Már Wolfgang Mixa - Stjórnarframboð
8.2.2021 | 13:26
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnarsetu í nokkrum skráðum félögum á Íslandi. Markmið mín í setu stjórna verður að leitast við að skapa virði í rekstri fyrirtækja með skynsömum hætti.
Sjálfur hef ég kennt virðismat fyrirtækja í mörg ár í Háskólanum í Reykjavík, þar sem lögð er áhersla á skilning varðandi virðisaukningu fyrirtækja með tilliti til vaxtar og hagræðingar og þeirri áhættu sem slíku fylgir. Auk þess vann ég áður við margvísleg störf í fjármálageiranum og tel reyndar nokkuð víst að enginn einstaklingur hafi jafn víðtæka reynslu innan fjármálageirans og ég. Í því fólst meðal annars vinna í tengslum við uppsetningu verðbréfasjóða, lífeyrissparnaðar og stofnun fjármálafyrirtækja, sem þurfti að sjálfssögðu að vinna í samstarfi með stjórnum sem þurftu að fylgja ströngum lögum og reglum varðandi fjármálamarkaði.
Í tengslum við framboð mín verð ég með þrjár sérstakar áherslur. Þær eru:
1. Arðgreiðslustefna, sem felur meðal annars í sér að endurkaup eigin bréfa verði afnumin.
2. Vernd minni hluthafa.
3. Fyrirtæki eigi nægan varasjóð ef á móti blási.
Fyrstu tvær áherslurnar eiga að stuðla að því að virkja almenning í því að fjárfesta aftur í hlutabréfum, en íslenskur almenningur gerir slíkt almennt ekki eftir slæma og afar eftirminnilega reynslu árið 2008. Sú þriðja snýr að stöðugleika í rekstri þeirra. Ég skýri hvern lið um sig betur næstu daga.
Fari svo að ég verði kosinn í einhverja af þessum stjórnum mun ég skipta launum mínum eftir skatta vegna stjórnarsetu í tvo jafna hluta. Annar helmingurinn fer í kaup bréfa í því fyrirtæki sem ég er kosinn í stjórn. Sjálfur tel ég að stjórnarmenn eigi að fjárfesta ákveðinn hluta af sparnaði sínum í þau fyrirtæki sem þeir bera ábyrgð á. Hinn helmingurinn verður varið til að styrkja fimm góðgerðarsamtök. Þau eru Ljósið, Félag heyrnalausra, Rauði Kross Íslands, Þroskahjálp og Kvennaathvarfið.
Már Wolfgang Mixa
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning