Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018
Umbreytanleg skuldabréf
21.8.2018 | 09:18
Þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja skiptir miklu máli á hvaða stigi þau eru. Stöndug fyrirtæki fjármagna sig almennt með eigin fé, það er fjárflæði sem fæst frá rekstri þess, og útgáfu skuldabréfa. Því meira sem að fyrirtæki nálgast það að vera skilgreind sem sprotafyrirtæki, þeim mun meira vægi fá aðrar fjármögnunarleiðir, eins og útgáfa hlutabréfa. Til þess að fyrirtæki fari þó að gefa út hlutabréf sem skráð eru á almennum markaði þurfa þau almennt að hafa náð ákveðnu flugi í rekstri, aðallega með tilliti til veltu. Fyrirtæki sem eru ört stækkandi en hafa hins vegar ekki en náð að sanna sig með tilliti til stöndugs hagnaðar fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) svo að tryggt sé að skuldabréfaeigendur fái ásættanlega vexti, hafa stundum gripið til þess ráðs að gefa út umbreytanleg skuldabréf.
Skuldabréf - hlutabréf
Umbreytanleg skuldabréf (e. Convertible Bonds) eru í stuttu máli skuldabréf þar sem fjárfestar slíkra bréfa eiga ekki einungis heimtingu á vaxtagreiðslum heldur eiga þeir einnig rétt á að breyta slíkum bréfum í hlutafé fyrirtækja eftir ákveðinn tíma á fyrirfram skilgreindum kjörum. Hugmyndin er sú að fjárfestar slíkra skuldabréfa taki á sig meiri áhættu til að lána til ört vaxandi fyrirtækja, eins og til dæmis Amazon fyrir tæpum 20 árum síðan, en ef vel gengur hjá fyrirtækjunum þá eigi þeir möguleika á því að breyta skuldabréfunum í hlutabréf.
Ávöxtunarkrafan á slíkum bréfum er lægri en ef um venjuleg skuldabréf væri að ræða. Venjulegt skuldabréf gæti til dæmis verið með 15% ávöxtunarkröfu vegna þeirrar áhættu sem felst í því að lána fyrirtæki peninga en kannski einungis 5% ávöxtunarkröfu sé raunhæfur möguleiki á því að umbreyta skuldabréfinu í hlutabréf eftir ákveðinn tíma og fá mikinn gengishagnað, gangi fyrirtækinu vel.
Tími
Tryggvi Hjaltason bendir á í nýlegri ritgerð að útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa er bæði einfaldari og fljótvirkari en að gefa út hlutafé. Hann bendir einnig á að slík útgáfa gæti verið nokkurs konar brú á milli þess tímabils þegar að slík bréf eru gefin út þangað til að búið er að meta sanngjarnt verð á hlutafé. Í sumum tilvikum þurfa fyrirtæki ekki að greiða vaxtagreiðslur af slíkum bréfum heldur leggjast þær ofan á höfuðstólinn á lánstímanum.
Þetta þýðir með öðrum orðum að þegar að mikið liggur á að fá fjármagn inn í fyrirtæki, oft til þess að laga lausafjárstöðu þeirra, þá getur útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa verið fýsilegur kostur. Vaxtakostnaður eykst lítið (í það minnsta minna en ef um venjuleg skuldabréf er að ræða) og auðveldara er að finna fjárfesta til að veita fyrirtækjum fjárhagslegan stuðning þegar nauðsynlegt er að halda rekstri og jafnvel uppbyggingu fyrirtækis á góðri siglingu.
Ég var í viðtali í vikunni á RÚV vegna rekstrarörðugleika WOW, sem snúast að stórum hluta um lausafjárvandræði fyrirtækisins en þó einnig rekstarvanda. Útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa er hugsanlegur möguleiki í núverandi stöðu WOW. Hægt er að nálgast viðtalið hérna.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðmætustu fyrirtæki heims
13.8.2018 | 13:06
Það vakti töluverða athygli þegar markaðsvirði Apple rauf 1.000 milljarða dollara múrinn um daginn. Þetta er ekki lítil tala. Samtala íslenskra skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni hefur sveiflast í kringum þessa tölu undanfarin ár, nema hvað sú tala er í krónum en ekki bandarískum dollurum, en hver dollari kostar nú í kringum 110 íslenskar krónur. Markaðsvirði Apple er með öðrum orðum meira en 100-falt meira en markaðsvirði allra íslenskra skráðu félaganna. Annað viðmið er fjármálakerfi Íslands. Miðað við markaðsvirði Arion banka út frá virði eigin fjár bankans má áætla að markaðsvirði allra þriggja innlendu bankanna sé rúmlega 500 milljarða króna, sem þýðir að markaðsvirði Apple er 200-falt meira virði en slagæðar íslenska fjármálakerfisins (ég undanskil hér lífeyrissjóðina).
5 stærstu og FAANG
Þetta er vissulega áhugaverð tala en hún segir þó einungis lítinn hluta sögunnar. Markaðsvirði sumra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum hefur hækkað gífurlega undanfarin ár, án þess að slíkt hafi vakið mikla athygli. NASDAQ hlutabréfavísitalan hefur til að mynda fimmfaldast eftir að hafa náð lágmarki í mars árið 2009 í miðri kreppunni sem kom í framhaldi af húsnæðisbólunni og skuldsetningar árin áður. Þó vísitölurnar hafi hækkað mikið hefur slíkt ekki átt sér stað með fjölda fyrirtækja, heldur hafa ákveðin fyrirtæki leitt þær hækkanir. Í því tilliti er oft er talað um FAANG fyrirtæki, sem er skammstöfun á fyrirtækjunum:
Amazon
Apple
Netflix
Google (sem heitir tæknilega Alphabet í dag)
Þessi fyrirtæki hafa hækkað gríðarlega í virði síðustu ár. Sem dæmi má nefna að markaðsvirði Netflix hefur 80-faldast síðastliðinn áratug. Virði Google hefur einungis fimmfaldast á sama tímabili.
Fjögur af þessum fimm fyrirtækjum, Apple, Amazon, Facebook og Google, eru meðal fimm verðmætustu fyrirtækja heims í dag. Við bætist svo gamli tölvurisinn Microsoft. Ekki er þar með sagt að það sé einungis vegna fyrri afreka því markaðsvirði Microsoft hefur þrefaldast síðustu fimm árin. Hefði sú mikla hækkun ekki átt sér stað væri Microsoft ekki einu sinni meðal 10 stærstu fyrirtækja heimsins.
Það er einnig áhugavert að þrjú af þessum fimm fyrirtækjum eru innan við aldarfjórðungs gömul. Amazon var stofnað árið 1994, Google árið 1998 og Facebook árið 2004.
2008 og 2018
Ef litið er áratug til baka, nánar tiltekið til ársins 2008, þá kemur í ljós að af 10 stærstu fyrirtækjum heims (miðað við markaðsvirði) á þeim tímapunkti eru einungis Microsoft og ExxonMobil enn á listanum. ExxonMobil var verðmætasta fyrirtæki heimsins þá en er í dag einungis í tíunda sætinu. Microsoft var þá fjórða stærsta fyrirtæki heims og heldur enn þeirri stöðu.
Þetta endurspeglast í fjárfestingum fyrirtækja. Í nýlegu hefti The Economist (sem vísar í heimildir hjá Bloomberg) kemur fram að þau fyrirtæki sem fjárfestu mest árið 2008 voru Chevron, ExxonMobil (olíufyrirtæki), AT&T, Verizon (fjarskiptafyrirtæki) og General Electric. Í dag tróna Apple, Alphabet, Amazon, Intel og Microsoft efst á þeim lista. Hlutfall fjárfestinga tæknifyrirtækja af fyrirtækjum í S&P 500 hlutabréfavísitölunni hefur um það bil tvöfaldast síðan 2008.
Það er einnig merkilegt að markaðsvirði Facebook, sem er fimmta verðmætasta fyrirtæki heims í dag, er nú hærra en markaðsvirði Apple í ársbyrjun 2014, en Apple var þá þegar orðið verðmætasta fyrirtæki heimsins. Síðan þá hefur markaðsvirði Apple þó meira en tvöfaldast.
Væntingar fjárfesta
Erfitt er að segja til um hvort væntingar fjárfesta séu að nálgast órökrænar væntingar. Mikill vöxtur hagnaðar þarf að eiga sér stað hjá flestum þessara tæknifyrirtækja til að núverandi verðmat standist eðlilegar væntingar. Undantekningin er Apple, en mesta óvissan þar snýst í kringum það hvort fyrirtækið haldi þeirri góðu framlegð sem einkennt hefur rekstur þess síðustu árin.
Mín tilfinning er sú að hugsanlega séu sumir farnir að fjárfesta í þessum fyrirtækjum á nánast hvaða verði sem er til að missa ekki af lestinni, en mér gæti skjátlast. Í mínum huga er ekki sama bóla í verðmyndun þessara fyrirtækja en lítið má út af bregða til að gengi þeirra falli töluvert.
MWM
ps. Ég var í viðtali vegna þessa efnis á Rás 1 í morgun. Hægt er að hlusta á það hér en það hefst eftir 39 mínútur.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)