Áhættuálag hlutabréfa
29.10.2015 | 06:22
The Economist fjallaði nýverið um hið mikla áhættuálag sem verðlagt væri í virði rússneskra hlutabréfa. Taldi höfundur greinarinnar það vera nokkuð augljóst að innlendir jafnt sem erlendir fjárfestar treystu þarlendum stjórnvöldum í takmörkuðum mæli. Er bent á að meðaltal V/H hlutfalls rússneskra hlutabréfa sé einungis rúmlega 5 en sé um það bil 12,5 hjá öðrum hlutabréfavísitölum á nýmarkaðssvæðum. Því er verð hlutabréfa þar rúmlega helmingi lægra en það ætti að vera væri það nálægt meðaltali annarra markaða, sé litið til virði hlutabréfa á mörkuðum og hagnaðar skráðra félaga. Reiknast höfundi að munurinn á markaðsvirði hlutabréfa nemi því sem nemur um $7.000 á hvern Rússa.
Erfitt er að tala um meðaltal V/H hlutfalls íslenskra hlutabréfa frá hruni með nákvæmum hætti. Bæði hafa afar fá bréf verið skráð í Kauphöllinni þar til nýlega og auk þess þyrfti að líta sérstaklega til V/H hlutfalls Össurar, Marels og Icelandair sem vega afar þungt þar sem að markaðsvirði þeirra er töluvert hærra en allra hinna félaganna. Segja má þó að V/H hlutfallið hafi verið í kringum 12-15 mest allt tímabilið fyrir flest félög skráð í Kauphöllinni.
Því hefur þetta áhættuálag sem verðlagt er í rússneskum hlutabréfum aðeins í takmörkuðum mæli komið fram í íslenskum hlutabréfum síðustu ár, þrátt fyrir hið gífurlega mikla tap sem íslenska þjóðin þoldi í tengslum við hlutabréf árin 2007-2008. Hafa jafnvel raddir heyrst um að bóla hafi myndast á íslenskum hlutabréfamarkaði. Markaðsvirði íslenskra hlutabréfa skráð í Kauphöll Íslands er nú í kringum 900 milljarðar króna en væri með sama rússneska margfaldara og vísað er í grein The Economist einungis í kringum 400 milljarðar króna. Munurinn samsvarar um það bil fjórðungi af vergri landsframleiðslu Íslands.
Margir halda því fram að ein ástæða þess að íslensk hlutabréf hafi verið eðlilega eða jafnvel of dýrt verðlögð séu fjármagnshöft. Fjármagn hafi einfaldlega ekki haft í önnur skjól að leita. Hafi slíkt verið raunin hefðu Íslendingar einfaldlega sett allt sitt sparifé í bankabækur á slökum kjörum en með eins mikið öryggi og mögulegt er hérlendis hvað varðar stöðugleika og seljanleika (1). Íslensk stjórnvöld, bæði þau sem nú ríkja og einnig þau sem stýrðu landinu árin eftir hrun, eiga aftur á móti mikið hrós skilið. Hér hefur nánast kraftaverk átt sér stað hvað varðar uppbyggingu á trausti til fjármálakerfisins sem var brunarústir einar fyrir sjö árum síðan (2). Áhyggjur af því að Ísland yrði Kúba norðursins eru óðum að verða fjarlæg minning. Í því sambandi má benda á að hægt var að binda fjárfestingar í aðra fjárfestingakosti en hvergi hafa augljós bólueinkenni myndast.
Það má því segja að miðað við það áhættuálag sem sést á mörgum mörkuðum þá sé það afar lágt á Íslandi. Lækkun á ávöxtunarkröfu íslenskra skuldabréfa og hækkun gengis hlutabréfa eru skýr merki þess að tiltrú á íslenskt efnahagslíf er að aukast. Þetta hefur bersýnilega komið fram eftir að aðgerðir í tengslum við fjármagnshöft voru tilkynnt 8. júní í sumar hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá öllum þremur helstu lánshæfismatsfyrirtækjunum, og er það til dæmis nú BBB hjá Standard & Poors. Tel ég einsýnt í þeim efnum að núverandi ávöxtunarkrafa skuldabréfa endurspegli væntingar um að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær það mat hækki í A, sem er svipað mat og fyrirtækið veitti íslenska ríkinu árin fyrir hrun. Það kemur til með að styrkja innlendar fjárfestingar enn frekar.
MWM
(1) Með seljanleika á ég við möguleika þess að fá fjármagn til baka í formi beinharða peninga.
(2) Fjalla ég til dæmis um þetta í grein sem ég skrifaði með Þresti Olaf Sigurjónssyni og Murray Bryant sem nefnist Restoring Trust in Public Institutions and the Financial System og birtist í ritinu International Journal of Economics and Accounting.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning