Verðmætustu fyrirtæki heims

Það vakti töluverða athygli þegar markaðsvirði Apple rauf 1.000 milljarða dollara múrinn um daginn. Þetta er ekki lítil tala. Samtala íslenskra skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni hefur sveiflast í kringum þessa tölu undanfarin ár, nema hvað sú tala er í krónum en ekki bandarískum dollurum, en hver dollari kostar nú í kringum 110 íslenskar krónur. Markaðsvirði Apple er með öðrum orðum meira en 100-falt meira en markaðsvirði allra íslenskra skráðu félaganna. Annað viðmið er fjármálakerfi Íslands. Miðað við markaðsvirði Arion banka út frá virði eigin fjár bankans má áætla að markaðsvirði allra þriggja innlendu bankanna sé rúmlega 500 milljarða króna, sem þýðir að markaðsvirði Apple er 200-falt meira virði en slagæðar íslenska fjármálakerfisins (ég undanskil hér lífeyrissjóðina).

5 stærstu og FAANG

Þetta er vissulega áhugaverð tala en hún segir þó einungis lítinn hluta sögunnar. Markaðsvirði sumra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum hefur hækkað gífurlega undanfarin ár, án þess að slíkt hafi vakið mikla athygli. NASDAQ hlutabréfavísitalan hefur til að mynda fimmfaldast eftir að hafa náð lágmarki í mars árið 2009 í miðri kreppunni sem kom í framhaldi af húsnæðisbólunni og skuldsetningar árin áður. Þó vísitölurnar hafi hækkað mikið hefur slíkt ekki átt sér stað með fjölda fyrirtækja, heldur hafa ákveðin fyrirtæki leitt þær hækkanir. Í því tilliti er oft er talað um FAANG fyrirtæki, sem er skammstöfun á fyrirtækjunum:

Facebook

Amazon

Apple

Netflix

Google (sem heitir tæknilega Alphabet í dag)

Þessi fyrirtæki hafa hækkað gríðarlega í virði síðustu ár. Sem dæmi má nefna að markaðsvirði Netflix hefur 80-faldast síðastliðinn áratug. Virði Google hefur „einungis“ fimmfaldast á sama tímabili.

Fjögur af þessum fimm fyrirtækjum, Apple, Amazon, Facebook og Google, eru meðal fimm verðmætustu fyrirtækja heims í dag. Við bætist svo „gamli“ tölvurisinn Microsoft. Ekki er þar með sagt að það sé einungis vegna fyrri afreka því markaðsvirði Microsoft hefur þrefaldast síðustu fimm árin. Hefði sú mikla hækkun ekki átt sér stað væri Microsoft ekki einu sinni meðal 10 stærstu fyrirtækja heimsins.

Það er einnig áhugavert að þrjú af þessum fimm fyrirtækjum eru innan við aldarfjórðungs gömul. Amazon var stofnað árið 1994, Google árið 1998 og Facebook árið 2004.

2008 og 2018

Ef litið er áratug til baka, nánar tiltekið til ársins 2008, þá kemur í ljós að af 10 stærstu fyrirtækjum heims (miðað við markaðsvirði) á þeim tímapunkti eru einungis Microsoft og ExxonMobil enn á listanum. ExxonMobil var verðmætasta fyrirtæki heimsins þá en er í dag einungis í tíunda sætinu. Microsoft var þá fjórða stærsta fyrirtæki heims og heldur enn þeirri stöðu.

Þetta endurspeglast í fjárfestingum fyrirtækja. Í nýlegu hefti The Economist (sem vísar í heimildir hjá Bloomberg) kemur fram að þau fyrirtæki sem fjárfestu mest árið 2008 voru Chevron, ExxonMobil (olíufyrirtæki), AT&T, Verizon (fjarskiptafyrirtæki) og General Electric. Í dag tróna Apple, Alphabet, Amazon, Intel og Microsoft efst á þeim lista. Hlutfall fjárfestinga tæknifyrirtækja af fyrirtækjum í S&P 500 hlutabréfavísitölunni hefur um það bil tvöfaldast síðan 2008.

Það er einnig merkilegt að markaðsvirði Facebook, sem er fimmta verðmætasta fyrirtæki heims í dag, er nú hærra en markaðsvirði Apple í ársbyrjun 2014, en Apple var þá þegar orðið verðmætasta fyrirtæki heimsins. Síðan þá hefur markaðsvirði Apple þó meira en tvöfaldast.

Væntingar fjárfesta

Erfitt er að segja til um hvort væntingar fjárfesta séu að nálgast órökrænar væntingar. Mikill vöxtur hagnaðar þarf að eiga sér stað hjá flestum þessara tæknifyrirtækja til að núverandi verðmat standist eðlilegar væntingar. Undantekningin er Apple, en mesta óvissan þar snýst í kringum það hvort fyrirtækið haldi þeirri góðu framlegð sem einkennt hefur rekstur þess síðustu árin.

Mín tilfinning er sú að hugsanlega séu sumir farnir að fjárfesta í þessum fyrirtækjum á nánast hvaða verði sem er til að missa ekki af lestinni, en mér gæti skjátlast. Í mínum huga er ekki sama bóla í verðmyndun þessara fyrirtækja en lítið má út af bregða til að gengi þeirra falli töluvert.

MWM

ps. Ég var í viðtali vegna þessa efnis á Rás 1 í morgun. Hægt er að hlusta á það hér en það hefst eftir 39 mínútur. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir þetta Már. Góður að venju.

Að mínu mati á Apple ekki heima í þessum furðulega hópi, þar sem Apple er heill eignaflokkur útaf fyrir sig (asset class), og P/E hlutfall þess er einnig allt öðru vísi en hinna.

Svo er annað, markaðsvirði yfir billjón dali er ekki sérlega mikið miðað við samanlagða stærð hagkerfa heimsins núna, þar sem búið er að lyfta milljörðum af fólki upp úr sárri fátækt og upp í hóp neytenda. Einhversstaðar mun sú stærð koma fram og endurspeglast í afkomutölum fjölda fyrirtækja.

En auðvitað get ég haft rangt fyrir mér.

En póstverslun er og verður hins vegar ávallt bara póstverslun, sama á hvaða fasta eða fljótandi formi búðarglugginn hennar er. Allt á bak við búðarglugga Amazon lítur nákvæmlega eins út og í hefðbundnum póstverslunum - og síðan hvenær hafa þær þótt spennandi í augum fjárfesta (jú kannski þegar US.Post var stofnað og prentvélar urðu afkastamiklar). Er ansi hræddur um að fjárfestar verði fyrir vonbrigðum þegar þeim verður það ljóst, og að WalMart fái þá aðra merkingu í augum þeirra miðað við P/E-fjallið Amazon Inc. núna.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 13.8.2018 kl. 14:23

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

He he, amazon er með heiljarinnar P/E fjall, rétt hjá þér. En þeir eru með ca. helming allrar netverslunar USA. Ég játa, ég get ekki verðlagt amazon með góðum hætti því forsendur eru byggðar á vexti hagnaðar sem gæti átt sér stað og gæti þó aldrei komið fram.

Már Wolfgang Mixa, 19.9.2018 kl. 19:45

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Mja..

Fjarverslun í U.S. verður sennilega aldrei meiri en ca 5-8 prósent af allri smásöluverslun. Hún er um 3 prósent núna (vefverslun meðtalin) af öllum neysluvarningi. Einhverra hluta vegna vill fólk frekar múrsteinabúðir en póskassaverslanir. Þetta er svipað hlutfall og þegar JC Penny og aðrar katalóga-fjarverslanir Bandaríkjanna gengu hve best. Bretland er með tæplega 7 prósent núna og er það sama hlutfall og þegar bresku katalóg-fyrirtækin gengu hve best í kringum 1980-1990, en sem eru að mestu dauð í dag vegna þess að þau höfðu ekki efni á að endurnýja sig á sama tíma og þau voru með búðarfrontinn á pappírsformi, og fjárfestingarfé til þeirra þornaði upp þegar vef-fyrirtækin komu og bjuggu til dot.com bóluna. Boo.com fékk t.d. 130 milljón USD fjárfestingafé til að þróa vefverslun þar sem spritt-nýtt miðlægt IBM-rauntímakerfi þeirra átti að geta annað 300 kúnnum á sekúndu. Aldrei varð þörf á meiru en einni Windows PC-tölvu til að anna pöntunum. En Boo var svo selt gjaldþrota í brotajárn fyrir minna en 2 milljónir USD. Öllu fé fjárfesta var brennt til ösku á minna en tveimur árum.

Fjarverslun er með stærstu markaðshlutdeild sína í skrifstofuvörum (50%) í Bandaríkjunum, svo koma bílavarahlutir (30%) og síðan stórmagasín (department stores) (20%). Fjarverslun er með sína lægstu hlutdeild í súpermörkuðum (1%). Yfir alla línuna er þetta um tæplega 3 prósent. Já Amazon er með rúmlega 50 prósent af þessum tæplega þremur prósentum og til að ná þeim þurfa þeir kannski milljónir vörunúmera. Apple er með 4 prósent af þessum markaði og nær honum með sennilega ekki fleirum en 50 vörunúmerum. Amazon verður eins konar Samsung á sterum, með síma, uppþvottavélar og jarðýtur í sömu samsteypu. Mjög spennandi fyrir þá sem hafa áhuga á til dæmis hverju sem er.

Ég sé engan mun á pappír og pixel, starfrænt séð (operational), nema það að búðarfrontur pixel-verslana kostar mörgum sinnum meira en það kostaði að reka DTP-deildir og djúpprentun katalóga. Og svo er markaðsfærslan hjá stafrænum pixel-fyrirtækjum enn meira rautt haf í dag en hún var þá. Margin fjarverslana með allskonar af öllu, er alltaf lægra en hjá hefðbundnum smásölum.

Amazon er mað alla þá innviði sem gömlu póstverslanirnar urðu að hafa og gott betur en það. Og 21,7 milljarða dala sendingarkostnaður Amazon á síðasta ári er... já hve margar meiriháttar múrsteinsverslanir á ári gerir það? Enda er það þangað sem fyrirtækið stefnir og verður að stefna til að lifa af.

Ég er svo gamaldags að segja að hér er engin bylting í gangi önnur en sú sem við ávallt höfum fyrir augum okkar, þ.e. hin svo kallaða "skapandi eyðilegging" þar sem forminu á fjarverslunarbransanum er umbylt og nýir aðilar koma í stað þeirra gömlu til að bítast um sömu markaðahlutdeildina. Það er ekkert konceptualt breytt í þessum hluta smásölubransans: þ.e. í fjarverslun. Það eina sem er nýtt og gengur virkilega vel í fjarsölu, er sala á stafrænum tækjum og varahlutum.

Mja. Hef séð svona bólu áður. En ég get svo auðveldlega haft rangt fyrir mér.

Gunnar Rögnvaldsson, 20.9.2018 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband