Lágmark 50% - Algjört lágmark

Vorið 2009 skrifaði ég grein varðandi fjárfestingastefnu lífeyrissjóða. Fram kom sú skoðun mín að meginþungi fjárfestinga lífeyrissjóða ætti að vera á svæðum sem eru óháðari árferði efnahags Íslendinga, með öðrum orðum á alþjóðlegum mörkuðum. Benti ég á að í 36. gr. í VII kafla laga um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða (1997 nr. 129) væru ákvæði með það fyrir augum að lágmarka áhættu. Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissjóðir skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign hvers sjóðs.

Taldi ég að breyta ætti þessari löggjöf með þeim hætti að takmörk séu á innlendri fjárfestingu, ekki erlendri. Ekki væri óeðlilegt að af heildarfjárfestingum, að húsnæðislánum undanskildum, væru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða á bilinu 70-80% af fjárfestingarsafni þeirra. Hef ég í kennslu í HR síðustu sjö ár bent á kosti þess að fjárfesta á erlendri grundu, og sýnt meðal annars að hefðu lífeyrissjóðir haft helming eigna sinna erlendis þá hefði eignasafn þeirra jafnvel hækkað í íslenskum krónum talið sökum veikingu hennar.

Þessi skoðun hafði þó lítinn mátt þegar að þessi tillaga mín birtist fyrst, þegar að gjaldeyrishöft voru ríkjandi. Slíkt hefur hins vegar breyst mikið síðustu ár. Nú er svo komið að yfir 40% af fjárfestingum ákveðinna lífeyrissjóða er á alþjóðlegum vettvangi. Löggjafarvaldið ætti að vinna í því að gólf, ekki þak, verði sett á fjárfestingum lífeyrissjóða á erlendum vettvangi. Slíkt gólf ætti að mínu mati að vera að lágmarki 50% og er ekki óeðlilegt að lífeyrissjóðir hefðu svigrúm til ársins 2025 til að uppfylla slíkt skilyrði.

MWM


Tvísýnleiki fólks á leigumarkaði – Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst

Viðskiptaráð Íslands birti um daginn útreikninga á svokallaðri eymdarvísitölu. Ef árin eftir hrun eru fráskilin þá hefur hún aldrei mælst jafn há og nú. Þetta ætti ef til vill ekki að koma á óvart. Samkvæmt Félagsvísum sem Hagstofan birti í sumar hefur staða verst settu hópa á Íslandi ekki lagast eins og ætla mætti í ljósi stöðugs hagvaxtar frá hruni (merki eru um að Covid sé tímabundið slæmt ástand sem nú hjaðni fljótt). Athygli vekur hversu mikla áherslu skýrslan leggur á stöðu fólks á húsnæðismarkaði. Nokkrir hópar standa augljóslega verst frá efnahagslegu sjónarmiði, fólk sem býr eitt og einstæðir foreldrar. Fram kemur að árið 2019 (síðasta ár í úrtakinu) var hlutfall einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum hærra en nokkru sinni síðan að mælingar hófust árið 2004. Einnig kemur fram að íþyngjandi húsnæðiskostnaður sé mun algengari hjá fólki sem leigir en þeim sem eru á leigumarkaði.

Þetta má að stórum hluta rekja til eftirmála hrunsins. Hlutfall heimila á leigumarkaði hækkaði úr 17% árið 2007 í 28% árið 2012, og var mesta aukningin meðal fólks á aldrinum 25–34 ára, lágtekjufólks og einstæðra foreldra. Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir samfelldan hagvöxt síðan þá. Það sem meira er, langflestir Íslendingar kjósa að komast af leigumarkaði en einfaldlega geta það ekki.

Ný grein, Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst, sem ég skrifaði ásamt Kristínu Loftsdóttur og Önnu Lísu Rúnarsdóttur, lítur á aðstæður fólks á leigumarkaði. Sjónum er aðallega beint að því hvort sá hópur glími við tvísýnleika eða ekki. Viðtöl við marga einstaklinga með ólíkan bakgrunn gefur því miður til kynna að fólk glímir almennt við mikið óöryggi varðandi húsaskjól, aðstæður húsnæðis og leiguverð.

Þetta óöryggi tengist, kaldhæðnislega, að stórum hluta helsta drifkrafti íslensks efnahagslífs síðustu ára; ferðamennskuna. Ekki aðeins fóru margar íbúðir af almennum leigumarkaði vegna þess að þeim var umbreytt í Airbnb íbúðir heldur bættust við um það bil sjö þúsund innflytjendur við störf í ferðamálageiranum, sem jók enn frekar eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Um það fjalla ég í annarri grein sem birtist sem bókarkafli í nýrri bók á vegum Springer útgáfunnar.

Greinin er birt í tímariti Íslenska þjóðfélagsins og er hægt að nálgast hana á þessari slóð - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Því má við bæta að ég og Kristín Erla Tryggvadóttir höfum síðustu vikurnar verið að draga saman gögn varðandi stöðu fólks á leigumarkaði. Við stefnum að því að hafa fyrirlestur varðandi fyrstu niðurstöður okkar innan tíðar í HR. Auk þess hefur Erika Rós Grétarsdóttir bæst í hópinn til að aðstoða okkur við samanburðargreiningu á íslenskum tölum og húsnæðistölum á alþjóðlegum vettvangi.

MWM


Stýrivextir, húsnæðislán og ISK

Fréttir tröllríða nú íslenskum fjölmiðlum um vænt áhrif stýrivaxtahækkana. Greiningardeildir bankanna eru nokkuð samhljóma varðandi spá um skarpa hækkun stýrivaxta næstu árin og er talan „4% plús“ orðin almenn. Í síðustu viku var fjallað um að litlu hefði mátt muna að stýrivextir hækkað 0,25% meira en raunin varð. Ég tel það vera ólíklegt að stýrivextir hækki svona mikið. Ein ástæða er að verðbólga næstu tólf mánaða er líklegast tímabundin. Framboðshlið vara á alþjóða vettvangi er að aðlaga sig gagnvart aukinni eftirspurn samhliða hjöðnun Covid áhrifa. Það eru, aftur á móti, önnur atriði innanlands sem ég einblíni á hér varðandi þessa skoðun mína.

Greiðslubyrði húsnæðislána og stýrivextir

Ljóst er að stýrivextir eiga eftir að hækka; sögulega séð eru þeir almennt í kringum verðbólgu hverju sinni en hafa síðan Covid skall á verið um 3% undir verðbólgu, sem sýnir lítil merki um að hjaðna undir óbreyttum kringumstæðum. Áhyggjur eru um að greiðslubyrði óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum hækki mikið því „leigukostnaður“ lánanna hækkar í ákveðnum takti við stýrivexti. Hafa margir lántakendur gripið til þess ráðs að umbreyta lánum sínum í fasta vexti. Það er þó ekki alveg augljóst hversu miklum árangri það skilar því álagið við að skipta yfir í fasta vexti er í kringum 1%. Auk þess eru slíkir vextir einungis fastir í þrjú eða fimm ár; eftir það fylgja þeir vaxtastigi þess tíma þegar „fasta“ tímabilinu lýkur.

Sé gert ráð fyrir að óverðtryggð lán hækki í svipuðum takti og stýrivextir, þá má ætla að vaxtakjör fólks með slík lán tvöfaldist á nokkrum árum, eða úr um það bil 3,5% uppí allt að 7%, gangi spár greiningadeilda eftir. Greiðslubyrði fólks sem er með lán til lengri tíma en 20 ár myndi samkvæmt þessu næstum því einnig tvöfaldast (afborganir á lengri lánum vigta hlutfallslega minna af greiðslubyrðinni). Þetta væri heldur erfið lexía fyrir flesta sem tóku slík lán.

Ég á, hins vegar, bágt með að trúa því að Seðlabankinn láti slíkt gerast án þess að leita allra leiða til að koma í veg fyrir það. Aðrar leiðir eru færar til að draga úr verðbólgu. Þó svo að óhjákvæmilegt sé að stýrivextir hækki meira en þeir eru nú þá tel ég að spár greiningadeilda varðandi stýrivaxtastig næstu ára vera full svartsýna.

Vert er að hafa í huga að stýrivextir einir sér hafa í raun sáralítil áhrif á efnahagslífið í heild. Hér má benda á að stýrivextir í dag miðast við hvað fjármálastofnanir fá fyrir að leggja pening í Seðlabankann, ekki lánakostnaður þeirra eins og var árin fyrir hrun.

Aðrar leiðir

Ein leið, sem ég hef áður bent á, er einfaldlega að hefja inngrip á gjaldeyrismarkaði og kaupa íslenskar krónur. Slíkt myndi styrkja íslensku krónuna, sem gerir það að verkum að erlendar verðhækkanir koma síður fram, ef nokkuð, í íslensku verðlagi. Óvíst er hversu mikið inngrip Seðlabankinn þurfi við þetta. Veltur það aðallega á ferðamannastraumnum. Ef væntingar um fjölda ferðamanna á næstu misserum ganga eftir er líklegt að gengi krónunnar styrkist í svipuðum dúr og gerðist árin 2015-2019.

Auk þess er líklegt að bankarnir hefjist handa við að greiða á ný arð til hluthafa sinna. Seðlabankinn skrúfaði fyrir slíkar greiðslur í upphafi Covid til að tryggja nægilega mikið peningamagn í umferð í þáverandi óvissu, en nú er engin ástæða fyrir slíku (búið er að rýmka reglurnar). Arion banki hefur notað umfram fjármagn sitt að hluta til við endurkaup eigin bréfa, en hækki gengi bréfa bankans enn frekar er líklegt að bankinn sjái minni ástæðu til að halda slíkum endurkaupum áfram. Miðað við þær björtu horfur sem nú ríkja í rekstri bankanna er líklegt að þeir nýti enn frekar svigrúm til að nota umfram fjármagn í arðgreiðslur frekar en að kynda undir verðhækkunum húsnæðis með fasteignalánum. Samkvæmt flestum rannsóknum varðandi hækkun húsnæðis þá er það þessi „vilji“ sem er helsta almenna ástæða fyrir hækkunum húsnæðis (framboðs og eftirspurnarsambandið er flóknara en almennt er kennt í hagfræði 101 áföngum).

Stýrivextir hækka, en ekki svona mikið

Seðlabankastjóri sagði nýlega í viðtali að Íslendingar hafi nú möguleika á því að búa við stöðugt lágvaxtaumhverfi. Mér þætti það undarlegt ef peningastefnunefndin myndi í framhaldi af slíkum yfirlýsingum hefja mikið og skarpt vaxtahækkanaferli. Líklegra er að Seðlabankinn grípi fyrst til ofangreindra úrræða.

MWM


Verðbólguvæntingar - hækkandi stýrivextir og sterkari króna

Hagfræðideild Landsbankans birti í morgun uppfærða verðbólguspá. Gerir deildin ráð fyrir meiri verðbólgu til skemmri tíma miðað við fyrri spár hennar. Hún telur að verðbólga verði í janúar verði 4,8% og 3,2% án húsnæðisþáttar. Þetta er töluvert umfram verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Þó svo að deildin spái hjaðnandi verðbólgu í framhaldinu þá eru blikur á lofti í þeim efnum. Erlendis hefur verðbólga ekki mælst jafn há í áraraðir og er til að mynda 5,4% nú í Bandaríkjunum. Í Bretlandi er vöruskortur á nauðsynjavörum kominn á það stig að fólk er farið að kaupa jólamatinn strax í október. Costco verslanir eru farnar að skammta klósettpappír. Hrávöruskortur er allsráðandi, sem hefur leitt til þess að vöntun á orku er meiri en í manna minnum á sumum svæðum. 

Neysluvísitala

Stór hluti af neysluvísitölunni samanstendur af innfluttum vörum. Slíkt kom áþreifanlega fram í framhaldi af hruninu þegar að íslenska krónan hrundi á alþjóðlegum mörkuðum; innfluttar vörur ruku upp í verði með tilheyrandi verðbólgu þrátt fyrir að húsnæðisverð lækkaði rúmlega 15%. Hækkandi verðbólga erlendis á vörum sem Íslendingar flytja inn eykur því að öllu óbreyttu þrýsting á viðvarandi verðbólgu hérlendis á næsta ári.

Seðlabankinn

Seðlabankinn hefur lýst því yfir að stefnan hjá honum sé að viðhalda lágu vaxtastigi. Það gengur þó ekki til lengdar að halda stýrivöxtum miklu lægri en verðbólgu. Skuldabréfamarkaðurinn hefur nú þegar reiknað hækkandi vöxtum í ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Ein leið til að draga úr verðbólgu er í gegnum virði fasteigna. Ólíklegt er hins vegar að bankinn vilja snöggkæla fasteignamarkaðinn.

Því tel ég það vera líklegt að Seðlabankinn grípi til þess ráðs að hefja á ný inngrip inná gjaldeyrismarkaði með kaupum á íslensku krónunni. Slíkt leiðir til styrkingar krónunnar. Vegur það á móti þeirri verðbólgu sem nú ríkir erlendis. Með þessu dregur bankinn úr innlendri verðbólgu og kemst hjá því (vonandi) að hér fari verðbólga úr böndunum án þess að snarhækka skammtímavexti.

MWM

Ég var í gær í viðtali hjá Magdalenu Önnu Torfadóttur í þættinum Markaðurinn. Hægt er að sjá það hérna - https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/markadurinn/13-oktober-2021/

 

 

 

 


Már Wolfgang Mixa - Við og hinir

Að stilla upp andstæðunum „Við og hinir“ er algeng leið til að fá fólk í lið með sér. Stundum myndast nokkurs konar Dýrabær í Orwell anda, þar sem ákveðnir aðilar í „við“ hópnum hafa dulda hagsmuni . Auk þess verða „hinir“ oft blórabögglar alls hins versta í mismunandi formum. Grein (Nations of bankers and Brexiteers? Nationalism and hidden money) sem ég og Kristín Loftsdóttir skrifuðum og birtist í ritinu Race and Class kemur inn á slík atriði. Þar beinum við sjónum okkar að stemmningunni sem ríkti á Íslandi árin fyrir hrun þar sem að Danir voru í aðalhlutverki blórabögglanna. Mikil áhersla var lögð á okkur Íslendinga sem eina þjóð sem þyrfti að standa saman. Rétt eins og dýrin í sögu Orwell voru þeir sem höfðu mestu lætin alls ekki að vinna  að hagsmunum fjöldans því samtímis voru, samkvæmt gögnum Seðlabankans, peningar að fara í stórum stíl til aflandseyja og því úr íslensku efnahagskerfi (tímabundið í það minnsta).

Í tilfelli Brexit kosningabaráttunnar voru innflytjendur helstu „hinir“ blórabögglarnir. Þar lék ný tækni á samfélagsmiðlum, aðallega Facebook, stórt hlutverk. Hulið fé (e. Dark money) fjármagnaði slíka baráttu að stórum hluta. Almenningur vissi í mörgum tilvikum ekki að verið væri að hafa áhrif á skoðanir þess með kerfisbundnum hætti og enn síður hver væri að fjármagna slíkt, en innflytjendamál, sem höfðu ekki verið megin áhyggjuefni fram að árinu 2016 urðu skyndilega í aðdraganda Brexit kosninga mjög ofarlega í hugum almennings í Bretlandi.

Þetta er umhugsunarvert fyrir okkur (við) Íslendinga í dag. Eitt af því sem ég tók sérstaklega eftir við heimkomu eftir 10 ára veru í Bandaríkjunum árið 1996 var hversu einsleitt samfélag við værum. Þetta hefur gjörbreyst, meðal annars með fjölgun innflytjenda. Við erum fjölbreyttari í hugsun og sem þjóð meira víðsýn. Auk þess hafa innflytjendur verið drifkraftur í íslensku efnahagslífi. Í grein sem Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA skrifaði í fyrra, kemur eftirfarandi fram:„Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, við að festa rætur, meðal annars með því að tryggja sem bestan aðgang að íslenskukennslu. Styðja þarf sérstaklega við börn innflytjenda svo þau standi jafnfætis innfæddum.“ Því skiptir það máli að leggja áherslu á „við“ og síður á „hinir.“

MWM


Hækkandi stýrivextir - hækkandi greiðslubyrði

Það var ekki spurning um hvort heldur einungis hvenær stýrivextir kæmu til með að hækka á þessu ári. Í 4%+ verðbólgu er ekki óraunæft að stýrivextir hækki í 2,5%, sem er langtíma verðbólgumarkmið Seðlabankans, og jafnvel meira.

Eitt af því góða við óverðtryggð lán er að aðgerðir Seðlabankans í vaxtamálum hafa meiri áhrif á vaxtakostnað lána, sem í tilfelli íbúðalána má líta á sem leigukostnað þess hlutfalls húsnæðis sem eigandi þess hefur ekki greitt niður. Lækkandi stýrivextir í framhaldi af Covid-19 örvaði íbúðamarkaðinn og atvinnulíf. Hið slæma er að hugsanlega eru sumir einstaklingar sem nýlega hafa tekið óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum ekki undir það búnir að hækkandi vaxtastig gæti aukið greiðslubyrðina verulega.

Þetta á sérstaklega um þær fjölskyldur sem hafa fjármagnað sig alfarið með óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum. Greiða þarf fasta greiðslu af láninu (óverðtryggð lán eru almennt með föstum afborgunum) og auk þess leigugjald í formi vaxta. Ef vextirnir eru breytilegir, og því afar háðir skammtímavöxtum hverju sinni, þá er hætt við að þeir hækki verulega þegar að hagkerfið nær sér aftur á strik með auknum fjölda ferðamanna. Hætt er við að sumir lendi í erfiðleikum með að ráða við þá greiðslubyrði.

Rétt er þó að árétta að mikil og góð vinna hefur verið gerð undanfarin ár að vega og meta greiðslugetu fólks sem ætti að draga úr áhættu á erfiðleikum við að standa í skil á lánum.

Vegna þessa mæli ég almennt með að fólk taki hluta af óverðtryggðum lánum sínum með fasta vexti (3 eða 5 ár) eða í verðtryggðum lánum, sem eru síður viðkvæm fyrir þróun skammtímavaxta.* Þetta á sérstaklega við ef verið sé að taka lán umfram 40 milljónum króna. Sé lánaupphæðin lægri þá skiptir hækkandi "leigugjald" síður máli. Margar lánastofnanir setja upp svipsmynd á greiðslubyrði miðað við 50/50 lán í verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Því má við bæta að séu lán tekin með breytilegum vöxtum þá má greiða þau upp almennt með engum kostnaði og séu þau með föstum vöxtum þá má greiða 1 milljón á ári án kostnaðar. Taki fólk verðtryggð lán, sem eru í raun leigulán því að afborgun af þeim er hér um bil engin fyrstu árin, þá getur það þó ákveðið að greiða inná þau ef fjárhagur þess leyfir slíkt.

Þeir sem lesa þessar línur, eru með húsnæðislán, og nýta sér ekki séreignarsparnað við að greiða þau niður ættu að gera slíkt hið fyrsta.

MWM

* Yngra fólk á frekar að taka hærra hlutfall í óverðtryggðum lánum til að mynda hraðar eignamyndun í húsnæði sínu.


Vanmat á hækkun húsnæðisverðs - stýrivaxtahækkun í farvatninu

Ég hef klórað mig í kollinum undanfarnar vikur varðandi húsnæðisverð. Sögur sem ég hef heyrt frá fólki í fasteignahugleiðingum og fasteignasölum hafa gefið til kynna að yfirboð á ásett verð fasteigna til sölu hafi verið gífurlegt þessa fyrstu mánuði ársins. Þarf ég að fara aftur til ársins 2005 til að rifja upp svipaðar lýsingar. Þó hefur hækkun húsnæðisvísitölunnar ekki endurspeglað þessar sögur. Hef ég verið að furða mig á þessu meðal annars með nemendum mínum í HR þessa önnina.

Nú hefur komið í ljós að mistök hafi átt sér stað í útreikningum og hækkunin hafi verið eftir allt saman í 2005 anda (fasteignaverð hækkaði skarpast það árið, ekki árin 2007 eða 2008).

Þetta gerir það að verkum að neysluvísitalan hefur einnig verið vanmetin. Eðlilegt var hjá Seðlabankanum að lækka stýrivexti þegar að Covid-19 skall á. Það hefur legið fyrir í töluvert langan tíma að slíkt myndi hægja á samdrætti og húsnæðisverð myndi jafnvel hækka. Síðustu mánuði hafa þó verið teikn á lofti að þær hækkanir séu að fara úr böndunum. Með aukinn kraft í bólusetningum er ljóst að ferðamannageirinn mun brátt fara aftur á flug. Aukið aðhald í vaxtamálum hefur því legið fyrir að öllu óbreyttu.

Í ljósi þessara frétta hlýtur stýrivaxtahækkun að vera handan hornsins. Hún verður líklegast kröftugri nú þegar að ljóst er að hækkun húsnæðisverðs sé komið í 2005 gírinn.

MWM

Viðbót 11.10 18.5.2021

Hagstofan hefur sent út tilkynningu um að leiðrétting Þjóðskrár hafi ekki áhrif á vísitölu neysluverðs án frekari skýringa. Það breytir ekki þeirri staðreynd að verðhækkun á húsnæði er komin í 2005 takt. Þeir sem muna eftir fyrirlestrum Þórarins G. Péturssonar frá því tímabili vita að fasteignaverð hefur mikil áhrif á skoðun hans varðandi stýrivexti. 


Már Wolfgang Mixa - Arion banki

Aðalfundur Arion banka er í dag. Ég er eina manneskjan í framboði sem tilnefningarnefnd hefur ekki mælt með í stjórn. Það er skiljanlegt þar sem allir hinir stjórnarmenn hafa setið í stjórn í nokkur ár og stýrt bankanum vel.  

Væri ég í stjórn myndi ég hins vegar leggja áherslu á eitt atriði sem ég tel að betur megi fara. Arion banki leggur til, eins og staðan er í dag, að verja um 15 milljarða króna í endurkaup eigin bréfa og 3 milljarða króna í arðgreiðslur. Þessi stefna er skiljanleg að ákveðnu leyti. Bankinn er nú með um það bil 40 milljarða króna í eigið fé sem skilgreina megi sem fjármagni umfram því sem nauðsynlegt er til að viðhalda ásættanlegum eiginfjárþætti. Auk þess stendur til að verja 50 milljarða króna í viðbót næstu ár til slíkra nota, enda er enn mikið af peningum á hliðarlínunum sem veita mjög neikvæða raunávöxtun í Seðlabankanum og ef hagnaðarspár ganga eftir næstu ár mun peningur hlaðast upp á neikvæðum kjörum miðað við núverandi aðstæður (A & B). 

Ég tel aftur á móti að hægt sé að nýta þetta umfram eigið fé til betri nota. Nú er stefna bankans að lána minna til fyrirtækja en áður. Slíkt er í anda þess sem er að eiga sér stað á alþjóðavettvangi, það er að hlutfall útlána banka hjá fasteignalánum einstaklinga er jafnt og þétt að aukast. Sú stefna í sjálfu sér er eðlileg þar sem að arðsemi á fyrirtækjasviðinu hefur verið slök með tilliti til áhættu. Það er aftur á móti engin virðissköpun að eiga sér stað með því að kaupa eigin bréf. Ég hef áður skrifað um það að leggja eigi meiri áherslu á arðgreiðslur til eigenda, enda myndi slíkt henta minni hluthöfum best, því þannig gæti almenningur með auðveldum hætti nýtt sér skattleysismörk fjármagnstekjuskatts (C). 

Nú eru hugsanleg takmörk á því hversu mikið megi greiða út til hluthafa á tímum Covid-19. Það hlutfall kemur líklegast til með að hækka þegar að ferðamannstraumurinn fer aftur á fullt skrið og Seðlabankinn fer jafnvel að sporna við frekari útlánum til fasteignakaupa, sem er hugsanlega að stuðla að bólumyndun í fasteignaverði þessa daganna. Þangað til þarf að einblína á endurkaupum eigin bréfa. 

Í stað þess að kaupa eigin bréf þá legg ég til að Arion banki stofni fjárfestingarsjóð. Ólíkt því sem gerðist árin fyrir hrun þá væri sá sjóður einungis fjármagnaður með eigið fé. Með því væri áhættan takmörkuð við þann pening sem settur væri til hliðar í slíkan sjóð. Fjárfest væri í innviðauppbyggingu og sprotafyrirtækjum á Íslandi. Þörf er á innviðauppbyggingu hérlendis og fylgir tiltölulega lítil áhætta af slíku þó svo að ávöxtunin af slíku sé tiltölulega lág. Einnig væri hægt að fjárfesta í sprotafyrirtækjum, þar sem að áhættan væri töluverð en ávöxtun af slíkum fjárfestingum hefur aftur á mót verið afar há (D & E).  

Með þessu væri að ákveðnu leyti starfsemi bankans skipt í tvo helminga. Arðgreiðslur vegna viðskiptabankastarfseminnar væru jafnar þar sem að minni sveiflur eiga sér stað á arðsemi slíkrar starfsemi en lána til fyrirtækja. Töluvert flökt yrði á arðgreiðslum vegna fjárfestingasjóðsins og fyrstu árin líklegast litlar. Þannig væri hins vegar hluthöfum betur ljóst hvernig áhættumunstur í rekstri bankans væri.  

MWM 

  1. A) https://www.frettabladid.is/markadurinn/arion-med-40-milljarda-i-umfram-eigid-fe-eftir-utgreidslu/
  2. B) https://wwwv2.arionbanki.is/library/skrar/English/About-the-Bank/Investor-Relations/Financial-information/Financial-Statements/2020/Arion%20Bank%20Investor%20Presentation%20Q4%202020.pdf
  3. C) https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/2261235/
  4. D) https://skemman.is/handle/1946/30767
  5. E) https://skemman.is/handle/1946/36070

ps. Ég sagðist upphaflega ætla að ræða um vernd minni hluthafa og áhættu varðandi efnahagsreikning fyrirtækja þegar ég tilkynnti framboð mitt. Sú umræða mun bíða betri tíma. 


Már Wolfgang Mixa - Afnám endurkaupa eigin bréfa og hækkun arðgreiðslna

Eins og áður hefur komið fram þá er ég að bjóða mig fram í stjórnir nokkurra skráðra félaga á Íslandi. Í tengslum við framboð mín verð ég með þrjár áherslur. Þær eru:

  1. Skýr arðgreiðslustefna, sem felur meðal annars í sér að endurkaup eigin bréfa verði afnumin og að aukið vægi verði á hærri arðgreiðslum til hluthafa.
  2. Vernd fyrir minni hluthafa.
  3. Fyrirtæki eigi nægan varasjóð til að hafa borð fyrir báru.

Fyrstu tvær áherslurnar eiga að stuðla að því að almenningur sjái betur sinn hag í því að fjárfesta aftur í hlutabréfum, en íslenskur almenningur gerir slíkt almennt ekki eftir slæma og afar eftirminnilega reynslu árið 2008. Sú þriðja snýr að stöðugleika í rekstri félaga að því leyti að þau geti staðið af sér tímabundin mótbyr án ríkisaðstoðar. Þessar áherslur stuðla vonandi að auknu trausti almennings til fjárfestinga í hlutabréfum. Ég skýri hér nánar fyrsta liðinn.

Traust og hlutabréf

Traust almennings til hlutabréfakaupa hefur, skiljanlega, engan veginn náð fótfestu á nýjan leik eftir að íslensk hlutabréf hröpuðu í virði árin 2008-2009 og urðu í mörgum tilvikum verðlaus. Í dag er til dæmis hlutfall almennings sem á með beinum hætti hlutabréf innan við helmingur af því sem þekkist víða í Evrópu og aðeins brot af hlutfallinu í Bandaríkjunum. Nú, þegar afar lágir vextir fást á  bankainnstæðum (í flestum tilvikum 0,05%, sem í kringum 4% verðbólgu þýðir að raunvirði peninga inná bankainnstæðum rýrnar árlega sem nemur verðbólgunni), er eðlilegt að margir fari að beina fjárfestingum sínum annað. Því skiptir meira máli en áður að gera hlutabréfakaup fyrir almenning á nýjan leik eftirsóknarverðan fjárfestingarkost, og skiptir þar traust til stjórna félaga miklu máli.

Annað sem skiptir máli er að almenningur geti nýtt sér betur nýlega breytingu á lögum. Ég hef fjallað um þetta áður en fer hér stutt yfir sögu.

Fjármagnstekjuskattur

Nýlega var gerð lagabreyting í tengslum við fjármagnstekjuskatt. Í dag getur einstaklingur notið skattfrelsis upp að 300.000 krónur á ári (600.000 hjón). Það var áður helmingi minna.

Það sem skiptir einstaka fjárfesta jafnvel enn meira máli er að nú geta einstaklingar ekki bara nýtt frítekjumark vaxtatekna (það er vaxtatekjur vegna innstæðna og vaxtagreiðslur skuldabréfa), eins og verið hefur hingað til, heldur nær frítekjumarkið nú einnig til arðstekna og söluhagnaðar félaga sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, eða markaðstorgi fjármálagerninga. Þetta þýðir að einstaklingar þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af samanlögðum vaxtatekjum og tekjum af hlutafjáreign í formi arðs eða söluhagnaðar allt að 300.000 kr. á árinu 2020 í slíkum félögum.

Samkvæmt umsögn Ríkisskattstjóra í tengslum við frumvarpið voru vaxtatekjur einstaklinga miðað við nýjustu gögn í tæplega 93% tilvika undir ofangreindum frítekjumörkum (þ.e. 300.000 krónur á einstakling, samtala vaxtatekna, arðgreiðslna og söluhagnaðar). Í sömu umsögn kemur fram að fjármagnstekjur einstaklinga í tengslum við arðgreiðslum hlutabréfa er um 50% hærri en vaxtatekjur og svipaða sögu má segja um söluhagnað hlutabréfa. Sú prósenta væri töluvert hærri, augljóslega, ef hlutfall einstaklinga sem ættu hlutabréf hérlendis væri hærra.

Nú, þegar að flestir einstaklingar geta fengið skattlausan hagnað af bæði vaxtatekjum og hlutabréfum (í formi arðgreiðslna og gengishagnaðar) ættu íslensk félög skráð á hlutabréfamarkaði að móta stefnu við að gera þau að áhugaverðari kosti. Sú stefna ætti að miða að því að annaðhvort hafa jafnar arðgreiðslur ár frá ári þannig að þau svipi til skuldabréfa eða að ákveðið hlutfall af hagnaði sé greitt út til hluthafa sem arðgreiðslur.

Kaup eigin bréfa og arðgreiðslur

Eitt af því sem að íslensk félög hafa gert í auknum mæli undanfarin ár er að kaupa eigin bréf. Þetta er í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum en þar er vægi slíkra endurkaupa orðið meira en arðgreiðslur. Endurkaup eigin bréfa, í stuttu máli, felur almennt í sér að félögin kaupa eigin bréf og taka þau síðan af markaði. Með því eru færri bréf sem eiga tilkall til hagnaðar, þannig að virði hvers hlutabréfs ætti að hækka í hlutfalli við fjölda bréfa sem félagið sjálft tekur af markaði.

Það er hins vegar engin virðissköpun að eiga sér stað. Svo lengi sem að félög eru að skapa arðsemi umfram vaxtakostnaði, þá eykst hagnaður á hverju bréfi. Sá hagnaður er hins vegar tengdur því að skuldsetning félagsins eykst, sem ætti að endurspeglast í áhættu og ávöxtunarkröfu gerða til félagsins.

Auk þess er niðurstaðan sú sama og að greiða hluthöfum arð, það er að peningur fer úr vörslu fyrirtækis til hluthafa, í formi færri bréfa (endurkaup) eða einfaldlega penings (arðgreiðslna). Því má við bæta að sum íslensk skráð félög héldu áfram kaup eigin bréfa þegar að Covid-19 skall á en hættu samtímis við arðgreiðslur í því skyni að byggja upp varasjóð, þó svo í raun hafi báðar aðgerðir haft sömu áhrif, það er að peningur er tekinn úr sjóði þeirra og skilað til hluthafa.

Kostir og gallar

Stundum hefur verið sagt að endurkaup bréfa séu góð leið fyrir skráð félög að senda skilaboð til markaðarins um að stjórnendur þeirra telji þau vera vanmetin. Töluleg gögn sýna, aftur á móti, að tímasetningar endurkaupa félaga í S&P 500 hlutabréfavísitölunni hafa verið einstaklega slakar, og hefðu verið betri hefðu þau einfaldlega verið gerðar með reglulegum og jöfnum kaupum (sjá til dæmis McKinsey skrif*). Rétt er að taka það fram að íslensk félög kaupa almennt eigin bréf með reglulegum kaupum. Það má einnig velta því fyrir sér hvort að hlutverk stjórnar sé að senda einhver skilaboð til markaðarins varðandi mat hennar á virði félags sem hún ber ábyrgð á og enn frekar hvort að slíkt eigi að vera í formi endurkaupa.

Nýleg breyting á fjármagnstekjuskatti gerir það vænlegra fyrir minni hluthafa að fá arðgreiðslur. Fræðilega séð ætti það ekki að skipta máli, því þeir gætu einfaldlega selt bréf sín á aðeins hærra gengi (af því að búið er að taka af markaði keypt eigin bréf) og þannig innleyst fjármagnstekjur. Í raunveruleikanum er það hins vegar erfitt. Bæði þurfa einstaklingar þá að fylgjast með gengi verðbréfa, reikna út gengishagnað og lenda auk þess í viðskiptakostnaði og enn frekari útfyllingu á skattskýrslum. Auk þess gengi það í berhögg við þá hugsun að hlutabréf séu langtímafjárfestingarkostur ef fólk þurfi stöðugt að selja hlutabréf sín til að innleysa gengishagnað.

Hærri arðgreiðslur, minni kaup

Því ættu íslensk skráð félög að afnema að mestu kaup eigin bréfa. Mestur hluti (ég fer síðar nánar í hinn hlutann) af þeim peningum sem hingað til hafa verið settir í slík kaup færu þess í stað í arðgreiðslur til hluthafa, sem væri undir skattleysismörkum flestra einstaklinga eins og kom fram að ofan. Hægt væri að takmarka endurkaup eigin bréfa við einskiptishagnað.

Traust hlutafélög sem greiða jafnar arðgreiðslur ættu með þessu að vera álitlegri kostur fyrir íslenska einstaklinga. Tveir þættir spila þar mikilvægt hlutverk. Hið fyrsta er lágt vaxtastig sem kemur fram í bankainnstæðum og skuldabréfum gerir hlutabréf að álitlegri fjárfestingarkosti. Í öðru lagi geta flestir einstaklingar sem fjárfesta í hlutabréfum fengið skattfrjálsar arðgreiðslur. Með því að auka vægi arðgreiðslna hjá íslenskum skráðum hlutafélögum, í stað endurkaupa eigin bréfa, þá ættu fleiri einstaklingar að sjá hag í því að fjárfesta í hlutabréfum og nýta þannig það skattleysi fjármagnstekjuskatts sem nú er til staðar.

MWM

*Lítil fyrirtæki hafa reyndar haft betri tilfinningu fyrir því hvort að þau væru vanmetin eða ekki.


Már Wolfgang Mixa - Stjórnarframboð

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnarsetu í nokkrum skráðum félögum á Íslandi. Markmið mín í setu stjórna verður að leitast við að skapa virði í rekstri fyrirtækja með skynsömum hætti.

Sjálfur hef ég kennt virðismat fyrirtækja í mörg ár í Háskólanum í Reykjavík, þar sem lögð er áhersla á skilning varðandi virðisaukningu fyrirtækja með tilliti til vaxtar og hagræðingar og þeirri áhættu sem slíku fylgir. Auk þess vann ég áður við margvísleg störf í fjármálageiranum og tel reyndar nokkuð víst að enginn einstaklingur hafi jafn víðtæka reynslu innan fjármálageirans og ég. Í því fólst meðal annars vinna í tengslum við uppsetningu verðbréfasjóða, lífeyrissparnaðar og stofnun fjármálafyrirtækja, sem þurfti að sjálfssögðu að vinna í samstarfi með stjórnum sem þurftu að fylgja ströngum lögum og reglum varðandi fjármálamarkaði.

Í tengslum við framboð mín verð ég með þrjár sérstakar áherslur. Þær eru:

1.       Arðgreiðslustefna, sem felur meðal annars í sér að endurkaup eigin bréfa verði afnumin.

2.       Vernd minni hluthafa.

3.       Fyrirtæki eigi nægan varasjóð ef á móti blási.

Fyrstu tvær áherslurnar eiga að stuðla að því að virkja almenning í því að fjárfesta aftur í hlutabréfum, en íslenskur almenningur gerir slíkt almennt ekki eftir slæma og afar eftirminnilega reynslu árið 2008. Sú þriðja snýr að stöðugleika í rekstri þeirra. Ég skýri hvern lið um sig betur næstu daga.

Fari svo að ég verði kosinn í einhverja af þessum stjórnum mun ég skipta launum mínum eftir skatta vegna stjórnarsetu í tvo jafna hluta. Annar helmingurinn fer í kaup bréfa í því fyrirtæki sem ég er kosinn í stjórn. Sjálfur tel ég að stjórnarmenn eigi að fjárfesta ákveðinn hluta af sparnaði sínum í þau fyrirtæki sem þeir bera ábyrgð á. Hinn helmingurinn verður varið til að styrkja fimm góðgerðarsamtök. Þau eru Ljósið, Félag heyrnalausra, Rauði Kross Íslands, Þroskahjálp og Kvennaathvarfið.

Már Wolfgang Mixa

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband