Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
Skuldaniðurfelling húsnæðislána - séreignarsparnaður
25.11.2013 | 03:08
Tilkynnt var um helgina að blönduð leið yrði notuð við skuldaniðurfellingar. Þýðir það í stuttu máli að bæði eru beinar skuldaniðurfellingar í farvatninu og auk þess verður hægt að grynnka á húsnæðislánum í gegnum skattakerfið.
Þetta tel ég vera góðar fréttir. Hef ég áður fjallað um það í pistlum mínum að tillögur Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda síðustu kosninga um að veita fólki allt að 40 þúsund krónur mánaðarlega í skattaafslátt vegna afborganna af höfuðstól húsnæðislána væru hvetjandi til að auka sparnað. Einnig lagði Sjálfstæðisflokkurinn til að hægt væri að nota framlag fólks og vinnuveitenda þeirra í séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána. Það tel ég vera óvitlausa sparnaðarleið fyrir þá sem ekki eru með sparnað sinn bundinn í langtímasamningum eins og hjá sumum tryggingarfélögum.
Það væri í raun hægt að bæta við þeim möguleika að hægt verði að greiða vexti og verðbætur af húsnæðislánum með séreignarsparnað. Þannig myndar fólk enn hraðari eignarmyndun í húsnæði sínu þannig að afborganir lána þegar það kemst á eftirlaun eru lægri. Þau rök að séreignarsparnaður sem fer í niðurgreiðslur verði högg á lífeyriskerfið ættu ekki við þar sem að slíkur sparnaður gerðist smám saman. Því til viðbótar tengist umræða um gjaldeyrishöft leiði til bólu í fjárfestingum innanlands þessari tilhögun því slíkar heimildir gera það að verkum að bóluþrýstingur minnkar og dregur jafnvel úr honum þar sem að fjármagn í umferð minnkar með uppgreiðslu skulda.
Auk þess er niðurgreiðsla húsnæðislána ein af bestu fjárfestingarkostum sem völ er á í dag og því eðlilegt að fólk hafi aðgang að slíkum fjárfestingarkosti eins og öðrum. Flestir sem eru með húsnæðislán borga 3,5% raunvexti eða meira ("takk" síðustu ríkisstjórnir fyrir að hafa ekki breytt lögum um lágmarksávöxtun lífeyrissjóða, sem er hvort er eð gjörsamlega óraunhæf). Sé til að mynda horft til langtímaávöxtunar bandarískra hlutabréfa þá getur hver einstaklingur ekki gert ráð fyrir slíka ávöxtun í framtíðinni með því að setja allt sitt í einungis hlutabréf með óstöðuga ávöxtun.
Hægt er að koma með þau rök að fái fólk að nota séreign sína þá taki það einungis lán á móti veðum húsnæðis (sem hefur hraðað eignamyndun með niðurgreiðslum í gegnum séreignarsparnað). Líklegt er að slíkt gerist í sumum tilvikum. Á móti er hægt að koma með þau rök að fólk í það minnsta ætti að gera sér betur grein fyrir því að verið sé að taka lán á móti veði. Það hefur nefnilega verið sýnt fram á það að reglubundin sparnaður hefur skapað brenglaða sýn hjá fólki sem telur sig hafa meiri varasjóð en það í raun hefur og skuldsettur sig þeim mun meira. Hefur Robert Shiller, nýverðlaunaður Nóbels-hafi, bent á þetta í skrifum sínum og einnig hefur Ásgeir Daníelsson skrifað um þetta.
Ég vitna (aftur) í orð Guðlaugs Þórs Þórðarson, sem skrifaði fyrir rúmu ári síðan þetta:
"Ég legg því til að fólki verði gert heimilt að nýta séreignasparnaðinn sinn til að lækka húsnæðisskuldir. Bæði með því að nýta þá inneign sem að það á og einnig með því að greiða inn á höfuðstól lánanna næstu fimm árin í gegnum séreignasparnaðar fyrirkomulagið, þ.e. nýta bæði eigin framlag og framlag launagreiðanda, ásamt skattspörun til þess að lækka höfuðstól lána og þannig vaxtakostnað á komandi árum.
Hverjir eru kostirnir?
1. Þetta léttir líf þeirra fjölskyldna sem að skulda og eiga inneign í séreign eða eru að borga í séreign.
2. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna minnkar þar sem að eignir þeirra eru nýttar til að greiða niður skuldir viðkomandi sjóðfélaga. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er mikið vandamál þegar að þeir geta ekki fjárfest í útlöndum og það býður heim hættunni á eignabólumyndun.
3. Þetta minnkar bankakerfið. Útlánasafnið minnkar sem og eignir þeirra. Að sama skapi fækkar viðskiptavinum í fjárhagsvanda.
4. Hér er leið ráðdeildar og sparnaðar nýtt til að greiða úr skuldavandanum.
5. Leiðin felur ekki í sér mismunum á milli einstaklinga, nema að í leiðinni sé skattahvati það er að segja að tekjuskattsprósentan sem tekin væri af útgreiðslunni væri lægri en almennu skattprósenturnar. Það getur verið réttlætanlegt að hafa lága prósentu til að hjálpa fólki að greiða niður skuldir sínar.
6. Þessi leið myndi auka verulega skatttekjur ríkissjóðs sem nýta mætti til skattalækkunar eða niðurgreiðslu skulda.
7. Þessi leið myndi styrkja lífeyrissjóðakerfið þar sem fleiri myndu nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið.
8. Enginn kostnaður lendir á skattgreiðendum.
9. Lægri skuldir heimila hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið."
Ég gæti ekki orðað þetta betur, nema kannski 6. lið en skatttekjur ríkissjóðs eiga ekki að aukast mikið við þetta í samræmi við ofangreindar tillögur, en þessi orð voru rituð áður en tal um skuldaniðurfellingar urðu almenn.
Ég vona því að í tillögum á skuldaniðurfellingum lána verði auk þess í blönduðu leiðinni þrír kostir í boði:
1. Skattaafsláttur vegna afborgana af íbúðalánum allt að 40 þúsund á mánuði.
2. Hægt verði að nota framlag fólks og vinnuveitenda þess til að greiða skattfrjálst niður höfuðstól lána.
3. Fólki verði kleif að nota séreign sína til greiðslu vaxta og verðbóta húsnæðislána. Þannig eykur það eignarmyndun sína enn hraðar í húsnæði sínu sem veitir því hugsanlega bestu ávöxtun sem völ er á.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt 28.11.2013 kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Inn og út um sparnað - Kauphallardagurinn í HR
15.11.2013 | 18:33
Laugardaginn, 16.11., verður Kauphallardagur í HR. Fjallað verður um sparnað og leiðir til áhættudreifingar. Hægt er að nálgast dagskránna hér - http://www.ru.is/haskolinn/vidburdir/nr/29900.
Ég mun fjalla um atferlisfjármál í erindi mínu, Inn og út um sparnað. Beini ég sjónum að því hvernig sannleikur varðandi fjárfestinga er miklu breytilegri en fólk almennt telur. Í því sambandi eru sveiflur í því hvað sé skynsamleg fjárfestingarstefna ótrúlega miklar á milli ára, jafnvel þegar um langtímasparnað er að ræða.
Flestir telja til dæmis í dag að hlutabréf séu slæmur fjárfestingarkostur. Það er e.t.v. ekki undarlegt, gríðarlegt tap fylgdi falli bankanna og hlutafjáreigendur þeirra urðu fyrir miklum skakkaföllum. Stundum eru hlutir þó ekki alveg svo einfaldir.
Ef einhver hefði til dæmis lagt í árslok 2001 jafn mikla upphæð í eftirtalin félög, hver hefði árleg ávöxtun verið þann 10.10.2008?
Félögin eru:
Kaupþing
Landsbankinn
Íslandsbanki
Actavis
Össur
Marel
Skrollið niður til að sjá svarið....
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...
...svarið er 12% árleg ávöxtun!
Rétt; öll sú fjárhæð sem lögð var í bankanna hefði tapast en gengi Actavis bréfa næstum því tífaldaðist á þessu tímabili og árleg ávöxtun hlutabréfa Marels var tæplega 17% og hlutabréfa Össurar 8%.
Lærdómurinn er að áhættudreifing er lykilatriði þegar að kemur að fjárfestingum.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Danmörk og Ísland - að læra af reynslunni
8.11.2013 | 08:55
Jesper Rangvid hélt fyrirlestur í Seðlabankanum í gær varðandi nokkurs konar Rannsóknarskýrslu Dana varðandi hrunið 2008. Var hún birt í síðasta mánuði. Skýrslan einblíndi fyrst og fremst á fjármálalega og efnahagslega þætti í tengslum við hrunið, sáralítið annað var athugað í henni. Rangvid stýrði gerð skýrslunnar og er hún almennt nefnd Rangvid skýrslan.
Eitt af því sem fram kom í fyrirlestrinum var að Danir virtust vera almennt í miðjunni samanborið við önnur lönd varðandi áhættusækni í fjármálum. Rangvid sýndi nokkrar myndir þessu til stuðnings, meðal annars raunhækkun húsnæðis, aukningu nettó lána í þjóðfélaginu og svo niðursveifluna sem átti sér stað í kjölfar fjármálakrísuna árið 2008.
Ég var undrandi að sjá að Danir hefðu ekki verið meðal varkárari þjóða því að þeir höfðu lent í slæmri bankakrísu í upphafi tíunda áratugarins. Auk þess lentu nágranna- og frændþjóðir þeirra, Svíþjóð og Finnland (og að einhverju leyti einnig Noregur) í enn verri krísu, sem Reinhart og Rogoff hafa skilgreint sem eina af hinum 5 stórum frá seinni heimsstyrjöldinni (fram að 2008 krísunni). Spurði ég Rangvid hvernig stæði á þessu.
Rangvid hafði einnig velt þessu fyrir sér. Hann taldi að þar sem að Danir höfðu ekki lent í jafn alvarlegri krísu og Svíar og Finnar tæpum 20 árum fyrr þá hefðu þeir ekki orðið fyrir jafn slæmum áhrifum og lærdómurinn virðist hafa því verið minni en hjá frændþjóðunum, sem virðast hafa sloppið að mestu leyti frá bankakrísunni 2008 þó að efnahagur allra þjóða hafi orðið fyrir samdrætti vegna alþjóðlegra áhrifa.
Þessi skoðun Rangvid, byggð á niðurstöðum skýrslunnar, er í takti við þá niðurstöðu (eða spurningum) sem fram koma í grein sem ég og Þröstur Olaf Sigurjónsson í HR skrifuðum varðandi samanburðarrannsókn okkar á íslenskt fjármálalíf og á norðurlöndunum í undanfara fjármálahrunsins 2008 hérlendis og 1990 hjá frændþjóðum okkar. Við undruðumst að Ísland hefði ekki lært meira af reynslu nágranna- og frændþjóða okkar, sem var þó nýleg. Ísland gekk auk þess sjálft í gegnum mikla bankakrísu á sama tíma, það er í upphafi tíunda áratugarins. Áhrifin virðast þó ekki hafa verið "nægjanlega" langvinn til að lærdómur hafi verið dreginn af þeirri reynslu.
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Bandaríkjamenn voru lengi vel mjög áhættufælnir í fjárfestingum og voru hlutabréf til að mynda gróflega vanmetin gagnvart skuldabréfum í nokkra áratugi í framhaldi af Kreppunni miklu 1930-1933. Þeir Svíar sem ég hef unnið með varðandi fjárfestingar eru stöðugt að minnast á kreppuna fyrir rúmum tveimur áratugum síðan þegar fjallað er um fjárfestingar.
Vonandi læra Íslendingar varanlega (að einhverju leyti) eitthvað af fjármálakrísunni 2008. Tíminn einn leiðir slíkt í ljós. Á sama tíma má slíkur lærdómur ekki draga úr vilja fólks að dreifa ekki fjárfestingum, eins og gerðist í Bandaríkjunum. Rangvid benti á í niðurstöðum að agi þyrfti stöðugt að vera til staðar, sérstaklega á góðum tímum þegar að vel gengur. Slíkur agi má hins vegar ekki draga úr krafti atvinnulífsins eins og sumir óttast að sé að eiga sér stað hérlendis.
Hér er tengill að grein okkar Þrastar sem birtist í Tímarit um viðskipti og efnahagsmál. Í henni sést að Íslendingar voru langt frá því að vera í einhverri miðju þegar kom að fjármálagjörningum.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt 13.11.2013 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlegið í Högum hf.
1.11.2013 | 09:25
Fyrirvari: Ég er hluthafi í Högum hf. Það er ekki á dagskrá hjá mér að selja bréf mín á næstunni.
Útboð hlutabréfa í Högum hf. var eitt af fyrstu stóru útboðunum eftir hrun íslensks efnahagslífs árin 2008-2009. Mjög neikvæð umræða um félagið einkenndi útboðið og var gengi bréfanna í útboðinu afar lágt miðað við þáverandi hagnað félagsins og vænt framtíðartekjustreymi. Síðan þá hefur gengi bréfa félagsins á aðeins tveimur árum hækkað um rúmlega 150%. Sjálfur taldi ég í upphafi þessa árs að gengi þeirra hefði hækkað umfram raunhæfum væntingum. Hins vegar hefur hagnaður fyrirtækisins aukist töluvert á þessu ári. Raunar hefur reksturinn gengið það vel að gefin var út jákvæð afkomuviðvörun fyrir nokkrum vikum síðan. Fátt kom því á óvart við uppgjör fyrirtækisins í síðustu viku.
Það var þó tvennt sem vakti athygli mína þegar að uppgjörið var birt. Í fyrsta lagi var hagnaðurinn jafnvel enn meiri en "varað" hafði varið við. Búið var að gefa út að hann yrði 1,9 milljarða króna en hann var töluvert nær því að vera 2 milljarða króna. Það sem ég var þó spenntastur fyrir var mat stjórnenda fyrirtækisins um það hvort að hagnaður síðasta ársfjórðungs endurspegli væntingar þeirra um framtíðarhagnað. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Högum hf. að félagið telji að horfur í rekstri séu sambærilegar við það sem hefur verið undanfarna mánuði. Raunar kom einnig fram í kynningu félagsins að stefnt væri að því að hagræða enn frekar í rekstri fyrirtækisins, til dæmis að nýta betur þá fermetra sem félagið notar undir smásölu sína. Slíkt getur raunar litið betur á Excel skjali en í raunveruleikanum en gera verður ráð fyrir því að stjórnendur Haga hf. séu meðvitaðir um slíkt.
Eigið fé félagsins er komið langleiðina með að hafa þrefaldast frá febrúar 2011, en það var þá 3,6 milljarða krónur en var í lok ágúst þessa árs komið í 10,1 milljarða króna. Á sama tíma hefur eiginfjárhlutfall félagsins hækkað úr 16% í 38%. Slíkt hefur átt sér stað með hraðri niðurgreiðslu skulda. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 10,9 milljarða króna í febrúar 2011 en voru í lok ágúst mánaðar komnar niður í 4,3 milljarða króna. Þessi mikla lækkun skulda hefur mikil áhrif á afkomu félagsins. Fjármagnskostnaður Haga hf. er 209 milljónir króna fyrstu sex mánuði þessa rekstrarárs sem er um 90 milljónum króna minna en á sama tímabili árið áður. Meðalvextir langtímalána Haga hf. eru 7% árlega sem þýðir að fyrir hvern milljarð króna sem félagið greiðir niður þá fást 70 milljónir í árlegan vaxtasparnað fyrir félagið. Um 6,9 milljarða króna af langtímalánum félagsins eru á gjalddaga eftir 2-3 ár. Fram að því eru um 1,1 milljarður langtímalána á gjalddaga. Miðað við að Hagar hf. greiddi niður 500 milljónir króna á ársfjórðungnum umfram það sem félagið þurfti samkvæmt samningum þá virðist það stefna að því að greiða niður flest öll þau lán, eða 8 milljarða, að 2-3 árum liðnum. Vaxtakostnaður yrði þá einungis bundinn við skammtímalán en fyrirtækið fær skammtímavexti umfram skammtímalánum eins og stendur. Fjármagnskostnaður myndi samkvæmt þessu lækka um tæplega 600 milljón krónur árlega, sem gæfi um það bil 500 milljón króna hagnað umfram núverandi hagnað eftir skatta.
Hagnaður á bréf fyrir síðasta ársfjórðung var 97 aurar. Ef sá hagnaður auk verðbólgu sé raunhæfur næstu 4 ársfjórðunga þá er ekki óvarlegt að áætla 4 króna hagnað per bréf í árlegan hagnað. Markaðurinn virðast aftur á móti ekki hafa trú á því að þessi afkoma náist. Gengi bréfanna er í dag 37 krónur fyrir hvern hlut. Óbein ávöxtunarkrafa á hvern hlut er samkvæmt þessu því rúmlega 11% á hlutabréf í Högum hf.
Með því aftur á móti að bera saman afkomu fyrstu sex mánuði þessa árs og framreikna hana miðað við hlutfallslega þróun næstu sex mánaða á síðasta rekstrarári er niðurstaðan nær því að vera 3,2 á hvern hlut í árlegum hagnaði. Óbein ávöxtunarkrafa til bréfanna er samkvæmt þessu komin niður í 8,6%.
Miðað við ávöxtunarkröfu ríkisbréfa sem er nú í kringum 6,6% þá tel ég að hlutabréf í Högum hf. séu hóflega metin. Rekstur fyrirtækisins er stöðugur og þó svo að vaxtamöguleikar séu takmarkaðir þá hefur fyrirtækið enn möguleika á frekari hagræðingu í rekstri og stefna fyrirtækisins í stýringu fjármuna, það er að greiða niður skuldir og auka þannig eigið fé, er að mínu skapi.
Ef gengi bréfa fyrirtækisins hækka ekki mikið næstu misseri væri vert að athuga þann möguleika að kaupa eigin bréf til baka, enda eru bréf með jafn stöðugt tekjustreymi ekki auðfundin. Með því ykist hagnaður fyrir hvern hluthafa enn frekar. Að því gefnu að reksturinn haldist stöðgur er líklegt að arðgreiðslur til hluthafa aukist mikið en arðgreiðsluhlutfallið (e. payout ratio) er tiltölulega lágt í dag.
MWM