Lánshæfiseinkunn og Ísland - Fyrirlestur

Eitt af því sem mestu máli skiptir varðandi fjárfestingar er áhætta tengd þeim. Ef áhætta er talin vera lítil í rekstri fyrirtækis er áhættuálagið í hlutabréfaverði þess einnig lítið. Þetta hefur áhrif á hlutabréfaverð fyrirtækja. Með auknu áhættuálagi lækkar virði hlutabréfa.

Sömu sögu má segja um verðmæti skuldabréfa. Áhætta tengd útgefanda skuldabréfa hefur stundum gífurleg áhrif á gengi þeirra. Þetta er eitthvað sem að stór hluti íslensku þjóðarinnar man væntanlega vel eftir. Í hruninu jókst áhættumat fjárfesta á íslenskum ríkisskuldabréfum. Virði þeirra kolféll enda höfðu margir áhyggjur af því að íslenska ríkið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar (ótrúlegt að þetta hafi verið raunveruleikinn fyrir aðeins sjö árum síðan). Hefði ástandið verið varanlegt hefði það haft veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf.

Með auknu áhættuálagi sem markaður telur tengjast útgefanda þá lækkar verð skuldabréfa þess, sem leiðir til þess að ávöxtunarkrafa þeirra hækkar (sambandið er öfugt, eins og að vega salt). Ávöxtunarkrafan sem gerð var á markaði til íslenskra ríkisskuldabréfa í kjölfar hrunsins, sem hefði að stóru leyti endurspeglað framtíðarvaxtakostnað íslenska ríkisins, var 16-17% (í dag er hún aðeins tæplega 6%). Vænt verðbólga næstu árin var miklu hærri en hún er í dag en einnig spilaði sú staðreynd að traust fjármálaheimsins gagnvart Íslandi var í molum. Hefði slíkt traust ekki verið endurheimt væri núverandi vaxtakostnaður Íslendinga í dag miklu hærri.

Þetta endurspeglaðist í þeirri lánshæfieinkunn sem íslensk skuldabréf nutu árin fyrir hrun. Helstu fyrirtæki sem veita lánshæfieinkunnir gáfu íslenska ríkinu hæstu einkunn, eða því sem næst, sem hægt var að fá um tíma. Öldin var önnur eftir hrun og lentu íslensk ríkisbréf í svokallaðan ruslflokk. Eftir það hefur stöðugur efnahagsbati leitt til þess að innlend vaxtakjör hafa batnað. Nýleg tilkynning um vænt afnám hafta síðastliðins júní jók tiltrú markaðarins enn frekar á íslenska fjármálamarkaðinn. Þrátt fyrir að verðbólguvæntingar á næstunni séu háar hefur ávöxtunarkrafa gerð til íslenskra ríkisbréfa lækkað um það bil 2% (200 bps), enda hefur lánshæfieinkunn íslenskra ríkisskuldabréfa hækkað og tel ég sjálfur góðar líkur á því að hún eigi eftir að hækka enn frekar.

Lítið hefur verið fjallað um lánshæfieinkunnir á Íslandi. Mesta umræðan tengdist hruninu, bæði vegna þess að lánshæfni íslenskra skuldabréfa lækkaði svo mikið og einnig af því að mörg fyrirtæki sem veittu slíkar einkunnir stóðu sig engan veginn nægilega vel árin fyrir hrun, sérstaklega í tengslum við að meta fasteignavafninga. Engu að síður eru lánshæfiseinkunnir afar mikilvægar á fjármálamörkuðum í dag.

Sveinn Héðinsson skrifaði nýlega MSc ritgerð, sem ég leiðbeindi, þar sem að hann veltir upp þeirri spurningu hvort að aukin notkun á lánshæfieinkunnum geti aukið virði skuldabréfamarkaðar á Íslandi. Hann veltir upp þeirri spurningu hvort að íslensk fyrirtæki gætu með því minnkað óvissuálag á útgefnum skuldabréfum sínum og lækkað þannig fjármagnskostnað og auðveldað þeim að fjármagna rekstur sinn. Efnið er afar mikilvægt varðandi frekari uppbyggingu íslensks fjármálamarkaðar úr þeim rústum sem hann var í haustið 2008. Sveinn heldur hádegisfyrirlestur um þetta efni í Háskólanum í Reykjavík miðvikudaginn 21.október í stofu M105 klukkan 12.10. Ég hvet alla til að mæta.

MWM

Sjá hér hlekk að ritgerð Sveins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband