Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Opið bréf til stjórnar LSR

Kæra stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR),

Lífeyrissjóður ykkar hefur verið um árabil einn helsti lánveitandi húsnæðislána á Íslandi.  Mikilvægt er því hvernig haldið er á slíkum málum hjá ykkur.  Sjóðurinn veitir lán með bæði föstum vöxtum (sem breytast því ekki í takti við markaðsvexti, hvort sem þeir hækka eða lækka) og breytilegum vöxtum.  Skuldarar ykkar með breytilega vexti taka á sig hærra vaxtastig ef það hækkar en bera aftur á móti lægri vaxtakostnað ef að vaxtastig lækkar, eða svo ætti það í það minnsta að vera.

Á heimasíðu LSR (www.lsr.is) voru breytileg vaxtakjör sjóðsfélaga í mörg ár lýst með þeim hætti að tekið væri meðaltal af ávöxtunarkröfu helstu verðtryggðu skuldabréfaflokka á markaði (síðan 2004 hafa það verið íbúðabréf, síðustu ár hafa það verið flokkar HFF24, HFF34 & HFF44) og bætt við 50-75 punkta álagi.  Þetta var auk þess skýrt á síðu 30. í ársskýrslu sjóðsins árið 2005 en þar stendur orðrétt: Við ákvörðun fastra vaxta er horft til markaðsaðstæðna hverju sinni en breytilegu vextirnir eru endurskoðaðir á 3ja mánaða fresti miðað við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa.

Þetta viðmið hélst í nokkur ár og hækkaði vaxtakostnaður sjóðsfélaga ykkar með breytileg vaxtakjör um tíma talsvert.  Síðastliðinn 3 ár hefur raunvaxtastig á Íslandi hins vegar lækkað mikið.  LSR brást við þessu með því að bæta við á heimasíðu sinni að breytilegir vextir væru miðaðir við ávöxtunarkröfu á markaði en þó yrðu þeir aldrei lægri en 4%.  Af hverju þessu var bætt við veit ég ekki né skil hvernig hægt sé að breyta forsendum lána með þessum hætti eftir á.

Síðan þá hefur LSR einmitt verið að breyta forsendur lána með einhliða og vafasömum hætti.  Á heimasíðu sjóðsins er ekki lengur fjallað um hvernig breytilegir vextir eru ákvarðaðir.  Þeir í það minnsta fylgja ekki lengur þeim viðmiðum sem fram kom á heimasíðu ykkur og sjóðsfélagar sem tóku lán með breytilegum vöxtum ættu að treysta og jafnvel hafa lagalegan rétt á.  Eitt er ljóst; breytilegir vextir LSR hafa á marga mánuði verið miklu hærri en þau vaxtakjör sem sjóðsfélögum var kynnt sem viðmið við ákvörðun við lántöku hjá ykkur.

Þann 1. apríl lækkuðu breytilegir vextir LSR niður í 3,60% (sem er neðar en 4% mörkin sem um tíma voru auglýst sem lágmarksvextir). Miðað við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa á þeim tíma hefðu lánakjörin átt að vera í kringum 2,50% til 2,75%.  Miðað við forsendur sem LSR veitti varðandi slík lán er verið að rukka vaxtakostnað sem má áætla að sé í kringum 0,85%% umfram upphaflegum forsendum.  Á ársgrundvelli þýðir þetta að fjölskylda sem skuldar LSR 20 milljónir með breytilegum vöxtum greiðir 170.000 krónur í vaxtakostnað sem samkvæmt ykkar eigin heimasíðu ætti ekki að vera til staðar.

Á sama tíma hefur Lífeyrissjóður Verzlunarmanna (LIVE) rukkað sína sjóðsfélaga með breytileg vaxtakjör á lánum sínum um vexti síðastliðið hálft ár sem ég lauslega áætla hafi verið 0,6% lægri (LIVE skrásetja sín viðmið á heimasíðu sinni, www.live.is).  Þetta þýðir það að sjóðsfélagar LIVE með sömu lánsfjárhæð og í dæminu að ofan, þ.e. 20 milljónir, greiða í dag á ársgrundvelli 120.000 krónur minna í vaxtakostnað en sjóðsfélagar LSR.  Það munar því mánaðarlega um 10.000 krónur í mismun á milli þessara lífeyrissjóða með sömu forsendum vaxtakjara fyrir venjulega fjölskyldu.

Einhverra hluta vegna hafa vaxtakjör LSR ekki verið uppfærð í töluverðan tíma.  Miðað við meðalvexti íbúðabréfa í dag, sem eru nú rétt rúmlega 2%, ættu næstu breytilegu vextir* LSR að vera að miðað við hámarksálag í kringum 2,75%, og allt niður í 2,50%. Ég vona að bætt verði úr þessu þannig að sjóðsfélagar ykkar njóti þess að markaðsvextir lækki með sama hætti og þeir þurftu að greiða hærri vexti þegar að vaxtastig hækkaði.

Virðingarfyllst,

Már Wolfgang Mixa

*Almennt er miðað við meðaltal vaxta tímabilsins áður en þar sem að LSR hefur ekki uppfært breytilega vexti lengi og hafa snuðað sjóðsfélaga sína í töluverðan tíma þá ætti einfaldlega að "taka mynd" af núverandi stöðu. Einnig er rétt að benda á að fleiri lífeyrissjóðir hafa verið óduglegir við að uppfæra breytileg vaxtakjör sjóðsfélaga sinna, það er að færa þau niður í samræmi við markaðsvexti.  Vegna stærðar sinnar er hins vegar hægt að færa rök fyrir því að LSR sé almennt leiðandi afl í vaxtaákvörðunum sjóða.

 


LIBOR & peningaþvætti

Tvær fréttir hafa verið mest áberandi í sumar varðandi bankastarfsemi. Önnur fjallaði um LIBOR svindl og vakti töluverða athygli og nú nýlega önnur frétt varðandi peningaþvætti. Ég er undrandi á því hversu mikla athygli LIBOR fréttin fékk á meðan að frétt um peningaþvætti virðist vera minna áberandi.

LIBOR

LIBOR fréttin gekk í stuttu máli út á það að bankar svindluðu á því hvaða kjör þeir voru að fá í millibankaviðskiptum í hamaganginum þegar að fjármálakerfi heimsins hrundi, næstum því endanlega fyrir marga stóra banka, haustið 2008. Skilja má af fréttaflutningi að margir starfsmenn bankastofnanna hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar um kjör bankanna til að hagnast á ástandinu sem ríkti á þeim tíma. Þessi nálgun er þó ekki í samræmi við einhvern raunveruleika.

LIBOR vextir eru ekki ákvarðaðir miðað við viðskiptakjör banka heldur frekar hvað bankar telja að kjör sín verði. Meðaltal nokkurra banka í London er fengið af slíkum kjörum miðað við mismunandi myntir og tímalengdir. Þetta kerfi gengur snuðrulaust hér um bil alltaf. Kerfið hrynur hins vegar örugglega án undantekninga þegar að mikil hræðsla gengur yfir á fjármálamörkuðum. Bankamenn sem veita upplýsingar um vænt kjör sem eru hærri en aðrir bankar veita gefa höggstað á sér.

Í ástandi eins og ríkti haustið 2008 hefði nær örugglega frést fljótlega innan bankageirans ef einhver banki gerði ráð fyrir hærri vaxtakjör heldur en flestir aðrir bankar gerðu ráð fyrir. Ástandið var þannig að flestir bankar hreinlega lánuðu ekki peninga sín á milli og því vart annað en ágiskanir hvort er eð hvaða kjör hefðu ríkt (íslensk millibankaviðskipti höfðu verið óvirk svo mánuðum skipti fyrir hrun). Slíkar upplýsingar hefðu getað fljótlega undið uppá sig og leitt til fjárskorts á afar stuttum tíma. Það hafði raunar gerst aðeins nokkrum mánuðum áður þegar að Merrill Lynch varð gjaldþrota á aðeins nokkrum dögum vegna orðróms um slaka lausafjárstöðu (því hefur verið haldið fram að einhverjir fjárfestar með skortstöðu í hlutabréfum fyrirtækisins hafi komið orðróminum af stað). Því var eðlileg tilhneiging hjá bankamönnum að veita lægri tölu en raunin var (ef menn vissu yfir höfuð hver raunin væri); kerfið eins og það er sett upp hreinlega býður uppá slíkt.

Nú er ég ekki að mæla með því að verið sé að veita rangar upplýsingar. Ef kostirnir eru hins vegar að veita nákvæmar upplýsingar (eða ágiskanir um slíkt) sem leiða hugsanlega til falls banka sem væri þó í ágætri stöðu samanborið við aðra banka (meðal annars vegna þess að aðrir veita ekki nákvæmar upplýsingar og bjarga þannig þeim bönkum) eða koma með tölur sem fela í sér óeðlilega bjartsýni miðað við ástandið (aftur, eða ágiskun um bjartsýna tölu) en leiða þó ekki til falls banka, þá hlýtur að vera hægt að setja spurningarmerki við hvað flestir í slíkri stöðu gerðu.

Því skil ég ekki af hverju fréttaflutningurinn af þessu máli varð jafn heiftugur og raun bar vitni. Hugsanlega er hægt að túlka þetta að ég telji að allt sé leyfilegt ef reglurnar eru ekki nægilega góðar; ég tel það augljóslega vera langsótt.  Ef það reynist rétt að einhverjir starfsmenn hafi persónulega hagnast á slíku þá er það auðvitað glæpsamlegt. Enn sem komið er hef ég ekki rekið augun í slíkan fréttaflutning. Rétt er að taka fram að hugsanlega hafi þessi bjögun átt sér stað nokkur ár aftur í tímann en ekki verið afmörkuð við haustið 2008.  Reynist slíkt vera rétt er málið augljóslegra alvarlegra og margir hafa tekið þátt í markaðsmisnoktun sem hefur haft gríðarleg áhrif á vaxtakjör margra.

Burtséð frá hversu víðtæk þessi bjögun vaxta stóð lengi yfir og í hvaða mæli þá þarf í framtíðinni að miða við viðskipti á milli aðila við að ákveða kjör sem hafa jafn gríðarleg áhrif og LIBOR vextir. Að hringja í aðila og spyrja hvað þeir telji að kjörin séu er forneskjuleg aðferð og mun alltaf veita bjagaða mynd þegar að fjármálaheimurinn lendir í lausafjárkrísu.

Peningaþvætti

Hin fréttin fjallar um peningaþvætti; fyrst var Standard Chartered Bank var sakað um að hafi staðið að peningaþvætti í starfsemi sinni og síðan hafa aðrir bankar bæst í hópinn. Standard í fyrstu harðneitaði slíkum ásökunum bandarískra stjórnvalda og lýsti meira að segja borgarstjóri Lundúna því yfir að Bandaríkin væru að ráðast á fjármálamarkaði borgarinnar með slíkum ásökunum. Ekki liðu þó margir dagar þangað til að Standard greiddi sekt fyrir athæfið án þess að viðurkenna sök.

Sektin er ekki afgangsstærð, heldur $430. Það eru í rúmlega 50 milljarða króna, sem samsvarar byggingarkostnaði Hörpunnar og margra ára tapi við rekstur hennar. Getur verið að stór hluti af bankastarfsemi jafnvel stærstu banka Evrópu hafi tengst peningaþvætti? Þetta hlýtur hreinlega að vera frétt ársins í bankageiranum, en virðist einhvern veginn vanta persónugervingu til að ná athygli almennings.

MWM

Ég var í viðtali í Speglinum á þriðjudaginn vegna íslensku krónuna í umhverfi gjaldeyrishafta. Hægt er að nálgast upptöku af viðtalinu hér - http://www.ruv.is/sarpurinn/spegillinn/20082012/gengi-kronunnar-og-hvad-styrir-thvi


72 reglan - nálgun varðandi ávöxtun

Einföld leið til að finna út hversu mörg ár það tekur upphæð að tvöfaldast í virði miðað við ákveðna árlega ávöxtun er að deila 72* með gefna ávöxtunartölu.  Ef maður á til dæmis 100 krónur inn á bankabók sem veitir 6% árlega ávöxtun þá tekur það 12 ár (72/6% = 12 ár) fyrir 100 kallinn að breytast í 200 krónur.

Þessu fylgja þó ýmsir annmarkar.  Þessi aðferð gerir ráð fyrir hér um bil engum sveiflum í ávöxtun og niðurstaðan getur breyst mikið ef töluverðar sveiflur eru í ávöxtuninni.  Auk þess nýtist þessi nálgun aðeins við lágar ávöxtunartölur.  Augljóslega hefur 100 kallinn ekki tvöfaldast í virði ef ávöxtun hans er næsta ár 72% (72/72% = 1 ár) eða ef 36% ávöxtun á sér stað 2 ár í röð.  Það getur líka reynst vera erfitt fyrir marga að taka tillit til verðbólgu í þessu tilfelli.  Ef árleg verðbólga er 4% og ávöxtun 6% þá er árleg raunávöxtun einungis 2%.  Hér munar miklu því 100 kallinn tvöfaldast í þessu dæmi á aðeins 12 árum (72/6% = 12 ár) en tvöföldun á raungildi hans tekur 36 ár (72/2% = 36 ár).  Auk þess getur fjármagnstekjuskattur breytt forsendum mikið í slíkri nálgun en ekki verður fjallað nánar um slíkt hér.

Góð nálgun

Þessari nálgun hefur þó verið hægt að nota með góðum árangri á Íslandi.  Mest allan tíunda áratug síðustu aldar gátu þeir sem keyptu verðtryggð skuldabréf (húsbréf og spariskírteini til dæmis) reiknað með nokkurri vissu hversu lengi fjárfesting þeirra myndi tvöfaldast að raunvirði.  Ekki þurfti að taka tillit til verðbólgu því bréfin voru verðtryggð og með því að kaupa bréfin með ákveðinni árlegri ávöxtunarkröfu gat fjárfestir verið viss í sinni sök um árlega ávöxtun sína svo lengi sem útgefandi skuldabréfanna (íslenska ríkið) stæði við loforð um endurgreiðslur. 

Um miðbik áratugarins var um það bil 8% ávöxtunarkrafa á húsbréfum (tryggðum af ríkinu) sem þýddi að það tók einungis um 9 ár (72/8% = 9 ár) fyrir eiganda skuldabréfanna að tvöfalda eign sína að raunvirði, hér um bil áhættulaust.  Um aldamót hafði ávöxtunarkrafan lækkað töluvert og var þá í kringum 6%, sem þýddi að fjárfestir slíkra bréfa tvöfaldaði eign sína að raunvirði á 12 árum.  Þetta er ávöxtun sem gengur ekki til lengdar í flestum þjóðfélögum enda er Íbúðalánasjóður í dag sleikjandi sárin vegna þess hversu margir standa ekki skilum, meðal annars vegna allt of hárra raunvaxta sem hluti þjóðfélagsins ræður ekki við.

Í dag fá fjárfestar „aðeins“ um 2,5% árlega raunávöxtun af verðtryggðum bréfum (HFF flokkar) sem þýðir að það tekur tæplega 29 ár að tvöfaldast í raunvirði samkvæmt 72 reglunni.  Þetta er þó enn afar góð ávöxtun og betra en flestir eigendur hlutabréfa geta vænst í framtíðinni.  Miðað við hóflegan hagvöxt er þetta jafnvel bjartsýn ávöxtun.

Jafnvel enn betri nálgun

Önnur góð leið við að nota 72 regluna er að meta hversu raunhæfar ákveðnar forsendur um ávöxtun eru.  Þetta tengist reyndar aðeins því hversu raunhæfar ávöxtunarkröfur húsbréfa voru á seinni hluta síðustu aldar, sem sagan sýnir að voru klárlega óraunhæfar.  Í dag eru forsendur um ávöxtun lífeyris Íslendinga að þær séu ekki undir 3,5% árlega.  Miðað við 72 regluna tekur það aðeins um 20 ár fyrir eigur landsmanna að tvöfaldast að raunvirði.  Að því gefnu að hlutfall af fjárfestingum lífeyrissjóða og annarra fjárfestinga haldist óbreytt næstu árin, þá verða fjárfestingar á Íslandi tvöfalt meiri eftir einungis 20 ár heldur en þær eru í dag.

Til að þetta verði að raunveruleika þarf annaðhvor sviðsmyndin eða einhverskonar sambland af þeim að eiga sér stað í framtíðinni: 

1.       Fjárfestingar og arðsemi þeirra aukast miklu hraðar en hagvöxtur síðustu ára og líka áratuga.

2.       Hagvöxtur þarf einfaldlega a komast á sama skrið og hann var á blómaskeiði hagvaxtar í skjóli Marshall aðstoðar og mikils uppgangs í hagkerfum vesturlanda  áratugina eftir seinni heimsstyrjöldina.

Bæði ofangreind atriði eru hæpin.  Því eru grunnforsendur um lífeyri landsmanna byggðar á stoðum sem einföld 72 regla sýnir eru byggðar á sandi.

MWM

*Þetta er ekki alveg rétt, talan er rúmlega 69 en með því að nota töluna 72 sem nálgun er hægt að nota margar ávöxtunartölur, til dæmis 12%, 98%, 6%, 4%, 3% og 2%.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband