Seðlabankinn á skynsamri braut

Seðlabankinn boðaði í upphafi faraldursins að hann myndi styrkja íslensku krónuna og einnig vera virkur á skuldabréfamarkaði. Gagnrýnisraddir hafa undanfarið heyrst um að hann hafi ekki verið nægilega virkur á skuldabréfamarkaði. Ég er ósammála þeim röddum og tel að hann eigi frekar að beina spjótum sínum að styrkingu íslensku krónunnar. Með öðrum orðum, áherslur Seðlabankans hafa að mínu mati verið réttar hingað til. Ég fer hér í stuttu máli yfir rök mín.

Lítið vit í kaupum á ríkisbréfum

Núverandi verðbólga er 3,5% miðað við síðustu 12 mánuði. Samkvæmt spá Hagfræðideildar Landsbankans (HL) fer hún í 4% á næsta ári. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa (sem eru óverðtryggð) er á bilinu 1-2% fyrir stystu flokkana og í kringum 3,2% fyrir lengstu flokkana. Kaup ríkisbréfa á núverandi kröfu felur því í sér að kaupa bréf með neikvæða raunávöxtun. Hjaðni verðbólga samkvæmt spá HL þá fæst örlítil raunávöxtun fyrir lengstu bréfin frá miðju ári 2021 og árið 2022, þó með þeirri áhættu sem fylgir kaupum á skuldabréfum með gjalddaga eftir langan tíma.

Ég hef fjárfest í ríkisskuldabréfum í næstum því aldarfjórðung. Ég starfaði um hríð sem sjóðsstjóri íslensks skuldabréfasjóðs, hef fjárfest í ríkisskuldabréfum fyrir hönd banka (bæði stöðubók og í tengslum við lausafjárstýringu) og einnig fyrir mig og mína. Að mínu mati hafa ríkisbréf aldrei verið jafn slakur kostur og einmitt í dag. Það er ekki furða að stór erlendur fjárfestir slíkra bréfa seldi þau öll um daginn fyrir 11 milljarða króna.

Því er það vel skiljanlegt að Seðlabankinn fjárfesti í takmörkuðum mæli í ríkisskuldabréfum við þessar aðstæður. Með slíkum kaupum er hann í raun að kaupa skuldabréf á of háu gengi á kostnað skattborgara á meðan að eigendur skuldabréfanna eru að fá hærra verð fyrir þau en eðlilegt markaðsgengi ætti að endurspegla. Það er skiljanlegra að keypt sé eitthvað af stuttum skuldabréfum til að halda skammtímavöxtum í samræmi við stýrivexti og auk þess er verðteygni slíkra bréfa lítil. 

Rökin um að Seðlabankinn ætti að kaupa ríkisbréf til að örva útlánastarfsemi eru auk þess ekki fyrir hendi. Það hefur komið margoft fram í fjölmiðlum að bankarnir eigi jafnvel allt of mikið af lausu fjármagni. Ein ástæða þess að þeir eru að lána svo mikið til íbúðakaupa og endurfjármögnun þeirra er sú að þeir hreinlega verða að koma peningi út, sem leiðir til auðveldara aðgengis að fjármagni. Það veldur hækkun á fasteignaverði sem fer út í neysluvísitöluna og hækkar verðbólgu fyrir okkur öll. Seðlabankinn væri því einnig að bera í bakkafullan lækinn að dæla meiri pening í bankakerfið með skuldabréfakaupum.

Gjaldeyriskaup

Raungengi íslensku krónunnar hefur ekki mælst jafn lágt í meira en 5 ár. Seðlabankinn veit allt um þetta því að gögnin eru tekin saman hjá honum. Eftir að hafa keypt erlendan gjaldeyri síðustu ár þegar að ferðamennskan var í hámarki og komið í veg fyrir að krónan styrktist enn frekar, þá er nú góður tími til að nýta hann til að nota þann gjaldeyri til að kaupa íslenskar krónur á nýjan leik. Bæði er bankinn þannig að kaupa til baka íslenskar krónur með gengishagnaði og einnig að minnka sveiflur á gengi íslensku krónunnar. Áhersla Seðlabankans undanfarið hefur verið á slíkum kaupum og ef eitthvað er mætti sú áhersla vera enn meiri.

Eins og ég benti á að ofan eru verðbólguhorfur þannig að lítið vit er í að kaupa óverðtryggð ríkisskuldabréf, auk þess sem setja má spurningarmerki við að Seðlabankinn sé yfir höfuð að stýra langtímavöxtum með beinum kaupum.

Í sömu samantekt HL og vísað er í að ofan kemur orðrétt fram: "Við gerum nú ráð fyrir að verðbólga fari hæst í 4% í upphafi næsta árs og verði einkum knúin af veikingu krónunnar það sem af er þessu ári." Augljóslega er gengi íslensku krónunnar aðalástæða núverandi og væntrar verðbólgu. Með því að kaupa íslenskar krónur, nú þegar að engir ferðamenn eru hvort er eð að koma til Íslands, stuðlar Seðlabankinn að minni verðbólgu. Þannig myndi hann óbeint gera ríkisbréf að áhugaverðari kosti fyrir fjárfesta sem myndi þá leiða til aukningu á eftirspurn eftir ríkisbréfum og þannig lækka ávöxtunarkröfuna, bæði á styttri og lengri endanum.

Niðurstaða

Seðlabankinn er að fylgja réttri stefnu í stýringu peningamála með því að halda stýrivöxtum lágum og einblína á kaupum á erlendum gjaldeyri en láta minna til sín taka á skuldabréfamarkaði. Kaup skuldabréfa ættu að takmarkast við skuldabréf með stuttan líftíma en leyfa markaðinum að mynda ávöxtunarkúrfuna á lengri endanum.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband