Umbreytanleg skuldabréf

Þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja skiptir miklu máli á hvaða stigi þau eru. Stöndug fyrirtæki fjármagna sig almennt með eigin fé, það er fjárflæði sem fæst frá rekstri þess, og útgáfu skuldabréfa. Því meira sem að fyrirtæki nálgast það að vera skilgreind sem sprotafyrirtæki, þeim mun meira vægi fá aðrar fjármögnunarleiðir, eins og útgáfa hlutabréfa. Til þess að fyrirtæki fari þó að gefa út hlutabréf sem skráð eru á almennum markaði þurfa þau almennt að hafa náð ákveðnu flugi í rekstri, aðallega með tilliti til veltu. Fyrirtæki sem eru ört stækkandi en hafa hins vegar ekki en náð að sanna sig með tilliti til stöndugs hagnaðar fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) svo að tryggt sé að skuldabréfaeigendur fái ásættanlega vexti, hafa stundum gripið til þess ráðs að gefa út umbreytanleg skuldabréf.

Skuldabréf - hlutabréf

Umbreytanleg skuldabréf (e. Convertible Bonds) eru í stuttu máli skuldabréf þar sem  fjárfestar slíkra bréfa eiga ekki einungis heimtingu á vaxtagreiðslum heldur eiga þeir einnig rétt á að breyta slíkum bréfum í hlutafé fyrirtækja eftir ákveðinn tíma á fyrirfram skilgreindum kjörum. Hugmyndin er sú að fjárfestar slíkra skuldabréfa taki á sig meiri áhættu til að lána til ört vaxandi fyrirtækja, eins og til dæmis Amazon fyrir tæpum 20 árum síðan, en ef vel gengur hjá fyrirtækjunum þá eigi þeir möguleika á því að breyta skuldabréfunum í hlutabréf.

Ávöxtunarkrafan á slíkum bréfum er lægri en ef um venjuleg skuldabréf væri að ræða. Venjulegt skuldabréf gæti til dæmis verið með 15% ávöxtunarkröfu vegna þeirrar áhættu sem felst í því að lána fyrirtæki peninga en kannski einungis 5% ávöxtunarkröfu sé raunhæfur möguleiki á því að umbreyta skuldabréfinu í hlutabréf eftir ákveðinn tíma og fá mikinn gengishagnað, gangi fyrirtækinu vel.

Tími

Tryggvi Hjaltason bendir á í nýlegri ritgerð að útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa er bæði einfaldari og fljótvirkari en að gefa út hlutafé. Hann bendir einnig á að slík útgáfa gæti verið nokkurs konar brú á milli þess tímabils þegar að slík bréf eru gefin út þangað til að búið er að meta „sanngjarnt verð“ á hlutafé. Í sumum tilvikum þurfa fyrirtæki ekki að greiða vaxtagreiðslur af slíkum bréfum heldur leggjast þær ofan á höfuðstólinn á lánstímanum.

Þetta þýðir með öðrum orðum að þegar að mikið liggur á að fá fjármagn inn í fyrirtæki, oft til þess að laga lausafjárstöðu þeirra, þá getur útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa verið fýsilegur kostur. Vaxtakostnaður eykst lítið (í það minnsta minna en ef um venjuleg skuldabréf er að ræða) og auðveldara er að finna fjárfesta til að veita fyrirtækjum fjárhagslegan stuðning þegar nauðsynlegt er að halda rekstri og jafnvel uppbyggingu fyrirtækis á góðri siglingu.

Ég var í viðtali í vikunni á RÚV vegna rekstrarörðugleika WOW, sem snúast að stórum hluta um lausafjárvandræði fyrirtækisins en þó einnig rekstarvanda. Útgáfa umbreytanlegra skuldabréfa er hugsanlegur möguleiki í núverandi stöðu WOW. Hægt er að nálgast viðtalið hérna.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband