Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Selja Landsbankann og hugsanlegar höfuðstöðvar í leiðinni

Töluverður umboðsvandi virðist ríkja varðandi Landsbankann þessa daganna. Bankinn vill byggja höfuðstöðvar í miðbænum sem fyrirséð er að verði dýrar í byggingu. Stjórnendateymi bankans telur að sá kostnaður fáist til baka þegar að til lengra tíma er litið.

Ríkið er langstærsti hluthafi bankans. Engu að síður hafa talsmenn helstu ráðamanna landsins opinberlega lýst yfir efasemdum á slíkum áformum. Í þeim hópi eru alþingismenn sem nú mynda meirihluta ríkisstjórnarinnar og jafnvel leiða hana. Maður skyldi ætla að þeir réðu hvað bankinn gerir og gerir ekki.

Það er einfalt að leysa þetta mál. Ríkið ætti að selja bankann. Umræða hefur verið að fara svokölluðu norsku leiðina í þeim efnum, sem felst í því að ríkið selji 60% hlut og ætti eftir 40%. Þannig réðu öfl sem hefðu hagsmuni bankans í fyrirrúmi hvað arðsemi varðar. Aftur á móti ætti ríkið áfram hlut í bankanum þannig að það hefði ákveðið neitunarvald sé bankinn að færast á braut þar sem að samfélagsleg gildi væru hvergi lengur sjáanleg.

Með þessu myndi stjórn bankans, skipuð aðallega af einstaklingum í umboði stærstu eigenda bankans (að ríkinu undanskildu), taka ákvörðun um það hvort að ný bygging ætti að rísa í miðbænum, á öðrum stað eða hvort nauðsynlegt sé yfir höfuð að byggja nýja byggingu. Væri niðurstaðan sú að byggingin væri fjárhagslega hentug þá myndu eigendur bankans samþykkja það og hlutur ríkisins í slíkri byggingu yrði "einungis" 40%.

Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni. Fjallaði ég til að mynda um hana varðandi sölu á HS Orku fyrir nokkrum árum síðan og einnig fjallaði fjármálaráðherra um þetta í vor.

Eigið fé bankans var rúmlega 230 milljarða króna í upphafi 2. ársfjórðungs á þessu ári. Miðað við eðlilegan hagnað væri það komið í það minnsta 250 milljarða króna verði 60% hlutur bankans seldur á næstu 12-18 mánuðum. Hagnaður Landsbankans á seinasta ári var 30 milljarða króna eftir skatta. Miðað við margfaldarann 1,2 á eigið fé bankans yrði markaðsvirði hans ríflega 300 milljarða króna. Sé hagnaður ársins 2014 margfaldaður með 12 væri markaðsvirðið 360 milljarða króna. Með því að selja 60% hlut í bankanum fengi ríkið samkvæmt ofangreindum forsendum í kringum 200 milljarða króna í sinn hlut en ætti eftir sem áður 40% hlut í bankanum.

MWM 

 

 


Versnandi verðbólguhorfur - lækkandi verðbólguálag

Áhugavert hefur verið að fylgjast með íslenskum verðbréfamörkuðum í þessari viku. Verðsveiflur hafa verið töluverðar vegna mikilvægra tilkynninga í vikunni.

Sígildir undanfarar verðbólgu

Það sem hefur komið mér mest á óvart er að íslenska krónan hefur nánast staðið í stað. Sjálfur gerði ég ráð fyrir að fréttir mánudagsins myndu leiða til verulegrar styrkingar hennar því þó að afnám gjaldeyrishafta væri loks fyrirsjáanlegt þá taldi ég höggið vera meira en nú er gert ráð fyrir. Styrkingin gekk aðeins eftir í takmörkuðum mæli sem er vísbending um að markaðsaðilar á gjaldeyrismarkaði höfðu gert ráð fyrir álíka fréttum. Þess ber þó að hafa á í huga að Seðlabankinn er einn afar stór markaðsaðili og jafnvel ráðandi á gjaldeyrismarkaði.

Á þriðjudaginn voru hagvaxtartölur birtar. Þær sýna að hagvöxtur og neysla eru að aukast í takti við spár greiningaraðila. Því til viðbótar var staðfest að uppbygging á kísilveri á Bakka við Húsavík væri handan hornsins sem á eftir að auka þenslu töluvert mikið á Norðulandi. Þessar fréttir munu líklegast auka hagvöxt og neyslu enn frekar. Gengi íslensku krónunnar veiktist hins vegar aftur á þriðjudaginn og er nú á svipuðum slóðum og það var í síðustu viku.

Þó svo að líklegt sé að ríkissjóður noti stóran hluta af þessum 600-800 milljörðum króna (um það bil allar skatttekjur ríkissjóðs á 18 mánuðum) til að greiða niður skuldir þá hlýtur eitthvað af þessu fjármagni fara beint í hagkerfið (lækkun vaxtagreiðslna væri í sjálfu sér stórt skref í aukningu fjármagns). Væntanlega gerist slíkt að mestu leyti í formi lægri skatta og hærri launa. Bæði atriðin kynda undir verðbólgu.

Óverðtryggð bréf - minnkandi verðbólguálag

Því er það áhugavert að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hefur lækkað töluvert í upphafi þessarar viku. Lengstu ríkisbréfin hafa hækkað um 3% í virði samhliða u.þ.b. 25 bps lækkun á ávöxtunarkröfu þeirra (sambandið á milli verðs skuldabréfa og ávöxtunarkröfu þeirra rambar). Ávöxtunarkrafan á verðtryggðum íbúðabráfum hefur aftur á móti nánast staðið í stað. Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að verðbólguálagið sé að minnka.

Það er hægt að mæla það í dögum hversu stutt er síðan að umræða átti sér stað um að stýrivextir gætu farið í tveggja stafa tölu. Eðlilegt var að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa myndi hækka nokkuð. Það að tíðindi um enn frekari hagvöxt og nokkuð augljós merki um að fjármagn sé í þann mund að aukast töluvert í hagkerfinu, sem eykur almennt verðbólgu, leiði til þess að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa lækki er athyglisvert. Ég spurði nokkra félaga skýringa á þessu og eru bestu skýringar að mínu mati útlistaðar að neðan.

Rökréttar skýringar á órökréttri þróun

Hugsanlega má segja að verðbólguálag óverðtryggðra ríkisbréfa hafi verið orðið nokkuð hátt. Það var komið í u.þ.b. 4,5% en var nálægt 2,5% síðustu áramót. Þessi rök skýra þó ekki svo snarpa lækkun á ávöxtunarkröfunni. Hugsanlega hafa markaðsaðilar einnig haft ákveðið óvissuálag í ávöxtunarkröfunni vegna losun gjaldeyrishafta sem nú hefur lækkað verulega. Því til viðbótar (og þetta tel ég vera afar áhugaverða skýringu, einnig með tilliti til hlutabréfa) gerir losun gjaldeyrishafta það að verkum að fjárfestar fari að bera saman háa ávöxtunarkröfu sem gerð er til innlendra skuldabréfa og erlendra.

Má í því tilliti benda á að ég hef lengi talið að ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa ætti að lækka töluvert mikið (hef m.a. fjallað um það í fyrri pistlum á þessum vettvangi). Sé þetta raunin er hugsanlegt að ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa eigi eftir að lækka mikið. Það myndi hafa afar jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf og gera það að verkum að ný lán útgefin af ríkinu bæru lægri vaxtakostnað.

Annað vert að nefna er að þróunin í vikunni á líklegast eftir að bæta lánshæfismat íslenska ríkisins. Þar sem að lánshæfismat íslenska ríkisins er almennt þak á lánshæfismati íslenskra fyrirtækja þá er viðbúið að þau myndu geta fjármagnað sig á lægri vaxtakjörum. Þetta gæti skapað hringrás þar sem að lægri vaxtakjör mynda betri afkomu og aukin stöðugleika, sem aftur gerði það að verkum að lánshæfismat yrði aftur hækkað.

Einn annar afar áhugaverður punktur sem er að eigendur aflandskróna eiga mikið af stuttum ríkisbréfum sem verða að stórum hluta flutt yfir í löng ríkisbréf sem verða "læst" í ákveðinn tíma. Endurfjármögnunarþörf íslenska ríkisins verður því minni næstu árin. Auk þess virðist vera ljóst að þörfin fyrir útgáfu nýrra ríkisbréfa verður minni næstu ár. Frá einföldu tilliti framboðs og eftirspurnar er líklegt samkvæmt þessu að ávöxtunarkrafan lækki smám saman næstkomandi ár.

Stýrivextir

Vaxtatilkynning er væntanlega frá Seðlabankanum innan 60 mínútna þegar að þessar línur eru skrifaðar. Almennt er búist við 50 bps hækkun stýrivaxta. Það kæmi mér þó ekki á óvart að hækkunin verði meiri. Í það minnsta geri ég ráð fyrir að sterklega verði gefið til kynna að fleiri hækkanir séu yfirvofandi á næstu mánuðum. Verður sérstaklega áhugavert að heyra hvaða áhrif Seðlabankinn telur að losun gjaldeyrishafta hafi á efnahagslífi Íslands næstu misseri. Verði tónninn mildari en ég geri ráð fyrir mun ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa lækka töluvert meira á næstunni. Verði hækkunin hærri en 50 bps tel ég líklegt að ávöxtunarkrafan ríkisbréfa hækki töluvert, sérstaklega þeirra á styttri endanum og gæti kúrfan jafnvel orðið innan skamms niðurhallandi.

MWM

Viðbót klukkan 9.03 - Stýrvivextir voru hækkaðir um 50 bps en fram kemur í tilkynningu frá peningastefnunefnd að verðbólguhorfur séu versnandi og "..að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið".


Arðgreiðslur tryggingafélaga

Óhætt er að segja að þau þrjú tryggingarfélög sem nú eru skráð á íslenskan hlutabréfamarkað séu dugleg við að greiða eigendum sínum arð. Á síðasta ári fór stór hluti hagnaðar þeirra í arðgreiðslur til eigenda sinna auk þess sem félögin keyptu eigin bréf í stórum stíl. Segja má að félögin hafi notið lítið af hagnaði sínum til að endurfjárfesta í rekstri sínum eða auka eigið fé með auknum fjárfestingum.

Arðgreiðslur síðasta árs blikna þó í samanburði við arðgreiðslur þessa árs. Félögin þrjú stefna að því að greiða í kringum 10,5 milljarða króna í arð.

Áhugavert er að bera þessa tölu saman við nokkrar stærðir þessara þriggja félaga. Samtala eigin fjár þeirra í árslok 2014 var 48 milljarðar króna. Markaðsvirði þeirra í dag er samanlagt í kringum 65 milljarðar króna. Því er verið að greiða út í arð vel ríflega 20% af eigið fé félaganna og rúmlega 15% af markaðsvirði þeirra.

Samanlagður hagnaður félaganna var árið 2014 4,8 milljarða króna. Þessi tala var árið áður, þ.e. 2013, um 6,2 milljarða króna. Samanlagðar arðgreiðslur í ár fara því langt með að dekka ekki einungis allan hagnað árið áður heldur einnig hagnað árið 2013. Því má við bæta að eina félagið sem hagnaðist af einhverju viti á tryggingarstarfseminni sjálfri var Sjóvá. Nær allur hagnaður TM og VÍS árið 2014 var vegna ávöxtunar á fjárfestingum þeirra.

Samkvæmt Markaðspunktum Arion banka 4. desember 2014 greiddu skráð íslensk félög samtals 12 milljarða króna í arð árið 2014. Tryggingarfélögin þrjú eru því að greiða um það bil 90% af þeirri upphæð í ár, þó svo að samtala markaðsvirðis þeirra sé aðeins í kringum 10% af markaðsvirði allra félaga Kauphallarinnar. 

Það er rými, ef svo mætti að orði komast, til að greiða þennan arð til hluthafa. Það felst í því að matsbreytingar eru að eiga sér stað á tjónaskuld félaganna. Sú skuld er að minnka sem gerir það að verkum að eigið fé þeirra eykst. Með því að greiða þennan arð út er líklegra að arðsemi eigin fjár verði meiri. Á móti kemur að undirstaða reksturs félaganna verður veikari. Þetta á sérstaklega við um þau félög sem reiða sig meira á hagnað í gegnum fjárfestingarstarfsemi. 

Sjálfur teldi ég það vera skynsamlegra að móta arðgreiðslustefnu sem tæki mið af hagnaði umfram verðbólgu. Með því að setja ákveðna prósentu (hún mætti vera há) af slíkum hagnaði væri verið að tryggja það að eigið fé félaganna héldi í við verðbólgu og stöðugt væri verið að tryggja undirstöðu rekstrar félaganna. Samhliða því fengju hluthafar arð sem ykist einfaldlega hraðar í framtíðinni að því gefnu að endurfjárfestingar félaganna, hvort sem það væri í rekstri þeirra eða fjárfestingum, veittu viðunandi arðsemi.

Ég fjallaði stuttlega um þetta efni í þættinum Viðskipti sem sýndur er á ÍNN. Hægt er að sjá þáttinn á netinu á þessari slóð:

http://inntv.is/Horfa_a_thaetti/Vidskipti/?play=121444852

MWM

ps. Um daginn var viðtal við aðila á Rás2 varðandi helstu íslensku bókmenntir árið 2014. Báðir þáttastjórnendurnir og gestur þáttarins töluðu í tíma og ótíma um helstu trend í íslenskum bókmenntum. 

 


Húsnæðislán - erlend & verðtryggð og lyklalög

Inngangur

Ég tel það vera undarlega nálgun að Alþingi sé að setja lög um það hvaða tegund lána séu ólögleg svo lengi sem þau flokkist undir eðlilega lánastarfsemi. Hlutverk Alþingis ætti frekar snúa að því að tryggja að lánakerfið sé með þeim hætti að áhætta tengd lánveitingum húsnæðislána sé beggja megin borðsins. Með því á ég við að einstaklingar beri ekki einir skaðann sé verið að lána með óvitrænum hætti eins og til dæmis var gert með lánum tengdum erlendum myntum árin fyrir hrun. Þannig myndast skynsöm stefna í lánveitingum bæði af hálfu banka og samfélagsins í heild. Þegar kemur að húsnæðislánveitingum þá eru lyklalög lykilatriði við að mynda skynsama stefnu fyrir samfélagið og banka sem starfa innan þess.

Margir ráku upp stór augu í vikunni þegar fram kom í fjölmiðlum að í bígerð væri frumvarp þar sem að Fjármálaráðherra veitir leyfi til lána í erlendum myntum, jafnvel til þeirra sem eru ekki með tekjur í þeim myntum. Voru þetta ekki lánin sem voru upphaf og endir gjaldþrota margra? Á sama tíma voru þetta líka sú tegund lána sem gerði það að verkum að margir sem tóku áhættu á sínum tíma enduðu í gegnum dómskerfið með að fá hagstæðustu húsnæðislán Íslandssögunnar. Vill íslenska þjóðin aðra slíka rússibanareið?

Eitt af því sem sífellt er predikað um þegar fjallað er um fjárfestingar er að dreifa skuli áhættu fólks. Þetta virðist ekki vera raunin þegar kemur að hinni hlið fjárfestinga, það er að taka lán (sem mætti skilgreina sem neikvæða fjárfestingu). Sjálfsagt er að fólk eigi kost á dreifingu í lántökum rétt eins og mælt sé með dreifingu í fjárfestingum.

Erlend lán

Húsnæðislán sem tengjast greiðslum í erlendum myntum geta hentað sumum einstaklingum að ákveðnu marki. Fólk sem á eða vinnur hjá fyrirtækjum sem byggja afkomu sína að stórum hluta til á útflutningi, starfa í umhverfi þar sem að reksturinn gengur verr þegar að íslenska krónan er sterk. Stafar það af því að þá fást færri krónur fyrir til dæmis hvern bandarískan dollar af vörum seldum til Bandaríkjanna. Á slíkum tímum lækkar aftur á móti höfuðstóll lána og greiðslubyrði þeirra einstaklinga. Þegar að krónan veikist gengur rekstur fyrirtækja sem þeir vinna hjá (eða eiga) betur (að öðru óbreyttu) því þá fást fleiri krónur fyrir hverja selda afurð mælt í dollurum.

Með því að hafa hluta húsnæðislána slíkra einstaklinga í erlendum myntum færi atvinnutengt umhverfi í öfuga átt við þróun á greiðslubyrði slíkra lána. Það er eðlilegt að fólk eigi kost á slíkum lántökum. Einnig mætti spyrja sig hvort að það sé hlutverk Alþingis að takmarka lánamöguleika fjárráða einstaklinga. Eðlilegra væri að Alþingi beitti sér fyrir því að setja lyklalög (sem fælu í sér að lántakar geti skilað lyklum að undirliggjandi húsnæðisveðum til fjármálastofnanna). Slíkt gerði það að verkum að bankar yrði varkárari í útlánum sínum enda tækju þeir orðið áhættuna á óvarkárri útlánastefnu, til að mynda lánum í erlendum myntum.

Verðtryggð lán

Á sama tíma og verið er að auka frelsi (á nýjan leik) varðandi kosti í lántökum berast fréttir af því að þrengja eigi að kostum varðandi verðtryggð lán, sem nú verði að hámarki 25 ár.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að takmörk eigi að vera á lánstíma lánveitinga. Með sömu rökum og ég kom að ofan með varðandi erlend lán, þá má setja spurningarmerki við það hvort það sé hlutverk Alþingis. Ljóst er að taki fólk verðtryggð lán til 40 ára þá greiðir það hér um bil ekki neitt inn á lánið fyrstu árin. Spyrja má hvort ekki sé eðlilegra að slík lán séu skilgreind sem leigulán því þau eru stóran hluta tímabilsins miklu meiri óbein leiga á húsnæði heldur en einhvers konar lán sem verið er að greiða niður.

Verðtryggð lán til lengri tíma gætu jafnvel hentað sumum einstaklingum. Dæmi væri hjón á fimmtugs aldri með tvö börn enn á heimilinu sem væru að kaupa húsnæði fyrir til dæmis 60 milljón króna. Ef þau legðu 40 milljónir af eigið fé í húsnæðið þá hefðu þau hugsanlega lítinn áhuga á því að taka 20 milljóna króna lán til að greiða hratt niður. Ástæðan er einföld; líklegt er að þau minnki við sig eftir 10-15 ár og eign þeirra í húsnæðinu dugar vel til að kaupa minna húsnæði á þeim tímapunkti án þess að þurfa að taka lán. Þau gætu haft meiri áhuga á því að leigja stærstan part af þeim 20 milljónum sem þau skulda í húsnæðinu og njóta lífsins frekar þangað til að börnin fara af heimilinu.

Með lyklalögum myndast aukin hvati hjá bönkum að stuðla að því að lánstími lána verði innan skynsamra marka. Yngra fólk hefði meiri þörf á því að taka styttri lán til að mynda eign í húsnæði sínu þar sem líklegt er að það þurfi að stækka við sig í framtíðinni.

Alþingi ætti því fyrst og fremst að beita sér að því að koma á lyklalögum og síður að koma með boð og bönn varðandi möguleika lántaka. Með auknum kostum til lánveitinga getur almenningur dreift áhættu sinni þegar kemur að lántökum og með lyklalögum aukast hvatar innan bankakerfsins til að veita lán innan skynsamlegra marka.

MWM

 


Ókeypis peningar

Dan Ariely er fræðimaður sem hefur meðal annars rannsakað hegðun fólks í tengslum við peninga. Eitt af því sem hann hefur sérstaklega beint sjónum sínum að eru ókeypis hlutir. Niðurstöður hans eru í stuttu máli þær að fólk almennt metur hluti sem eru fríir, kosta með öðrum orðum ekki neitt, meira en hluti sem kosta afar lítið en veita fólki huganlega minni ábata. 

Eitt af nokkrum dæmi hans í þessu sambandi er tilboð sem amazon.com hefur nánast frá upphafi veitt viðskiptavinum sínum. Það felst í því að þegar að fólk kaupir hjá vefversluninni vörur fyrir samtals tiltekið lágmark, þá fellur sendingarkostnaður niður og verður því með öðrum orðum ókeypis. Í Frakklandi var voru aftur á móti í byrjun rukkaðar tæplega 0,1 evrur (rúmlega 15 íslenskar krónur ef keyptar voru vörur fyrir samtals 25 evrur (tæplega 4.000 íslenskar krónur)að lágmarki. Afar fáir nýttu sér þetta tilboð þó svo að sendingarkostnaður væri einungis brot af heildarkostnaðinum. Þegar að sendingarkostnaðurinn var "lækkaður" í núll evrur (eða ákkúrat 0 íslenskar krónur) margfaldaðist eftirspurn eftir þessu tilboði, jafnvel þó að mismunurinn væri í raun ekki til staðar. Ariely hefur komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að koma mjög skýrlega fram að eitthvað sé ókeypis til að slíkt nái tökum í meðvitund fólks.

Þetta tengist eitt af grundvallarsjónarmiðum atferlisfjármála. Fólk vegur og metur stöðu sína frá ákveðnum upphafspunkti. Fyrstu krónurnar (hjá Frökkum er mælieiningin evrur) frá þeim punkti skipta fólki mestu máli, jafnvel þó að slíkar hugleiðingar séu í engu samhengi við heilbrigða skynsemi, eins og amazon dæmið sýnir. Hugtakið "ókeypis" er því á háum stalli í hugum flestra, stundum meira en góðu hófi gegnir.

Ókeypis niðurfelling

Nýlega fengu margir Íslendingar tvö "tilboð" í "ókeypis" sparnað. Tilboðin voru með tvennum hætti. Í fyrra tilboðinu gátu margir fengið hluta af húsnæðislánum sínum niðurfelld. Í seinna tilboðinu gáta margir fengið skattaafslátt til að greiða niður húsnæðislán sín í gegnum séreignarsparnaði. Margir hafa tekið fyrra tilboðinu, en draga fæturnar í að ganga frá því. Furðu fáir hafa tekið síðara tilboðinu.

Um það bil 69 þúsund manns sóttu um niðurfellingu á hluta húsnæðislána sinna. Þetta kemur ekki á óvart. Umræðan var sú að hér fengi fólk ókeypis pening. Það má deila um það hversu ókeypis sá peningur er en augljóslega voru þeir einstaklingar sem höfðu rétt á þessari niðurfellingu og nýttu sér hann ekki að missa af "ókeypis" peningi. Í það minnsta var orðræðan á almennum vettvangi um að þetta væru ókeypis peningar það rík að margir einstaklingar töldu að "tékki kæmi til þeirra" í framhaldinu þó svo að um væri um niðurfærslu að ræða. Vildi fólk fá ókeypis peninga í hendurnar þá þyrfti það að fara í banka til að nýta sér aukið veðrými til þess að fá frekari lán. Líklegt er að bankar fari varlegra í lánveitingar nú en áður í ljósi reynslunnar síðustu ára og því fái fólk aðeins í sumum tilvikum til aukningar á neyslu.

Það að fólk fái ekki ókeypis peninga í hendurnar heldur einungis í ögn óskýra ljósi með niðurfellingu lána er hugsanleg skýring á því hversu hátt hlutfall fólks eigi enn eftir að samþykkja útreikningi niðurgreiðslanna. Þessi ókeypis peningur fæst með því að lánin lækka sem og afborganir verðbóta og vaxta af þeim hluta lána sem fást niðurfelldir. Þeir einstaklingar sem enn hafa ekki samþykkt útreikninganna eru því enn að greiða vexti og verðbætur af þeim hlutanum. Fjölskylda sem til dæmis fékk 2 milljónir niðurfelldar og hefur ekki samþykkt útreikninganna greiðir nú mánaðarlega um 6-7 þúsund krónur í vexti (verðbólga er svo lág nú um mundir að verðbætur eru afar lágar) sem það þyrfti ekki að greiða væri það búið að samþykkja útreikningana. Það ætti að vera nýársheit flestra sem ekki hafa enn samþykkt þetta að ganga frá samþykkinu strax. Þess má geta að sé ekki komið fram með athugasemd eða staðfest samþykkt á útreikningi fellur þessi ókeypis niðurfelling niður. Það væri gremjulegt.

Ókeypis sparnaður

Mörgum Íslendingum stendur einnig til boða ókeypis sparnaður. Hann er enn síður augljós við fyrstu sýn samanborið við ókeypis niðurfellingu lána. Sparnaðurinn felst í stuttu máli í því að fólk getur lagt pening til hliðar í formi séreignarsparnaðar. Það er þó stór munur þar á.

Séreignarsparnaður er almennt ekki skattlagður árið sem tekjur samhliða þeim sparnaði myndast, heldur þegar að sparnaðurinn er síðar nýttur (á aldursbilinu 60-70 ára). Það fæst með öðru móti frestun á skattlagningu tekna þess árs en þær tekjur eru einfaldlega skattlagðar síðar þegar að peningurinn er tekinn út. Því til viðbótar er ávöxtun þess sem lagt er til hliðar einnig skattlagt sem launatekjur en ekki fjármagnstekjur.

Þessi ókeypis sparnaður er aftur á móti með þeim hætti að hægt er að nota allt að 750 þúsund krónur fyrir hjón af sparnaðinum í uppgreiðslu á húsnæðislánum. Þessar tekjur eru með öðrum orðum ekki skattlagðar. 

Þetta þýðir að fyrir hvern 100 kall sem lagður er í slíkan sparnað þarf ekki að greiða skatta, hvorki nú né síðar. Sé miðað við að fólk myndi að öðrum kosti greiða 40% skatt af þessu má segja að 40 krónur fáist ókeypis. Þetta er ekki hið sama og að fá pening í hendurnar til að hlaupa í Smáralindina en þetta er ókeypis peningur til að greiða niður húsnæðislán.

Frá miðbiki síðasta árs gátu hjón með töluverðar tekjur geta lagt allt að 2,25 milljónir í slíkan sparnað næstu þrjú ár. Fólk sem byrjaði strax á slíku fær því ókeypis í formi skattaafsláttar í kringum 900 þúsund krónur.

Ég hef heyrt þau rök að lánin hækki hvort er eð í næsta verðbólguskoti. Því er til að svara að þá skuldi fólk ekki einungis 2,25 milljónum minna í húsnæði sínu heldur einnig þeirri upphæð sem bættist við tilheyrandi verðbólguskoti. 

Þetta nýtist ekki einungis þeim sem skulda í húsnæði nú þegar því einnig er hægt að nota þetta sparnaðarform til að safna fyrir húsnæði. Aftur, þannig fæst ókeypis peningur en hann kemur ekki inn um lúguna í formi tékka.

Það er með ólíkindum hversu fáir einstaklingar nýta sér þennan sparnað. Hann er í raun ókeypis peningur. Það er vel að merkja ákveðinn fjöldi manna sem er með séreignarsparnað sinn sem er bundinn hjá tryggingarfélögum sem ekki er hægt að breyta. Þar eru langtímasjónarmið ríkjandi og því eiga svona tækifæri við á þeim tilfellum.

Þetta eru hins vegar rök sem ég heyri sjaldan í samtölum við fólk. Reynsla mín í samtölum við vini og vandamenn bendir einfaldlega til þess að það sé óljóst í hugum margra, sem skýrir líklegast af hverju innan við helmingur þjóðarinnar hefur ekki nýtt sér þetta sparnaðarform, sem er fyrir flesta ókeypis peningur.

MWM

 

 

 


Íbúðalánasjóður lagður niður

Í frétt Morgunblaðsins í síðustu viku kemur fram að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur undanfarið verið að störfum hérlendis mælir með að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Í fréttinni kemur orðrétt fram: "Stjórn­völd eru sögð þurfa að huga að því að leysa upp Íbúðalána­sjóð með skipu­leg­um hætti til að lág­marka kostnað rík­is­ins og kerf­isáhættu. Jafnframt ætti að leita sam­stöðu um helstu fé­lags­leg mark­mið íbúðalána áður en arf­taka stofn­un­ar­inn­ar verður komið á fót."

Þetta eru skilaboð sem vert er að athuga, en að vel athuguðu máli. Ljóst er að tap Íbúðalánasjóðsins verður gríðarlegt, þó svo að ágreiningur ríki um hversu nálægt sú tala verði niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis, sem metur bókfært tap sjóðsins vera í kringum 100 milljarða króna árin 1999-2012. Það er ekki fjarri VLF Íslands í rúmlega þrjár vikur. Það með er ekki nauðsynlega öllu á botninum hvolft því að nefndin taldi að tapið gæti í framtíðinni orðið töluvert hærra (aftur, það eru skiptar skoðanir um það). Hvert tap sjóðsins, sem lendir á ríkinu og þar með skattgreiðendur, verður í lokin er ljóst að það verður það gríðarlegt og hætta á öðru kerfisbundnu tapi er ávallt til staðar.

Samkeppni og óvitræn útlánastefna

Það er ekki langt síðan að alvöru samkeppni var ekki til staðar á íslenskum fjármálamarkaði. Samkeppni byggðist helst á því að byggja útibú og þjónusta fólk í almennum bankaviðskiptum. Vaxtafrelsi var ekki ríkjandi og því var íslenskt samfélag í fjármálalegum höftum þar sem að annaðhvort óðaverðbólga ríkti eða að fólk þurfti að sætta sig við raunvexti sem voru jafnvel töluvert hærri en í dag (þeir eru allt of háir í dag). Í slíku umhverfi má segja að grundvöllur hafi verið til staðar að setja upp stofnun sem sérhæfði sig í útlán til íbúðakaupa. Íslendingar meta einstaklingsfrelsi afar mikið og að eiga eigið húsnæði er stór hluti af því að líta á sig sem sjálfstætt fólk.

Tilvera Íbúðalánasjóðs hafði því fram að aldamótum fullan rétt á sér í hugum margra. Með einkavæðingu bankanna og aukinni samkeppni því á fjármálamörkuðum má segja að tilverurétturinn hafi ekki verið jafn augljós. Framkvæmd húsnæðislána flestra banka var því miður með þeim hætti að þau voru oft á tíðum lítt trúverðug. Má í því tilviki nefna vaxtakjör sem voru það lág að þeir hreinlega töpuðu á þeim, glóruleysi í lánum bundnum í erlendum myntum og ákvæði um skuldafjötra (fólk mátti í sumum tilfellum ekki flytja bankaviðskipti nema með óheyrilegum kostnaði) samhliða ákvæðum um endurmati vaxtakjara samkvæmt duttlungum banka, oftast fimm árum eftir að lánasamningur (oft til 40 ára) var undirritaður. Hefðu íslensku bankarnir haldið áfram starfsemi í sömu mynd hefðu þeir með öðrum orðum getað hækkað raunvexti fólks án nokkurra skýringa. Þessir brestir bankanna gerðu það að verkum að rök um tilveru Íbúðalánasjóðsins höfðu enn hljómgrunn, sérstaklega í kjölfar hrunsins.

Það er ekki samt sem svo að Íbúðalánasjóðurinn hafi verið einhvers konar akkeri í húsnæðislánum. Sjóðurinn tók þátt í þeirri glórulausu útlánaaukningu sem hófst árið 1999 og segja jafnvel margir að hann, eða öllu heldur ákveðnir stjórnmálamenn sem höfðu ábyrgð á sjóðnum, hafi verið leiðandi í þeirri þróun. Þetta svipaði til þess sem gerðist í Svíþjóð og Finnlandi síðastliðinn níunda áratug þegar að afnám hafta í fjármálageiranum áttu sér stað og fjármálastofnanir fóru að lána meira til að mæta minnkandi vaxtamun, sem á sér oftast stað þegar að höft eru afnuminn. Algeng slæm afleiðing slíkrar þróunar er vanmat á áhættu við slíkar lánveitingar og útlánatöp þegar að slíkt vanmat kemur á daginn með tilheyrandi afskriftum.

Betri lánveitingar, en þó fákeppni

Líklegt er að reynsla íslenskra fjármálastofnanna verði svipuð reynslu Svía og Finna í framhaldi af bankakreppunni í þeim ríkjum á fyrri hluta síðasta tíunda áratugar (aðallega 1990-1992). Meira aðhald var í útlánum til fasteignakaupa í framhaldi af kreppunni og kom það sér til að mynda afar vel í Svíþjóð þegar að fasteignaverð hrundi í flestum vestrænum ríkjum árin 2008-2010, en fasteignaverð í Svíþjóð hækkaði jafnvel á sumum svæðum á því tímabili. Fasteignalán verða væntanlega veitt með meiri varfærni í framtíðinni. Þetta kæmi til að mynda sjóðsfélögum í lífeyrissjóðum sér vel. Útlán lífeyrissjóða væru það varfærin að ekki þyrfti að afskrifa mikið af útlánum. Á sama tíma ættu raunvextir slíkra útlána að lækka (sem er gott fyrir núverandi lánveitendum) en veita þó sjóðsfélögum viðunandi ávöxtun.

Þó svo að lífeyrissjóðir séu hluti af flórunni þegar kemur að lánveitingum húsnæðislána þá er engu að síður fákeppni ríkjandi á íslenskum markaði, með aðeins þrjár bankastofnanir með nánast öll bankaviðskipti landsmanna. Þeir sem ekki eiga aðgang að lánum hjá lífeyrissjóðum (eða einungis á óhagstæðum kjörum) hafa því fáa kosti varðandi lánveitingar. Ef Íbúðalánasjóður yrði lagður af þyrfti samkeppniseftirlit hjá bönkunum að vera afar strangt hvað íbúðalán varðar.

Miðstýring og hagvöxtur

Þó svo að Íbúðalánasjóður hafi að sumu leyti þjónað hlutverki sínu ágætlega í gegnum tíðina þá sýnir reynslan að miðstýrðar fjármálastofnanir með mikla pólitíska íhlutun (hér gef ég mér að bankastofnanir hafi alltaf pólitíska íhlutun, einungis mismikla) dragi úr skilvirkni lánveitinga. Það að draga einfaldlega úr lánveitingum er heldur engin lausn. Þær þjóðir sem veita ekki nægjanlegar lánveitingar hafa almennt slakari hagvöxt en þjóðir þar sem að samkeppni ríkir á fjármálamörkuðum og lánveitingar meiri.

Því ætti að athuga vel hvort leggja eigi Íbúðalánasjóð niður, annaðhvort með því að hann einfaldlega hætti að veita lánveitingar eða eignasafn hans yrði selt. Báðar leiðir leiða óhjákvæmilega til einhvers taps, sem mun hvort er eð einhvern tímann koma fram. Á sama tíma þyrfti þó að koma í veg fyrir að fákeppni á íslenskum markaði leiði til þess að vaxtakjör eða aðrar heftandi skuldbindingar af hálfu lántaka verði ekki raunin. Eitt skref í þá áttina væri að innleiða lyklalög.

MWM

Hægt er að hlusta á viðtal við mig í Speglinum í síðustu viku þar sem að ég fjalla um þetta málefni hérna.

http://www.ruv.is/frett/a-ad-leysa-upp-ibudalanasjod

 

 

 

 


Erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða

Í vikunni kom út ritið Áhættudreifing eða einangrun eftir dr. Ásgeir Jónsson og dr. Hersi Sigurgeirsson. Í ritinu fjalla þeir um þá áhættu sem felst í slakri dreifingu á eignum landsmanna í lífeyrissjóðum. Sá slaka áhættudreifing er nánar tiltekið til kominn vegna þess að aðeins um 22,4% af heildareignum lífeyrissjóðanna eru erlendar. Þeir telja að æskilegt hlutfall ætti að vera í kringum 50%. Benda þeir á að einkaneysla sé innflutt í kringum 40-50% og eðlilegt sé að eiga erlendar eignir fyrir sambærilega prósentu. Þeir leggja til að fjórðungi nýs fjárs lífeyrissjóða verði varið í erlendar fjárfestingar til að rétta það hlutfall af. Í óbreyttu ástandi gjaldeyrishafta myndi þetta kalla á undanþágu frá gjaldeyrishöftum.

Það er vel til fundið hjá Ásgeiri og Hersi að vekja athygli á þessu. Það er augljóst að eignir lífeyrissjóða aukast stöðugt þegar að nýtt innflæði í sjóðum getur einungis ratað í íslenska fjárfestingakosti. Eins og titill ritsins ber með sér fela gjaldeyrishöft einnig í sér takmarkanir á áhættudreifingu. Ég er sammála niðurstöðum þeirra en tel að ganga megi lengra í þessum efnum.

Í mars árið 2009 vitnaði Morgunblaðið í orð Kára Arnórs Kárasonar, framkvæmdastjóra Stapa lífeyrissjóðs, sem sagði: „Ef gagnrýna á íslenska lífeyrissjóði fyrir lélega áhættustýringu hlýtur gagnrýnin fyrst og fremst að vera sú að þeir hafi fjárfest of mikið í eigin hagkerfi. Betra hefði verið að hafa stærri hluta eigna erlendis og dreifðan á fleiri hagkerfi.“

Í grein minni, Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða,* sem birtist nokkrum dögum seinna benti ég á hrunið hafi ekki einungis verið stórt högg fyrir efnahag Íslands heldur töpuðust gífurlegir fjármunir hjá fólki á versta tíma. Líkja mætti þessu við þá stöðu sem margir starfsmenn fyrirtækja eins og Enron og Lehman Brothers lentu í. Þeir höfðu fjárfest ævisparnaðinn nánast eingöngu í fyrirtækinu sem þeir unnu hjá. Þegar að fyrirtækin fóru á hausin varð höggið tvöfalt. Þeir urðu atvinnulausir og lífeyrissparnaðurinn gufaði upp á sama augnabliki. Þetta er ágætis dæmi um að fjárfesta einungis á takmörkuðum mæli í því fyrirtæki (eða atvinnugeira) sem maður persónulega vinnur í. Sömu sögu má segja um heilt lífeyriskerfi hvers ríkis, það er lítið vit í því að allar fjárfestingar þess sveiflist kerfisbundið með afkomu landsins.

Takmarkanir á eignum í erlendis

Í 36. gr. í VII kafla laga um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða (1997 nr. 129) eru ákvæði með það fyrir augum að lágmarka áhættu. Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissjóðir skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign sjóðsins. Þessi tala var reyndar sett í 40% árið 1997 en hækkuð í núverandi stærð árið 2000.

Góð rök hafa verið fyrir þessu á sínum tíma. Þetta ákvæði hefur sjálfsagt haft eitthvað að gera með reynsluleysi með fjárfestingar á erlendum mörkuðum, sem raunar þekktust vart fram að byrjun tíunda áratugarins og því var líklegast litið á þessar takmarkanir frekar sem aukningu heimilda á erlendum fjárfestingum frekar en að verið væri að takmarka þær. Á sama tímabili var mikil áhersla lögð á að fjárfesta í íslenskum verðbréfum til að skapa hér skipulagðan markað með auknu viðskiptaflæði samhliða því að lagt verði í fjárfestingar án ríkisafskipta. Má með öðrum orðum segja að það hafi verið eðlilegt ástand að fjárfesta í íslenskum eignum og hafið yfir flesta gagnrýni.

Þetta voru því gild rök lengi framan af en vægi þeirra hefur hins vegar minnkað án þess að ofangreind lagasetning hafi hugsanlega tekið nægjanlegt tillit til breyttra aðstæðna.

Þó svo að slík stefna geti veitt framúrskarandi ávöxtun í ákveðinn tíma er það svo að á ögurstundum, þegar mesta þörfin er fyrir að baklandið sé tryggt, er skynsamlegt að eiga mikið af fjárfestingum tengdum erlendum verðbréfum. Mætti í því sambandi líta á alla fjárfestingarkosti lífeyrissjóða sem verðbréf, eða aðra fjárfestingakosti, í alþjóðlegu ljósi. Þrátt fyrir að ákveðnum hluta fjárfestinga sé haldið innanlands ætti meginþungi fjárfestinga að vera á svæðum sem eru óháðari árferði efnahags Íslendinga.

Taka ætti einnig mið af undirstöðum íslensk efnahagslífs og út frá því sjónarmiði dreifa fjárfestingum í aðrar áttir. Skynsamlegt væri í því sambandi að undirvega atvinnugreinar á erlendri grundu sem eru ráðandi í íslensku efnahagslífi. Í undanfara hrunsins hefði til dæmis verið glórulaust að fjárfesta mikið í erlendum fjármálafyrirtækjum því að ef, eins og kom á daginn, þau fyrirtæki lentu í vandræðum (eða yrðu gjaldþrota) væri líklegra að slík þróun væri einnig að eiga sér stað á alþjóðlegum vettvangi.

Eins og áður kom fram er ég sammála Ásgeiri og Hersi um að auka ætti eignir lífeyrissjóða á alþjóðlegum vettvangi. Ég tel þó að það þyrfti að ganga lengra í þeim efnum og breyta ofangreindri löggjöf með þeim hætti að takmörk séu á innlendri fjárfestingu, ekki erlendri. Ekki væri óeðlilegt að af heildarfjárfestingum væru erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða á bilinu 70-80% af fjárfestingarsafni þeirra. Viðmið á dreifingu safna varðandi atvinnugeira tæki tillit til óbeinna fjárfestinga þjóðarinnar í geiranum. Þetta er ekki óþekkt form og þarf ekki að leita lengra en til olíusjóðsins í Noregi sem þó gengur lengra í þessum efnum.

Fjárfesting í erlendum gjaldeyri

Með þyngra vægi erlendra fjárfestinga í eignasöfnum landsmanna gæti það virst vera óhjákvæmilegt að lífeyrissjóðir auki gjaldeyrisvarnir sínar. Skuldbindingar lífeyrissjóða, sem eru í íslenskum krónum, eru góð rök fyrir 100% gjaldeyrisvarnir, í það minnsta við fyrstu sýn. Málið er aftur á móti ekki svo einfalt.

Þegar innlent efnahagslíf á hverjum stað er í blóma er gjaldmiðill þess ríkis almennt sterkur og innlendir markaðir skila afar góðri ávöxtun. Nýleg reynsla hlýtur þó að sýna fram á að það er skynsamlegrar umræðu virði að meta kosti og galla við að sleppa gjaldeyrisvarnir á fjárfestingum í erlendum gjaldmiðlum. Sveiflur á gjaldmiðlum, sérstaklega minni gjaldmiðlum, verða meiri og hraðari en flesta órar fyrir. Íslenska krónan er frábært dæmi því hún var stöðug um árabil og veitti mörgum tálsýn um að rétt væri að taka lán í erlendum myntum. Allir vita að sá stöðugleiki varð að engu á nokkrum mánuðum árið 2008. Því veita fortíðargröf litla vísbendingu um framtíðina í þeim efnum. Í umhverfi sterks innlends gjaldmiðils minnkar virði erlendra eigna í þeirri mynt. Erlendar eignir minnkuðu til dæmis í krónum talið árin fyrir hrun þegar að virði USD gagnvart íslensku krónunni fór úr 110 krónum árið 2001 niður í 58 krónur seint á árinu 2007. Það skiptir minna máli þegar að vel gengur. Þegar að efnahagslegt stórslys á sér stað veikist gjaldmiðill þess ríkis nánast undantekningarlaust. Í slíku umhverfi væri ákveðið mótvægi í hluta af eignum lífeyrissjóða án gjaldeyrisvarna fyrir hendi því með veikingu innlenda gjaldmiðilsins, sem þýðir hækkun á virði erlendra gjaldmiðla, hækkar eignavirði erlendra eigna í gjaldmiðli viðkomandi ríkis.

Þetta hefur sína ókosti því sveiflur í virði fjárfestinga aukast og mætti því líta svo á að aukin áhætta sé tekin með slíkri óbeinni fjárfestingu í erlendum gjaldmiðlum. Kosturinn við að hafa erlenda hluta safnsins óvarðan gagnvart gengissveiflum er sá að almennt á veiking innlends gjaldmiðils sér stað þegar að mikil kreppa á sér stað í viðkomandi ríki.

Ísland 2008

Á fundi sem ég hélt varðandi lífeyrismál haustið 2012 (og hef síðan notað við kennslu í HR) leit ég nánar á ofangreind rök varðandi Ísland, sem verða rakin hér í stuttu máli. Á mynd 1. sést að íslenska krónan var stöðugur gjaldmiðill í mörg ár, en féll (hækkun vísitölunnar þýðir að íslenska krónan er að veikjast) síðan með látum haustið 2008.

Mynd 1. ISK vísitalan

visitala gengisskraningar

 

 

 

 

 

 

 

Heimild: Seðlbanki Íslands

Samkvæmt úttekt Héðins Eyjólfssonar var tap lífeyrissjóða í hruninu 480 milljarða króna. Samtala eigna lífeyrissjóða í upphafi ársins 2008 var um 1.640 milljarða króna. Tapaðist því um það bil 30% af lífeyriseign landsmanna í hruninu – á versta augnabliki sem hægt var að hugsa sér. Hefði „aðeins“ helmingur eigna landsmanna verið fjárfestur í erlendum bréfum í töluverðan tíma er ekki ólíklegt að um það bil 2/3 hefðu verið í traustum skuldabréfum og 1/3 í hlutabréfum (erlendar fjárfestingar hafa reyndar hingað til verið nánast einungis í hlutabréfum, ótrúlegt sem það má vera). Hefði slík skynsamleg stefna verið ríkjandi hefði hagnaður af skuldabréfasafninu (traust skuldabréf hækkuðu í virði í hruninu 2008 og hefur sú hækkun einungis að takmörkuðu leyti gengið til baka) vegið upp á móti áætluðu tapi á hlutabréfasafninu. Erlendar eignir lífeyrissjóða hefðu því staðið hér um bil í stað á þessu óvissutímabili.

Íslenska krónan féll aftur á móti um 80% árið 2008 (hún féll meira á versta punkti). Helmingseign í erlendum verðbréfum hefði þýtt að 820 milljarða íslenskra króna hefðu verið í erlendum eignum. Sú eign hefði, einungis vegna veikingar krónunnar, hækkað um 650 milljarða króna – þegar að mest á reyndi. Í stað þess að lækka um 450 milljarða króna hefði lífeyrir landsmanna þess í stað hækkað um 170 milljarða króna í virði samkvæmt þessum forsendum á þessu erfiða tímabili, um það bil tvöfalt meira en það fé sem nú er varið til leiðréttinga húsnæðislána.

Niðurlag

Ávöxtun lífeyrissjóða hefði ekki nauðsynlega verið betri samkvæmt ofangreindum ávöxtunarleiðum. Hægt er að deila fram og til baka um það hversu mikið eign landsmanna í lífeyrissjóðakerfinu hafði hækkað vegna hækkana með litla sem enga innstæðu. Það breytir því ekki að er rétt að staldra við og endurskoða fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða með langtímasjónarmið í huga, þar sem áhætta við val á fjárfestingarkostum er borin saman við stöðu þjóðarskútunnar. Líta þarf til erlendra fjárfestinga bæði hvað varðar áhættudreifingu og einnig til kerfisbundina varna sem erlendar „óvarðar“ fjárfestingar veita. Því ber að fagna útgáfu rits Ásgeirs og Hersis.

MWM

Hér er frétt um útgáfu ritsins - http://www.visir.is/munu-ekki-geta-tryggt-sjodfelogum-ahyggjulaust-aevikvold/article/2014141129098

Hægt er að skoða og hlaða niður ritinu hérna - http://ll.is/wp-content/uploads/2014/11/LL-skyrsla_FINAL_24112014.pdf

Hér er upphafleg grein mín (*hluti af þessum pistli er unnin úr greininni) um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða sem birtist í Morgunblaðinu í mars árið 2009 - http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1280630/

Hér er Powerpoint sýning mín sem notuð var við umræðu mína um lífeyrissjóðamál haustið 2012 - http://www.slideshare.net/marmixa/lfeyrissjir-helstu-ml-dagskr-nstu-rin

 

 

 


Leiðrétt lán

Óhætt er að segja að umræða um verðtryggð lán aukist enn einu sinni vegna leiðréttingarinnar. Raddir koma til með að heyrast að hafi lánin ekki verið verðtryggð þá hefðu lánin ekki hækkað jafn mikið og raun bar vitni.

Þetta er þó ekki alveg rétt. Vaxtastig bæði fyrir hrun og í nokkra mánuði eftir hrun var afar hátt. Undirliggjandi verðbólga var afar há en gengi krónunnar sem var allt of sterkt vegna þess að erlent fjármagn flæddi inn í landið, ekki bara fjárfestingar heldur að miklum hluta til einungis áhættufjárfestingar (carry trade) til skemmri tíma, sem kallaði á hátt vaxtastig. Veðlánavaxtastig Seðlabanka Íslands frá aldamótum hefur verið að meðaltali 8,8%.

Vedlan SI 2000-2014

Meðaltalið var hins vegar 13,5% frá ársbyrjun 2006 til ársloka 2009 og var í sjálfu hruninu, þegar síst skyldi, á bilinu 12% til 18%! Húsnæðislán banka bera vart minna en 1% álag ofan á veðlán Seðlabankans, sem húsnæðiseigendur hefðu þurft að bera. Meðalvaxtastig Seðlabankans árið 2008 var 15,5% og að viðbættu 1% álagi hefði vaxtakostnaður (afborganakostnaður ekki meðtalinn) verið 16,5%.

Það þýðir að fyrir fjölskyldu sem skuldaði 30 milljón krónur í húsnæðislán þá hefði vaxtakostnaður árið 2008 verið tæpar 5 milljón króna. Er líklegt að margar fjölskyldur hefðu ráðið við það? Augljóst svar er nei. Eina leiðin til að komast hjá því að þurfa að borga svo mikið á einu ári hefði verið að "fá lán" fyrir hluta upphæðarinnar. Þá er aftur á móti lítill munur á óverðtryggðum og verðtryggðum lánum.

Leiðrétt lán þegar að allt hrynur

Það er annað kerfi sem hefði aftur á móti hentað mikið betur og það er húsnæðisvísitalan. Hún er sáraeinföld. Í stað þess að lán séu bundin við vísitölu neysluverðs eins og verðtryggð lán þá eru þau einfaldlega bundin við húsnæðisvísitöluna. Í stað þess að lánað sé fyrir húsnæði en gengi láns sveiflist í takti við verðlag, sem getur sveiflast í allt aðrar áttir en húsnæðisverð, hækkar og lækkar viðmiðun lánsins einfaldlega við húsnæðisverð.

Hefði þetta viðmið verið við lýði árin 2006 fram að árinu 2010 hefði höfuðstóll lána hækkað þegar að húsnæðisverð á Íslandi fór langt fram úr undirliggjandi verðmæti fasteigna (sú þróun hófst reyndar töluvert fyrr). Þegar að fjármálakerfi landsins og efnahagurinn og krónan með féll húsnæðisverð mikið á sama tíma og verðbólguskot átti sér stað.

HNV 2006-2009

Frá ársbyrjun 2006 fram að hausti 2007 hækkaði vísitala íbúðaverðs um 20%. Þeir sem áttu húsnæði hefðu vissulega hagnast minna. Lán þeirra hækkuðu samhliða hækkun á virði eignar þeirra. Þeir einstaklingar sem keyptu á sama tímabili hefðu aftur á móti ekki þurft að glíma við forsendubrest. Þeir einstaklingar sem keyptu fasteign í október, 2007, hefðu þvert á móti séð höfuðstól lána sinna lækka um 15% að nafnvirði á sama tíma og verðbólguskot átti sér stað. Það hefði verið meiri uppbót en núverandi leiðrétting.

Þetta er stór ástæða þess að afnema ætti verðtryggð lán bundin við neysluvísitölu og taka upp húsnæðisvísitölu. Ef fasteignaverð hækkar þá hækkar höfuðstóllinn líka. Slíkt á sér stað almennt þegar að efnahagsástandið er gott. Ef húsnæðisverð fer að hækka óhóflega fara óánægjuraddir að heyrast frá húseigendum. Ef húsnæðisverð lækkar, sem gerist almennt í kreppum, lækkar höfuðstóll lána og greiðslubyrði fólks einnig. Lán bundin húsnæðisvísitölu eru að stórum hluta til með sjálfvirka "leiðréttingu" þegar að kreppir að.

Ég hef skrifað meira um þetta áður. Sjá til dæmis:

Verðtryggingin burt en hvað svo? Svar: Húsnæðisvísitölulán

Afnám verðtryggðra neysluvísitölulána

Upptaka annars gjaldmiðils, afnám gjaldeyrishafta og húsnæðisvísitalan

Japan og óverðtryggð lán

Fyrir þá sem vilja reikna sig í gegnum húsnæðislán í Excel, bæði verðtryggð og óverðtryggð, þá er hér Excel skjal sem sett er upp á árlegum grunni (það þarf að hlaða skjalinu niður).

MWM

 

 


Viltu frían sparnað?

Fólk leggur töluvert mikið á sig til að fá eitthvað frítt. Þetta er alþekkt á meðal markaðsfræðinga. Þeir vita að fólk er töluvert viljugra til að þiggja hluti sem fást ókeypis heldur en að fá í raun meira en leggja meira á sig í formi vinnu eða í formi peningagreiðslna. Þetta skýrir að sumu leyti af hverju oft sé augljóst að ef þú kaupir til dæmis tvo hluti þá fáir þú þriðja hlutinn ókeypis. Hversu oft er auglýst að það fáist 33% afsláttur ef þrír hlutir eru keyptir? Niðurstaðan er sú sama en seinni framsetningin virkar síður, enda er hvergi talað um að fólk fái eitthvað frítt.

Dæmi um þetta er Amazon netverslunin í Frakklandi. Lengi vel auglýsti fyrirtækið að ef fólk væri tilbúið til að láta senda sér vörur í pósti sem gæti tekið langri tíma en hraðsendingu þá var sendingarkostnaður aðeins u.þ.b. 20 íslenskar krónur. Þegar fyrirtækið breytti þessu og auglýsti fría heimsendingarþjónustu, sem hafði vart nokkur áhrif á heildarreikninginn, þá margfölduðust pantanir í slíku formi.

Helsta útskýringin fyrir þessu er að fólk er að taka enga áhættu. Þú tapar engu með því að fá eitthvað frítt. Ef þú leggur út hins vegar eitthvað, eins og 20 kall, þá er það orðin áhætta.

Íslenskur sparnaður

Í dag er seinasti dagur til að sækja um leiðréttingu/niðurfærslu lána - sjá www.leidretting.is. Margir hafa sótt um leiðréttingu fasteignalána (hún er frí) en aðeins brot af því fólki hefur sótt um að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða upp fasteignalán sín. Sú leið er ekki frí en getur í mörgum tilvikum skipt miklu máli. Rétt er að taka það fram að þetta sparnaðarform getur verið óhentugt fyrir fólk sem er í greiðsluaðlögun. Einnig geta verið aðrar góðar ástæður fyrir því að fólk taki ekki þátt í slíkum sparnaði. Fyrir flesta sem skulda í húsnæði sínu þá er þetta aftur á móti besta sparnaðarform sem völ er á í dag.

Hjón geta með þessu sparnaðarformi greitt niður fasteignalán sín upp að 2,25 milljónum króna á þremur árum. Væri þessi upphæð lögð inn í venjulegt sparnaðarform þá er sú upphæð auk ávöxtunar hennar þegar að hún er tekin út skattlögð sem tekjuskattur. Það er auðvitað óvíst hver sú prósenta yrði en líklegt er að hún verði fyrir flesta í kringum 30-45%. Ef við gefum okkur það að sú prósenta verði 40% þá er það 900 þúsund krónur (40% af 2,25 milljónum króna) sem nýtast skattfrjálst til að greiða niður húsnæðisskuldir.

Þegar að fólk fer á ellilaunaaldur þá er minna eftir í séreignasjóði þess ef það hefur lagt til hliðar pening í séreign. Sú upphæð væri þó (hér lít ég ekki til ávöxtunar á tímabilinu) u.þ.b. 1,35 milljón krónur samkvæmt ofangreindum forsendum. Fólk skuldar þá aftur á móti 2,25 milljón króna (hér lít ég ekki til sparnaðar vaxta á tímabilinu) minna í húsnæði sínu. Þetta er ekki frír sparnaður en hann skiptir líklega í mörgum tilvikum ekki síður máli en leiðrétting fasteignalána.

Það er síðasti dagur í dag að hefja slíkan sparnað sem hæfist afturvirkt 1.7 þessa árs. Þetta er ekki frír sparnaður en ég mæli með að fólk athugi þennan kost sem fyrst. Ég ítreka, það eru tilvik þar sem þetta sparnaðarform hentar ekki.

MWM 

Viðbót: Þeir einstaklingar sem eiga ekki íbúð (hópur sem þetta er að miklu leyti hugsað fyrir) sækja ekki um fyrr en gengið er frá íbúðarkaupum (hafa til júní 2019 til þess að gera það) en þeir einstaklingar sem eiga fasteign geta sótt um hvenær sem er til júlí 2017 (þeir missa hins vegar þau iðgjöld sem koma inn áður en umsókn berst).

Dæmi um tilvik þar sem þetta sparnaðarform hentar ekki er komið í athugasemd við þessa grein. 

 

 


Í vöruhúsi menningarlegra leikmynda

Eitt af einkennum útrásar íslensku bankanna árin 2002-2008 var hin mikla þjóðernislega umræða sem átti sér stað. Eins og flestir muna varið var að líkja íslenskum bankamönnum og viðskiptamönnum við víkinga fyrri tíma. Í umhverfi þar sem áhersla er lögð á sérstöðu þjóðarinnar getur sögulegur samanburður við aðra virst vera fráleitur og þannig auðveldað að litið sé fram hjá aðvörunarmerkjum sem annars ættu að vera augljós.

 

 

Ákveðin þversögn felst í því að á sama tíma og íslenskt bankakerfi fylgdi því sem var að gerast á alþjóðlegum mörkuðum var fjármálaumhverfið á Íslandi í auknum mæli túlkað sem hluti af þjóðareinkennum Íslendinga. Hagrænar breytur eru því samhliða hluti af hnattrænu og staðbundnu umhverfi jafnframt því sem þær eru tengdar samfélagslegum hugmyndum um þjóðerni og samkennd.

 

Þessi áhersla á íslenskt þjóðerni kemur skýrt fram  í bæklingi sem Landsbankinn sendi landsmönnum á hápunkti útrásarinnar svokölluðu þar sem yfirskriftin var: Við þekkjum okkar fólk. Ekkert var fjallað um bankastarfsemi í bæklingnum. Þess í stað var fjallað um heillandi sérkenni Íslendinga sem gerði ‘okkur’ að einstakri þjóð. Í almennri umræðu var oftar en ekki vísað í einkenni þess hversu miklir víkingar Íslendingar væru, sem er afar fjarri raunveruleikanum því þjóðin var fram að aldamótunum 1900 nær öll starfandi við landbúnað og hafði gert slíkt um aldaraðir.

 

Íslenskt bankakerfi var búið að vera með svipuðum hætti nánast frá upphafi þess, sem rekja má aftur til sjöunda áratugar nítjándu aldar þegar að sparisjóðir komu til sögunnar og síðan nokkrum árum síðar þegar að Ísland fékk fjárforræði og stofnun Landsbanka Íslands. Hugsanleg undantekning var árin 1904 til 1930 en á heildina litið var íslenskt bankakerfi afar staðbundið og miðaði að því að þjónusta ákveðnum stéttum eða byggðarlögum. Kjör voru að mestu leyti niðurnegld af stjórnmálamönnum og skipti þjónusta almennt mestu máli.

 

Á sama tíma og íslenskt bankakerfi umturnaðist upp úr 1995 og varð alþjóðlegra mátti sjá sterka áherslu á sérkenni íslensku þjóðarinnar, sem hafði ekki verið megin áherslu atriði áður, og samhliða reynt að minnka áherslu á staðbundið samhengi þeirra út frá starfstéttum eða byggðarlögum. Bankar voru túlkaðir með afar þjóðernislegum hætti, þrátt fyrir að vera mikilvægur hluti í þátttöku Íslendinga í hnattvæddum ferlum.

 

Þessi breyting kom fram með ýmsum hætti. Sparisjóðir hættu að nota staðbundin nöfn sín að mestu leyti og urðu þekktir undir skammstöfunum. Dæmi um slíkt er Sparisjóður Hafnarfjarðar, sem varð að SPH og varð svo loks að Byr sparisjóði (litlausara nafn er ekki hægt að hugsa sér).. Á sama tíma var verið að fjalla um landnámsarfleið Íslendinga í ræðum og riti. Var engu líkara en að tímavél væri til staðar sem flytti land og þjóð margar aldir aftur í tímann hvað varðaði einkenni okkar. Gekk sú umræða svo langt að halda hefði mátt að stríð væri í gangi. Var til að mynda fyrirsögn í leiðara Markaðarins árið 2006 eftirfarandi: Danir eru í árásarham og engra varna að vænta þar í landi: Verðum að verjast lyginni sjálf. Við Íslendingar áttum með öðrum orðum sem ein (víkinga)þjóð að hópast saman til varnar.  

 

Með þessu var heil þjóð virkjuð í útrás íslensku bankanna. Það er kaldhæðnislegt að hagsmunir þjóðarinnar og bankanna, sem höfðu haldist mikið í hendur í áratugi, var líklegast minnst þessi ár þegar að bankarnir lögðu hvað mesta áherslu á að velgegni þeirra og þjóðarinnar væri sameiginleg (tapið var að hluta til þó sameiginlegt).

 

Ofangreint er hluti af umfjöllun í grein okkar Kristínar Loftsdóttur sem nýlega birtist í Skírni, tímarit hins íslenska bókmenntafélags (vorhefti 2014 númer 188), sem nefnist Bankar í ljóma þjóðernishyggju: Efnahagshrunið, hnattvæðing og menning. Fjallað var um þessa grein í þættinum Víðsjá í vikunni þar sem viðtal var tekið við okkur. Hægt er að hlusta á það á þessari slóð: http://www.ruv.is/menning/i-voruhusi-menningarlegra-leikmynda

MWM



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband