Rökleysa stjórnar LIVE

Stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna birti um daginn eftirfarandi tilkynningu:

Undanfarin ár hafa breytilegir vextir verðtryggðra lána tekið sjálfkrafa breytingum í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokksins HFF150434. Viðskipti með þennan skuldabréfaflokk hafa farið verulega minnkandi undanfarin misseri og er hann því ekki eins virkt viðmið fyrir vexti og áður.

Sjóðurinn ákvað því að hækka, í stað þess að lækka, breytilega vexti sjóðsins, þvert á þróun á ávöxtunarkröfu innlendra skuldabréfa síðustu mánuði.

Það eru engin rök fyrir þessari ákvörðun stjórnar lífeyrissjóðsins. Hér nefni ég þrjár rökleysur varðandi hana.

1. Ef vextirnir á HFF bréfunum eru svona óeðlilega lágir, væri ekki tækifæri fyrir þessa sjóði að selja eitthvað af HFF bréfunum? Slíkt myndi ýta ávöxtunarkröfuna á eðlilegt viðmið, það er ef spurning væri um að það væri það ekki nú þegar.

2. Þegar að seljanleiki verðbréfa minnkar, eins og gerst hefur með HFF bréfin, þá ætti ávöxtunarkrafa þeirra að aukast. Þetta seljanleikaálag skuldabréfa er grunnatriði í verðlagningu skuldabréfa. Viðskipti með HFF bréf eru tiltölulega lítil (þau eru þó alveg til staðar) en þau bera samt ótvírætt seljanleikaálag, sem sést með því að bera þau saman við ávöxtunarkröfu RIKS bréfa. 

3. Þetta tengist ofangreindum lið. Eðlilegra væri þá að breyta viðmiðunum yfir í álag á RIKS30 eða annarra spariskírteinaflokka þannig að vaxtaákvarðanirnar yrðu þá hlutlægar en ekki huglægt mat stjórnar. Ávöxtunarkrafa þeirra bréfa er reyndar töluvert lægri en ávöxtunarkrafa HFF bréfa og myndi vaxtaálag lána LIVE hjá sjóðsfélögum með breytileg verðtryggð lán lækka enn meira en það áður var (það er miðað við ávöxtunarkröfu HFF flokksins en ekki ákvörðun stjórnar LIVE). Ávöxtunarkrafa HFF skuldabréfa (alla þrjá flokka) við lok markaða í gær var í kringum 1,15% en 0,95% fyrir RIKS 30 bréfa. Sé ávöxtunarkrafa HFF skuldabréfs orðið slappt viðmið, þá ætti það að leiða til ákvörðunar um lægri vexti fyrir sjóðsfélaga, nánar tiltekið um 0,2%. Samkvæmt því viðmiði ættu breytilegir vextir verðtryggðra lána í dag að vera í kringum 1,55%.

Eftirfarandi er orðrétt úr síðasta pistli mínum, sem tengist þessu máli. Hækkunin, úr 2,06% upp í 2,26% er veruleg, sérstaklega í ljósi þess að þeir hefðu samkvæmt eldri viðmiðunum átt að lækka. Sé miðað við að sjóðurinn hefði lækkað vexti sjóðsfélaga um 0,1%, þá gerir þessi hækkun það að verkum að fjölskylda sem skuldar hjá sjóðnum 40 milljónir króna þarf að greiða 120 þúsund krónur meira í vaxtagjöld á ári, eða um 10 þúsund krónur á mánuði.

MWM

ps. Stjórn LSR hefur ákveðið að herma eftir ákvörðun stjórnar LIVE. Ég set spurningarmerki við lögmæti þeirrar ákvörðunar og mun fjalla um það bráðlega


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Már, værirðu ekki til í að endurskoða þessa krítík núna mtt. hvernig stjorn LIVE hefur staðið sig í að verðleggja þessa breytilegu verðtryggðu vexti nú þegar að það eru bráðum komin tvö ár af "bara af því bara" aðferðafræðinni. Það er reyndar eitthvað pikkles á síðunni hjá þeim akkúrat nuna þannig að 2022 vextir eru ekki sýndir, en það hlýtur að lagast. Þeir voru allaveganna óbreyttir fyrir 2022 mars greiðslur mv. 2021 desember.

Ps. Ég væri líka til í að skilja hversvegna breytilegir óverðtryggðir vextir þeirra og annarra (4,32%) ná ekki einu sinni verðbólgu (6,2%) á meðan breytilegir verðtryggðir vextir eru í plús 1.07% auk verðtrygginar.

https://www.live.is/lan/almennar-upplysingar/gjaldskra/lan-med-breytilegum-voxtum/

Kv. Magnús

Magnus Palmarsson (IP-tala skráð) 16.3.2022 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tuttugu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband