Viðskiptaráð Íslands birti um daginn útreikninga á svokallaðri eymdarvísitölu. Ef árin eftir hrun eru fráskilin þá hefur hún aldrei mælst jafn há og nú. Þetta ætti ef til vill ekki að koma á óvart. Samkvæmt Félagsvísum sem Hagstofan birti í sumar hefur staða verst settu hópa á Íslandi ekki lagast eins og ætla mætti í ljósi stöðugs hagvaxtar frá hruni (merki eru um að Covid sé tímabundið slæmt ástand sem nú hjaðni fljótt). Athygli vekur hversu mikla áherslu skýrslan leggur á stöðu fólks á húsnæðismarkaði. Nokkrir hópar standa augljóslega verst frá efnahagslegu sjónarmiði, fólk sem býr eitt og einstæðir foreldrar. Fram kemur að árið 2019 (síðasta ár í úrtakinu) var hlutfall einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum hærra en nokkru sinni síðan að mælingar hófust árið 2004. Einnig kemur fram að íþyngjandi húsnæðiskostnaður sé mun algengari hjá fólki sem leigir en þeim sem eru á leigumarkaði.
Þetta má að stórum hluta rekja til eftirmála hrunsins. Hlutfall heimila á leigumarkaði hækkaði úr 17% árið 2007 í 28% árið 2012, og var mesta aukningin meðal fólks á aldrinum 2534 ára, lágtekjufólks og einstæðra foreldra. Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð stöðugt þrátt fyrir samfelldan hagvöxt síðan þá. Það sem meira er, langflestir Íslendingar kjósa að komast af leigumarkaði en einfaldlega geta það ekki.
Ný grein, Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst, sem ég skrifaði ásamt Kristínu Loftsdóttur og Önnu Lísu Rúnarsdóttur, lítur á aðstæður fólks á leigumarkaði. Sjónum er aðallega beint að því hvort sá hópur glími við tvísýnleika eða ekki. Viðtöl við marga einstaklinga með ólíkan bakgrunn gefur því miður til kynna að fólk glímir almennt við mikið óöryggi varðandi húsaskjól, aðstæður húsnæðis og leiguverð.
Þetta óöryggi tengist, kaldhæðnislega, að stórum hluta helsta drifkrafti íslensks efnahagslífs síðustu ára; ferðamennskuna. Ekki aðeins fóru margar íbúðir af almennum leigumarkaði vegna þess að þeim var umbreytt í Airbnb íbúðir heldur bættust við um það bil sjö þúsund innflytjendur við störf í ferðamálageiranum, sem jók enn frekar eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Um það fjalla ég í annarri grein sem birtist sem bókarkafli í nýrri bók á vegum Springer útgáfunnar.
Greinin er birt í tímariti Íslenska þjóðfélagsins og er hægt að nálgast hana á þessari slóð - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0
Því má við bæta að ég og Kristín Erla Tryggvadóttir höfum síðustu vikurnar verið að draga saman gögn varðandi stöðu fólks á leigumarkaði. Við stefnum að því að hafa fyrirlestur varðandi fyrstu niðurstöður okkar innan tíðar í HR. Auk þess hefur Erika Rós Grétarsdóttir bæst í hópinn til að aðstoða okkur við samanburðargreiningu á íslenskum tölum og húsnæðistölum á alþjóðlegum vettvangi.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning