga ákvað Samfylkingin að spila enn einu sinni evrutrompinu um að upptaka hennar myndi leiða til lægri fjármagnskostnaðar. Í (hræðilegri) auglýsingaherferð var meðal annars vitnað í að íslensk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar en evrópsk fjölskylda borgar sitt aðeins einu sinni. Ekki kom fram í auglýsingarherferðinni hvort verið væri að miða við raunvirði eða nafnvirði né hvort miðað væri við sambærileg lán hvað meðallengd varðar. Skilaboðin eru hins vegar augljós: Upptaka evru myndar einhverja galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.
Gaman væri ef lífið væri svo einfalt. Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir.
Sjálfsstæðisflokkur kom með góðar tillögur varðandi sparnað. Það má segja að það sé kominn tími til að einhver flokkur komi fram með hugmyndir um að verðlauna fólki með vilja til að spara og jafnvel greiða inn á húsnæðislán sín og skapa þannig fljótari eignamyndun. Einnig hefur flokkurinn lagt áherslu á að lyklalög taki gildi, eitthvað sem ég á erfitt með að átta mig á af hverju var ekki keyrt í gegn á síðasta kjörtímabili. Hann hefur auk þess sett fram viljayfirlýsingu um að aðskilja bankarekstur þannig að einhver takmörk verði á áhættugleðinni sem óhjákvæmilega myndast næst þegar að ofurbjartsýni nær tökum á landsmenn (annað mál sem virðist hafa dagað uppi á síðasta kjörtímabili).
Verði Sjálfsstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn hlýtur það að vera skýlaus krafa flokksins að þessi ofangreind atriði komi strax til framkvæmda.
Mörgum hefur sjálfssagt þótt það vera undarlegt að Framsóknarflokkurinn "lofi" skuldarniðurfærslu eftir 90% lána fíaskó-ið. Jafn gagnrýnin og ég var á flokkinn fyrir þátt sinn í því að hella olíu á þann útlánaeld á sínum tíma þá hefur flokkurinn verið stöðugt með hugmyndir að lausnum í tengslum við heimilin í sambandi við fjármál síðastliðin ár. Ég er ekki sammála öllum hugmyndum flokksins en ég, eins og til dæmis Stefán Ólafsson, furða mig á að aðrir flokkar hafi ekki nálgast þeim hugmyndum sem Framsóknarflokkurinn hafði í kosningabaráttu sinni. Betra hefði verið að koma með aðrar hugmyndir á útfærslum varðandi fjármál og heimilin í stað þess að einblína á að skjóta niður hugmyndir Framsóknarflokksins.
Eitt sem olli mér hins vegar vonbrigðum með alla flokka var að enginn þeirra minntist á hvernig lækka ætti raunvexti á Íslandi (evru-lausnin er á mínum huga ekki alvöru lausn). Það gengur ekki til lengdar að land og þjóð greiði raunvexti almennt á bilinu 3,5% til 4,0% með hagvöxt í besta falli tæplega 2,0% miðað við hvern einstakling. Frá sjónarmiði raunvaxta hefði átt að vera augljóst að hér færi allt á versta veg á einhverjum tímapunkti. Lækkun raunvaxta ætti að vera eitt af forgangsatriðum stefnu(fjár)mála íslenskra stjórnmálaflokka næstu árin.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni að þeir flokkar sem minnst fjölluðu um fjármál í kosningabaráttu sinni hafi goldið jafn mikið afhroð og raun bar vitni. Vart er hægt að kenna það einfaldlega um að þeir hafi þurft að framfylgja erfið mál. Fyrirtæki eru með stefnur sem taka tillit til fjármála; ættu stjórnmálamenn ekki að gera slíkt hið sama?
MWM
Viðbót 5.5.2013 - Hægt er að sjá viðtal við mig í tengslum við þessa grein hér - http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/82090/ - en ég fjalla í viðtalinu einnig um möguleika flokka til samstarfs við Framsóknarflokkinn. Mín skoðun sem fram kemur í viðtalinu er sú að það væri hæglega grundvöllur fyrir samstarfi með Sjálfsstæðisflokknum þrátt fyrir töluverðan mun á stefnumálum í fjármálum. Rétt er að halda því til haga að ég taldi hina flokkana líka vera kandidata, einfaldlega að því að stefna þeirra í fjármálum væri hér um bil óskrifað blað.
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.5.2013 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)