Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Atferlisfjármál og voða flón

Eitt af því sem kennt er í atferlisfjármálum (e. Behavioral Finance) er tilhneiging fjárfesta að bregðast seint við nýjum fréttum (e. Conservatism) en gera ráð fyrir að þróun í ákveðinn tíma - 4 til 5 ár - haldi áfram í hið óendanlega (e. Representation).

Gott dæmi um þetta er tæknibólan á tíunda áratugnum. Fjárfestar voru tiltölulega seinir að átta sig á því hvað ný tækni í tölvugeiranum ætti eftir að hafa víðtæk áhrif. Þegar að almennir fjárfestar fóru að átta sig á þessu tóku þeir hækkunum með trompi og fóru í umvörpum, 4-5 árum eftir að hlutabréfavísitölur tæknibréfa fóru upphaflega að hækka, að taka þátt í einni af augljósustu hlutabréfabólu sögunnar.

Annað frekar alþekkt dæmi sem stundum er flokkað undir atferlisfjármál er svokölluð janúar áhrif. Hlutabréf hafa sögulega hækkað meira í þeim mánuði en öðrum mánuðum, sérstaklega fyrstu 2 vikur mánaðarins.

Ísland

Ofangreind fræði eiga hugsanlega vel við á Íslandi í dag. Eftir eitt mesta hrun sögunnar í hlutabréfum haustið 2008 vildu margir ekki koma nálægt fjárfestingum í hlutabréfum, ekki ósvipað því sem gerðist í kjölfar Kreppunnar miklu þegar að hlutabréfavísitala Bandaríkjanna lækkaði álíka mikið (sú þróun gerðist þó hægt og bítandi á 3 árum). Fjórum árum eftir upphaflegt hrun hækkuðu hlutabréf aftur á móti mikið.

Síðan Hrunið átti sér stað í Íslandi hefur Icelandair komið á markað á gengi sem ég sjálfur taldi ekki vera spennandi, en skoðun mín um að aldrei eigi að fjárfesta í flugfélögum hefur hugsanlega haft full mikil áhrif skoðun mína. Virði þeirra hlutabréfa hefur margfaldast síðan þá á örfáum árum.

Fyrir rúmu ári síðan voru hlutabréf í Högum boðin almenningi á gengi sem ég taldi veita meira en viðunandi ávöxtunarkröfu. Markaðurinn í heild virtist vera sammála þeirri skoðun minni enda hækkaði gengi bréfanna um 25% á fyrsta degi. Síðan þá hefur gengi bréfanna smám saman haldið áfram að hækka og hefur gengið hækkað um 50% síðastliðið ár.

Þetta hefur aukið áhuga margra á hlutabréfum og virðist það ekki hafa farið framhjá þeim sem sjá um útboð bréfa. Gengi bréfa í Reginn var í hærri kantinum að mínu mati í útboðinu og hefur síðan þá hækkað um næstum því 50% (jákvæðar fréttir hafa þó komið í millitíðinni). Ég skrifaði í pistli fyrir útboð Eimskips nýlega að ég teldi að útboðsgengi bréfanna væri í hærri kantinum. Gengi bréfa þess hefur hins vegar engu að síður hækkað enn frekar og er nú í kringum 10% hærra en útboðsgengið.

Í framhaldi af útboði Eimskips seldi Framtakssjóður Íslands stóran hlut sinn í Vodafone. Sem óbeinn hluthafi í sjóðnum er ég afar ánægður með verk þeirra. Bæði tókst sjóðnum að halda fyrirtækinu á floti í gegnum hrunið og auk þess hefur hann selt stærstan hluta bréfa sinna á gengi sem er að mínu mati um það bil tvöfalt hærra en það sem ég tel vera eðlilegt. Þó hefur gengið haldist stöðugt í kringum útboðsgengið og því er það ef til vill einfaldlega ég sem er voðalegt flón í greiningu hlutabréfa.

Janúar áhrif og atferlisfjármál

Mikil stemmning, ef svo mætti að orði komast, hefur verið á hlutabréfamörkuðum í byrjun þessa árs. Ísland er þar engin undantekning. Það er eðlilegt; farið er að fenna í spor taps tengd hlutabréfum, flestir hafa hagnast á slíkum fjárfestingum undanfarin ár og janúar áhrif eru ríkjandi. Þeir fjárfestar sem taka þátt í þessari gleði nú hafa það þó vonandi í huga að samkvæmt hluta af fræðum atferlisfjármála fer sú gleði að dvína næstu misseri. Því er um að gera að ganga hægt um gleðinnar dyr.

MWM

 ps. Hér er yfirlit yfir gamlar veislur á íslenskum verðbréfamarkaði -  http://www.slideshare.net/marmixa/varad-vid-erlend-lan-2007-05-04


Norskur Landsbanki Íslands

Í aðsendri grein Helga Magnússonar í síðasta mánuði kemur hann fram með þá skoðun að selja eigi ákveðinn hluta ríkisins í Landsbanka Íslands.  Telur hann að ríkið ætti að halda eftir þriðjungs hlut (sem veitir ákveðinn réttindi innan stjórnar) og selja einstaklingum og fagfjárfestum afganginn.  

 Einhver kann að spyrja hvort að þetta hafi ekki verið gert áður, meira að segja skömmu áður, með hrikalegum afleiðingum.  Þetta fyrirkomulag hefur hins vegar verið við lýði í Noregi í áratugi (er hluti af reynslu þeirra í sambandi við mikla bankakreppu árin 1987-1988) og reynst vel.  Með þessu helst ákveðin valdbeiting af hálfu ríkisins á rekstri fyrirtækja sem eru "of stór til að falla" en á sama tíma fækkar þeim ókostum sem fylgja ríkisreknum fyrirtækjum.  Því má reyndar einnig bæta við að lagaramminn varðandi spillingu er afar strangur í Noregi.

Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni.  Í grein sem ég skrifaði sumarið 2010 varðandi HS Orku kemur eftirfarandi texti fram:  Ég furða mig á því að engin(n) í stjórnkerfinu hafi komið fram með hugmyndir í orkumálum Íslands á svipaðan veg og norsku leiðina.  Ríki og sveitafélög gætu átt 40% í félagi, leiðandi fjárfestir gæti átt ákveðna prósentu og almenningur gæti svo átt afganginn.  Með þessu héldist aðhald í rekstri, ákveðinn aðili hefði hag af meiri hagnað en opinberir aðilar hefðu ákveðið neitunarvald á aðgerðum sem fælu í sér of mikla áhættu (það þyrfti augljóslega að skilgreina það hlutverk í ljósi reynslunnar).

Eftirspurn eftir hlutabréfum á Íslandi er mikil þessa stundina (hugsanlega að hluta til vegna gjaldeyrishafta).  Því er ég sammála Helga í þessu máli; ríkið á að selja hlut sinn í Landsbanka Íslands samkvæmt norsku leiðinni.  Stjórnvöld ættu að vinna í því máli sem allra fyrst.

MWM

ps. Ketill Sigurjónsson hefur fjallað um heppilega kosti eignarhalds íslenskra orkufyrirtækja; sjá meðal annars grein hans Eignarhald á íslenskum virkjunum og orkufyrirtækjum - http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1159568/.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband