Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Líffæragjöf og hlutabréfakaup

Líffæragjöf & hlutabréfakaup

Rætt var um leiðir til að auðvelda líffæragjöf á Rás2 á miðvikudagsmorgun, þá helst hvernig best sé að fá fólk til að samþykkja slíkt, enda í mörgum tilvikum lífsspursmál að slíkt sé í réttum farvegi því að biðlisti á líffærum er langur á Íslandi.

Fram kom sú tillaga að haka ætti við á skattskýrslu að maður væri tilbúin(n) að veita líffæragjöf við andlát.  Bent var einnig á að í mörgum löndum væri þetta hluti af ferlinu við að fá ökuskírteini og jafnvel einfaldlega gert ráð fyrir svari.  Það er auk þess eðlilegt að slíkar upplýsingar séu fyrir hendi ef um banaslys sé að ræða; flest berum við ökuskírteini innanklæða.

Hlutabréfakaup

Það er praktísk sjónarmið fyrir hendi í þessu sambandi sem tengist kenningum um hlutabréfakaup.  Flest okkar sem hafa tekið þátt í hlutabréfaviðskiptum þekkja þá tilfinningu að iðrast illilega ákvarðanir við kaup á bréfum sem hafa fallið í virði.  Sú tilfinning er miklu sterkari en sú sem ríkir við að hafa sleppt kauptækifærum.

Tökum dæmi um Reyni og Einar.  Reynir á bréf í RAG hf. í upphafi árs en er að  spá í kaupum í EBA hf. með því að selja bréf sín í RAG.  Það er mikið að gera hjá Reyni og ekkert verður úr því að selja RAG bréf sín til að fjármagna kaup í EBA.  Hann er afar tvístíga í þessu en gleymir þessum áformum í hita leiksins við að uppfylla önnur áramótaheit. 

Einar er hins vegar duglegri maður.  Hann á bréf í EBA en ákveður að selja þau og kaupir hlutabréf í RAG, sama félag og Reynir á bréf í.  

Nú gerist það að bréf í RAG standa í stað þetta sama ár á meðan að gengi bréfa EBA hækkar um 20%.  Reynir er svolítið svekktur yfir að hafa ekki fært eign sína yfir í EBA en rannsóknir sýna að Einar er þó miklu svekktari yfir því að hafa, með aðgerð sinni, misst af þessari sömu 20% hækkun.

Þetta skýrir að stórum hluta til ákvörðunarfælni margra við að kaupa hlutabréf og jafnvel að ákveða sölu þeirra (sérstaklega þegar verið er að "viðurkenna" tap).  Betra er einfaldlega að taka sem fæstar ákvarðanir og þannig myndast síður iðrun vegna ákvarðana.  Það að taka ákvörðun er með öðrum orðum erfiðra en að taka enga ákvörðun og einfaldlega sigla með einhverjum straumi sem virðist vera sjálfsagður.

Líffæragjöf

Sömu rök er hægt að færa varðandi líffæragjöf; hvort sem að beðið er um að haka við slíku á ökuskírteini eða skattskýrslu. 

Það er gríðarlegur munur á prósentu þjóða innan Evrópu varðandi líffæragjöf.  Mikið ber meira að segja á milli ríkja í þeim efnum sem eru almennt sögð vera með svipaða menningu.  Í ljós hefur komið að helsti munurinn felst í því að hjá þeim ríkjum þar sem að fólk almennt samþykkir líffæragjöf er að beðið um að haka við í kassa ef fólk vill EKKI líffæragjöf en hjá ríkjum þar sem að hlutfallið er miklu lægra er fólk beðið að taka ákvörðun um að haka við í kassa að það samþykki líffæragjöf.

Því ætti það að vera augljóst hvernig spurningin um líffæragjöf hér á Íslandi ætti að vera lögð fram.

MWM

 


Atferlisfjármál - smá dæmi

Þú hefur tvo valkosti 

 Valkostur 1. er að það séu 100% líkur á því að þú hagnist 3.000 krónur

 

 Valkostur 2. er að það séu 80% líkur á því að þú hagnist um 4.000 krónur en á móti kemur að það eru 20% líkur á því að þú fáir ekkert.

Hvorn kostinn velur þú?

Svar:

.....

.....

.....

.....

.....

Það er í raun ekkert rétt svar við þessu.  Svangur maður sem á ekki pening fyrir mat ætti augljóslega að velja 1. valkost.  Flest okkar ættu, aftur á móti, að velja kost 2. því að miðað við einföld líkindi ætti manneskja að meðaltali að fá 3.200 krónur (4.000 sinnum 0,8). 

Það sem að flestir velja, aftur á móti, er valkostur 1. Ástæðan er sú að spurningin er lögð fram sem hagnaður. Fólk er almennt áhættufælið þegar kemur að fjármálum og metur almennt tapaða krónu meira en grædda krónu. Þetta á sérstaklega við þegar að spurningin er lögð með þeim hætti að verið sé að ræða hagnað. Í þessu tilviki segja því um 4 af hverjum 5 manneskjum að þær vilji fá 3.000 krónur án áhættu í hús.

Það er önnur hlið á þessu máli sem ég mun fjalla um síðar.

MWM 


Orkuveita Reykjavíkur - kennsluefni

Svört skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur ætti ekki að koma mörgum á óvart.  Ein jákvæð hlið að málinu, kannski ekki alveg glóbjört, er að gjörðir stjórnar og framkvæmdastjórnar fyrirtækisins í nokkur ár er frábært kennsluefni í fjármálafræðum, sérstaklega varðandi fjármögnun fyrirtækja.  Nánast allt það sem ekki á að gera er gert á þessum árum.  Að neðan er hópverkefni sem ég útbjó og hef notað í 2 bekkjum sem ég hef kennt.

Hópverkefni

"Dagsetningin er vor 2004.  Þið eruð beðin um að greina stöðu OR, en hlekkur að ársskýrslu fyrirtækisins er að neðan.  Það á hugsanlega að selja fyrirtækið en ef ekki þá verður líklegast farið í skuldabréfaútboð á haustmánuðum.  Þar sem þið eruð fjármálafræðingarnir þá eru engar sérstakar spurningar lagðar fram.  Þið þurfið að meta stöðuna sjálfsstætt.  Manneskjan sem fer fram á úttektina hefur hins vegar gífurlegt álit á kennslunni í MWM háskólanum; því þarf hópurinn að vera með það á hreinu að allir stærðir, hlutföll, tækifæri og takmarkanir sem tengjast fjármálum og fjallað er um í tímum séu í greiningunni.  Einnig er vitað að svipaðar beiðnir hafa verið hentar í ruslið sem eru fullar af uppfyllingar texta – það þarf að koma öllum upplýsingum á framfæri með skipulögðum hætti.

http://www.or.is/media/PDF/%C3%81rssk%C3%BDrsla%202003.pdf

Dagsetningin er vor 2011.  Sama beiðni og sú sem lýst er að ofan kemur aftur.  Nú þarf þó einnig að greina hvað hafi gerst í millitíðinni og benda á jákvæð og neikvæð atriði.  Einnig þarf að koma fram í úttekt tillaga um stefnu í fjármálum.  Ofangreindur samanburður á milli tímabila og tillaga um stefnu í fjármálum þarf hópurinn að fjalla um í upphafi síðasta tíma áfangans.  Sú framsetning má ekki vera undir 10 mínútum en ekki meira en 15 mínútur.  Hver hópur sem fylgist með þarf að spyrja í það minnsta 2 spurningar hver í framhaldinu.  Mæting skiptir máli varðandi einkunn í síðasta tíma."

http://www.or.is/media/PDF/ORK_53492_Arsskyrsla_OR_2010.pdf

Meira um stuðmenn

Það er óhætt að segja að þetta námsefni hafi almennt stuðað fólk, sérstaklega þeirra sem búa í Reykjavík, enda sér það betur hversu miklu máli það skiptir að kunna undirstöðuatriði í fjármálum þegar kemur að rekstri fyrirtækja.  Þeim sem finnst þetta vera lítt áhugavert ættu líklegast ekki að skrá sig í námsskeið hjá mér því ég tel góðar líkur á því að ég noti þetta dæmi sem hópverkefni í nokkur ár í viðbót, það er einfaldlega mikil leit að jafn góðu efni um hvernig ekki eigi að stýra fjármálum fyrirtækis.  Ég stefni að því að skrifa bók um fjármál á enskri tungu og verður þetta dæmi örugglega hluti af henni.

Ég hef áður fjallað um málefni OR.  Meðal annars var viðtal við mig í Speglinum 3/2011 - Spegillinn_31032011.mp3

 Auk þess er kannski í dag ekki úr vegi að rifja upp skrif mín um OR 4/2010 sem eru endurbirt að neðan, þar sem meðal annars er vitnað í samantekt Morgunblaðsins um skuldsetningu OR (Morgunblaðið ætti að endurbirta þá vönduðu úttekt) og ótrúlegt viðtal sem blaðamaður Viðskiptablaðsins átti við þáverandi stjórnarformann OR (aftur, það viðtal ætti að vera endurbirt).  Stundum er sagt að ein mynd segi meira en þúsund orð; þetta viðtal segir síst minna en 600 síðna úttekt á OR.

MWM

Eitt af því áhugaverða við útlánabólu áranna 2003-2007 var hversu mikið sveitafélög og opinberar stofnanir juku skuldsetningu sína. Þetta gerðist á sama tíma og Seðlabanki Íslands hækkaði stöðugt stýrivexti - sígild skilaboð um að of mikil þensla væri að eiga sér stað í hagkerfinu.

Orkuveita Reykjavíkur (OR) er eitt dæmi. Í samantekt sem Ívar Páll Jónsson birti í Morgunblaðinu 19. nóvember 2009 sést að heildarfjárfestingar fyrirtækisins í varanlegum rekstrarfjármunum tímabilið 2002 til haustsins 2009 voru rúmlega 120 milljarðar. Á sama tímabili jókst hlutfallsleg aukning erlendra lána á milli ára gífurlega; erlendar lántökur OR voru um 165 milljarðar á tímabilinu miðað við gengi krónunnar 16. nóvember 2009. Efnahagsreikningur OR hefur meira en þrefaldast á aðeins 4 árum.

Stefna eða stefnuleysi

Í Viðskiptablaðinu birtist athyglisvert viðtal við Guðlaug Sverrisson, núverandi stjórnarmann OR, 7. janúar á þessu ári titlað 'Loksins ljóst hvert OR á að stefna'. Blaðamaður spyr hvort það hafi ekki verið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnar að koma sér ekki saman um heildarstefnu fyrr en nú (augljóslega undrandi á því að hún hafi ekki legið fyrir þegar að ráðist var í allar fjárfestingar af hálfu félagsins). Guðlaugar skautar framhjá spurningunni og einblínir á hversu jákvætt það sé að búið sé að mynda stefnu (rétt er að geta þess að hann gerðist ekki stjórnarmaður fyrr en 2008).

Forstjóri OR, Hjörleifur Kvaran, tekur undir þau orð og bætir við að vilji hafi ríkt lengi meðal stjórnenda OR að fá skýra stefnu frá stjórn fyrirtækisins. Af þessu að dæma var ráðist í fjárfestingar á tímabilinu 2002-2009 sem nema tæplega 10% af vergri þjóðarframleiðslu Íslands án þess að skýr stefna lægi fyrir.

Klukkur hringja ding-a-ling

Í viðtalinu við Viðskiptablaðið er Guðlaugur spurður að því hvort að viðvörunarbjöllur hefðu ekki átt að klingja innan OR vegna fasteignaverkefna. Guðlaugur svarar því til að vissulega hafi þær verið klingjandi alls staðar, þetta var hins vegar bjölluhljómur sem enginn fór eftir.

Síðar bætir hann því við að það hafi verið hárrétt ákvörðun að taka erlend lán þrátt fyrir að 80% tekna fyrirtækisins væru í íslenskum krónum, "lánin í erlendri mynt höfðu þann skýra kost að vera miklu ódýrari en krónulánin". Hér er Guðlaugur ekki að vísa í vaxtaálag heldur einungis vaxtastig á milli landa. Hann hefur líklegast verið annars hugar þegar að hann nam hagfræði 101 því eitt af undirstöðuatriðum í sambandi við gjaldmiðla og vaxtastigs er að gjaldmiðlar eiga að styrkjast eða veikjast í samræmi við misvægi vaxta á milli landa. Það sem er hugsanlega ekki kennt en allir með reynslu á gjaldeyrismörkuðum (eiga að) vita er að slík þróun gerist almennt ekki með reglubundnum hætti, heldur frekar með skörpum sveiflum.

Lánshæfismat OR hefur á aðeins 3 árum fallið úr Aa2 niður í Ba1. Á venjulegu máli þýðir það að skuldabréf fyrirtækisins hafa fallið úr lánshæfisflokki sem aðeins stöndugustu fyrirtæki heims fá í ruslflokk þar sem líkur á greiðslufalli eru töluverðar. OR er orkufyrirtæki, efnahagslegt hrun Íslands skýrir ekki þessa þróun.

Buffett fræði

Warren Buffett leggur áherslu á að gera ráð fyrir 'eðlilegu' sjóðsstreymi framtíðar þegar hann vegur og metur fjárfestingar. Samkvæmt því hefði hann tekið íslenskan vaxtakostnað við áætlanir, ekki erlendar vaxtatölur í þeirri von að íslenska krónan héldist sterk, þó svo að slíkt væri í andstöðu við hagfræði 101 kenningar. Síðan gerir hann ráð fyrir eðlilegan endurnýjunarkostnað tækja og tóla (í stuttu máli, afskriftir). Samkvæmt tölum OR virðist reksturinn vart ná endum saman sé horft til þessara þátta. Hagnaður er svo slakur að það virðist vera sama hvaða hlutföll sé litið á, þau eru öll skelfileg. Hið sama á við um efnahagsreikninginn.

Nokkur atriði finnst mér þó athyglisverðust. Varanlegir rekstrarfjármunir eru 241 milljarðar. Það segir hins vegar ekki alla söguna því heildarverðmæti slíkra eigna er 384 milljarðar - búið er að afskrifa 143 milljarða. Heildartekjur OR voru ekki nema 26 milljarðar á síðasta ári. Tekjur sem hlutfall af eignum eru því í besta falli tæp 11%. Skuldir OR eru um 230 milljarðar, miðað við lánshæfismat fyrirtækisins fer líklegur framtíðar vaxtakostnaður OR hátt í sömu upphæð og heildartekjur þess eru í dag.

3 önnur atriði er vert að nefna. Eigið fé OR var í árslok 2005 48 milljarðar en er komið niður í 40 milljarða í dag. Eiginfjárhlutfall hefur á sama tíma farið úr því að vera vel yfir 50% yfir í að fara undir 15%. Það má ekki miklu muna núna að eigið fé fari niður fyrir núllið hjá fyrirtæki með einokunaraðstöðu í orkugeiranum. Tap síðasta árs var um 2,5 milljarðar, engu að síður leggur stjórn OR til að 800 milljónir verði greiddar í arð.

Enn meiri skuldsetning

Nýlega ákvað OR að skuldsetja sig enn frekar með skuldabréfaútboði upp á 10 milljarða króna. Það er umhugsunarefni að sjóðsstreymi frá öllum fyrri fjárfestingum dugi ekki til fyrir frekari fjárfestingar. Maður setur einnig spurningarmerki við enn frekari fjárfestingum eftir það sem á undan hefur gengið.

Lífeyrissjóðurinn Gildi ákvað að fjárfesta ekki í bréfunum, eða með öðrum orðum að lána OR frekari pening. Viðbrögð Guðlaugs voru að senda út tilkynningu þar sem m.a. kemur fram að það komi verulega á óvart að sá lífeyrissjóður, sem er undir forystu framkvæmdastjóra atvinnulífsins, skyldi ekki taka þátt í skuldabréfaútboði OR. Með því vinnur hann gegn hagsmunum félaga sinna og þjóðarinnar í heild.

Í ljósi afkomu og skuldsetningu OR undanfarinna ára væri áhugavert að sjá stefnu fyrirtækisins. Hugsanlega er hún á vef OR en þá er hún það vel grafin að ég finn hana ekki. Stefnan er m.ö.o. ekki sýnileg raunverulegum eigendum OR (íbúar Reykjavíkur, borgin á u.þ.b. 93% í félaginu) og getur því enn ekki talist vera skýr.

Kannski heyrðu stjórnarmenn OR ekki klingjandi viðvörunarbjöllur, og af þessu dæma hafa ekki gert það enn, en fjárfestingarstjórar lífeyrissjóðsins virðast þó gera það. Væri ég sjóðsfélagi væri ég ánægður með þeirra afstöðu.


Íhaldssemi í fjárfestingum

Spurning:

Það eru 2 pokar sem líta alveg eins út lagðir fyrir framan þig, báðir innihalda 1.000 kúlur.

  1. Einn inniheldur 700 rauðar kúlur og 300 bláar kúlur.
  2. Annar inniheldur 300 rauðar kúlur og 700 bláar kúlur.

Veldu einn poka af handahófi (sem þýðir að það eru 50% líkur á því að einn af þessum tveimur pokum er valinn).  Þú tekur eina kúlu úr pokanum, skráir niður hvort að hún sé rauð eða blá og skilar henni aftur.  Ef þetta er gert 12 sinnum og fjöldi rauðra kúla er 8 og fjöldi blárra kúla er 4, hverjar eru líkurnar á því að þetta sé poki 1, með 70 rauðra kúlna?  Líkurnar eru augljóslega hærri en 50%.

Skemmtilegast er að velta þessu fyrir sér og helst skrifa svarið, jafnvel í athugasemdakerfinu, áður en lengra er haldið.

Svar

Ofangreint dæmi sem fyrst kom fram í pappír hjá Ward Edwards árið 1964 er þekkt úr heimi atferlisfjármála við það sem kallast íhaldssemi (e. Conservatism) fólks.  Hugtakið er í stuttu máli það að fólk almennt mynda ákveðið akkeri við ákveðnar upplýsingar og í ljósi nýrra upplýsinga færir það sér í átt að þeim, en það tekur oft tíma að fara "alla leið" með nýju upplýsingarnar. 

Þekkt dæmi er að fjárfestar eru lengri að melta nýjar og óvæntar upplýsingar varðandi afkomu fyrirtækja.  Því er það svo að þegar að fyrirtæki birta afkomutölur sem eru betra en almennt var gert ráð fyrir þá hækkar gengi hlutabréfa þeirra strax en heldur síðan að hækka umfram markaðsávöxtun næstu 60 daga.  Sama þróun, einfaldlega í hina áttina, á sér oft stað þegar að óvæntar neikvæðar afkomutölur eru birtar.

Í þessu dæmi er útgangspunkturinn 50% líkur fyrir hvern poka (sem ég hamraði svolítið á).  Flestir færa spá sína í rétta átt og eru algengustu svörin á bilinu 70-80% líkur.  Líkurnar eru, aftur á móti, í raun 97%.

Hægt er að lesa hvernig þetta er reiknað út hér - http://www.cut-the-knot.org/Probability/PlainRedBlueBalls.shtml#solution

MWM


Aðskilnaðarstefna í bankaþjónustu

Í dag birtist frétt - http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/10/01/meirihluti_hlynntur_adskilnadi/ - um að mikill stuðningur sé meðal landsmanna, eða rúmlega 80%, um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Það dregur reyndar úr áreiðanleika hennar að Straumur fjárfestingarbanki, sem hefur hag af slíku, kostar þessa könnun. Áhugavert væri að sjá hvernig spurningar eru til dæmis lagðar fram.

Þetta er mál sem hefur verið töluvert í umræðunni. Að mínu mati hafa helstu rök gegn slíku verið á þann veg að slíkur aðskilnaður lagi ekki allt saman og að fleiri þættir hafi ollið til dæmis bankahruninu 2008. Þetta er rétt í sjálfu sér en er svipað þeim rökum að betri nýtting á bensíni dragi aðeins úr hluta þeirrar mengunar sem við nú glímum við.

Bókin 13 Bankers * - http://www.amazon.com/13-Bankers-Takeover-Financial-Meltdown/dp/030747660X/ref=sr_1_1?s=books&ie=UTF8&qid=1349084229&sr=1-1&keywords=13+bankers - bendir á hversu mikilvægt það var bönkum að losa um regluverk og aðskilnað til þess að ná þvílíkum tökum á þjóðfélaginu í heild eins og fjármálakerfi Bandaríkjanna náði. Bankar þar hafa gífurleg pólitísk völd enda ekki von á öðru; fjármálageirinn er langstærstur þegar kemur að framlögum í kosningasjóði. Fáir stjórnmálamenn hafa því hag af því að verja stöðu almennings á kostnað banka, nema ef til vill þeirra sem hafa ekki áhuga á endurkjöri. Gagnrýni gagnvart bankakerfinu hefur því verið lítil, sérstaklega miðað við það gífurlega fjármagn sem þurfti til við að bjarga því sem bjargað var innan fjármálageirans. Þetta kemur meðal annars fram með þeim hætti að þrátt fyrir að peningur skattborgara var hið eina sem hélt bankakerfinu á floti haustið 2008 þá trúir enn meirihluti Bandaríkjamanna að regluverk innan geirans sé af hinu vonda. Því er ekki að furða að umbætur í kerfinu þar hafi verið takmarkaðar. Aðskilnaður banka og fjárfestingarbanka er stór hluti af því mengi.

Þetta þarf ekki að vera þannig hér á Íslandi. Eitt af því besta sem íslensk stjórnvöld, fyrir hönd Íslendinga, gætu gert væri að lögsetja slíkan aðskilnað. Með því væru stjórnvöld að sýna í verki, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi, að verið væri að draga lærdóm af hruninu.

Síðan þessi umræða fór af stað hafa komið fram hugmyndir um að mynda kínamúra á milli starfseminnar, aðallega með þeim rökum að kostnaður aukist svo mikið með aðskilnaði í rekstri. Með því væri aðskilnaður til staðar að nafninu til. Ég hef þó hvergi séð að hann sé það í raun þegar að mikið liggur við. Ef fjárfestingararmur banka fer á hausinn, hver annar en skattgreiðandi kemur til bjargar viðskiptabankastarfseminni?

Auk þess efast ég um að fólk með slík rök um aukinn kostnað hafi í raun starfað við fjárfestingarbankastarfsemi. Aukinn kostnaður er nefnilega sáralítill ef einhver, sérstaklega þegar að hægt er að útvista starfsemi varðandi ýmsa þætti slíkrar þjónustu án þess að það bitni á trúverðugleika rekstrar.

MWM

* Því má bæta við að annar höfundar bókarinnar, Simon Johnson, hélt rafmagnaða ræðu á fundi AGS á Íslandi 10/2011.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband