Aðskilnaðarstefna í bankaþjónustu

Í dag birtist frétt - http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/10/01/meirihluti_hlynntur_adskilnadi/ - um að mikill stuðningur sé meðal landsmanna, eða rúmlega 80%, um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Það dregur reyndar úr áreiðanleika hennar að Straumur fjárfestingarbanki, sem hefur hag af slíku, kostar þessa könnun. Áhugavert væri að sjá hvernig spurningar eru til dæmis lagðar fram.

Þetta er mál sem hefur verið töluvert í umræðunni. Að mínu mati hafa helstu rök gegn slíku verið á þann veg að slíkur aðskilnaður lagi ekki allt saman og að fleiri þættir hafi ollið til dæmis bankahruninu 2008. Þetta er rétt í sjálfu sér en er svipað þeim rökum að betri nýtting á bensíni dragi aðeins úr hluta þeirrar mengunar sem við nú glímum við.

Bókin 13 Bankers * - http://www.amazon.com/13-Bankers-Takeover-Financial-Meltdown/dp/030747660X/ref=sr_1_1?s=books&ie=UTF8&qid=1349084229&sr=1-1&keywords=13+bankers - bendir á hversu mikilvægt það var bönkum að losa um regluverk og aðskilnað til þess að ná þvílíkum tökum á þjóðfélaginu í heild eins og fjármálakerfi Bandaríkjanna náði. Bankar þar hafa gífurleg pólitísk völd enda ekki von á öðru; fjármálageirinn er langstærstur þegar kemur að framlögum í kosningasjóði. Fáir stjórnmálamenn hafa því hag af því að verja stöðu almennings á kostnað banka, nema ef til vill þeirra sem hafa ekki áhuga á endurkjöri. Gagnrýni gagnvart bankakerfinu hefur því verið lítil, sérstaklega miðað við það gífurlega fjármagn sem þurfti til við að bjarga því sem bjargað var innan fjármálageirans. Þetta kemur meðal annars fram með þeim hætti að þrátt fyrir að peningur skattborgara var hið eina sem hélt bankakerfinu á floti haustið 2008 þá trúir enn meirihluti Bandaríkjamanna að regluverk innan geirans sé af hinu vonda. Því er ekki að furða að umbætur í kerfinu þar hafi verið takmarkaðar. Aðskilnaður banka og fjárfestingarbanka er stór hluti af því mengi.

Þetta þarf ekki að vera þannig hér á Íslandi. Eitt af því besta sem íslensk stjórnvöld, fyrir hönd Íslendinga, gætu gert væri að lögsetja slíkan aðskilnað. Með því væru stjórnvöld að sýna í verki, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi, að verið væri að draga lærdóm af hruninu.

Síðan þessi umræða fór af stað hafa komið fram hugmyndir um að mynda kínamúra á milli starfseminnar, aðallega með þeim rökum að kostnaður aukist svo mikið með aðskilnaði í rekstri. Með því væri aðskilnaður til staðar að nafninu til. Ég hef þó hvergi séð að hann sé það í raun þegar að mikið liggur við. Ef fjárfestingararmur banka fer á hausinn, hver annar en skattgreiðandi kemur til bjargar viðskiptabankastarfseminni?

Auk þess efast ég um að fólk með slík rök um aukinn kostnað hafi í raun starfað við fjárfestingarbankastarfsemi. Aukinn kostnaður er nefnilega sáralítill ef einhver, sérstaklega þegar að hægt er að útvista starfsemi varðandi ýmsa þætti slíkrar þjónustu án þess að það bitni á trúverðugleika rekstrar.

MWM

* Því má bæta við að annar höfundar bókarinnar, Simon Johnson, hélt rafmagnaða ræðu á fundi AGS á Íslandi 10/2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband