Netbankar og aðrir bankar

Nýr (innan gæsalappa) banki sem nefnist Auður var settur á laggirnar í vikunni. Auður, sem er í eigu Kviku banka, svipar mjög til netbanka Sparisjóðs Hafnarfjarðar, S24, sem starfaði frá árinu 1999 fram að falli sparisjóðsins, sem hafði reyndar á þeim tímapunkti sameinast Sparisjóði vélstjóra undir hinu andlausa heiti Byr sparisjóður. S24 bauð ávallt uppá bestu vaxtakjör sem fáanleg voru á markaði, bæði hvað varðar innláns- og útlánsvexti auk þess sem að bankinn bauð einnig Íslendingum fyrstur val á því að taka óverðtryggð húsnæðislán (sem engin(n) hafði áhuga á, ótrúlegt en satt). Yfirbygging S24 var lítil og í mínum huga markaði starfsfólk þessa netbanka framtíð íslenskrar fjármálaþjónustu á netinu.

Íslandsbanki sýndi lengi vel áhuga á því að kaupa S24 vegna sérstöðu netbankans, en þegar að Byr sparisjóður féll í kjöltu þess í framhaldi af hruninu ákvað Íslandsbanki einhverra hluta vegna að innlima S24 í netbanka sinn og stroka út öll sérkenni bankans, eins og þau frábæru vaxtakjör sem fólk gat gengið að vísu á þeim bænum.

Nú, heilum tíu árum síðar, kemur Kvika banki með netbanka sem er einfaldur í uppbyggingu og veitir fólki í fyrsta sinn síðan S24 var og hét almennileg vaxtakjör á óbundnum innlánsreikningum. Þetta leiðir hugann á því hversu slappir íslenskir bankar hafa verið gagnvart viðskiptavinum sínum, sem eru einnig eigendur tveggja þeirra, varðandi innlánskjör.

Þetta undirstrikar einnig ýmis spurningarmerki varðandi stefnu þeirra. Ólöf Skaptadóttir skrifaði á miðvikudaginn (13.3.2109) pistil í Fréttablaðinu í tilefni þess að Auður var að hefja starfsemi sína. Hún bendir á að uppbygging Auðar sé einföld sem veiti Kviku banka tækifæri til þess að veita innstæðueigendum almennileg vaxtakjör. Ólöf veltir því einnig fyrir sér hver stefna Landsbankans sé. Á meðan að Kvika beinir sjónum sínum á að einfalda þeim hluta af rekstri sínum sem snýr að einfaldri bankastarfsemi þá ætlar Lansbankinn að byggja stórar höfuðstöðvar á dýrasta bletti Reykjavíkurborgar. Ólöf líkir þetta við að reisa 9 milljarða króna DVD-verksmiðju árið 2019; ég verð að taka undir þau orð. Á sama tíma ákvað Íslandsbanki, hinn bankinn í eigu ríkisins, að færa höfuðstöðvar sínar enn fjær miðbæ Reykjavíkur (þær gömlu voru vel að merkja orðnar ónýtar).

Væri ég í bankaráði Landsbankans þá myndi ég leggja til að bankinn myndi, svo lengi sem hann væri í eigu ríkisins, einfalda starfsemi sína. Hann myndi sinna einfaldri bankaþjónustu fyrir almenning og láta öðrum eftir að veita flóknari bankaþjónustu. Í því gæti falist að selja þann hluta bankans sem sinnir flóknari bankaþjónustu (ég hef verið í viðskiptum við bankann og veit að starfsemi þess sem snýr að verðbréfum er verðmæt því þar liggja verðmæti í reynslu og þekkingu starfsmanna). Í því fælist að hætta að bruðla með almannafé og reisa óþarflega dýrar höfuðstöðvar og einblína frekar á þjónustu í anda þess sem S24 var og Auður er nú.

MWM 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband