Líffæragjöf og hlutabréfakaup

Líffæragjöf & hlutabréfakaup

Rætt var um leiðir til að auðvelda líffæragjöf á Rás2 á miðvikudagsmorgun, þá helst hvernig best sé að fá fólk til að samþykkja slíkt, enda í mörgum tilvikum lífsspursmál að slíkt sé í réttum farvegi því að biðlisti á líffærum er langur á Íslandi.

Fram kom sú tillaga að haka ætti við á skattskýrslu að maður væri tilbúin(n) að veita líffæragjöf við andlát.  Bent var einnig á að í mörgum löndum væri þetta hluti af ferlinu við að fá ökuskírteini og jafnvel einfaldlega gert ráð fyrir svari.  Það er auk þess eðlilegt að slíkar upplýsingar séu fyrir hendi ef um banaslys sé að ræða; flest berum við ökuskírteini innanklæða.

Hlutabréfakaup

Það er praktísk sjónarmið fyrir hendi í þessu sambandi sem tengist kenningum um hlutabréfakaup.  Flest okkar sem hafa tekið þátt í hlutabréfaviðskiptum þekkja þá tilfinningu að iðrast illilega ákvarðanir við kaup á bréfum sem hafa fallið í virði.  Sú tilfinning er miklu sterkari en sú sem ríkir við að hafa sleppt kauptækifærum.

Tökum dæmi um Reyni og Einar.  Reynir á bréf í RAG hf. í upphafi árs en er að  spá í kaupum í EBA hf. með því að selja bréf sín í RAG.  Það er mikið að gera hjá Reyni og ekkert verður úr því að selja RAG bréf sín til að fjármagna kaup í EBA.  Hann er afar tvístíga í þessu en gleymir þessum áformum í hita leiksins við að uppfylla önnur áramótaheit. 

Einar er hins vegar duglegri maður.  Hann á bréf í EBA en ákveður að selja þau og kaupir hlutabréf í RAG, sama félag og Reynir á bréf í.  

Nú gerist það að bréf í RAG standa í stað þetta sama ár á meðan að gengi bréfa EBA hækkar um 20%.  Reynir er svolítið svekktur yfir að hafa ekki fært eign sína yfir í EBA en rannsóknir sýna að Einar er þó miklu svekktari yfir því að hafa, með aðgerð sinni, misst af þessari sömu 20% hækkun.

Þetta skýrir að stórum hluta til ákvörðunarfælni margra við að kaupa hlutabréf og jafnvel að ákveða sölu þeirra (sérstaklega þegar verið er að "viðurkenna" tap).  Betra er einfaldlega að taka sem fæstar ákvarðanir og þannig myndast síður iðrun vegna ákvarðana.  Það að taka ákvörðun er með öðrum orðum erfiðra en að taka enga ákvörðun og einfaldlega sigla með einhverjum straumi sem virðist vera sjálfsagður.

Líffæragjöf

Sömu rök er hægt að færa varðandi líffæragjöf; hvort sem að beðið er um að haka við slíku á ökuskírteini eða skattskýrslu. 

Það er gríðarlegur munur á prósentu þjóða innan Evrópu varðandi líffæragjöf.  Mikið ber meira að segja á milli ríkja í þeim efnum sem eru almennt sögð vera með svipaða menningu.  Í ljós hefur komið að helsti munurinn felst í því að hjá þeim ríkjum þar sem að fólk almennt samþykkir líffæragjöf er að beðið um að haka við í kassa ef fólk vill EKKI líffæragjöf en hjá ríkjum þar sem að hlutfallið er miklu lægra er fólk beðið að taka ákvörðun um að haka við í kassa að það samþykki líffæragjöf.

Því ætti það að vera augljóst hvernig spurningin um líffæragjöf hér á Íslandi ætti að vera lögð fram.

MWM

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband