Verðtryggð óverðtryggð lán

Einn af þeim ókostum sem gjarnan eru nefndir varðandi verðtryggð lán er að vextirnir séu aðeins greiddir niður en við bætist verðbólguálagið ofan á lánin.  Þetta gerir það að verkum að lengi vel er lítið greitt af lánunum og þau hækka jafnvel í krónum talið (þetta fer eftir tegund láns og hversu fljótt það er greitt niður).  Svarið við þessu er (eða var) óverðtryggð lán.  Almennt greiðir fólk vaxtagreiðslur strax af lánunum og síðan eru þau greidd smám saman niður (OK, það er hægt að setja óverðtryggð lán upp með jafngreiðslum, slíkt er þó almennt ekki gert).

Nú ber þó svo við að vextir á óverðtryggðum lánum eru að hækka vegna þess að Seðlabanki Íslands sér sig knúinn til að hækka vexti.  Af hverju telur Seðlabanki Íslands að það þurfi að hækka vexti?  Svarið er af því að verðbólgan er svo há.  Þetta eru reyndar ekki ný sannindi, nafnvaxtastig og verðbólga helst almennt í hendur, raunávöxtun breytist síður.  Til lengri tíma er munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum lítill og raunar segir bæði sagan og fræðin að óverðtryggð lán veiti lántökum verri kjör en þeir fá á móti minni skell vegna óvissu um verðbólgu (jafnvel þetta á vart við á Íslandi því að óverðtryggð lán hér eru að mestu leyti breytileg, "föstu" vextirnir eru fastir í takmarkaðan tíma, aukning verðbólgu fer því fljótt í óverðtryggðan vaxtakostnað).

Vaxtaþak

Til að bregðast við þessari vaxtahækkun hefur Íslandsbanki ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum það sem bankinn kallar Vaxtagreiðsluþak.  Það er þannig að viðskiptavinir geta ákveðið að jafna út greiðslukostnað af lánum sínum ef vaxtastig í landinu hækkar.  Fari þeir til dæmis í 10% af 10M króna láni þá getur viðkomandi ákveðið að hann borgi "aðeins" 800.000 krónur í vaxtakostnað og velti hinum 200.000 krónum ofan á höfuðstólinn.

Það er fínt í sjálfu sér að bjóða viðskiptavinum sínum valmöguleika (þeir geta valið hvort þeir kjósi að taka þátt í þessu og hversu mikið þeir kjósa að greiða í vexti, þó að lágmarki 7,5% - í dæminu að ofan er til dæmis ekki hægt að greiða minna en 750.000 í vaxtakostnað og eru þá 250.000 af viðbótargjöldum ýtt á undan sér).  Þetta leiðir þó hugann að því hvort að ekki sé einfaldlega komin önnur og jafnvel verri útgáfa af verðtryggðum lánum.

Stór ókostur við verðtryggð lán er að þau veita stjórnvöldum lítið aðhald við að halda verðbólgu niðri, til dæmis með því að ráðast í stórframkvæmdir á uppgangstímum, veita bönkum lausan tauminn við að prenta peninga eða samþykkja launahækkanir sem fara óumflýjanlega út í verðlagið.  Slíkt kallar á hærra vaxtastig en fólk tekur lítið eftir slíku með verðtryggðu lánin því að afborgun lána breytist lítið og slæmar afleiðingar eru í raun ýtt á undan sér.  Þetta er aftur á móti kostur við óverðtryggðu lánin; fólk finnur rækilega fyrir hækkun vaxtastigs rétt eins og um væri að ræða hækkun á leigu húsnæðis (sem lán til húsnæðiskaupa eru í óbeinum skilningi).

Því tel ég þetta Vaxtaþak Íslandsbanka vera afleita hugmynd.  Furða ég mig á því að allir bankarnir hafi  einfaldlega ekki boðið einungis uppá blöndu af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum.  Sjálfur tel ég að aðeins ætti að vera í boði blanda af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum í ákveðnum hlutföllum eins og til dæmis 30/70%, 50/50% og 70/30%.  Þannig getur viðskiptavinur ákveðið hversu næmur lán hans eru gagnvart vaxtastigi í landinu, sem getur bæði hækkað og lækkað.

Plástur, ekki lausn

Einhverra hluta vegna virðast allir bankar samþykkja forn sannindi að réttast sé að dreifa áhættu þegar kemur að fjárfestingum fólks en þegar kemur að lántökum fólks virðist slíkt ekki vera fyrir hendi.  Í stað þess er gripið til meðala sem minnka sársaukann en taka ekki á vandanum.

MWM

ps. hér er hlekkur að viðtali í Speglinum 12.6 varðandi þetta mál - www.ruv.is/frett/spegillinn/blondud-lan

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband