Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013
Verðbréfaumræða í gerviveröld
16.5.2013 | 01:35
Umræða, eða vöntun hennar, um bólumyndun á íslenskum verðbréfamarkaði hefur í gegnum tíðina verið undarleg. Vert er að rifja hana aðeins upp því í dag er hún enn eina ferðina stödd í gerviveröld, nema hvað nú er sú veröld á öndverðum meiði við þá gerviveröld sem áður ríkti.
Gerviveröld 1 - engin varnaðarorð
Árið 2003 hækkaði íslenska hlutabréfavísitalan 54%, árið 2004 var hækkunin 57% og árið 2005 gerði hún enn betur og hækkaði um 60%. Þeir fáu sem í undanfara Hrunsins settu spurningarmerki um verðhækkanir íslensku hlutabréfavísitölunnar voru almennt úthrópaðir sem svartsýnisrausarar.
Slíkar hækkanir áttu sér enga hliðstæðu í sögu alþjóðlegra hlutabréfa og má í því sambandi nefna að besta árlega (mælt frá upphafi til loka árs) sögulega ávöxtun hlutabréfa mæld í Dow Jones hlutabréfavísitölunni í Bandaríkjunum var 54%. Sú ávöxtun fékkst árið 1933 þegar að hlutabréfavísitalan hafði frá 5.9.1929 lækkað um næstum því 90% (þetta er ekki innsláttarvilla hjá mér).
Eftir örlítið bakslag árið 2006 í skugga orða frá öfundssjúkum Dönum hófst ballið á nýjan leik árið 2007 og hafði hlutabréfavísitalan um miðbik ársins hækkað enn eina ferðina um rúmlega 50%. Á sama tíma styrktist íslenska krónana sem gerði innfluttar vörur ódýrari sem tímabundið jók velsæld Íslendinga. Hér voru tekin lán tengd erlendum myntum til fasteigna- og hlutabréfakaupa og greiningardeildir hömuðust við að spá enn frekari verðhækkunum á gengi hlutabréfa og að krónan héldist stöðug.
Heyrðust varnaðarorð? Það voru nokkur en þeir sem slíkt gerðu lentu almennt í svipaða stöðu og Paul Warburg, helsti arkitekt af stofnun Seðlabanka Bandaríkjanna árið 1913, þegar hann varaði 15 árum síðar við of mikilli áhættusækni rétt áður en Kreppan mikla skall á. Hann var úthrópaður fyrir að veitast að bandarískri hagsæld. Margir hins vegar komu fram með alls kyns útskýringar til að réttlæta slíkar hækkanir. Greiningardeild Glitnis spáði meira að segja hækkunum í upphafi árs 2008 sem námu á þeim tímapunkti sem spáin birtist almenningi um (aftur) 50% hækkun. Gerviveröld 1 sá fátt athugavert við árlega 50% hækkun, ár eftir ár.
Gerviveröld 2 - varnaðarorð í tíma og ótíma
Nú er öldin önnur. Þegar að útboð Haga átti sér stað fússuðu margir og bentu (réttilega) á að hlutabréf væru áhættusöm. Hins vegar var verið að bjóða út bréf sem voru tiltölulega ódýrt verðlögð og rekstur fyrirtækja í smásölu eins og eignasafn Haga er byggt upp verður vart stöðugri.
Einhverra hluta vegna fylgdi því lítil umræða þegar að bréf í Eimskip og Vodafone voru boðin út á gengi sem ég taldi vera heldur dýru verði keypt (það á sérstaklega við Vodafone) og gengi hlutabréfa í Högum hafði meira en tvöfaldast frá útboðsgenginu á rétt rúmlega ári. Það hefur þó verið umræða um hækkunum á gengi Icelandair en virði þeirra hafa margfaldast á nokkrum árum. Gengi bréfa í flugfélögum hafa aftur á móti sveiflast mikið í gegnum tíðina og því er í tilfelli Icelandair ekkert nýtt um að ræða.
Allt varð aftur á móti "vitlaust" þegar að gengi hlutabréfa tveggja tryggingafélaga hækkaði nýlega um 25-30% í kjölfar útboðs. Þetta var sérstaklega áhugvert í ljósi þess að bréfin voru samkvæmt langflestum stöðlum frekar ódýrt verðlögð í útboðunum.
Í framhaldi af því kom fram yfirlýsing um að Seðlabankinn hefði verulegar áhyggjur af hækkunum á hlutabréfamörkuðum. Það hlýtur að vera einsdæmi að Seðlabanki einvers ríkis gefi út slíka yfirlýsingu af því að bréf í tveimur tryggingarfélögum hækki í virði um 30%.
Fleiri hafa bæst í hópinn. Nú virðast "allir" vera sammála um að hér hafi eignarbóla myndast á verðbréfamörkuðum Íslands. En er það svo?
Hlutabréfabólan
Eins og ég hef skrifað um áður þá tel ég gengi nokkurra félaga á Íslandi vera orðið nokkuð hátt metið. Rétt er að taka það fram að þessi umræða á við um örfá félög, ekki safn fjöldamargra bréfa.
Að segja að gengi þeirra hafi fjarlægst öllum raunveruleika er hins vegar fjarstætt. Ég fæ ekki betur séð en að raunhæf árleg ávöxtun af bréfum tryggingarfélaganna, eftir undanfarnar hækkanir, sé í kringum 9-10%. Hún er töluvert lægri af öðrum bréfum en af þeim (afar fáu) hlutabréfum sem eru nú í boði fyrir almenning þá virðist ávöxtunarkrafan sem gerð er til þeirra eilítið hærri en til skuldabréfa.
Einn af þeim aðilum sem líklegast hefur bestu hugmynd um þetta er einn af forstjórum annars tryggingarfélagsins, sem keypti bréf í útboðinu fyrir 40 milljónir króna. Forstjórinn hlýtur að hafa góða hugmynd um núverandi rekstur fyrirtækisins og vænta afkomu þess í framtíðinni. Eðlilegt er að spyrja hvort að það sé líklegt að hann hafi fjárfest svo mikið ef hann teldi fyrirtækið ekki hafa verið töluvert vanmetið í útboðinu?
Ef góð rök væru færð fyrir því að núverandi hagnaðarmyndun þessara fyrirtækja sé byggð á sandi þá væri ef til vill mark takandi á varnaðarorðum um gengi hlutabréfa; ég hef hreinlega ekki enn séð þau. Þangað til má vera að sum hlutabréf séu háu verði keypt, en gengi hlutabréfa er almennt samkvæmt núverandi hagnaðartölum ekki nálægt bóluhæðum.
Bólur í verðbréfum með föstum tekjum
Ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa er almennt sögð hækka (og gengi þeirra því lækka) þegar að gjaldeyrishöft eru afnumin. Rökin eru að erlendir og jafnvel innlendir fjárfestar rjúki upp til handa og fóta og selji þau með miklum afföllum þegar að höftin eru afnumin. Með þessu er gefið sterklega í skyn að þau séu nálægt einhverskonar verðmyndum sem líkja megi við bólu sem óhjákvæmilega hjaðni.
Þó skipta ríkistryggð verðbréf enn hendur sem veita verðtryggða ávöxtun til fjölda ára sem er nálægt 3%. Þetta er að mínu mati allt of há ávöxtun í umhverfi þar sem að hagvöxtur hefur dregist saman og ólíklegt að nái þeim "gullaldarhæðum" sem hann náði í 25 í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar (hagvöxtur sem auk þess náðist aldrei fyrir þann tíma). Ég fæ raunar ekki séð að jafn skuldugt ríki og Ísland geti greitt svo háa vexti til lengri tíma. Slík bréf eru því ef eitthvað er afar hóflega verðlögð; af hverju ættu menn að selja þau með frekari afföllum?
Óverðtryggð bréf veita í kringum 6% ávöxtun sem (aftur) er að mínu mati hærri ávöxtun en raunhæft að ríki geti til lengri tíma greitt án greiðsluþrots (nema að hagvöxtur aukist töluvert meira en raunhæft má ætla).
Í dag eru ríkisskuldabréf útgefin af Bandaríkjunum að veita rétt rúmlega 3% óverðtryggða vexti og verðtryggð ríkisskuldabréf eru einfaldlega ekki að veita neitt annað en verðtryggingu og styttri bréfin jafnvel neikvæða raunvexti!
Slíkar ávöxtunarkröfur til íslenskra ríkisskuldabréfa geta því vart talist til bóla. Ef eitthvað er þá eru ríkistryggð innlend bréf að veita afar góða ávöxtun.
Ef innstæður eru flokkaðar sem verðbréf með fastar tekjur þá hefur sá flokkur færst nær því að veita viðunandi ávöxtun þar sem að bankar hafa í auknum mæli hækkað innlánsvexti fyrir þá aðila sem eru reiðubúnir til að binda pening sinn í 6 mánuði eða lengur. Almennt veita slíkir reikningar rúmlega 5% ef upphæðin er bundin allt að 36 mánuði.
Af ofangreindu má ráða að verðbréfamarkaðurinn á Íslandi sé frekar skilvirkur í dag. Mesta ávöxtunarkrafan er gerð til hlutabréfa, aðeins lægri ávöxtunarkrafa er gerð til skuldabréfa og innstæður veita svo minnstu ávöxtunina en þó ekki afbrigðilega lága ávöxtun. Munurinn á ávöxtunarkröfu þessara flokka er innan eðlilegra marka. Ef eitthvað er þá er vaxtastig enn of hátt og lækki það leynast nú kauptækifæri í skuldabréfum og einnig verða langtímafjárfestingar í hlutabréfum enn meira aðlaðandi kostur.
Út vil ek, eða hvað?
Hvað gerist þegar að gjaldeyrishöft eru afnumin? Víðtæk skoðun er að íslenska krónan veikist mikið (ég tel að hún veikist hreint alls ekki það mikið en er í minnihluta). Ef hún veikist verður aftur á móti eftirfarandi spurning nærtæk: Ætla lífeyrissjóðir landsins virkilega að æða út með innlent fjármagn, veikja krónuna enn meira og með dýrkeyptustu krónum sögunnar kaupa erlendan gjaldeyri til að fjármagna kaup á erlendum hlutabréfum, sem eru til dæmis nú í methæðum í Bandaríkjunum, og skuldabréfum sem eru með töluvert lægri ávöxtunarkröfu en íslensk skuldabréf?
Þetta væri í algjörri andstöðu við hina einföldu Buy Low - Sell High regluna. Ég leyfi mér því að efast um að lífeyrissjóðir fari að rjúka upp til handa og fóta að fjárfesta í erlendum áhættusömum fjárfestingum. Nær væri að fjárfesta í innlendum iðnaði sem skapar gjaldeyristekjur til að mynda á ný jafnvægi í þjóðarbúskap Íslands.
Verðlagning ekki hluti af gerviveröld
Gengi hlutabréfa er á frekar eðlilegum slóðum á Íslandi. Sum félög eru að mínu mati dýr en slíkt á ekki við um gengi allra skráðra hlutabréfa. Gengi bréfa í tryggingarfélögunum er innan skekkjumarka þess sem teljast má vera eðlileg verðlagning. Ef eitthvað er þá eru skuldabréf tiltölulega ódýrt verðlögð og tel ég til dæmis að eðlileg ávöxtunarkrafa íslenskra verðtryggðra ríkisbréfa ætti að vera í kringum 1,5% til 2,0%. Þó svo að skammtímasveiflur eigi sér stað við afnám gjaldeyrishafta þá eru engar forsendur fyrir því að verðlagningin breytist mikið til lengri tíma.
Helsta skekkjan tengist því ekki verðlagningu verðbréfa Íslands. Það er frekar umræðan í kringum hana sem er stödd í gerviveröld sem er ekki til í alvörunni.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Q. Hlutabréfabóla? A. Já og nei
12.5.2013 | 23:34
Í kjölfar mikilla hækkana á gengi þeirra örfáu skráðra hlutabréfa á innlendum markaði í upphafi þessa árs hófst umræðu um það að gengi margra hlutabréfa væri orðið of hátt. Ég var í þeim hópi.
Síðan þá hefur gengi þeirra bréfa sem þá voru skráð sveiflast lítið. Gengi bréfa í Högum hefur hækkað í kringum 10% en það má að einhverju leyti rekja til styrkingar krónunnar sem eykur, til styttri tíma í það minnsta, framlegð fyrirtækisins. Gengi bréfa í Högum á hlutabréfamarkaði er vel í lagt að mínu mati en ég tel að gengi hlutabréfa í Eimskip vera í kringum 40-50% ofmetin og bréf Vodafone eru að mínu mati jafn enn ofmetnari.
Bóla!
Nú er á nýjan leik verið að fjalla um hugsanlegt ofmat hlutabréfa og er þá helst vísað í það að gengi hlutabréfa í tveimur nýlegum útboðum tryggingarfélaga hafi hækkað um 25-30% frá útboðsgengi. Einnig er fjallað um tilvik þar sem fólk tók lán til hlutabréfakaupa.
Þetta tel ég hins vegar ekki standast nánari skoðun. Við útboð Eimskips og Vodafone fyrir síðustu jól mat ég bréf beggja fyrirtækja á lægra gengi en útboðsgengi þeirra, sérstaklega Vodafone bréfin. Ég taldi raunvirði hvers bréfs í Eimskip vera í kringum 170-180 krónur en útboðsgengið var 208 krónur. Ég mat eðlilegt markaðsvirði Vodafone vera í kringum 5 milljarða króna en það er í dag rúmlega tvöfalt hærra. Því tók ég ekki þátt í þessum útboðum.
Síðan þá hefur gengi bréfa Eimskips hækkað í kringum 25% sem þýðir að annaðhvort er ég að vanmeta fyrirtækið gróflega eða það er allt of hátt skráð á markaði. Gengi Vodafone bréfa eru á svipuðum slóðum og þau voru boðin út til almennings. Ég keypti í hvorugu útboðinu og hef augljóslega misst af skjótfengum gróða.
Bóla! Redux
Þar sem að útboðsgengi hlutabréfa ofangreindra fyrirtækja var jafn hátt og raun bar vitni var ég undrandi á því við útreikning á útboðsgengi tryggingarfélaganna hversu lágt það var. Fékk ég ekki betur séð en að það væri vanmetið í báðum tilvikum í kringum 25-30% og fjárfesti ég því í hlutabréf beggja fyrirtækja. Það hefur reynst vel og hefur gengi beggja félaga hækkað hér um bil jafn mikið og útreikningar mínir gáfu til kynna að væri munurinn á raunvirði þeirra og útboðsgengisins. Ég bar mínar tölur undir aðra einstaklinga með sérfræðiþekkingu og var það almenn skoðun að útboðsgengið væri töluvert vanmetið.
Því er það ekki óeðlilegt að gengi beggja fyrirtækja hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni. Núverandi gengi er samkvæmt frekar stöðluðum mælingum ekki hátt né lágt heldur nálægt eðlilegum slóðum.
Lán til hlutabréfakaupa
Það að fólk hafi skráð sig fyrir stærri hlut en í sumum tilvikum hafi verið raunhæfur skýrist að sumu leyti af því að vitað var að margföld eftirspurn yrði staðreynd. Slíkt hefur verið ríkjandi í undanförnum útboðum. Auk þess hafa sjálfssagt margir talið að útboðsgengi tryggingarfélaganna væri lágt og því hafi hvatinn til skuldsetningar aukist. Það er auk þess langt síðan það spurðist út að lán til hlutabréfakaupa væri að ágerast hérlendis. Slík lán eru oft merki um að bólur væru að myndast en almennt tengist það einnig því að almenningur sé farinn að verða stór þátttakandi í slíkum viðskiptum. ég veit ekki til þess að slíkt ástand sé ríkjandi á Íslandi í dag.
Bóla? Já & Nei
Það má því segja að ákveðin bóla ríki nú á þeim litla hlutabréfamarkaði sem nú ríkir á Íslandi í dag. Sú bóla tengist aftur á móti ekki gengi bréfa í nýlegum útboðum þó svo að mikil hækkun hafi nýlega átt sér stað. Þar sem að raunverðmæti hlutabréfa tengist ríkjandi ávöxtunarkröfu skuldabréfa þá má að sama skapi spyrja hvort að þeir einstaklingar sem telja hlutabréf séu ofmetin telji ekki að skuldabréf séu í dag að sama skapi vanmetin?
MWM
Sjá fyrri umræðu um íslenskar bólur 2012-2013:
http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1276478/
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Úr séreign í húseign
7.5.2013 | 23:03
Nýlegar tillögur Sjálfsstæðisflokksins varðandi leiðir til að lækka höfuðstól húsnæðislána á Íslandi verða vonandi eitt af þeim málum sem verða sett í forgang á þessu ári.
Skattaafsláttur
Ein leiðin er að veita sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af íbúðaláni. Í stað þess að fjármagnið fari út í meiri neyslu í samfélaginu þá er afslátturinn nýttur til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána, sem Sjálfstæðisflokkurinn "lofaði" yrði allt að 40 þúsund krónur á mánuði eða tæplega hálfa milljón króna á ári.
Þetta er í raun merkileg stefnubreyting frá því kerfi sem hefur verið við lýði í mörg ár, þar sem að ríkið nánast hvatti til skuldsetningar með vaxtabótakerfi (sem átti að mínu mati vel að merkja rétt á sér nú nýlega í skugga kreppu). Langtímasjónarmið skynsamrar stefnu hlýtur hins vegar að liggja í hvatningu til sparnaðar en ekki skuldsetningar og vonandi er þetta upphafið að slíkri breytingu.
Með því að örva uppgreiðslu lána sem fer einungis í að lækka höfuðstól lána myndast einnig önnur jákvæð áhrif, sem eru þau að slíkt dregur úr verðbólguþrýsting. Aukning peningamagns í íslenska hagkerfinu var ein af helstu birtingarmyndum þess að þensla hér fór úr böndunum í undanfara Hrunsins. Í áhugaveðri bók eftir George Cooper, The Origin of Financial Crises: Central Banks, Credit Bubbles, and the Efficient Market Fallacy, er sýnt með skemmtilegum hætti hvernig uppgreiðsla lána verður til þess að peningar í hagkerfinu nánast hverfa eins og um galdur sé að ræða.
Með sama hætti myndi hvatning til uppgreiðsla lána flýta þá þróun að hérlendis nái peningamagn því jafnvægi aftur til að verðbólga hjaðni. Loforð Framsóknarflokksins um "leiðréttingu" lána ætti með sama hætti að takmarkast við lækkun höfuðstól almennings í stað þess að senda tékka heim til þess með tilheyrandi eftirkasta þenslu og eyðslufyllirís.
Séreignasparnaður
Hin leiðin er að nota framlag séreignasparnaðar til að lækka höfuðstól láns. Sumir aðilar eru andvígir þessari stefnu og telja að þetta dragi úr sparnaðarvitund fólks. Ég tel aftur á móti að hún þvert á móti auki hana þar sem að hún stuðlar að eignamyndun heimilanna í húsnæði. Fólk á augljóslega minni séreignasparnað þegar það fer á eftirlaun en á móti kemur að afborganir og vaxtagreiðslur vegna húsnæðis eru lægri og munar jafnvel miklu.
Auk þess eru raunvextir almennt af húsnæðislánum á Íslandi svo háir að vart er hægt að finna betri fjárfestingarkost en að greiða niður slík lán. Lífeyrissjóðslán vegna húsnæðiskaupa bera að jafnaði í kringum 3,5-4,0% raunvexti (Lífeyrissjóður Verzlunarmanna veita betri kjör, sjá www.live.is) á meðan að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa er í kringum 2,5-2,9%. Það þýðir að árlega fær fólk 1% betri ávöxtun af því að greiða niður lán sín.
Þessi rök eiga augljóslega ekki við um aðila sem gert hafa langtímasamninga varðandi séreignasparnað í gegnum tryggingarfélög eins og til dæmis Allianz. Þeirra hagur liggur augljóslega í því að halda sinni stefnu.
Rétt eins og með tillögur um lækkun höfuðstóls með því að veita skattaafslátt, þá myndar notkun séreignasparnaðar til lækkunar á höfuðstól húsnæðislána aukin stöðugleika í íslenskt samfélag, eykur sparnað og dregur úr verðbólgu.
MWM
Bók Cooper fæst til dæmis í Bóksölu Stúdenta - http://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-48908/ - Bagus og Howden fjalla um aukningu peningamagns í undanfara Hruns í bókinni Deep Freeze en hægt er að nálgast hana hér löglega í pdf formi ókeypis eða gegni vægu gjaldi í formi e-bókar - http://mises.org/document/6137/Deep-Freeze-Icelands-Economic-Collapse - og ég og Þröstur Olaf Sigurjónsson fjölluðum líka um þenslu því tengdu í grein okkar Áfram á rauðu ljósi sem er aðgengileg hérna - www.efnahagsmal.is/.../2010/12/1_2_Afram-a-raudu-ljosi_final1.pdf.
Ég hefur áður fjallað um séreignasparnað til greiðslu húsnæðislána, t.d. hérna - http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1257494/ - og hér er (held ég) fyrsta greinin þar sem þessari hugmynd var komið á framfæri í Viðskiptablaðinu tæpu ári eftir Hruni - http://www.slideshare.net/marmixa/20090922-sereignarsparnadur-husnaedislan.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stefnu(fjár)mál íslenskra stjórnmálaflokka
2.5.2013 | 02:35
Það er merkilegt að aðeins rúmum fjórum árum eftir að eitt mesta hrun fjármálasögunnar átti sér stað á Íslandi var sáralítil umræða varðandi fjármál í nýliðinni kosningabaráttu. Af fjórflokkunum fjölluðu tveir nánast ekki neitt varðandi stefnu í fjármálum.
VG komu ekki fram með nokkra einustu stefnu í þeim efnum. Ef mér skjátlast þá var hún vel falin.
Samfylkingin fjallaði einnig nánast ekkert um fjármál. Það var eiginlega aðeins eitt atriði; upptaka evru.
Þrátt fyrir að almenningur virtist hafa takmarkaðan áhuga á Evrópumálin í aðdraganda kosninga ákvað Samfylkingin að spila enn einu sinni evrutrompinu um að upptaka hennar myndi leiða til lægri fjármagnskostnaðar. Í (hræðilegri) auglýsingaherferð var meðal annars vitnað í að íslensk fjölskylda borgar heimili sitt að jafnaði tvisvar en evrópsk fjölskylda borgar sitt aðeins einu sinni. Ekki kom fram í auglýsingarherferðinni hvort verið væri að miða við raunvirði eða nafnvirði né hvort miðað væri við sambærileg lán hvað meðallengd varðar. Skilaboðin eru hins vegar augljós: Upptaka evru myndar einhverja galdralausn við að lækka fjármagnskostnað.
Gaman væri ef lífið væri svo einfalt. Vandamálið á Íslandi er að raunvextir eru miklu hærri en í nágrannaríkjum og það hefur ekkert með gjaldmiðil okkar að gera. Hér hefur lánakerfið verið um árabil slakt og bankakerfið kostnaðarsamt í samanburði við önnur lönd. Í landi þar sem að gæði lánveitinga hafa verið jafn slakar og á Íslandi þarf stöðugt að afskrifa allt of stóran hluta útlána. Slíkur kostnaður er dekkaður með því að hækka raunvexti fyrir alla hina. Með of dýru bankakerfi þarf að leggja enn hærri vaxtakostnað á lán. Til að bæta gráu oná svart var allt gefið í botn síðastliðinn áratug varðandi lánshlutföll af húsnæði og gylliboðum af hálfu bankanna með alkunna endalokum. Krónur eða evrur skipta einfaldlega engu máli í þessum efnum; svo lengi sem gæði útlána á Íslandi eru slök þá verða raunvextir hérlendis háir, allt of háir.
Sjálfsstæðisflokkur kom með góðar tillögur varðandi sparnað. Það má segja að það sé kominn tími til að einhver flokkur komi fram með hugmyndir um að verðlauna fólki með vilja til að spara og jafnvel greiða inn á húsnæðislán sín og skapa þannig fljótari eignamyndun. Einnig hefur flokkurinn lagt áherslu á að lyklalög taki gildi, eitthvað sem ég á erfitt með að átta mig á af hverju var ekki keyrt í gegn á síðasta kjörtímabili. Hann hefur auk þess sett fram viljayfirlýsingu um að aðskilja bankarekstur þannig að einhver takmörk verði á áhættugleðinni sem óhjákvæmilega myndast næst þegar að ofurbjartsýni nær tökum á landsmenn (annað mál sem virðist hafa dagað uppi á síðasta kjörtímabili).
Verði Sjálfsstæðisflokkurinn í næstu ríkisstjórn hlýtur það að vera skýlaus krafa flokksins að þessi ofangreind atriði komi strax til framkvæmda.
Mörgum hefur sjálfssagt þótt það vera undarlegt að Framsóknarflokkurinn "lofi" skuldarniðurfærslu eftir 90% lána fíaskó-ið. Jafn gagnrýnin og ég var á flokkinn fyrir þátt sinn í því að hella olíu á þann útlánaeld á sínum tíma þá hefur flokkurinn verið stöðugt með hugmyndir að lausnum í tengslum við heimilin í sambandi við fjármál síðastliðin ár. Ég er ekki sammála öllum hugmyndum flokksins en ég, eins og til dæmis Stefán Ólafsson, furða mig á að aðrir flokkar hafi ekki nálgast þeim hugmyndum sem Framsóknarflokkurinn hafði í kosningabaráttu sinni. Betra hefði verið að koma með aðrar hugmyndir á útfærslum varðandi fjármál og heimilin í stað þess að einblína á að skjóta niður hugmyndir Framsóknarflokksins.
Eitt sem olli mér hins vegar vonbrigðum með alla flokka var að enginn þeirra minntist á hvernig lækka ætti raunvexti á Íslandi (evru-lausnin er á mínum huga ekki alvöru lausn). Það gengur ekki til lengdar að land og þjóð greiði raunvexti almennt á bilinu 3,5% til 4,0% með hagvöxt í besta falli tæplega 2,0% miðað við hvern einstakling. Frá sjónarmiði raunvaxta hefði átt að vera augljóst að hér færi allt á versta veg á einhverjum tímapunkti. Lækkun raunvaxta ætti að vera eitt af forgangsatriðum stefnu(fjár)mála íslenskra stjórnmálaflokka næstu árin.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni að þeir flokkar sem minnst fjölluðu um fjármál í kosningabaráttu sinni hafi goldið jafn mikið afhroð og raun bar vitni. Vart er hægt að kenna það einfaldlega um að þeir hafi þurft að framfylgja erfið mál. Fyrirtæki eru með stefnur sem taka tillit til fjármála; ættu stjórnmálamenn ekki að gera slíkt hið sama?
MWM
Viðbót 5.5.2013 - Hægt er að sjá viðtal við mig í tengslum við þessa grein hér - http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/82090/ - en ég fjalla í viðtalinu einnig um möguleika flokka til samstarfs við Framsóknarflokkinn. Mín skoðun sem fram kemur í viðtalinu er sú að það væri hæglega grundvöllur fyrir samstarfi með Sjálfsstæðisflokknum þrátt fyrir töluverðan mun á stefnumálum í fjármálum. Rétt er að halda því til haga að ég taldi hina flokkana líka vera kandidata, einfaldlega að því að stefna þeirra í fjármálum væri hér um bil óskrifað blað.
Viðskipti og fjármál | Breytt 5.5.2013 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)