Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
Frumvarp varðandi 3,5% ávöxtunarkröfu
18.4.2012 | 13:56
Nýlega kom Framsóknarflokkurinn fram með Frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Í 4. kafla kemur eftirfarandi fram:
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Fjármálaráðherra skal skipa nefnd til að endurskoða samspil tryggingaverndar og almennra tryggingafræðilegra forsenda sem tryggingafræðileg athugun lífeyrissjóða byggist á, sérstaklega ávöxtunarkröfu sem skal nota við núvirðingu framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris sjóða og raunvexti sem athugunin byggist á. Nefndin skal skipuð fulltrúum þingflokka og sérfræðingum. Formaður skal skipaður af ráðherra. Nefndin skal sérstaklega skoða áhrif ávöxtunarkröfunnar á markaðsvexti og hegðun markaðsaðila. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu ásamt tillögum um laga- og reglugerðarbreytingar fyrir 1. október 2012.
Hér er verið að fjalla um þá óbeinu (og óraunhæfu) 3,5% ávöxtunarkröfu sem lífeyrisjóður þurfa að standa undir varðandi útreikning framtíðarskuldbindinga. Þetta úrelta viðmið myndar gólf á lækkun raunvaxta á Íslandi því að lífeyrissjóðir í dag geta ekki, skiljanlega, lækkað vexti á húsnæðislánum meira en það sem að þessi krafa gefur til kynna. Það eru reyndar að því er ég best veit tvær undantekningar en Lífeyrissjóður Verzlunarmanna (LIVE) hefur 2,88% breytilega vexti á sínum lánum en Lífeyrissjóðurinn Gildi 3,45%. Breytileg lánakjör hinna lífeyrissjóðanna eru hærri en 3,5%.
Stærsti lífeyrissjóður landsins, LSR, hefur til dæmis nýlega lækkað breytilega vexti en aðeins niður í 3,6%. Augljóst er að sjóðurinn treystir sér ekki að fara neðar með sín vaxtakjör en sem nemur 3,5% auk vaxtaálags sem dekkar þó vart umsýslukostnað lána, hvað þá líklegra afskrifta. Aðrir sjóðir rukka enn hærri vexti.
Lengi vel miðuðu lífeyrissjóðir almennt breytilega vexti við meðalávöxtunarkröfu íbúðabréfa; kom þetta meðal annars fram á heimasíðu LSR í nokkur ár en þar stóð að við bættist 0,5 til 0,75% vaxtaálag. Þegar að krafan fór að lækka breytti LSR þessu á heimasíðunni þar sem fram kom að þeir færu þó aldrei neðar en 4%. Síðan var því breytt og nú stendur einfaldlega að slíkt sé ákveðið 4 sinnum á ári.
Nú er meðalávöxtunarkrafa hinna 3 íbúðabréfaflokka í kringum 2,15% sem þýðir að við hærri mörk viðmiða LSR sem fram kom á heimasíðu sjóðsins fyrir nokkrum árum síðan ættu breytilegir vextir sjóðsins að vera í kringum 2,9%, eða svipað og hjá LIVE sem heldur sínu striki. Sjóðsfélagi hjá LSR sem skuldar 30 milljónir þarf, vegna þess að sjóðurinn hefur ákveðið að fylgja ekki eftir forsendum sem fram komu á heimasíðu sjóðsins fyrir nokkrum árum síðan, að greiða árlega 210 þúsund krónur meira í vaxtakostnað en sjóðsfélagi hjá LIVE vegna úreltra laga.
Það er jákvætt að þetta frumvarp (sjá hér - http://www.althingi.is/altext/140/s/1127.html) sé komið fram. Þó furða ég mig á því hversu lítið vægi þetta fær í umræðunni. Hví setja alþingismenn þetta mál ekki í forgang? Hafa Hagsmunasamtök heimilanna fjallað eitthvað um þetta? Er engin Samstaða að myndast um málið eða er flestum sama þó að úrelt lög haldi vaxtakostnaði heimilanna uppi?
MWM
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðvörun Seðlabanka Íslands 2004
12.4.2012 | 14:55
Birgir Ísleifur Gunnarsson, þáverandi formaður bankamaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, hélt ræðu á ársfundi þess í mars árið 2004. Hann sagði meðal annars þetta:
"Þjóðhagsleg skilyrði eru góð þegar á heildina er
litið. Helstu áhyggjuefnin eru útlánaþensla sem er að mestu
fjármögnuð erlendis og hátt eignaverð. Athygli hafa vakið skuldsett
kaup á skráðum sem óskráðum félögum, og eru þau ein skýringin á
mikilli útlánaaukningu banka. Þessi viðskipti hafa þrýst upp verði
nokkurra skráðra fyrirtækja, m.a. fjármálafyrirtækja, og sú spurning
leitar á hverjar afleiðingar það hafi ef og þegar hlutabréfaverð lækkar
að nýju."
Birgir bætti við:
"Hlutfallsleg aukning útlána innlánsstofnana hefur verið mest til
erlendra lánþega, en þó hafa gengisbundin lán til innlendra lánþega
aukist mjög eða um ríflega 45% á síðustu tólf mánuðum. Langt er frá
því að öll þessi gengisbundnu útlán séu til þeirra innlendu fyrirtækja
og einstaklinga sem hafa tekjur í erlendum gjaldeyri eða verja sig fyrir
gengisáhættu með öðrum hætti. Í þessu er fólgin mikil vogun fyrir
lántakendur og lánveitendur."
Einnig sagði hann þetta:
"Í desember sl. sendi Seðlabankinn bréf til stjórnenda viðskiptabankanna
og stærsta sparisjóðs landsins þar sem bankastjórn lýsti
áhyggjum sínum af hraðri aukningu útlána og mikilli erlendri
fjármögnun til skamms tíma. Eins og gengur brugðust menn við með
ólíkum hætti, og einhverjir sögðu: ekki benda á mig. Hið ánægjulega
hefur þó gerst, að bankarnir hafa tekið að lengja í erlendum lánum
sínum þannig að hlutfall skammtímalána og langtímalána hefur batnað
undanfarnar vikur. Þetta er mjög mikilvægt því að varasamt getur
verið að treysta um of á greiða skammtímafjármögnun."
Það er ekki miklu við þessu að bæta. Því miður hafði Birgir ekki tök á því að fylgja þessu eftir því ballið var rétt að byrja. Það er hins vegar athyglisvert að Birgir er strax árið 2004 farinn að benda á flestar hættur útrásarinnar. Hægt er að lesa ræðu Birgis í heild sinni hér - http://www.sedlabanki.is/uploads/files/%C3%81varp%20BIG%2023.3.04.pdf
MWM
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)