Frumvarp um lyklalög

Nýlega var lagt fram frumvarp sem segja má sé lyklafrumvarp. Það gengur í stuttu máli út á það að ef fólk af einhverjum ástæðum gæti ekki staðið í skilum á húsnæðislánum sínum og húsnæði þeirra færi á nauðungaruppboð, þá þyrfti það þó ekki jafnvel hugsanlega að skulda enn í húsnæðinu ef það sem fengist úr nauðungaruppboðinu dekki ekki eftirstöðvar skulda. 

Það er mörgum enn í fersku minni að slíkt gerðist því miður í kjölfar hrunsins. Fólk missti ekki einungis húsnæði sitt heldur sat uppi með gríðarlegar skuldir. Þetta ástand hefði orðið enn verra ef lánveitingar í erlendum myntum til húsnæðiskaupa hefðu ekki verið dæmd ólögmæt.

Ég fór að fjalla um þetta frumvarp skömmu eftir hrun og í framhaldinu tóku nokkrir þingmenn undir þau orð. Fram kemur í ræðu Guðmundar Inga Kristinssonar um frumvarpið að fimm frumvörp af svipuðum toga hafi komið fram áður, án árangurs. Í dag skilaði ég áliti að frumvarpinu og birtist afrit af því hér að neðan.

MWM

Einn af þeim lærdómum sem hrunið 2008 ætti að hafa kennt landi og þjóð um ókomna tíð er að fjármálastofnanir vandi ávallt til verka þegar kemur að lánveitingum húsnæðislána. Á árunum fyrir hrun var gríðarleg aukning í lánum til heimila, meðal annars húsnæðislána, og voru slík lán í sumum tilvikum jafnvel tengd erlendum myntum. Óþarfi er að rifja upp smáatriði varðandi þann skaða sem hlaust í sumum tilvikum af slíkum lánveitingum, en flest okkar þekktu dæmi um vini og vandamenn sem misstu húsnæði sitt. Í mörgum tilvikum sátu sumir einstaklingar samt sem áður með skuldabagga vegna þess að söluvirði húsnæðis á nauðungarsölu dugði ekki til að dekka eftirstöðvar húsnæðislánsins sem á því hvíldi. Þetta ástand hefði verið enn verra ef erlend lán hefðu ekki verið dæmd ólögmæt.

Ólíklegt er að slík mistök yrðu endurtekin í dag; of stutt er síðan að þau áttu sér stað. Saga fjármála sýnir aftur á móti að minni fólks af fyrri fjármálakreppum er stundum töluvert styttra en ætla mætti. Því þarf að nýta „lognið“ sem myndast eftir að versti skellurinn er afstaðinn af fyrra hruni til að byrgja brunninn. Líklegt er að sé beðið eftir hættumerkjum um að útlánabóla sé að myndast er hugsanlegt að stemmningin í þjóðfélaginu verði komin á það stig að alls kyns réttlætingar um að „nú sé ástandið öðruvísi en áður“ kæfi slíka umræðu.

Þetta frumvarp leiðir ekki einungis til þess að réttur lántaka á húsnæðislánum gæti aukist heldur gæti það leitt til lægri vaxtakostnaðar.

Vaxtakostnaður

Eitt af því sem heldur vaxtastigi háu á útlánum er afskriftarþörf fjármálastofnanna. Sé mikil þörf á miklum afskriftum ár frá ári þá eru það fyrst og fremst þeir skuldarar sem standa í skilum sem þurfa að bera þann kostnað. Þó svo að fjármálastofnanir kyngi ákveðinn hluta kostnaðar í formi lægri hagnaðar þá færist stór hluti hans óhjákvæmilega til þeirra aðila sem standa í skilum með hærri vaxtakostnaði, þar sem að vaxtamunur fjármálastofnanna eykst til að dekka útlánatöp.

Í skýrslu sem ég skrifaði árið 2010 varðandi verðtryggingu að beiðni VR fyrir milligöngu Stofnunar um fjármálalæsi[1] kemur eftirfarandi fram:

Þegar útlán eru óvönduð þurfa allir að taka þátt í nokkurs konar samábyrgð á lánum með óbeinum hætti, þ.e. háu vaxtastigi. Hugsanlegt væri að lánakjör tækju meira mið af greiðslugetu einstaklinga. Vaxtastig af húsnæði myndi hækka eftir því sem hærra hlutfall af fasteignamati eða íbúðarverði húsnæðis væri sett að veði.

Vaxtastig, með öðrum orðum, hækkar eftir því sem að áhætta í útlánum eykst. Þetta er útskýrt enn frekar síðar í ritinu:

Nú er töluverð umræða um hvort húseigendur eigi að mega skila húsnæði sínu sjái þeir fram á að geta ekki staðið í skilum á lánum sínum, samanber svokallað „Lyklafrumvarp“. Það gæti verið fýsilegur kostur ef áhvílandi lán eru orðin töluvert hærri en verðgildi veðsettrar eignar. Verði „Lyklafrumvarpið“ leitt í lög myndi áhætta banka við lánveitingu aukast, en á móti kæmi meira aðhald í útlánum. Áhætta og verðlagning hennar af útlánum umfram hóflegt veðhlutfall yrði metið á einstaklingsbundnum forsendum. Það er ólíklegt að fjármálastofnanir hefðu veitt 90% lán og/eða lán tengd erlendri mynt hefðu heimildir í anda „Lyklafrumvarpsins“ verið til staðar fyrir fáeinum árum.

Þessi orð eiga jafn vel við í dag og árið 2010.

Már Wolfgang Mixa

 

[1] Verðtrygging fjárskuldbindinga: Verðtryggðir eða óverðtryggðir vextir (2010). Sjá hérna: https://www.vr.is/media/2057/verdtrygging-fjarskuldbindinga.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband