Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Vaxtakjör innlánsreikninga og ríkisbréfa
29.9.2016 | 11:43
Samkvæmt fræðunum eiga ríkisbréf í hverju ríki að vera með minnstu áhættu fjárfestinga sem völ er á, að teknu tilliti til skuldaraáhættu. Eðlilegt er því að slík bréf myndi vaxtagrunn, það sem almennt er kallað áhættulaus ávöxtun (e. risk-free eða Rf) og síðan bætist við áhættuálag á sambærilegum skuldabréfum eða innstæðum banka. Fjárfestar taka meiri áhættu með því að "lána" öðrum en ríkinu pening en fá á móti hærri ávöxtun.
Þetta samband hefur á mörg ár ekki ríkt á Íslandi. Almennt hafa bundnar innstæður veitt slakari ávöxtun en ávöxtunarkrafa ríkisbréfa. Má því segja að ákveðin þversögn hafi ríkt; þeir fjárfestar sem keypt hafa ríkisbréf hafa fengið hærri ávöxtun en þeir sem lögðu pening inn á bundna innstæðubók.
Í framhaldi af síðustu stýrivaxtalækkun Seðlabankans hefur ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hins vegar lækkað um 100 bps (eða 1%). Nú, jafnvel eftir að hærri verðbólgutölur voru birtar í morgun, er ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisbréfa í kringum 5,15% - 5,20% en var fyrir eigi alls löngu í kringum 6,20%. Hægt er aftur á móti að leggja pening inn á bundinn fastvaxtareikning Landsbankans í dag til 5 ára sem veitir 5,70% vexti. Munar þar um 0,5% á ári miðað við ríkisbréf.
Má því segja að loks geti þeir fjárfestar sem vilji fá skynsamlegt áhættuálag á Íslandi á pening sem er bundinn fái hærri ávöxtun en þeir sem fjárfesti í ríkisbréfum.
Hér er slóðin hjá Landsbankanum - https://www.landsbankinn.is/einstaklingar/sparnadurogfjarfestingar/bankareikningar/fastvaxtareikningur/
Rétt er að taka það fram að hækki verðbólga meira en sem nemur 5,70% þá er neikvæð raunávöxtun af þessum reikningi. Auk þess er hugsanlegt að Landsbankinn fari innan 5 ára á hausinn. Landsbankinn getur breytt vaxtakjör fyrirvaralaust, þó ekki afturvirkt. Þetta er ekki fjárfestingarráðgjöf, aðeins ábending um möguleika til ávöxtunar. Held að ég hafi slegið hér á flesta varnagla.
MWM
Seðlabanki Íslands var rétt í þessu að lækka stýrivexti um 0,5%. Í yfirlýsingu Seðlabankans kemur eftirfarandi fram:
Vísbendingar eru um að peningastefnan hafi náð meiri árangri undanfarið en vænst var fyrr á þessu ári. Því er útlit fyrir að hægt verði að halda verðbólgu við markmið til miðlungslangs tíma litið með lægri vöxtum en áður var talið.
Ég tel að Seðlabankinn hafi einfaldlega ofmetið vænta verðbólgu. Reyndar kemur það fram í tilkynningu bankans og rétt er að minnast þess að auðvelt er að vera vitur eftir á. Auk þess hefur aðhald í peningastefnu bankans sjálfssagt dregið úr verðbólgu, en að mínu mati hefði þó ekki átt að hækka stýrivexti fyrir um það bil ári síðan. Þessi mikla vaxtalækkun í morgun og mildari tónn í kynningu bankans gefur til kynna að bankinn lækki vexti jafn enn frekar. Rétt er að minnast þess þó að of miklar vaxtalækkanir gætu virkað eins og olía á eld sé slikt notað sem samlíkingu við verðbólguna.
Áhyggjur af verðbólgu
Þegar að skuldaleiðréttingin var kynnt þá höfðu margir áhyggjur af því að slíkt myndi leiða til verðbólgu. Sagan sýnir hins vegar að eftir að miklar kreppur hafi átt sér stað þá sé tilhneiging hjá fólki af grynnka fyrst og fremst á skuldum sínum. Því taldi ég þetta ekki vera þensluhvetjandi aðgerð (sjá hérna og hérna) og því ekki tilefni til að hafa áhyggjur af verðbólgu.
Þau rök að aukin þensla myndi sjálfkrafa leiða til verðbólgu voru einnig að mínu mati röng. Aukin þensla í íslensku efnahagslífi kæmi áreiðanlega til með að rétta gengi krónunnar og lækka því verð innfluttra vara. Það að launavísitalan hafi hækkað jafn mikið undanfarið er einfaldlega jákvæð afleiðing af bættum efnahagshorfum á Íslandi. Auk þess var stór hluti SALEK samkomulagsins með því sniði að launahækkanir fóru í auknum lífeyrissparnaði, sem fer þá ekki í strax verðlagið nema að fólk fari að taka aukin lán því það á orðið svo mikinn sparnað (það er þekkt að aukin reglubundin sparnaður geti leitt til þess að fólk taki hærri lán en ella). Engu að síður tel ég þó að hækkun launa eigi eftir að smám saman auka verðbólgu á næsta ári og ólíklegt er að hún haldist undir 2% til lengri tíma hjá þjóð með mikla fólksfjölgun, lítið atvinnuleysi (einungis 2,1% núna) og kröftugan hagvöxt.
Óverðtryggð húsnæðislán
Vonandi leiðir þessi vaxtalækkun til þess að vextir óverðtryggðra húsnæðislána lækki á næstu dögum. Það er reyndar meira rými en 0,5% lækkun fyrir hendi að mínu mati. Raunvextir húsnæðislána hafa verið í kringum 6% síðustu mánuði á meðan að raunvextir verðtryggðra lána eru á bilinu 3-4%. Sé miðað við tvær fjölskyldur sem skulda hvor 20 milljónir, önnur með verðtryggt lán og hin með óverðtryggt lán, þá er mismunur á árlegum raunvaxtakostnaði 400 þúsund krónur á milli lána (hér miða ég við 4% verðtryggða og 6% óverðtryggða raunvexti). Það munar um minna! Þetta eru góð rök fyrir því að hafa 50% lána verðtryggð og 50% óverðtryggð í upphafi því að slíkt jafnar sveiflur á greiðslubyrði og fólk greiðir hraðar niður óverðtryggða hlutann (sjá grein mína um þetta hérna).
MWM
ps. Ávöxtunarkröfur skuldabréfa hafa lækkað gífurlega mikið í fyrstu viðskiptum dagsins sem eykur líkur á töluveðri vaxtalækkun óverðtryggðra húsnæðislána.
Viðskipti og fjármál | Breytt 25.8.2016 kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsta faste1gn - fyrstu viðbrögð
15.8.2016 | 15:56
Frumvarp ríkisstjórnarinnar varðandi aðgerðir í tengslum við fyrstu fasteignakaup fólks og vísir að því hvernig vægi verðtryggðra lána yrði minnkað í framtíðinni var kynnt áðan (15.8). Ég get ekki sagt annað en að við fyrstu sýn eru þessar tillögur á heildina litið afar góðar.
Það helsta sem þessar tillögur miða að er að virkja fólk til sparnaðar og veita fólki aukið tækifæri til að fjárfesta í fyrstu eign sína og mynda auk þess eigið fé í hana í upphafi lánstíma. Í því sambandi er verið að veita skattaívilnun í formi séreignasparnaðar sem er skattfrjáls.
Í fyrsta lagi er stefnt að því að framlengja möguleika fólks til að nota séreignasparnað til greiðslu húsnæðislána um 2 ár í viðbót (sjálfur tel ég að mynda ætti framtíðarstefnu í þeim efnum en næsta ríkisstjórn ætti ef til vill að glíma við það).
Hin tillagan er í stuttu máli að veita fólki sem er að kaupa fyrstu sína fasteign möguleika á að nýta sér séreignasparnað. Þrjár leiðir eru í boði. Sú fyrsta er möguleiki á því að safna fyrir afborgun á fyrstu fasteign, ekki ósvipað sparimerkjafyrirkomulaginu fyrir mörgum árum síðan. Þetta er góð leið til að virkja sparnað. Einnig er hægt að nota sparnað til að greiða inn á höfuðstól lána og þriðja leiðin, sem er svipuð, er blönduð leið, þar sem greitt er af afborgunum og einnig höfuðstól lána. Hægt er að nýta sér þessar leiðir í allt að 10 ár.
Það er blandaða leiðin sem ég tel vera lykillinn að farsælli lausn á því að draga úr vægi verðtryggðra lána. Með því að nýta sér blönduðu leiðina getur fólk enn tekið 40 ára lán en í stað þess að þau séu verðtryggð, sem felur í sér nánast enga eignamyndun fyrstu 20 ár lánstímans, getur fólk notað séreignarsparnaðinn til að greiða inn á höfuðstól lána og afborganir. Með því væri hægt að taka verðtryggt lán en með aðstoð séreignarsparnaðar væri greiðslubyrðin svipuð óverðtryggðu láni (í dæminu að neðan er séreignarsparnaður greiddur inn á óverðtryggða láninu en ekki því verðtryggða).
Fyrir hjón sem taka 20 milljón króna lán til 40 ára, miðað við þær forsendur að verðbólga sé 2,5% á ári og raunvextir séu 3,5%, þá er árlegur kostnaður verðtryggðs láns 960 þúsund krónur. Sé óverðtryggt lán tekið þá er árlegur kostnaður rúmlega 1,7 milljón króna á ári. Séu hjónin með 800 þúsund krónur í tekjur á mánuði, eða samtals 9,6 milljón krónur á ári, og leggja í séreign 6% (4% frá launþega + 2% frá launagreiðanda) þá er lagt inn á lán þeirra árlega úr séreigninni 576 þúsund krónur. Sú upphæð dekkar stóran hluta þess mismunar sem greiða þarf umfram af óverðtryggða láninu samanborið við verðtryggða lánið. Mismunurinn fyrsta árið er 180 þúsund krónur eða 15 þúsund krónur á mánuði. Sá mismunur minnkar jafnt og þétt næstu árin en eftir um það bil 10 ár er greiðslubyrði óverðtryggða lánsins orðin svipuð greiðslubyrði verðtryggða lánsins.
Eftir 10 ár (eða í upphafi 11 árs) eru eftirstöðvar óverðtryggða lánsins 12,0 milljónir króna en 22,6 milljónir króna hjá verðtryggða láninu með þessu fyrirkomulagi (þessar tölur eru ekki núvirtar). Séreignin hefur því minnkað eftirstöðvar lánsins bæði með því að leggja meiri pening inn á höfuðstólinn í upphafi lánstímans sem leiðir til þess að vaxtagjöld eru miklu lægri hjá óverðtryggða láninu því að "leigutími" peninga er styttri (það er, höfuðstóll láns er að meðaltali lægri). Að því gefnu að virði húsnæðis hafi hækkað í takti við verðbólgu þá er virði þess hluta sem 20 milljóna króna lánið náði til búið að hækka í 25,6 milljón krónur. Með séreignarleiðinni er í þessu dæmi þá þegar búið að greiða niður helming lánsins miðað við virði fasteignarinnar sem lánað var fyrir.*
Þessi útfærsla virðist við fyrstu sýn taka á helsta vanda verðtryggðra lána, það er að lítil eignarmyndun á sér stað með slíkum lánum, en fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign getur notað séreignarsparnað til að þau líti svipað út og verðtryggð lán hvað þeirra eigin greiðslubyrði varðar. Sýnileg eignarmyndun á sér því stað fyrstu ár lánstímans.
MWM
*Upphaflegir útreikningar mínir gerðu ekki ráð fyrir að greitt yrði inn á höfuðstól lána en við nánari lestur kynningar sá ég að sú upphæð er 10% á öðru ári og eykst svo um 10% hvert ár fram að 90% á ári 10. Rétt er að taka fram að skilningur minn varðandi forsendur útreikninga gætu verið öðruvísi í frumvarpinu sjálfu en tölurnar eru engu að síður ágætt viðmið.
16.8 - var í viðtali á Rás 2 í morgun í tengslum við þetta málefni
Viðskipti og fjármál | Breytt 17.8.2016 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðtryggð lán - einföld leið til að minnka vægi þeirra
11.8.2016 | 16:19
Í morgun var fjallað um verðtryggð lán bæði á Bylgjunni og Rás 2. Einnig fjalla Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Framsóknarflokksins, um leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Enn á ný er fjallað um verðtryggð lán en þrátt fyrir mikla umræðu virðist lítið gerast í þeim málum en ef til vill breytist það á næstunni.
Verðtryggð lán hafa sína ókosti en þau hafa einnig kosti. Hið sama má segja um óverðtryggð lán. Sé lán í formi verðtryggingar þá greiðir lántakandi almennt mjög hægt inn á höfuðstól lána. Það þýðir að lántaki er að "leiga" pening í afar langan tíma, sem gerir það afar dýrt. Það svipar til þess að leiga íbúð og eignast aldrei neitt í hana.
Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er aftur á móti hærri en hjá sambærilegum verðtryggðum lánum og ræður fólk því síður við slík lán. Aftur á móti er eignamyndunin miklu hraðari í slíku lánaformi, höfuðstóll láns lækkar hraðar og "leigukostnaðurinn" því minni.
Hægt er að sjá þetta í þessu Excel skjali þar sem að verðtryggð lán og óverðtryggð lán eru með sama vaxtakostnað í prósentum talið. Bæði lánin greiðast niður á 25 árum og nafnvextir eru 6,09%. Greiðslubyrði verðtryggða lánsins fyrsta árið er 622 þúsund krónur en er aftur á móti hjá óverðtryggða láninu rúmlega milljón krónur. Þar sem að greitt er hraðar inn á óverðtryggð lán þá styttist "leigutímabilið" (þ.e. höfuðstóll láns minnkar hraðar hjá óverðtryggða láninu) og vaxtakostnaður yfir tímabilið því minni. Það munar rúmlega 3 milljónum krónum á milli lánaforma í þessu dæmi. Verið er að greiða sömu vexti af báðum lánum en þar sem að óverðtryggða lánið er greitt hraðar niður þá er höfuðstóllinn yfir tímabil lánsins lægri og því er vaxtakostnaður lægri.
Excel skjal sem sýnir þessa þróun er hægt að nálgast hérna.
Það er einföld leið til að sameina helstu kosti verðtryggðra og óverðtryggðra lána og draga úr vægi verðtryggingar. Almennt þegar fjallað er um fjárfestingar þá er lögð áhersla á að fólk dreifi áhættu. Með sama hætti er hægt að setja fram lög um að húsnæðislán séu í það minnsta 30% óverðtryggð. Með því er dregið úr skammtímaáhrifum þess þegar að verðbólga hækkar og einnig er þannig hægt að tryggja að lántaki greiði hluta lánsins hratt niður (svo lengi sem lánstími sé ekki lengri en 25 ár). Sé einungis 30% lána óverðtryggð er lántaka gert grein fyrir því að 70% lánsins greiðist hægt niður. Sá hluti lánsins er að miklu leyti til leiguverð fyrir húsnæðið. Sé vilji til þess að greiða lánið hraðar niður þá þarf lántaki að taka á sig hærri greiðslubyrði, en með því styttist "leigutíminn" aftur á móti og heildarkostnaður "leigunnar" lækkar.
Þessi leið ætti að vera auðveld að útfæra. Íslandsbanki býður til dæmis nú þegar blandaðar leiðir í húsnæðislánum sem eru á svipuðum nótum.
Þetta myndi draga úr vægi verðtryggðra lána og einnig auka skilning fólks á kosti og ókosti beggja lánaforma. Auðvelt væri að búa til frumvarpið, það væri eitthvað á þessa leið: Húsnæðislán sem veitt eru til einstaklinga skulu vera í hið minnsta 30% óverðtryggð.
MWM
ps. Ég skrifaði skýrslu um verðtryggð lán fyrir hönd VR og Stofnunar um fjármálalæsi fyrir nokkrum árum síðan. Sú skýrslu stendur enn vel fyrir sínu og má nálgast hérna.
Doktorsritgerð MWM
9.6.2016 | 23:04
Maður hefur í gegnum tíðina strengt mörg heit, aðeins til að taka aftur upp slæma ósiði. Í mínu tilfelli hef ég margoft sagt við sjálfan mig að nú sé komið nóg af lærdómi og gráðum. Þetta sagði ég eftir að hafa fengið gráðu í fjármálum og heimspeki fyrir rúmum 20 árum síðan og einnig þegar ég kláraði MSc gráðu mína í fjármálum fyrirtækja skömmu eftir hrun árið 2009. Í síðustu viku kláraði ég enn eina gráðuna þegar að opin PhD vörn á sér stað í Háskólanum í Reykjavík.
Í doktorsritgerð minni, The Icelandic Bubble and Beyoned: Investment Lessons from History and Cultural Effects, rannsaka ég hvaða helstu þættir í menningu okkar hafi ollið því að hér myndaðist svo mikil bóla sem olli því að hér átti sér stað jafn mikið fjármálalegt hrun og raun bar vitni. Athugaði ég til dæmis hvort að aðstæður hér voru með einhverjum hætti öðruvísi en annars staðar í heiminum og að hvaða marki.
Innan ofangreinds ramma rannsakaði ég í fyrstu með Þresti Olaf Sigurjónssyni stækkun íslenska fjármálakerfisins borið saman við stækkun fjármálakerfisins á hinum Norðurlöndunum árin fyrir bankakreppuna sem þeir gengu í gegnum í upphafi tíunda áratugarins.* Að segja að íslenskt fjármálalíf hafi þannist meira og hraðar er vægt til orða tekið. Hér er ein mynd úr þeirri grein sem sýnir þróun á hlutfallslegri stækkun fjármálakerfisins hvað útlán varðar (heildarlán miðað við að stuðullinn 1 sé upphafspunktur), þar sem að tímabilið 1982-1990 fyrir Norðurlöndin er sett samhliða tímaásnum 1999-2007 fyrir Ísland.
Útlánin voru svipuð fyrstu sex árin en þá hófst íslenska útrásin fyrir alvöru og varð aukningin á sambærilegum tímabilum um það bil þrefalt meiri í íslenska bankakerfinu miðað við Norðurlöndin. Það er þó ekki þar með sagt að íslensk heimili beri alla sök á þessari þenslu, þó svo að hér hafi verið stöðug herferð í gangi með það að markmiði að fólk skuldsetti sig. Skuldir íslenskra heimila stórjukust frá árinu 2005 þegar fasteignaverð, til dæmis, hækkaði gríðarlega en sá vöxtur var lítilfjörlegur miðað við útlán til fyrirtækja eins og þessi mynd ber með sér.
Útlán til heimila meira en tvöfölduðust frá miðju ári 2005 til lok árs 2008 en þau sexfölduðust hjá eignarhaldsfyrirtækjum. Þetta skýrir að einhverju leyti mismuninn á útlánaaukningunni
Íslendingar eru einstaklingshyggjuþjóð samkvæmt öllum mælikvörðum sem hægt er að leggja á slíkt. Að þessu leyti erum við ólíkir öðrum Norðurlandabúum og sverjum okkur meira í ætt við Bandaríkjamenn og Breta.
Mikið var fjallað um sér einkenni Íslendinga árin fyrir hrun. Við vorum á stundum borin saman við Norðurlandaþjóðirnar þar sem að einstaklingshyggja Íslendinga og þor okkar væri ástæða þess að við næðum svo góðum árangri í fjárfestingum. Þessi orðræða tók mikla sveiflu í framhaldi af hruninu en engu að síður var samt ástæða til þess að skoða þetta betur. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Svala Guðmundsdóttir og Þórhallur Örn Guðlaugsson (AGG) athuguðu þetta í nokkrum rannsóknum nýlega. Niðurstaða þeirra var að það sem skildi menningu Íslendinga frá flestum öðrum þjóðum, þar á meðal Norðurlandaþjóðum, var að Íslendingar væru svipaðir Norðurlandabúum að undanskilinni einni vídd, það er einstaklingshyggju. Íslendingar eru í þeim efnum svipaðir Bandaríkjamönnum, Bretum og Áströlum.
Þessar upplýsingar voru ákveðinn stökkpallur fyrir grein sem ég og Vlad Vaiman skrifuðum. Þegar litið er til talna varðandi sparnað þá kemur í ljós að þjóðir með litla sparnaðarvitund eru oft á tíðum sömu þjóðir og þær sem hafa hátt stig einstaklingshyggju. Íslendingar hafa til dæmis sögulega séð sparað afar lítið miðað við Norðurlandaþjóðirnar eins og sést hérna, þar sem að sparnaður sem hlutfall af tekjum er miklu minni hjá okkur samanborið við Norðurlandaþjóðirnar.
Reyndar er það svo að eftir því sem þjóðir hafa meiri einstaklingshyggju, þeim mun minni sparnaður á sér stað hjá þeim. Sést það hérna þar sem meðalsparnaður top 4 einstaklingshyggju þjóða (IDV) er langtum minni en hjá öðrum þjóðum, þjóðir númir 5-8 á IDV skalanum eru með meiri sparnað og aðrar þjóðir spara síðan töluvert meira en hinar þjóðirnar.
Hvernig stendur á þessu? Við því er ekkert einhlítt svar. Það er hins vegar hægt að líta til ýmissa þátta sem voru að eiga sér stað í íslensku þjóðlífi frá því um miðjan tíunda áratuginn sem breyttu menningu landsins gríðarlega. Það væri jafnvel áhugavert að sjá gamla fréttatíma frá þessum tíma því íslenska þjóðin hefur breyst gífurlega á tímabilinu og því vart hægt að segja að menning Íslands sé lítt breytanleg, eins og oft er gert ráð fyrir þegar talað er um menningu.
Nokkrir þættir urðu til þess að hér breytist íslenskt samfélag á svipstundu. Aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu árið 1995 opnaði upp á gátt fjárflæði til og frá Íslandi eftir að þjóðin hafði lifað í gjaldeyrishöftum frá árinu 1930. Tilkoma Internetsins og aukinn aðgangur að sjónvarpi og lægri símakostnaður opnaði á sama tíma aðgang okkar að umheiminum með hætti sem aðeins nokkrum árum áður var óhugsandi. Mitt í þessari þróun á alþjóðavísu voru Glass-Steagall lög í Bandaríkjunum sem höfðu verið við lýði frá því á árinu 1933 (lærdómur þeirra af Kreppunni miklu 1929-1932) afnumin, sem þýddi að viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi mátti á nýjan leik vera undir sama þaki. Hugsunin var sú, eins og Reinhart og Roggoff fjalla í bók sinni This Time is Different, að nú viti fólk betur. Íslenskir bankar fóru úr ríkiseigu á sama tíma og öll þessi umbrot voru að eiga sér stað, þegar að bankar í hinum vestræna heimi fóru að keyra hagnað sinn fyrst og fremst á fjárfestingabankastarfsemi sem fól í sér áhættur sem fæstir áttuðu sig á.
Eins og gerist oft við slíkar breytingar er hagnaður tímabundið mikill, en fæstir átta sig á áhættunni. Þetta átti ekki síst við um Íslendinga. Meira að segja allt sparisjóðakerfi Íslands hafði breyst í spilavíti þar sem að 60% af eigin fé alls kerfisins í árslok 2006 var bundið í einu fjárfestingafélagi, Exista. Ég hef fjallað um það á nokkrum stöðum en það félag fól í sér gífurlega mikla áhættu frá mörgum sjónarhornum, en á meðan að félagið skilaði hagnaði virtust flestir Íslendingar ekki sjá að það var spilaborg sem gæti fallið hvenær sem var.
Að lokum, þá er það merkilegt hversu mikið var kynnt undir þjóðernishyggju. Í grein sem ég skrifaði með Kristínu Loftsdóttur kemur fram að sú ímynd af útrásinni sem flestir Íslendingar muna eftir að stöðugt var verið að slá á strengi þjóðernishyggju. Farið var í smiðju (sem hafði enga stoð í sjálfu sér) ímyndar um víkinga sem væru í útrás. Fjölmiðlar, sem voru að stórum hluta til í eigu útrásarvíkinga, hömruðu á sér einkenni Íslendinga. það virðist ef til vill vera mótsagnakennt en oft á tíðum var talað um einstaklingshyggju okkur, en á sama tíma var slík orðræða tengd því að við ættum standa saman. Þegar að danskir sérfræðingar settu spurningarmerki um stoðir útrásarinnar þá komu fyrirsagnir í þeim anda að verið væri að ráðast á íslensku þjóðina, sem ætti að standa saman. Svipað andrúmsloft ríkti og þegar að Paul Warburg setti spurningarmerki við hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1929, aðeins til að vera sakaður um að vera á móti bandarískum hagsmunum.
Útrás bankanna hefði aldrei getað átt sér stað án nokkurs konar samþykki íslensku þjóðarinnar. Það sem fæstir Íslendingar vissu var hversu mikil áhætta tengdist útrásinni og hversu lítið þeir báru úr býtum miðað við þá sem hömruðu á þjóðernisvitund landsmanna. Hins vegar var það svo að íslenska þjóðin var ekki ein heild. Á meðan flestir landsmenn hafa þurft að glíma við afleiðingar hrunsins, í mismiklum mæli og vegna heppilegrar þróunar í miklu minna mæli en nokkurn hefði órað fyrir, þá hafa margir einstaklingar komið afar vel út úr hruninu. Að hvaða marki þetta var gert með meðvituðum hætti er erfitt að segja til um.
Helsti lærdómurinn er svipaður þeirri spurningu sem bankar spyrja viðskiptavini sína, sem á ensku útleggst sem Get To Know Your Customer. Við þurfum að spyrja okkur sjálf hvernig bankakerfi við viljum í framtíðinni. Einhverja hluta vegna er til dæmis ekki búið að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi, þó svo að árin fyrir hrun hafi einkennst af því að íslenskir fjárfestingabankar undir hatti almennra banka með innstæðutryggingu (IceSave?) hafi tekið áhættur sem hefði veitt eigendum þess mikinn arð ef vel hefði gengið (óvíst er hversu mikið af arðgreiðslum er á reikningum í aflandseyjum) en almenningur tók skellinn þegar að illa gekk. Oft er bent á að Evrópa sé ekki búin að lögleiða slíkan aðskilnað sem afsökun fyrir því að slíkur aðskilnaður hafi ekki enn átt sér stað. Ég spyr, ættum við ekki að nýta okkar aðstæður þó svo að aðrar þjóðir vilji eða geti ekki gert slíkt hið sama?
Margir hafa einnig farið öndverða átt þegar kemur að eignarhaldi í bönkum og vilja að ríkið eigi þá með þeirri áhættu sem fæstir (aftur) gera sig grein fyrir. Ég fjalla nánar um það síðar.
Spegillinn tók viðtal við mig um þessa ritgerð um daginn, hægt er að hlusta á viðtalið með því að ýta á þennan hlekk - http://ruv.is/frett/islendingar-med-mestu-einstaklingshyggjuthjodum.
Fyrir þá sem finnst þessi samantekt vera of stutt þá er hægt að lesa alla ritgerðina með því að ýta á þennan hlekk - https://www.academia.edu/25828003/THESIS_FOR_THE_DEGREE_OF_DOCTOR_OF_FINANCE_THE_ICELANDIC_BUBBLE_AND_BEYOND_INVESTMENT_LESSONS_FROM_HISTORY_AND_CULTURAL_EFFECTS - eða þennan hlekk - http://www.slideshare.net/marmixa/the-icelandic-bubble-and-beyond-investment-lessons-from-history-and-cultural-effects
MWM
Hrun, hrun, hrun og meira hrun
26.5.2016 | 14:49
Það finnst ef til vill mörgum að verið sé að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhauser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Búið sé að fjalla um hrunið svo mikið að vart verði meira sagt.
Ég er á öndveðri skoðun. Stór hluti þeirra rannsókna og skrifa hafa að miklu leyti einblínt á ákveðna þætti sem fjölmiðlar hafa auðveldlega náð að skýra frá. Aðrir þættir hafa drukknað í umfangsmiklum skýrslum sem hafa að mínu mati verið í sumum tilvikum illa dregnar saman. Síðan hafa sum atriði hreinlega ekki komið upp á yfirborðið þó svo að þau hafi komið skýrt fram í skýrslum.
Þessi skoðun mín byggist að sumu leyti á rannsóknarvinnu minni og skrifum í tengslum við störf mín hjá Rannsóknarnefnd Alþingis varðandi sparisjóðina. Þar hafði ég yfirumsjón með rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna og þátt þeirra í risi og falli sparisjóðanna. Eitt af því sem þar kemur fram og er sláandi er eignarhald sparisjóðanna.
Rannsókn á fjárfestingum sparisjóðanna einblíndi fyrst og fremst á eignarhlut sparisjóðanna í einu félagi, Exista. Exista var fjárfestingarfélag sem var oft líkt við Berkshire Hathaway sem stýrt er af besta fjárfesti heimssögunnar, Warren Buffett. Sannleikurinn var ekki nálægt því. Exista fjárfesti í nokkrum félögum og komu þar helst til sögunnar helstu eigendur þeirra, Kaupþing banki og Bakkavör. Síðar fjárfesti Exista í Sampo Group og Storebrand, hvort tveggja félög sem tengdust Kaupþingi. Exista átti örfáar eignir og var stöðugt afar gírað, með um það bil helming eigna sinna fjármagnað með lánum. Það þýddi að hagnaður félagsins var mikill þegar að vel gekk en sú áhætta var stöðugt fyrir hendi að ef markaðsvirði þeirra örfáu eigna félagsins myndi falla þá yrði það fljótlega verðlaust.
Þegar að vel gekk högnuðust sparisjóðirnir vel vegna eignarhluta síns í félaginu. Fram kemur á síðu 289 í 10. kafla skýrslunnar á mynd 9 að eignarhlutur alls sparisjóðakerfis Íslands beint og óbeint í Exista í árslok 2006 var 57% af eigið fé sparisjóðanna. Þetta er ekki stafsetningarvilla; 57% alls eigin fjár sparisjóðanna var bundið í einu félagi sem átti örfáa eignarhluti í skráðum fyrirtækjum og var fjármagnað með lánveitingum að stórum hluta. Þetta hlutfall féll niður í 28% í árslok 2007 og voru aðallega tvær ástæður fyrir því. Hvorug þeirra er jákvæð, en ég geri ekki skil á þeim í þessum stutta pistli.
Þetta er einungis eitt dæmi af mörgum sem ég veit af um það hversu margt var í ólagi í íslensku bankakerfinu árin fyrir hrun. Dæmum sem ættu heima á spjöldum sögunnar en hafa drukknað í umræðu um margt annað tengt hruninu. Ég skrifa meira um þau seinna.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Arðgreiðslur tryggingafélaga (aftur) og dýr fjármögnun
8.3.2016 | 13:32
Fyrir ári síðan skrifaði ég grein þar sem ég furðaði mig á arðgreiðslustefnu tryggingafélaga. Í greininni kom fram að samtala arðgreiðslna hjá Sjóvá, VÍS og TM væri 10,5 milljarða króna vegna ársins 2014. Í greininni kom eftirfarandi fram:
Áhugavert er að bera þessa tölu saman við nokkrar stærðir þessara þriggja félaga. Samtala eigin fjár þeirra í árslok 2014 var 48 milljarðar króna. Markaðsvirði þeirra í dag er samanlagt í kringum 65 milljarðar króna. Því er verið að greiða út í arð vel ríflega 20% af eigið fé félaganna og rúmlega 15% af markaðsvirði þeirra.
Samanlagður hagnaður félaganna var árið 2014 4,8 milljarða króna. Þessi tala var árið áður, þ.e. 2013, um 6,2 milljarða króna. Samanlagðar arðgreiðslur í ár fara því langt með að dekka ekki einungis allan hagnað árið áður heldur einnig hagnað árið 2013. Því má við bæta að eina félagið sem hagnaðist af einhverju viti á tryggingarstarfseminni sjálfri var Sjóvá. Nær allur hagnaður TM og VÍS árið 2014 var vegna ávöxtunar á fjárfestingum þeirra.
Ég taldi á þeim tímapunkti að skynsamlegra væri að móta arðgreiðslustefnu sem tæki mið af hagnaði umfram verðbólgu. Segja má að með því stefni félög að því að tryggja stoðir undirliggjandi raunverðmæta með því að halda ávallt eftir næganlegt fjármagn til að eigið fé sé í það minnsta jafn mikið og árin áður að teknu tilliti til verðbólgu. Þess til viðbótar ætti að meta hversu mikið ætti að greiða til hluthafa og hversu mikið ætti að halda eftir til að beina í nýjar fjárfestingar og jafnvel viðhaldi eigna sem ekki kemur fram á afskriftarreikningi. Þessi nálgun myndi til að mynda auka lánshæfismat tryggingafélaga sem ætti þá að koma fram í betri lánskjörum varðandi fjármögnun þeirra og til lengri tíma auka arðsemi þeirra að teknu tilliti til áhættu.
Var meðal annars fjallað um þetta í þættinum Viðskipti sem sýndur er á ÍNN -
http://inntv.is/Horfa_a_thaetti/Vidskipti/?play=121444852. (umræða um þetta hefst á 22. mínútu)
Nú, ári síðar, leika tryggingafélögin aftur svipaðan leik. Reyndar eru samanlagðar arðgreiðslur minni í ár, eða um 9,5 milljarða króna. Það er þó um 70% hærri upphæð en samanlagður hagnaður þeirra. Því er aftur verið að minnka eigið fé þeirra töluvert mikið og því verið að auka áhættu í rekstri þeirra.
Það er áhugavert að VÍS, sem í fyrra greiddi lægstu arðgreiðsluna, greiðir nú 5 milljarða króna í arð í ár (Sjóvá og TM greiddu hvort um sig 4 milljarða króna í arð í fyrra án þess að mikið hafi verið eftir því tekið í almennri umræðu). Í fyrra var arðgreiðsla VÍS aðeins 2,5 milljarða króna. Það sem hefur lítið farið fyrir í ár er að sú arðgreiðsla er að stórum hluta til fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa. Samkvæmt tilkynningu frá Kauphöllinni - https://cns.omxgroup.com/cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=698663&messageId=873750 - var samtala skuldabréfanna 2,5 milljarða króna. Skuldabréfaútgáfan er sama upphæð og nemur aukningu arðs á milli ára. Eftirfarandi er afritað af ofangreindri tilkynningarsíðu Kauphallarinnar:
Hin nýju skuldabréf eru vaxtagreiðslubréf og bera 5,25% fasta verðtryggða vexti. Skuldabréfin eru til 30 ára en í bréfunum er uppgreiðsluheimild og þrepahækkun í vöxtum upp í 6,25% eftir 10 ár.
VÍS er með öðrum orðum að fjármagna arðgreiðsluna með útgáfu skuldabréfa á kjörum sem eru talsvert slakari en flestir Íslendingar fjármagna íbúðakaup sín. LSR býður til dæmis uppá fasteignalán þar sem að fastir vextir eru 3,60% og breytilegir vextir eru 3,13%.
Til að setja þessi kjör í einfalt samhengi, þá mun fjárfestir sem kaupir bréfin á þessum kjörum (miðað við að bréfin séu seld á pari) og getur endurfjárfest vaxtagreiðslur á sömu kjörum næstu 10 ár eiga orðið 66% meira að raunvirði. Þetta kalla ég góða ávöxtun sem eigandi skuldabréfs, en afleit ávöxtun væri ég skuldari. Vaxtakjörin eru reyndar svo slök að áætla mætti að töluverð áhætta væri fólgin í rekstri VÍS. Slíkt á ekki að eiga sér stað hjá tryggingarfélagi.
Því er ekki einungis vert að setja spurningarmerki við arðgreiðslustefnur tryggingafélaga heldur einnig fjármögnun þeirra.
MWM
Hér er upphafleg grein mín þar sem ég furða mig á arðgreiðslustefnu tryggingafélaga frá 11.3.2015 - http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1653428/
Landsbankinn - sala fyrir Borgun
11.2.2016 | 10:48
Landsbankinn er í eigu landsmanna. Óbeinn hlutur hvers Íslendings í bankanum er sjálfsagt miklu meiri en flestir átta sig á, eða í kringum einn milljón króna á hvern fjárráða Íslending miðað við bókfært virði bankans.
Alþingismenn eru fulltrúar þjóðarinnar varðandi framtíð bankans. Sumir þeirra vilja að tæplega 100% eignarhlutur bankanum og því allri áhættu tengd rekstri hans verði áfram í eigu þjóðarinnar. Af orðum þeirra má ráða að með því að halda bankanum í eigu þjóðarinnar sé hægt að mynda banka sem væri fyrirmynd annarra banka hérlendis. Ég á hins vegar erfitt með að sjá slíkt gerast. Bankinn hefur verið í eigu ríkisins í meira en sjö ár en engu að síður ríkir stöðugur umboðsvandi sem engan endi virðist ætla að taka. Hér eru nokkur dæmi.
Staðsetning
Bankastjórn Landsbankans vill reisa höfuðstöðvar í miðbænum. Margir þingmenn hafa mótmælt þessum áformum en þrátt fyrir það hefur stjórnendateymi bankans ekki gefið út neina yfirlýsingu um að til standi að hætta við slík áform. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við RÚV í framhaldi af þessu að undarlegt væri að banki ætlaði að fara gegn vilja almennings og fulltrúa hans. Sagði hann að bankinn ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör almennings.
Vaxtamunur
Hefur Landsbankinn, í eigu almennings í nokkur ár, verið að bæta kjör almennings? Samkvæmt skýrslu ( http://www.sa.is/media/1826/hver-borgar_-15okt-2015.pdf ), sem Óttar Snædal hjá SA birti síðastliðinn október, er vaxtamunur (hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af heildareignum; almenn leið til að meta vaxtakjör viðskiptavina) íslensku bankanna 2,8%. Sá vaxtamunur er ívið hærri en vaxtamunur minni banka á Norðurlöndunum og í Evrópu, þar sem hann er í kringum 2,0%. Vaxtamunurinn hjá Landsbankanum er hins vegar ekki lægstur heldur er hann 3,0% á meðan hann er 2,5% hjá Arion banka. Sé rýnt í heimasíður bankanna sést að báðir bankar veita sömu kjör á íbúðalánum og sumir lífeyrissjóðir veita sjóðsfélögum sínum jafnvel enn betri kjör. Vilji fólk leggja inn á óverðtryggðan fastvaxtareikning bundinn til 12 mánaða, veitir Arion banki betri kjör en Landsbankinn.
Óttar bendir á að ákveðnar sér-íslenskar aðstæður valdi því að vaxtamunur hérlendis sé hærri en í nágrannaríkjum. Eitt af þeim atriðum eru háar skatta- og gjaldaálögur fjármálafyrirtækja, sem renna til ríkisins, fulltrúa almennings, vegna eignarhluta í Landsbankanum.
Því má við bæta að vaxtakjör almennings í landinu bötnuðu þegar að bankakerfið komst úr viðjum ríkisvaldsins fyrir tæpum 20 árum síðan. Sú vegferð endaði illa, að stórum hluta til vegna þess að bankarnir umbreyttust í fjárfestingabanka með ríkisábyrgð sem almenningur tryggði að ákveðnu leyti. Það hefur gleymst að fyrstu ár einkavæðingar einkenndust af mikillri hagræðingu innan bankakerfisins sem skilaði sér að hluta til almennings með betri kjörum. Það afsakar auðvitað ekki glórulausa útrás síðari ára.
Borgun fyrir sölu
Ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið varðandi Landsbankann er að selja eigi frekar hluti úr bankanum í stað þess að selja hann smám saman. Það hefur hingað til tekist illa. Engin virðist vita hver ber ábyrgð á því að banki í eigu landsmanna seldi hlut sinn í Borgun á gjafverði, en fram hefur þó komið að þetta sé langt í frá í fyrsta sinn sem spurningarmerki hefur verið sett varðandi ferli á sölu eigna úr bankanum.
Sala fyrir borgun
Ef Landsbankinn væri að hluta til í eigu almennra fjárfesta (almennings, lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta) þá hefðu eigendur hans beinan hag af því að fá sem mesta ávöxtun af sölu eigna. Þeir myndu vega og meta hver eðlilegur vaxtamunur væri. Ytri aðstæður og betra útlánakerfi hefðu líklega meiri áhrif á slíkt en einhver miðstýring frá ríkinu. Ef stjórn og stjórnendateymi bankans telur hagstæðast að reisa höfuðstöðvar í miðbæ Reykjavíkur (ég tel það reyndar vera glórulaust) þá eru það fjármunir eiganda bankans sem settir væru að veði í slíkri ákvörðun. Hlutverk ríkisins, með 34% til lengri tíma, væri fyrst og fremst að tryggja að starfsemi bankans færi ekki á slíka áhættusama braut því ef illa færi ylli það stórkostlegu efnahagslegu tjóni og hagur almennings væri því settur að veði.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.2.2016 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
The Big Short - sannar sögur
26.1.2016 | 13:15
Sönn íslensk saga
Einu sinni var íslenskur bankamaður sem hóf störf í banka í byrjun október 2007. Hann hefði starfað þar í 2-3 daga þegar hann var beðinn um að kanna hversu vitræn kaup væru í bandarískum banka. Íslenski bankinn hafði á þeim tímapunkti þegar keypt bréf í bankanum fyrir um það bil 300 milljónir íslenskra króna og stóð til að kaupa auk þess fyrir 700 milljón krónur í viðbót, eða fyrir samtals 1 milljarð króna.
Lítil rannsóknarvinna hafði átt sér stað vegna þessara kaupa önnur en að markaðsvirði bankans var lágt borið saman við innra virði eigin fjár hans (svokallað V/I hlutfall eða á ensku Price/Book ratio). Auk þess hafði ákveðið fjárfestingarfyrirtæki verið að spá í að kaupa hlut í bankanum en hafði af einhverjum ástæðum hætt við kaupin.
Þetta var banki sem sérhæfði sig í fasteignalánum, staðsettur í miðju Flórída fylki. Nokkrum starfsmönnum fannst að frekari rannsókn ætti að eiga sér stað varðandi bankann áður en ráðist yrði í frekari kaup (þ.e. 700 milljón krónur í viðbót). Þeir höfðu einnig áhyggjur af því að fréttir um aukin vanskil fólks af húsnæðislánum í Bandaríkjunum gætu haft neikvæðari áhrif á rekstur bankans en almennt var gert ráð fyrir.
Íslenski bankamaðurinn fór að lesa sér til um stöðu húsnæðismála í Bandaríkjunum og þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að sjá að sá markaðurinn stæði á miklum brauðfótum. Húsnæðisverð hafði hækkað gífurlega, meira en góðu hófi gegndi, sérstaklega í ljósi þess að engin kreppa hafði ríkt á þeim markaði árum saman. Nokkrar vefsíður sjálfstæðra greinenda bentu á að vanskil væru að aukast hratt og til að bæta gráu ofan á svart þá bentu sumir þeirra á að margt væri athugavert við lánveitingar til fólks; margir voru að fá húsnæðislán að því marki að vonlaust væri til lengdar að fólkið gæti staðið í skilum.
Það vildi þannig til að íslenski bankamaðurinn þekkti konu vel sem átti heima sunnarlega í næsta fylki við Flórída. Hún tjáði honum að það væru til sölu skilti út um allt í kringum hana og að þeim hefði fjölgað gífurlega síðustu mánuði. Annað símtal við verðbréfamiðlara sem átti heima í Florída jók áhyggjur íslenska bankamannsins. Verðbréfamiðlarinn sagði að fasteignir sem fyrr á árinu hefði verið veðsettar á $600.000 hefði verið nýlega seldar á uppboði á $300.000. Íslenski bankamaðurinn sá að mikið fasteignahrun væri í aðsigi; stormur væri á leiðinni en fólk sæi hann ekki ennþá. Hann hafði jafnframt áhyggjur af því að svipuð staða væri að myndast á Íslandi.
Bankamaðurinn kallaði um það bil tveimur vikum síðar bankastjóra og yfirmann fjárstýringar bankans á sinn fund. Hann sagðist hafa rannsakað stöðuna og taldi það jafnvel ekki óhugsanlegt að þessi banki í Flórída yrði orðinn gjaldþrota eftir 12 mánuði. Þetta orðaði hann varfærnislega því á þeim tímapunkti gat slík yfirlýsing haft afar neikvæð áhrif á stöðu hans innan bankans. Þegar að hann hélt áfram að koma fram með rök um slíkar áhyggjur stóð bankastjórinn á fætur og sagði eitthvað á þá leið að hann sæi alveg að búið væri að rannsaka málið og því mætti hætta við kaupin og jafnvel selja þau bréf sem þá þegar hefðu verið keypt. Að því búnu gekk hann í burtu.
Þessi ákvörðun reyndist farsæl. Bréfin sem búið var að kaupa voru seld með um það bil 100 milljón króna tapi. Ári síðar voru þau orðin verðlaus og kröfuhafar bankans áttu því aðgang að 900 milljón krónum meira en ella.
The Big Short
Ofangreind saga rifjaðist upp þegar ég sá myndina The Big Short sem var frumsýnd hérlendis um daginn á sérstakri forsýningu VÍB. Sagan er byggð á samnefndri bók Michael Lewis sem er að mínu mati meðal bestu bóka sem skrifaðar hafa verið um fjármál. Myndin fjallar um nokkra einstaklinga sem áttuðu sig á því að húsnæðisbóla væri að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Þeir tóku því stórar stöður á móti verðbréfum tengdum afurðum tengdum húsnæðislánum (skortstöður eða á ensku short selling). Ólíkt íslenska bankamanninum þá þurftu þeir að sæta gagnrýni hjá flestum samstarfsfélögum sínum og var jafnvel hlegið að fávisku þeirra. Reyndi svo mikið á þá að margir þeirra uppskáru litla gleði, jafnvel biturleika, eftir að hafa þénað jafn mikið á raun bar vitni á þessum stöðutökum.
Myndin fylgir bók Lewis í flestum atriðum vel eftir. Ég minnist þess ekki að neinu hafi verið bætt við til að gera söguna áhugaverðari, enda ekki þörf á því. Helsta breytingin er að Lewis fjallar meira um eina sögu í einu á meðan að myndin fylgir tímaröð eftir til að halda flæðinu fyrir áhorfendur. Það er áhugavert hversu þekktir leikarar leika í þessari mynd, sem fær örugglega takmarkaða aðsókn, auk þess tel ég að Christian Bale ætti að fá Óskarsverðlaun fyrir sinn leik.
Ég mæli hiklaust með þessari mynd.
MWM
ps. Ég hef heyrt því hvíslað að næsta húsnæðisbóla sem springur verði í Noregi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 29.1.2016 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Erlendar íslenskar fjárfestingar
21.1.2016 | 13:45
Hlutabréfavísitölur hafa fallið töluvert mikið á alþjóðlegum mörkuðum síðustu vikur. Íslenska hlutabréfavísitalan hefur í takti við erlendar vísitölur lækkað 7-8% fyrstu daga ársins.
Íslensk hlutabréf
Þó svo að íslenska hlutabréfavísitalan hafi lækkað talsvert minna en lækkun flestra erlendra hlutabréfavísitalna, þá er ekki þar með sagt að hún sé lítil. Hríðfallandi olíuverð hefur haft afar neikvæð áhrif á framtíðarrekstur margra orkufyrirtækja. Hlutabréf olíufyrirtækja hafa lækkað mikið í virði, en þau mynda til að mynda 12% af bresku FTSE 100 hlutabréfavísitölunni. Tvö fyrirtæki á Íslandi hafa aftur á móti töluverðan hag af lækkandi olíuverði, Icelandair og Eimskip. Samtala markaðsvirðis þessara tveggja félaga er rúmlega 20% af samtölu skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni. Engu að síður hefur markaðsvirði beggja félaga fallið tæplega 10% síðustu tvær vikur.
Áhyggjur af alþjóðlegum samdrætti skýra þessa lækkun að einhverju leyti. Verði samdrátturinn í líkingu við það sem gerðist árin 2008-2010 þá er innstæða fyrir jafnvel enn frekari lækkun. Hugsanlegt er að koma ferðamanna til Ísland dragist mikið saman sem hefði afar neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Rétt er að hafa í huga að hlutabréfavísitölur hafa sögulega séð verið besti fyrirboðinn um efnahagsspár. Verði alþjóðlegur samdráttur aftur á móti ekki af þeirra stærðargráður að hann hafi neikvæð áhrif á rekstur Icelandair og Eimskips þá lækkar kostnaður beggja fyrirtækja og hagnaður þeirra eykst (samkeppni kemur þó í veg fyrir að slík hagnaðaraukning verði til lengri tíma til staðar).
Erlendar íslenskar fjárfestingar
Gjaldeyrishöft tóku gildi á sama tíma og gengi hlutabréfa tók að lækka verulega árið 2008. Þau féllu enn meira í upphafi árs 2009. Síðan þá hafa hlutabréfavísitölur um allan heim hækkað mikið. Bandaríska Dow Jones hlutabréfavísitalan hefur til dæmis tvöfaldast í virði og sú breska í kringum 50% frá lægsta punkti árið 2009, jafnvel eftir undanfarnar lækkanir á gengi hlutabréfa.
Segja má að höftin hafi stutt við uppbyggingu íslensks verðbréfamarkaðar, meira en nokkur maður þorði að vona í kjölfar hrunsins, en fórnarkostnaðurinn var að ákjósanleg kauptækifæri á erlendum mörkuðum fóru forgörðum. Nú, þegar að gjaldeyrishöftin eru hugsanlega að nálgast endastöð, opnast á ný möguleikar til að fjárfesta á erlendum mörkuðum og dreifa þannig áhættu fyrir íslenska fjárfesta. Það eru því ekki nauðsynlega slæmar fréttir að erlend hlutabréf séu að lækka í virði. Ef til vill eru einfaldlega álitleg kauptækifæri að myndast á erlendum mörkuðum loksins þegar að Íslendingar geta á ný fjárfest utan landsteinanna.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)