Varnarlína um hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi
26.8.2019 | 13:31
Áfrom um lagasetningu í tengslum við frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, þ.e. varnarlínu um hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi hefur verið birt á samráðsgátt. Hér eru mínar athugasemdir.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (varnarlína um hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi) / FJR19030103 |
Helsinki, Finnland, 26. ágúst, 2019
Fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið
101 Reykjavík
Sendandi: Dr. Már Wolfgang Mixa, fjármálafræðingur
Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (varnarlína um hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi) / FJR19030103
Áform um lagasetningu sem á að leggja fram í frumvarpi í nóvember 2019 eiga að stuðla að því að skapa svokallaða varnarlínu um hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi innan viðskiptabanka á Íslandi. Samkvæmt væntu frumvarpi á að takmarka beina og óbeina stöðutöku íslenskra viðskiptabanka sem skilgreindir séu sem kerfislega mikilvægir. Fyrirhugað er að samanlagðar ofangreindar stöðutökur megi vera í mesta lagi 15% sem hlutfall af eiginfjárgrunni hvers banka. Fari slíkar stöðutökur umfram þeirri prósentu þá beri að flytja fjárfestingar yfir í annað félag, sem mætti þó vera hluti af samstæðunni.
Þetta er í mínum huga einungis eitt lítið skref í rétta átt og auk þess tímabundið, því frekari umbætur eru nauðsynlegar og þyrfti í því sambandi að líta til lengri og víðsýnni vegar. Ég vísa töluvert í ritgerð sem Andri Ingason og Rebekka Bjarnadóttir skrifuðu undir minni leiðsögn árið 2017 auk eldri skrifa minna.
Kerfislega mikilvægir bankar
Í umræðu um til hverra takmarkanirnar eigi að ná kemur eftirfarandi fram:
Til samræmis við tillögu hvítbókarinnar er fyrirhugað er að láta takmörkunina ná til innlánsstofnana sem fjármálastöðugleikaráð hefur skilgreint sem kerfislega mikilvægar samkvæmt lögum um fjármálastöðugleikaráð, nr. 66/2014. Sem stendur eru Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. skilgreindir svo. Viðhald fjármálastöðugleika er ekki talið kalla á að takmörkunin nái til innlánsstofnana sem eru ekki kerfislega mikilvægar.
Reynslan sýnir að banki eða sparisjóður þarf ekki að vera kerfislega mikilvægur til þess að skapa aðstæður sem leiða til þess að skattborgarar verði ekki fyrir miklu tjóni. Í því sambandi má til dæmis rifja upp hið mikla tap hjá Sparisjóði Keflavíkur fyrir um það bil 10 árum síðan sem féll að stórum hluta í fang íslenskra skattborgara.
Því til viðbótar má koma með rök um að með því að aðgreina fjármálastofnanir sem annaðhvort kerfislega mikilvægar eða ekki í þessu sambandi þá sé verið að skekkja samkeppnisstöðu slíkra stofnanna. Það myndi jafnvel auka freistnivanda þeirra sem fá með þessu undanþágu á væntum lögum og verði litlar miðstöðvar áhættufjárfestinga í boði íslenskra skattgreiðenda.
Aðskilnaður, en ekki aðskilnaður
Fram kemur að ef hlutfall af stöðutökum fari yfir 15% af eiginfjárgrunni þá þyrfti að þyrfti að stofna sérstakt félag utan um stöðutökuna. Félagið mætti tilheyra sömu samstæðu og bankinn en þyrfti að vera með óháða stjórn, stjórnendur og fjárhag. Þetta er afar veikburða aðskilnaður. Vandséð er hvernig slík ráðstöfun takmarki áhættu innstæðueigenda með slíkri aðgerð. Slík ráðstöfun væri í raun ekkert annað en að bein fjárfesting breyttist í óbeina fjárfestingu. Að mínu mati þyrftu slíkar eignir einfaldlega að vera seldar inn í annað félag eða að fjármálaeftirlitið grípi í taumanna.
Í raun tengist þetta umræðu að neðan varðandi skilgreiningu á fjármálafyrirtækjum, sem virðist í ofangreindum orðum áformanna vera afar óskýr.
Skilgreining á fjármálafyrirtæki
Í textanum kemur orðrétt fram:
- Hvaða starfsemi á að takmarka?
Fjárfestingarbankastarfsemi er af margvíslegum toga. Til hennar má meðal annars telja fyrirtækjaráðgjöf, eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf, rekstur sjóða, milligöngu með viðskipti á verðbréfum, eigin viðskipti með verðbréf, viðskiptavakt, sölutryggingu verðbréfa og afleiðuviðskipti. Afmarka þarf hvaða starfsemi eigi að takmarka.
Hér er verið að byrja á öfugum enda. Í umræðukafla og niðurstöðum ritgerðar Andra Ingasonar og Rebekku Bjarnadóttir, Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi, kemur fram að fjárfestingabankastarfsemi var ekki eina ástæða fjármálahrunsins 2008, heldur einnig aðrir þættir svo sem húsbréfavafningar í Bandaríkjunum. Að einhverju leyti megi því kenna áhættusækni hjá viðskiptabönkum. Nauðsynlegt sé því að regluverk slíkra stofnanna sé strangt og umfram regluverki annarra fyrirtækja.
Fram kom í rannsókn þeirra að afar mismunandi skoðanir ríki varðandi það hvernig skilgreina eigi fjárfestingabanka. Telja þau nærtækara að byrja á hinum endanum. Þau segja: Nær væri að þrengja skilgreiningu viðskiptabanka í lögum, þ.e. hvaða starfsemi viðskiptabanki ætti einungis að stunda. Öll önnur fjármálastarfsemi myndi því falla undir skilgreiningu fjárfestingarbanka sem væri víðara túlkuð.
Þau segja í framhaldi af þessu:
Búið er að flækja umræðuna hér á landi um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi og greiningu milli þessarar starfsemi. Það er mikið talað um mikilvægi þess að skilgreina fjárfestingarbankastarfsemi, hvað teljist í raun og veru til hennar og hvað felist í henni. Einfaldara væri að hugsa skilgreiningarvandann út frá viðskiptabankastarfseminni fremur en fjárfestingarbankastarfseminni. Flestir vita í hverju starfsemi viðskiptabanka felst og væri mikið nær að stjórnvöld gerðu það upp við sig hvaða starfsemi viðskiptabankar ættu að stunda.
Því ættu lög sem miða að því að vernda íslenska innstæðueigendur og ríkis vegna kerfislegra mikilvægra banka að einblína á viðskiptabankastarfsemi og setja þeim þröngar skorður hvað regluverk varðar. Segja má að slíkar stofnanir njóti góðs af óbeinni ríkisábyrgð á starfsemi þeirra en á móti séu kröfurnar meiri hvað regluverk varðar.
Þessu verður ekki breytt, hvort sem að ríkisábyrgð sé fyrir hendi eða ekki á innstæðum fólks. Ef viðskiptabankar lenda í hremmingum, þá þarf almenningur með einum eða öðrum hætti að súpa seyðið af slíku.
Regluverk
Skilgreining á því hvað séu viðskiptabankar myndi einnig opna dyrnar fyrir því að aðrir bankar sem ekki séu skilgreindir sem slíkir væru ekki undir sömu kvöðum regluverks, enda eru þeir þá eins og önnur fyrirtæki að því leytinu til að þau geta hæglega orðið gjaldþrota. Innstæður slíkra stofnanna takmörkuðust þannig við stofnannafjárfesta. Það er einnig óeðlilegt að fyrirtæki séu njóti ríkisábyrgðar nema að rík ástæða sé fyrir hendi. Heiðar Guðjónsson orðar þetta vel í rannsókn Andra og Rebekku þar sem að hann segir að það sé ...ekkert sanngjarnt að einhver ein atvinnugrein hafi bara aðgang að pyngju almennings umfram aðrar atvinnugreinar.
Slíkt regluverk á vart eftir að minnka á næstunni. Nýleg grein í The Economist, The past decade has brought a compliance boom in banking, bendir á að umræða banka við að fylgja eftir stöðlum regluverka hefur margfaldast síðastliðinn áratug. Regluverk í tengslum við íslenska fjármálakerfið gæti þá takmarkast frekar við þær fjármálastofnanir sem teljast vera viðskiptabankar en í minna mæli hjá öðrum fjármálastofnunum.
Ég hef fjallað um þetta atriði áður. Í grein minni, Aðskilnaður banka núna er rétti tíminn, kemur fram að Sebastian Mallaby fjalli til dæmis um þetta í bók sinni, More Money than God, þar sem að hann færir rök fyrir því að aðskilnaður væri nauðsynlegur, meðal annars af því að þannig væri hægt að skapa fjárfestingabönkum meira lagalegt rými sem aðskildar einingar þar sem að lagaramminn þyrfti ekki að taka tillit til jafn mikilla kerfisbundina áhættur sem stærri bankar skapa samfélaginu.
Samantekt
Áform um lagasetningu varðandi varnarlínu um hlutfall fjárfestingarbankastarfsemi eru skref í rétta átt en aðeins tímabundið, ganga ekki nægilega langt og vantar skilgreiningu á því hvað teljist til viðskiptabankastarfsemi. Án slíkrar skilgreiningar er hætt við að bönkum sé mismunað, regluverk banka sé alltof viðamikið hjá mörgum einingum þeirra sem ekki tilheyra einfaldri viðskiptabankstarfsemi og dregur þannig úr samkeppnishæfni þeirra.
Því ætti að endurvinna þessi áform til að auka samkeppnishæfni íslensks fjármálalífs gagnvart umheiminum en jafnframt standa vörð um viðskiptabankastarfsemi landsins og því áhættur íslenskra innstæðueigenda og skattborgara.
Heimildir:
Andri Ingason og Rebekka Bjarnadóttir (2017). Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi. https://skemman.is/bitstream/1946/28400/1/A%c3%b0skilna%c3%b0ur_vi%c3%b0skipta-_og_fja%cc%81rfestingarbankastarfsemi_Andri_Ingason_og_Rebekka_Bjarnado%cc%81ttir.pdf
The Economist (2019). The past decade has brought a compliance boom in banking. https://www.economist.com/finance-and-economics/2019/05/02/the-past-decade-has-brought-a-compliance-boom-in-banking
Már Wolfgang Mixa (2015). Aðskilnaður banka - núna er rétti tíminn. https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/2159988/
Sebastian Mallaby(2015). More Money Than God: Hedge Funds and the Making of a New Elite. https://www.amazon.com/More-Money-Than-God-Making-ebook/dp/B003SNJZ3Y
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ólöglegir vextir hjá LSR
16.7.2019 | 15:28
Eins og fram hefur komið hafa tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins nýlega hækkað eða vart lækkað breytilega vexti verðtryggðra lána á sama tíma og vaxtastig verðtryggðra skuldabréfa tryggðir af ríkinu, það er HFF og RIKS flokka, hríðlækkaði.
Í tilfelli LSR hefðu vextir átt að lækka niður í 1,93% í byrjun þessa mánaðar en lækkuðu þess í stað 2,20%. Áður voru vextir slíkra lána 2,26% og lækkunin því einungis 0,06%. Lán tekin eftir 15 janúar á þessu ári standa hins vegar í stað í 2,30%.
Þessar breyttu viðmiðanir, eða eiginlega það að verið sé að hætta að fylgja viðmiðunum yfirleitt, eru að mínu mati einfaldlega ólöglegar ákvarðanir eins og ég hef sagt í fyrri pistli mínum og í viðtali nýlega á Bylgjunni varðandi þetta mál. Ég fer yfir helstu rök mín hér að neðan.
Lög um fasteignalán til neytenda
Í lögum um fasteignalán til neytenda kemur eftirfarandi fram:
https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016118.html
- gr.Lán með breytilegum vöxtum.
Ef í samningi um fasteignalán er kveðið á um að byggt sé á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum við ákvörðun breytilegra vaxta er lánveitanda aðeins heimilt að notast við viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti sem eru skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu. Byggist ákvörðun um breytingu á vöxtum ekki á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum skal í samningi um fasteignalán greint frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum.
Lánveitandi skal varðveita upplýsingar um sögulega þróun viðkomandi vísitalna og viðmiðunarvaxta, annarra en þeirra sem ákvarðaðir eru og birtir af opinberum aðila.
Ofangreindur texti sýnir að fyrirtæki sem veita lán með breytilegum vöxtum þurfa að fylgja því viðmiðunargengi sem fólk ætti að geta gengið að vísu standist, sama hvað viðkomandi lánveitandi telji sé eðlilegt eða ekki varðandi viðmiðunargengi lána. LSR hefur ekki komið fram með neinar skýringar. LIVE kom fram með þær skýringar að viðskipti með HFF skuldabréf séu orðin svo strjál að ekki sé lengur hægt að miða við slík bréf. Séu mál þannig, þá ætti að miða við annan flokk með virk viðskipti með sömu skuldaraáhættu. Væri þar eðlilegast að líta til RIKS bréfa, sem bera enn lægri ávöxtunarkröfu, 0,2%-0,3% (seljanleikaálag er ekki til staðar), og því ættu breytilegir vextir verðtryggðra lána að lækka enn frekar í stað þess að standa í stað eða jafnvel að hækka!
Tilkynningar LSR um vaxtaviðmið breytilegra verðtryggðra lána
LSR hefur í mjög mörg ár auglýst viðmiðanir sjóðsins varðandi vaxtaviðmið breytilegra lána. Á heimasíðu LSR hefur það verið rauður þráður í gegnum tíðina að sjóðurinn ákvarði vextina í samræmi við vaxtastig á markaði. Burtséð frá smáa letrinu á samningum þá ætti fólk (neytendur) að geta treyst að á sjóður sem er lánastofnun fylgi þeim stöðlum sem hann auglýsir á sinni heimasíðu ár eftir ár. Hér kem ég með nokkur dæmi. Sjá fyrst minn texta, svo hlekk og að lokum texta afritaðan af heimasíðu sjóðsins, sem ég skáletra.
Dæmi 1. Árið 2005
Að neðan sést að neytendur ættu að geta gengið að því sem vísu að vextir breytilegra verðtryggðra lána þeirra sveiflist með meðalávöxtunarkröfu Íbúðabréfa, nánar tiltekið HFF34 flokksins að viðbættu 60 punkta álagi. Hvergi er minnst á að önnur viðmið gildi.
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20051101055159/http://www.lsr.is/article.asp?catID=221&ArtId=237
Vaxtakjör | |
LSR lán bjóðast á föstum og breytilegum vöxtum. Breytilegir vextir LSR lána eru nú 4,22 % (frá 1. október 2005) Fastir vextir eru 4,15 % (frá 29.nóvember 2004) Smellið á lesa meira til að fá upplýsingar um hvernig vextir LSR lána eru ákvarðaðir.
· Við vaxtaákvörðun er höfð hliðsjón af meðalávöxtunarkröfu Íbúðabréfa síðustu þrjá mánuði áður en ákvörðun um vaxtabreytingu er tekin, nánar tiltekið flokks HFF 34 sem eru Íbúðabréf á gjalddaga 2034 með meðalbinditíma upp á 11,7 ár, að viðbættu 60 punkta álagi.
· Breytilegir vextir LSR lána eru nú 4,22 % (frá 1. október 2005). Fastir vextir · Vextir LSR lána með föstum vöxtum eru ákvarðaðir með hliðsjón af markaðsaðstæðum á hverjum tíma og því hvað hentar eignasamsetningu deilda LSR. · Ákvörðun um breytingar á vöxtum eru teknar þegar aðstæður á markaði kalla á það. · Fastir vextir eru 4,15 % (frá 29.nóvember 2004). Dæmi 2. Árið 2004 |
Þetta var hér um bil eins árið áður, 2004. Þá voru hins vegar húsbréf enn ríkjandi og álagið var 0,5%. Hvergi er fjallað um að lántakendur geti gert ráð fyrir önnur viðmið eins og sést að neðan.
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20040822042915/http://www.lsr.is/category.asp?catID=151
|
Dæmi 3. Árið 2010 |
Árið 2010 var sjóðurinn á sömu nótum með sín vaxtaviðmið og árin áður. Eins og sést að neðan var miðað við lengsta Íbúðabréfaflokkinn HFF 44, í stað HFF 34 árið 2005, auk 0,5% álags í stað 0,6% álags árið 2005.
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20100329220025/http://lsr.is/article.asp?catID=221&ArtId=237
Vaxtakjör | |
LSR lán bjóðast á föstum og breytilegum vöxtum. Breytilegir vextir LSR lána eru nú 4,52 % (frá 1. janúar 2010) Fastir vextir eru 5,0 % (frá 12. mars 2010) Smellið á lesa meira til að fá upplýsingar um hvernig vextir LSR lána eru ákvarðaðir.
· Við vaxtaákvörðun er höfð hliðsjón af meðalávöxtunarkröfu íbúðabréfa síðustu þrjá mánuði áður en ákvörðun um vaxtabreytingu er tekin, nánar tiltekið flokks HFF 150644 sem eru íbúðabréf á gjalddaga 2044 að viðbættu 50 punkta álagi. · Vextir sjóðfélagalána LSR og LH eru nú 0,5 prósentustigum yfir ávöxtunarkröfu Íbúðabréfa. · Breytilegir vextir LSR lána eru nú 4,52 % (frá 1. janúar 2010). Dæmi 4. Árið 2015 Árið 2015 var sjóðurinn búinn að breyta viðmiðunum sínum örlítið. Enn var miðað við HFF 44 flokkinn og álagið var óbreytt, eða 0,6%, eins og sést að neðan. Þá kom einnig fram á vefsíðu sjóðsins eftirfarandi: LSR er þó ávallt heimilt að taka ákvörðun um að vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum taki breytingum miðað við annað viðmið en að framan greinir eða að þeir breytist samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og taka þá mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði. Með öðrum orðum, LSR tekur mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði. Ekki er tilgreint hvaða annað viðmið sé um að ræða og hefur LSR ekki veitt skýringar á því á vefsíðu sinni. Hins vegar er í báðum tilfellum verið að taka mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði, punktur. Séu HFF bréf ekki lengur ásættanlegt viðmið sökum strjálla viðskipta þá ætti samkvæmt þessum texta LSR að miða við RIKS bréf. Væri það raunin þá hefðu vextir átt að lækka niður í um það bil 1,7% í stað þess að vera 2,2% eins og þeir eru í dag. |
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20150306172308/http://www.lsr.is/lan/vextir/
Frá og með 1. apríl 2015 verða breytilegir vextir 3,68%.
Verðtrygging miðast við vísitölu neysluverðs.
Vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum breytast fjórum sinnum á ári, þann 1. janúar, 1. apríl,
1. júlí og 1. október ár hvert. Vextirnir eru reiknaðir einum mánuði fyrir gildistöku nýrra vaxta
(1. desember, 1. mars, 1. júní og 1. september ár hvert) og eru meðaltal ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs HFF150644 í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands síðustu þrjá mánuðina á undan að viðbættu 0,60% álagi. Stjórn LSR er þó ávallt heimilt að taka ákvörðun um að vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum taki breytingum miðað við annað viðmið en að framan greinir eða að þeir breytist samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og taka þá mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði.
Nýjasta útreikning breytilegra vaxta má finna hér.
Fastir vextir nýrra sjóðsfélagalána breytast samkvæmt ákvörðun stjórnar LSR.
Dæmi 5. Árið 2018
Þetta viðmið sem miðað var við árið 2015 hélt enn velli á síðasta ári, 2018, eins og sést að neðan. Auk þess stendur að: Breytilegir vextir þýða að vextir á lánstímanum geta breyst til hækkunar eða lækkunar. Lántaki veit því ekki við lántöku hvaða vextir gilda út lánstímann.
Ekki er hægt að skilja þetta með neinum öðrum hætti en að lántaki er að taka áhættu á því að vextir á markaði hækki því þá hækki vaxtabyrði þeirra. Að sama skapi getur lífeyrissjóðurinn þó ekki sett gólf á vaxtabyrðina lækki vextir á markaði.
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20180914164015/https://www.lsr.is/lan/vextir/
Breytilegir vextir eru 2,62% frá og með 1. júlí 2018
Breytast næst 1. október 2018
Vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum breytast fjórum sinnum á ári, þann 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí og 1. október ár hvert. Vextir eru reiknaðir einum mánuði fyrir gildistöku nýrra vaxta (1. desember, 1. mars, 1. júní og 1. september ár hvert) og eru meðaltal ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs HFF150644 í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands síðustu þrjá mánuðina á undan að viðbættu 0,60% álagi. Stjórn LSR er þó ávallt heimilt að taka ákvörðun um að vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum taki breytingum miðað við annað viðmið en að framan greinir eða að þeir breytist samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og taka þá mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði.
Breytilegir vextir þýða að vextir á lánstímanum geta breyst til hækkunar eða lækkunar. Lántaki veit því ekki við lántöku hvaða vextir gilda út lánstímann.
Hægt er að skilmálabreyta láni með breytilegum vöxtum yfir í lán með fasta vexti.
Samantekt
Það munur hér miklu. Stjórn LSR hefur breytt breytilegum verðtryggðum vöxtum í 2,2% til 2,3% en þeir ættu samkvæmt 34. greinar fasteignalána til neytenda að vera 1,7 til 1,93%. Sé miðað við ríkistryggð verðtryggð skuldabréf, þ.e. HFF bréf, þá munar um 0,27% hjá flestum þeim sem tóku slík lán hjá sjóðnum. Fjölskylda sem skuldar hjá LSR til dæmis 40 milljónir borgar því 108 þúsund krónum á ári, eða um níu þúsund krónur á mánuði, í hærri vaxtakostnað en hún ætti að borga samkvæmt þeim viðmiðunum sem sjóðurinn hefur auglýst svo árum skiptir á sinni eigin heimasíðu. Sé miðað við RIKS flokka þá er munurinn í kringum 200 þúsund krónur á ári.
Því tel ég það liggja í augum uppi að stjórn LSR (og jafnvel LIVE líka, en ég hef ekki kannað það ítarlega) hafi enga heimild til þess að breyta viðmiðunum á breytilegum verðtryggðum lánum til sjóðsfélaga sinna. Nýjustu breytilegir vextir LSR eru því einfaldlega ólöglegir.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.7.2019 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Auglýst eftir stjórnmálamönnum sem vilja lækkun vaxta
25.6.2019 | 18:54
Fjölmiðillinn DV.is tók saman helstu áherslur stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu kosninga fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan. Ein slík samantekt snéri að efnahags- og atvinnumálum. Hægt er að sjá samantektina hérna.
Ef maður notar leitarvél og slær inn vaxt eða vext þá er greinilegt að lækkandi vaxtastig var mörgum stjórnmálaflokkum ofarlega í huga. Ég afrita hér nokkur brot frá samantekt DV.is. Feitletranir eru mínar, nema hjá Viðreisn og Framsókn þar sem að feitletrunin var hluti af fyrirsögnum í svörum flokkanna.
Björt framtíð: Almennar, gagnsæjar leikreglur, stöðugur gjaldmiðill, lágt vaxtastig, góð ....bla bla bla
Framsókn: Framsókn vill samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt sé að stuðla að lækkun vaxta t.a.m. við kjarasamningsgerð.
Framsókn vill stuðla að því að raunvextir á Íslandi lækki
Viðreisn: Lækkun vaxta stærsta húsnæðismálið
Varanleg lækkun vaxta á húsnæðislánum til lengri tíma er stærsta hagsmunamál kaupenda og leigjenda húsnæðis.
Mestu skiptir að halda stöðugu verðlagi og lágmarka vaxtakostnað heimila og fyrirtækja.
Miðflokkurinn: Allt tengist þetta saman t.d. atvinnulíf, nýsköpun og húsnæðismálin tengist fjármálakerfinu og þá ekki síst vaxtastiginu.
Markmiðin eru þessi í grófum dráttum að á Íslandi verði loksins hægt að viðhalda eðlilegu vaxtastigi sem gerir fólki kleift að eignast heimili hraðar en áður ...bla bla bla
bla bla ....nýjan banka, sem bjóði upp á lægri vexti og auki þar með samkeppni og leiði íslenska fjármálakerfið inn í breyttan heim.
VG: Til að tryggja lága verðbólgu og vaxtastig þarf ...bla bla bla
Flokkur fólksins: Verðtrygging verði afnumin af neytendalánum og fasteignalánum og vextir lækkaðir þannig að þeir verði ekki hærri en best þekkist í nágrannalöndunum.
Samfylkingin: Besta leiðin til þess að tryggja stöðugleika, lækka vexti og auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi er upptaka evru í kjölfarið á aðild að Evrópusambandinu.
Breytt viðmið
Nú gerðist það um daginn að tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins ákváðu að breyta viðmiði sínu varðandi breytileg verðtryggð lán. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hækkaði vexti sína úr 2,06% í 2,26% og LSR lækkaði sína vexti úr 2,27% í 2,20%. Engin rök voru á bakvið þeim ákvörðunum, heldur eiginlega bara rökleysa.
Ef horft sé fyrri viðmiða þá hefðu vextir átt að lækka niður í 1,93%. Rök stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (stjórn LSR hefur ekki gefið neinar skýringar eftir því sem ég best veit) voru að ekki væru virk viðskipti með HFF bréf (gamla viðmiðið) og því ekki lengur gott viðmið. Nærtækast hefði þá verið að líta til RIKS 30 flokksins og þá hefðu vextir átt að lækka enn frekar, eða niður í 1,67%. Með því að afnema viðmiðin sem stjórnirnar lögðu áður til grundvallar og auglýst voru á heimasíður lífeyrissjóðanna (sem eru skilgreind sem fjármálastofnanir - ég set spurningarmerki um að slíkt standist lög) hafa þeir hækkað vaxtabyrði fjölskyldna um tæplega hálft prósent. Fyrir fjölskyldu sem skuldar 40 milljónir króna þá þýðir það að hún borgar 200 þúsund krónur árlega í vaxtakostnað umfram þeirri upphæð sem hún ætti að borga samkvæmt þeim viðmiðunum sem lífeyrissjóðirnir auglýstu á heimasíðu sinni þegar að lánin voru tekin.
Tapað - fundið
Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um þetta mál, enda hefur það tekið leiðinlega stefnu, og hefur þvi ekki farið fram hjá neinum stjórnmálamanni. Í ljósi yfirlýsinga flestra stjórnmálaflokka um að lækkun vaxta sé eitt af aðal stefnumálum þeirra þá furða ég mig á þeirri þ0gn sem hefur ríkt úr þeirri átt. Því auglýsi ég hér með eftir (kannski í tapað - fundið) stjórnmálamönnum sem hafa eitthvað um þetta mál að segja.
MWM
Rökleysa stjórnar LIVE
20.6.2019 | 06:42
Stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna birti um daginn eftirfarandi tilkynningu:
Undanfarin ár hafa breytilegir vextir verðtryggðra lána tekið sjálfkrafa breytingum í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokksins HFF150434. Viðskipti með þennan skuldabréfaflokk hafa farið verulega minnkandi undanfarin misseri og er hann því ekki eins virkt viðmið fyrir vexti og áður.
Sjóðurinn ákvað því að hækka, í stað þess að lækka, breytilega vexti sjóðsins, þvert á þróun á ávöxtunarkröfu innlendra skuldabréfa síðustu mánuði.
Það eru engin rök fyrir þessari ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins. Hér nefni ég þrjár rökleysur varðandi hana.
1. Ef vextirnir á HFF bréfunum eru svona óeðlilega lágir, væri ekki tækifæri fyrir þessa sjóði að selja eitthvað af HFF bréfunum? Slíkt myndi ýta ávöxtunarkröfuna á eðlilegt viðmið, það er ef spurning væri um að það væri það ekki nú þegar.
2. Þegar að seljanleiki verðbréfa minnkar, eins og gerst hefur með HFF bréfin, þá ætti ávöxtunarkrafa þeirra að aukast. Þetta seljanleikaálag skuldabréfa er grunnatriði í verðlagningu skuldabréfa. Viðskipti með HFF bréf eru tiltölulega lítil (þau eru þó alveg til staðar) en þau bera samt ótvírætt seljanleikaálag, sem sést með því að bera þau saman við ávöxtunarkröfu RIKS bréfa.
3. Þetta tengist ofangreindum lið. Eðlilegra væri þá að breyta viðmiðunum yfir í álag á RIKS30 eða annarra spariskírteinaflokka þannig að vaxtaákvarðanirnar yrðu þá hlutlægar en ekki huglægt mat stjórnar. Ávöxtunarkrafa þeirra bréfa er reyndar töluvert lægri en ávöxtunarkrafa HFF bréfa og myndi vaxtaálag lána LIVE hjá sjóðsfélögum með breytileg verðtryggð lán lækka enn meira en það áður var (það er miðað við ávöxtunarkröfu HFF flokksins en ekki ákvörðun stjórnar LIVE). Ávöxtunarkrafa HFF skuldabréfa (alla þrjá flokka) við lok markaða í gær var í kringum 1,15% en 0,95% fyrir RIKS 30 bréfa. Sé ávöxtunarkrafa HFF skuldabréfs orðið slappt viðmið, þá ætti það að leiða til ákvörðunar um lægri vexti fyrir sjóðsfélaga, nánar tiltekið um 0,2%. Samkvæmt því viðmiði ættu breytilegir vextir verðtryggðra lána í dag að vera í kringum 1,55%.
Eftirfarandi er orðrétt úr síðasta pistli mínum, sem tengist þessu máli. Hækkunin, úr 2,06% upp í 2,26% er veruleg, sérstaklega í ljósi þess að þeir hefðu samkvæmt eldri viðmiðunum átt að lækka. Sé miðað við að sjóðurinn hefði lækkað vexti sjóðsfélaga um 0,1%, þá gerir þessi hækkun það að verkum að fjölskylda sem skuldar hjá sjóðnum 40 milljónir króna þarf að greiða 120 þúsund krónur meira í vaxtagjöld á ári, eða um 10 þúsund krónur á mánuði.
MWM
ps. Stjórn LSR hefur ákveðið að herma eftir ákvörðun stjórnar LIVE. Ég set spurningarmerki við lögmæti þeirrar ákvörðunar og mun fjalla um það bráðlega
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Breytilegir vextir í öðru veldi
1.6.2019 | 11:54
Ég fjallaði nýlega um það að væntanlega fari raunvextir breytilegra vaxta hjá LSR niður fyrir 2%. Það yrði vægast sagt stór áfangi í því að vaxtaþungi íslenskra heimila færist á eðlileg mið. Á heimasíðu LSR kemur eftirfarandi fram varðandi breytilega vexti sjóðsins.
Vextir eru reiknaðir einum mánuði fyrir gildistöku nýrra vaxta (1. desember, 1. mars, 1. júní og 1. september ár hvert) og eru meðaltal ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs HFF150644 í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands síðustu þrjá mánuðina á undan að viðbættu 0,60% álagi.
Næsta setning á eftir á heimasíðu LSR segir hins vegar:
Stjórn LSR er þó ávallt heimilt að taka ákvörðun um að vextir sjóðfélagalána með breytilegum vöxtum taki breytingum miðað við annað viðmið en að framan greinir eða að þeir breytist samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og taka þá mið af þróun verðtryggðra vaxta á markaði.
LSR getur samkvæmt þessu breytt lánakjörum að vild. Sé slíkt gert þá má segja að verðtryggð lán hjá sjóðnum séu með breytilegum vöxtum, sem séu svo í Þokkabót með breytileg viðmið, því þeir breytast ekki bara samkvæmt vaxtamiðunum á markaði heldur einnig vegna geðþótta stjórnar LSR. Í raun eru þetta því breytilegir vextir með breytanleg viðmið, eða breytilegir vextir í öðru veldi.
Þetta var því miður einmitt að gerast hjá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna um daginn. Í nýrri tilkynningu sjóðsins kemur eftirfarandi fram:
Undanfarin ár hafa breytilegir vextir verðtryggðra lána tekið sjálfkrafa breytingum í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokksins HFF150434. Viðskipti með þennan skuldabréfaflokk hafa farið verulega minnkandi undanfarin misseri og er hann því ekki eins virkt viðmið fyrir vexti og áður.
Því er sjóðurinn að hækka, í stað þess að lækka, breytilega vexti sjóðsins. Hækkunin, úr 2,06% upp í 2,26% er veruleg, sérstaklega í ljósi þess að þeir hefðu samkvæmt eldri viðmiðunum átt að lækka. Sé miðað við að sjóðurinn hefði lækkað vexti sjóðsfélaga um 0,1%, þá gerir þessi hækkun það að verkum að fjölskylda sem skuldar hjá sjóðnum 40 milljónir króna þarf að greiða 120 þúsund krónur meira í vaxtagjöld á ári, eða um 10 þúsund krónur á mánuði.
Einhverra hluta vegna hefur lítið borið á óánægjuröddum vegna þessa. Af hverju er engin manneskja að kvarta undan þessu í dag? Ég skil þetta ekki.
MWM
ps. Samkvæmt nýrri tilkynningu frá LSR eru litlar líkur á því að sjóðurinn breyti viðmiðum sínum þar sem að hann var að lækka vexti á nýjum lánum sem bera fasta og breytilega vexti. Það er ekki vísbending um að hann fari að sömu leið og Lífeyrissjóður Verzlunarmanna.
Viðskipti og fjármál | Breytt 6.6.2019 kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
LSR verðtryggð lán undir 2%?
28.5.2019 | 16:22
Samkvæmt skilmálum LSR eru vextir breytilegra verðtryggðra lána uppfærðir á 3 mánaða fresti (þetta á ekki við um lán tekin eftir 15.1.2019). Á heimasíðu sjóðsins kemur fram að:
Vextir eru reiknaðir einum mánuði fyrir gildistöku nýrra vaxta (1. desember, 1. mars, 1. júní og 1. september ár hvert) og eru meðaltal ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs HFF150644 í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands síðustu þrjá mánuðina á undan að viðbættu 0,60% álagi.
Samkvæmt þessu verða uppfærðir breytilegir vextir LSR rúmlega 1,9% frá og með 1. júlí. Vart þarf að fara mörgum orðum um það hversu gífurlega mikil kjarabót þetta er fyrir íslenskar fjölskyldur. Það þótti vera bylting þegar Kaupþing fór að bjóða verðtryggð lán með "aðeins" 4,4% vaxtakjörum haustið 2004. Segja má að leigugjald fólks af húsnæði hafi lækkað um 60% frá árinu 2003, en þó ber að líta til þess að raunvirði húsnæðis hefur hækkað töluvert síðan þá.
MWM
Vaxtalækkun - Af hverju ekki fyrr?
22.5.2019 | 10:21
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti rétt í þessu að stýrivextir lækki um 0,5%. Þessi ákvörðun kom ekki á óvart. Vísbendingar hafa verið að koma fram um að hagvöxtur yrði lítill sem enginn næstkomandi misseri. Leiðandi hagvísir Analytica byrjaði strax síðasta sumar að vara við samdrætti og hefur tónn þess hagvísis verið stöðugt þyngri síðustu mánuði. Nýlegt uppgjör Festis sýndi að almenningur skynjaði þetta því sala í Elko á fyrsta ársfjórðungi ársins olli vonbrigðum hjá samstæðunni.
Þó svo að þessi ákvörðun hafi ekki komið á óvart þá var ákveðin óvissa í hugum sumra fjárfesta. Ávöxtunarkrafa allra ríkisbréfaflokka lækkaði rúmlega 10 punkta í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Líklega hafa einhverjir aðilar verið óvissir um hvort að lækkunin yrði 0,25% eða 0,5%.
Það sem þó staðfesti í hugum margra að efnahagsvöxtur væri (í það minnsta tímabundið) í rénun var fall Wow Air 28. mars. Aðeins nokkrum dögum áður hafði peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Óvissa um kjarasamninga var helsta ástæða þess að stýrivöxtum var haldið óbreyttum. Sú óvissa var þó fyrir bí þegar að Lífskjarasamningurinn var tilkynntur 2. apríl.
Öll rök um að lækka vexti hafa því legið fyrir í sjö vikur. Ef lækkun stýrivaxta hefur í raun áhrif á hagkerfið, þá má spyrja af hverju vextir voru ekki lækkaðir strax í kjölfar Lífskjarasamningsins. Eina útskýringin í mínum huga er að peningastefnunefndin hittist einfaldlega ekki fyrr. Undir flestum kringumstæðum væri þetta í góðu lagi. Í ljósi aðstæðna undanfarið má þó spyrja hvort ekki hefði verið skynsamlegt að halda aukafund til þess að lækka stýrivexti? Slíkt hefði haft þá fyrr áhrif á hagkerfið og einnig minnkað óvissuna?
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samanburður á kjör húsnæðislána - herborg.is
16.5.2019 | 08:01
Ég hef veitt mörgum ráðgjöf varðandi húsnæðislán síðustu 20 ár. Slík ráðgjöf hefur aðallega snúist í kringum tvo þætti. Hér skauta ég framhjá því að ég mælti eindregið á móti erlendum lánum í aðdraganda hrunsins 2008.
Fyrsti þátturinn er hvort að taka eigi verðtryggt eða óverðtryggt lán, eða hugsanlega blöndu af slíkum lánum. Almennt hef ég mælt með því að ungt fólk taki óverðtryggð lán, annaðhvort að öllu leiti eða að hluta til í það minnsta, þannig að eignarmyndun eigi sér hraðar stað. Fyrir eldri einstaklinga er oft betra að taka verðtryggð lán en slíkir einstaklingar hafa oft myndað töluverða eign í húsnæði sínu og liggur því síður á að mynda frekari eignarhluta.
Síðari þátturinn snýst um hjá hvaða lánastofnunum eigi að taka lán hjá. Þar gegna tvær stærðir veigamiklu hlutverki. Sú fyrsta, og afar augljós stærð, er vaxtakjör. Sú síðari er hvort að lánastofnanir krefjist uppgreiðslugjalds á lánum.
Það er eiginlega með ólíkindum hversu mikill munur er, og hefur verið, á vaxtakjörum húsnæðislána á Íslandi. Almennt hef ég mælt með því að fólk athugi það hvort að það geti fengið lán hjá lífeyrissjóði sínum. Oftast hef ég nefnt Lífeyrissjóð Verzlunarmanna (LIVE) og LSR í þeim efnum.
Uppgreiðslugjald getur skipt miklu máli. Hef ég aðallega mælt með því að fólk sem hefur tekið verðtryggð lán athugi slíkt, þannig að það geti greitt inná lánin til að hraða eignamynduninni. Sé ekkert uppgreiðslugjald getur fólk með verðtryggð lán greitt lánin hraðar upp og jafnvel lækkað höfuðstólinn hraðar en ef það væri með óverðtryggð lán. Þetta á sérstaklega við einstaklinga sem hafa óreglulegar tekjur.
Vandamál - sem nú er leyst
Eitt vandamál við þessa ráðgjöf hefur verið að oft hefur fólk þurft að leggja á sig mikla vinnu við að bera saman þessa valmöguleika. Það vandamál er hins vegar ekki lengur til staðar. Vefsíðan herborg.is dregur saman með einföldum hætti þessi ofangreindu atriði. Á forsíðu vefsíðunnar er auðvelt að bera þessi atriði saman. Með því að ýta á örvar fyrir hverja tegund lána, verðtryggð eða óverðtryggð lán með föstum eða breytilegum vöxtum, er með einföldum hætti hægt að bera saman bestu lánakjörin sem finnast á markaði.
Almennt mæli ég með því að fólk taki breytilega vexti þegar kemur að verðtryggðum lánum með jafngreiðslum. Sveiflur á raunvöxtum eru minni en sveiflur nafnvaxta og tel ég gjaldið fyrir stöðugleikan vera almennt of hátt fyrir slíka tryggingu. Þar kemur til dæmis í ljós að Frjálsi býður í dag bestu lánakjörin, en LIVE er með hér um bil sömu kjörin. Fyrir nýja lántakendur býður LSR nú lán með 2,5% raunvöxtum sem breytast samkvæmt viðmiðunum sem eru ógegnsæ (þetta á ekki við um lán tekin hjá sjóðnum fram að 15.1 á þessu ári, en þau bera í dag 2,27% raunvexti). Ég myndi því frekar mæla með lánum hjá nokkrum öðrum sjóðum í dag ef fólk hefur kost á því.
Þegar kemur að óverðtryggðum lánum þá mæli ég almennt með því að taka lán með föstum vöxtum og jöfnum afborgunum. Vextir slíkra lána geta sveiflast miklu meira í takti við verðbólgu og álag sem lánastofnanir taka er samt minna samanborið við verðtryggðu lánin. Þó svo að slíkir vextir séu almennt einungis negldir niður í 3 eða 5 ár þá myndar lántaki á því tímabili hraðari eignarmyndun á húsnæði sínu með hærri greiðslubyrði. Í dag er LIVE með bestu kjörin á markaði og Frjálsi þau næst bestu. Almenni er með þriðju bestu kjörin og auk þess með fjórðu bestu kjörin hvað verðtryggðu lánin varðar.
Allir þessir sjóðir bjóða uppgreiðslu á lánum án kostnaðar. Birta býður einnig uppá góð kjör en sjóðurinn rukkar hins vegar 1% uppgreiðslugjald.
Athyglisvert er að bankarnir bjóða sjaldnast uppá góð vaxtakjör og eru þeir allir með 1% uppgreiðslugjald.
Útreikningur
Stofnandi síðunnar, Björn Brynjúlfur Björnsson (sem ég þekki vel að merkja ekki), bendir fólki á að fara í reiknivélar lánastofnanna til að reikna sér til um kostnað lána. Sjálfur hef ég nýtt þetta Excel skjal bæði í kennslu og í tengslum við ráðgjöf á húsnæðislánum. Efst í skjalinu er hægt að setja inn breytur og sést þá kostnaður afborgana, vaxtagreiðslna og eftirstöðvna. Þetta er sýnt á ársgrundvelli til hliðar og síðan hversu mikið greiðslurnar eru hér um bil hvern mánuð hægra megin. Samtals greiðslur sýna einnig heildargreiðslubyrðina á ári. Hún er hærri á verðtryggðum lánum því slík lán eru greidd mikið hægar niður, sem þýðir að veginn lánstími þeirra er lengri þó svo að vaxtakjörin í skjalinu séu þau sömu. Rétt er að benda á að verðbólguvæntingar eru viðmið Seðlabankans um verðbólgu en raunvextir í skjalinu eru hærri en raunvextir flesta lánastofnanna í dag. Hvað verðtryggð lán varðar þá ætti að vera nóg að slá inn nýja tölu fyrir raunvexti en hjá óverðtryggðum vöxtum er hægt að slá inn beint nafnvaxtatöluna eða auka raunvexti þangað til að sú tala stemmir við þau vaxtakjör sem miðað er við.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrirsagnir fjölmiðla og allur textinn - áhrif á fjárfestingar
9.5.2019 | 12:53
Arion banki, sem ég á beinan hlut í, tilkynnti afkomu sína fyrstu þrjá mánuði ársins eftir lokun markaða í gær. Eins og við var að búast var hún ekki glimrandi, því áður hafði komið fram að bankinn hefði þurft að afskrifa enn frekari upphæðum vegna gjaldþrots WOW air og auk þess gjaldfærði bankinn kostnað vegna dóms í tengslum við lögsókn Wikileaks gegn Valitor, sem er í eigu Arion banka.
Orðrétt stendur eftirfarandi í fyrstu línum tilkynningar Arion banka til Kauphallarinnar:
Jákvæð þróun í kjarnastarfsemi en óreglulegir liðir hafa neikvæð áhrif
Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam 1,0 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 2,1% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 3,6% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár að Valitor undanskildu var 6,2% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 4,8% á sama tímabili árið 2018. Valitor er skilgreint sem eign til sölu.
Semsagt, hagnaður dregst saman og arðsemi eigin fjár er enn einn ársfjórðunginn slök. Það sem ætti þó að hafa vakið mestu athygli fjárfesta var að arðsemi eigin fjár var 6,2% að undanskildu tapi á fyrirtæki sem Arion banki er með í söluferli og er að aukast verulega.
Fyrirsagnir fjölmiðla einblíndu hins vegar á fyrstu stærðirnar. Dæmi um slíkt eru Hagnaður Arion helmingast á milli ára, Hagnaður Arion um helmingi minni en í fyrra og Arðsemi eiginfjár Arion banka aðeins 2,1 prósent.
Gengi á bréfum bankans féll í fyrstu viðskiptum dagsins í dag sem var þá 77,7 krónur á hlut. Þegar þessar línur eru skrifaðar (hádegi 9.5.2019) er gengið komið í 80,1 krónur á hlut, sem er rúmlega 3% hækkun frá fyrstu viðskiptum.
Hægt er að álykta að einhverjir fjárfestar hafi selt bréfin með upplýsingar sem tengjast fyrst og fremst fyrirsögnum. Þetta er algengt dæmi í fjármálum sem er á ensku skilgreint sem Availability, það er hvaða upplýsingar skjóta auðveldast upp í kolli fólks. Líklegt er að þeir fjárfestar sem hafi keypt í morgunsárinu, og nú, hafi hins vegar lesið allan textann, ekki bara fyrirsagnirnar.
MWM
Að vara við hruni er ekki góð skemmtun
15.4.2019 | 13:46
Ef krónan veikist skyndilega gætu þeir sem eru með húsnæðislán í erlendri mynt farið að skulda í stað þess að eiga í húsnæði sínu. Þetta voru upphafsorð forsíðugreinar sem birtist í Blaðinu 4. maí árið 2007. Vísað var í greinina á forsíðunni, nánari umfjöllun var um hana á síðu 6 og síðan birtist grein þar sem ég varaði við ríkjandi visku fjármála á hverjum tímapunkti.
Þó svo að þessi umfjöllun hafi verið afar áberandi í Blaðinu, sem var með í kringum 80% lestur samanborið við Fréttablaðið, þá vakti þetta litla athygli. Helst heyrði ég að fólki þætti ég vera svartsýn manneskja. Í framhaldi af hruninu spurðu margir, meðal annars fjölmiðlamenn, af hverju engin(n) hefði varað við slíkum lánum. Kannski las enginn þeirra Blaðið.
Í umfjöllun Þórðar Snæs Júlíussonar á síðu 6. kemur fram sú skoðun mín í tengslum við erlend lán að töluverða áhættu [vera] fólgna í því að vera með húsnæðislán í erlendum myntum, enda engar tryggingar fyrir áframhaldandi styrk krónunnar. Í dag er dollarinn 64 krónur. Ef hann færi aftur í 80 krónur líkt og hann gerði tímabundið fyrir um ári þá myndi það þýða 25 prósenta aukningu á höfuðstól láns í erlendri mynt. Þetta fannst flestum vera nær óhugsandi aðstæður þegar að greinin var birt. 18 mánuðum síðar kostaði hver dollari 140 krónur.
Að vara við hruni er ekki góð skemmtun.
Nú er verið að sá svipaðar óhugsandi aðstæður. Nýjar áætlanir ríkisstjórnarinnar miða að því að vísitala verðtryggðra lána séu einungis miðaðar við neysluvísitöluna, án húsæðisliðar. Með því eykst vægi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum í útreikningi höfuðstól lána. Íslensk stjórnvöld eru með öðrum orðum að taka þátt í því að setja upp aðstæður sem svipa til þeirra sem ríktu árið 2007, í stað þess að miða við húsnæðisvísitöluna. Ef íslenska krónan hrynur, sem myndi gerast ef ferðamannastraumurinn dragist saman, þá munu skuldir heimilanna aukast enn meira en áður á sama tíma og húsnæðisverð félli.
Margir spurðu í framhaldi af hruninu hver bæri ábyrgðina; fátt var um svör. Ég spyr nú, hver mun bera ábyrgðina á því ef íslenska krónan veiktist mikið samhliða lækkandi húsnæðisverði.
Þrátt fyrir þá litlu skemmtun sem felst í að vara við hruni, þá ætla ég að gera slíkt aftur. Líklegt er að allir hafi gleymt þessi viðvörunarorð þegar að hrunið á sér stað. Engu að síður er vert að hafa slikt á prenti. Ég endurrita því grein mína sem birtist í Blaðinu árið 2007 hér að neðan og bæti svo við frekari viðvörun. Viðbótin byggir að stórum hluta á umsögn mína á frumvarpi þar sem að þessi galna hugmynd kom fram árið 2018.
Verðbréf í kastljósinu (2019 útgáfa)
Verðbréf sem mest er fjallað um í samfélaginu eru oftast þau sem hafa veitt bestu ávöxtun síðustu mánuði og ár. Það merkilega við slíkar umræður er að þegar þær ná hámarki er það oftar en ekki merki um að hámarkið í gengi þeirra sé í þann mund að nást. Mörgum er sjálfsagt enn minnisstætt þegar Kastljós fékk í upphafi ársins 2000 sérfræðinga til sín vikulega til að velta fyrir sér bestu kaupunum á markaði hverju sinni. Umræðan í þjóðfélaginu snerist um verðbréf og skjótfenginn gróða. deCODE genetics og OZ voru meðal félaga sem fjallað var mest um. Fyrra félagið hefur enn ekki sýnt hagnað og hitt er fyrir löngu gjaldþrota.
Auglýsingar
Jafnan er samhengi á milli þess hvað mest er fjallað um hverju sinni og hverskonar verðbréfaafurðir eru auglýstar á því tímabili. Það er staðreynd að í verðbréfageiranum er það ávöxtun síðustu mánaða sem selur best og því einblína flestar auglýsingar á þær afurðir sem veitt hafa bestu ávöxtun síðustu 6 til 12 mánuði, þrátt fyrir að í raun og veru sé velgengni fortíðarinnar ekki alltaf besti mælikvarðinn á framtíðarávöxtun. I því ljósi er vert að veita því athygli hvað er mest auglýst á fjármálamarkaði í dag. Erlend lán (aðallega húsnæðislán)
Rétt er að gera örlítinn formála á þessu. Hér er ekki um almenn verðbréf að ræða en engu að síður fjármálaafurð. Kannanir gerðar um aldamótin gáfu sterklega til kynna að flestir teldu hlutabréf vera bestu langtímaávöxtunina. Enda var það svo að flestir á Islandi sem tóku þátt í reglubundnum sparnaði, til að mynda séreignarlífeyri, settu mestan pening sinn í hlutabréf. Ekki liðu meira en tvö ár áður en viðhorf til hlutabréfa höfðu snúist nánast um 180 gráður. Það voru jafnvel dæmi um að fólk flytti fjármagn sitt úr hlutabréfum, þegar þau voru miklu verðminni en áður, yfir í tryggari fjárfestingarkosti en þó ekki nauðsynlega betri kosti. Þetta mótaðist að stórum hluta af því að margir höfðu um nokkurt skeið ávaxtað sitt pund vel í hlutabréfum og fleiri vildu taka þátt í leiknum, oft með vanmat á áhættutengdum hlutabréfafjárfestingum.
Erlendar skuldir aukist mikið
Mér finnst óþægilega lík þróun vera farin að myndast varðandi húsnæðislán í erlendum myntum. I fjöldamörg ár hafa sumir hagnast gríðarlega á því að skuldsetja sig í erlendri mynt. Þetta tímabil hefur nú varað það lengi að varnaðarorð um gengisáhættu eru farin að verða sífellt veikari. Bæði eru þeir sem hafa haldið aftur af fólki orðnir þreyttir á því að sjá ráðgjöf sína skila litlu og þeir sem hafa hlustað á varnaðarorð eru farnir að efast um réttmæti þeirra, erlendar lántökur hafa jú verið hagstæð í samfelld 5 ár. Það að erlendar skuldir heimila hafa aukist um rúmlega 150 prósent síðustu 12 mánuði er vísbending um að margir hafi ákveðið að tími sé kominn til að taka þátt í þessum leik. Nýlega sá ég sjónvarpsauglýsingu þar sem verið var að bjóða upp á erlend lán til íbúðakaupa. Hjá sumum eru aðstæður þannig að slík lán, jafnvel með gengisáhættu, eru ekki óskynsamleg vegna þess að ef vel gengur getur ávinningur orðið talsverður. Það er aftur á móti forvitnilegt að vita hvernig afstaða fólks i raun verður ef íslenska krónan veikist skyndilega mikið, sem eykur höfuðstól lánanna.
Íslenska krónan veikist
Tökum sem dæmi hjón sem kaupa 20 milljóna króna hús og taka 90 prásenta lán, fjármagnað í erlendri mynt. Eigið fé fólksins í húsinu eru 2 milljónir. Nú gerist hið óvænta að aðeins 12 mánuðum eftir að lánið var tekið hefur íslenska krónan veikst um 20 prósent og höfuðstóll lánsins hækkað samsvarandi mikið. Þetta gæti virst vera óhugsandi en ætti þó ekki nauðsynlega að koma á óvart; veiking krónunnar sem átti sér stað á tímabilinu 2000 til 2001 var t.d. meiri en þetta. f stað þess að eiga 2 milljónir í húsnæðinu þá skulda þau svipaða upphæð 12 mánuðum síðar. í slíkri aðstöðu er líklegt að margir, burtséð frá skynsemi slíkra ákvarðana, umbreyti erlendum lánum sínum í íslensk lán til að forða sér frá enn frekari skuldasöfnun. Viðhorfið gagnvart áhættutengdum erlendum lántökum gæti umbylst með svipuðum hætti og átti sér stað varðandi hlutabréf fyrir nokkrum árum. Slík viðhorfsbreyting getur í raun stigmagnað áhrifin því ef fólk fer að greiða upp erlend lán veikist íslenska krónan enn frekar.
Húsnæðislán (viðbót 2019)
Í nýlegum Lífskjarasamningum er lagt til að verðtryggðum lánum verði breytt með þeim hætti að húsnæðisliður verði tekinn út úr vísitölunni sem höfuðstóll lána er bundinn við.
Mörg rök hníga að því að þetta sé slæm tillaga. Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið varðandi verðtryggð lán til húsnæðiskaupa er að þau virka eins og afleiða. Verði Lífskjarasamningurinn samþykktur með því að miða einungis við neysluvísitöluna án húsnæðisliðar verður enn frekar hægt að gagnrýna verðtryggð lán á þeim forsendum. Ef eitthvað er þá ætti einungis húsnæðisliðurinn að vera inni í þeirri vísitölu sem höfuðstóll lána er bundinn við.
Afleiða við húsnæðiskaup
Einn af ókostum verðtryggðra húsnæðislána eins og þau eru útfærð á Íslandi í dag er sá að verið er að veita lán til kaupa á húsnæði en lánið fylgir almennu verðlagi. Mikið misvægi getur hins vegar verið á milli almenns verðlags og verðlags húsnæðis.
Með núverandi fyrirkomulagi verðtryggðra lána fær fólk lán fyrir húsi en greiðir til baka samkvæmt mælingum á almennum kostnaði við framfærslu. Til skemmri tíma (sá tími getur verið raunar töluvert langur) getur þróun almenns verðlags og húsnæðisverðs sveiflast með afar ólíkum hætti, sérstaklega í landi eins og Íslandi þar sem að gengi íslensku krónunnar getur magnað sveiflur almenns verðlags gífurlega.
Dæmi um þetta er fyrsti áratugur þessarar aldar. Margir sem tóku verðtryggð lán til húsnæðiskaupa í upphafi tíunda áratugarins fylgdust með, með bros á vör, þegar að virði húsnæðis þeirra jókst langt umfram almenna verðbólgu fram til ársins 2007, sem gerði það að verkum að mikil eignamyndun átti sér stað vegna þessa misvægis. Íslenska krónan var stöðugt sterk á 2007 tímabilinu sem þýddi að innfluttar vörur lækkuðu mikið í verði, sem gerði það að verkum að neysluvísitalan hækkaði töluvert minna en húsnæðisverð. Eins og allir vita gekk þetta misvægi til baka og gott betur í kjölfar hrunsins. Íslenska krónan hrundi í virði og verð á innfluttum vörum hækkaði því gífurlega. Þeir einstaklingar og fjölskyldur sem höfðu fjárfest í húsnæði sáu verðtryggð lán sín rjúka upp á meðan að virði fasteignar þeirra féll á sama tíma.
Lækkun húsnæðisverðs, jafn slæm og hún var, hafði þó dempandi áhrif á neysluvísitöluna því að hún hækkaði minna en ella. Verðtryggðu lánin hefðu með öðrum orðum hækkað enn meira hefði húsnæðisliðurinn ekki verið hluti af vísitölunni. Hefði þetta ollið enn frekari búsefjum hjá íslenskum einstaklingum og fjölskyldum, og nógu slæmt var ástandið þó.
Einungis húsnæðisliður
Oft, þegar verið er að útskýra verðtryggingu, er tekið dæmi um að maður fái kind að láni og að ári liðnu borgi maður kindina til baka auk vaxta því kindin hefur á tímabilinu veitt ákveðna ávöxtun. Með sama hætti liggur beint við að sú vísitala sem höfuðstóll húsnæðislána sé bundin við húsnæðislið.
Með slíku fyrirkomulagi ber lántaki mun takmarkaðri áhættu vegna verðsveiflna. Er það vegna þess að lánið hækkar (eða lækkar) í mjög svipuðum takti og undirliggjandi fasteign. Hefði slíkt fyrirkomulag verið við lýði árið 2008 þá hefði höfuðstóll verðtryggðra fasteigna lána lækkað um tæplega 20% í kjölfar hrunsins, þegar íslensk heimili þurftu mest á því að halda. Leiðréttingin hefði gerst sjálfkrafa í gegnum vísitöluna því að höfuðstóll verðtryggðra lána hefði lækkað í sama takti og lækkun húsnæðisverðs. Hlutfallsleg eignarmyndun almennings í húsnæði sínu hefði því haldist að mestu leyti óbreytt.
Þessi leið dregur einnig úr líkum á því að hækkandi verð fasteigna leiði til enn frekari verðhækkana. Algengt var að fólki fyndist sem það væri að missa af einhverri lest þegar að fasteignaverð rauk upp á árunum 2004-2006, enda auðveld eignamyndun allsráðandi hjá þeim sem áttu fasteign. Þessi þróun ríkti raunar einnig á síðasta ári. Ef hlutfall eigin fjár í húsnæði breytist lítt við hækkandi húsnæðisverði þá minnkar hvatinn hjá fólki að stökkva á fasteign í þeirri trú að það sé að missa af einhverri lest.
Hvað skal gera?
Því miður hef ég ekki áreiðanlega kristalskúlu á borði mínu. Margir virtir sérfræðingar hafa spáð fyrir um veikingu krónunnar lengi vel án þess að slíkt hafi gengið eftir. Þó að slíkir spádómar hafi ekki ræst hingað til er ekki þar með sagt að þeir rætist ekki í framtíðinni. Reyndar gerist það oft að loksins þegar þeir rætast þá gerist það með meiri hvelli en flesta grunar. Því er rétt að minna á söguna um strákinn sem stöðugt kallaði úlfur, úlfur. Úlfurinn kemur að lokum og þá er ekki gott að vera með þeim seinustu í röðinni.
MWM
ps. Sá Dúndurfréttir um helgina flytja The Wall í Hörpunni. Var ekki viss hvort ég hefði gaman af því að heyra verkið flutt af öðrum listamönnum. Slíkar vangaveltur voru ekki langlífar hjá mér. Þetta var ótrúlega flott og metnaðarfull uppsetning hjá þeim. Minnist þess ekki að hafa heyrt jafn góð hljómgæði á tónleikum.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)