The Manic Millennium - Brestir myndast 4
3.10.2018 | 07:32
Það er ekki eins og lítið hafi gengið á daganna fyrir falli bankanna. Það lék allt á reiðiskjálfti áður en allt fór um koll. Hér er örlítil lýsing á ástandinu.
Þeir sem hafa ekki lesið fyrri þrjá kaflanna sem ég birti úr bók minni sem er í bígerð ættu að byrja lesturinn hérna.
Brestir myndast
Ég hitti kunningja minn, Anton, á 101 Hóteli daginn eftir. Hann segir mér að fólk í Landsbankanum sé farið að hafa áhyggjur. Það eru þó ekki tölurnar einar sem valda þeim heldur látbragð og hegðun stjórnenda bankans. Helstu fundarherbergi eru opin svæði niðri í Landsbanka; í stað veggja eru einungis gluggar. Fólk tekur eftir því að fundir helstu stjórnenda eru allt annað en glaðlegir; látbragð þeirra ber þess öll merki að verið sé að ræða afar alvarleg málefni. Anton hefur rætt við ákveðinn yfirmann bankans og spurt hvort allt væri í lagi og fær undarleg svör. Hann virðist meta stöðuna svo að staðan hafi sjaldan eða aldrei verið betri, þetta sé einfaldlega tímabundin vandræði vegna lausafjárkrísu á alþjóðlegum mörkuðum. Anton virðist trúa þessu en spyr mig engu að síður hvað mér finnist. Ég segi honum frá áhyggjum mínum í grófum dráttum, að lausafjárkrísan sé erfið og þeim fjölgi ört sem sé að lenda í vandræði vegna erlendra lána. Hann er á báðum áttum en þó farinn að setja spurningamerki við ýmislegt. Hann bendir á að skýrsla Fjármálaeftirlitsins (FME) frá því í ágúst um stöðugleika bankanna gefi til kynna að allt væri í góðum málum svo ef til vill séu áhyggjurnar í lausu lofti gripnar. Hann auk þess trúi því vart að verið væri að ljúga beint upp í opið geðið á honum. Það kom á daginn að það var einmitt það sem gerst hafði.
Á meðan að Garðar er á kafi í að mynda skjaldborg í kringum sparisjóðina er ég önnum kafinn við mál sem snúa að jarðarför móður minnar. Þeim fjölgar þó ört innan Icebank sem skynja að staðan er að breytast frá því að vera yfir erfið í að verða grafalvarleg. Daginn eftir að sparisjóðsstjórinn staðhæfði að allt væri í himna lagi dregur Bjarni mig inn í Chesterfield stofuna. Spennan innan bankans var að aukast. Ein maður á gjaldeyrisborðinu hafði rétt áður hrópað yfir borðið að Deutsche Bank hafi ekki einungis hætt lánveitingum til Icebank heldur til Íslands, punktur. Bjarni segir að það rigni yfir sig símtölum frá útlendingum sem hafi áhyggjur af stöðu mála. Þeir vilji gjarnan fá pening sem þeir höfðu lánað til Icebank til baka en gjaldfærni bankans sé kominn á það þunnan ís að þeir viti að það sé ekki hægt; með því að taka smá pening til baka gæti það skapað ruðningsáhrif og að bankinn færi á hausinn. Við tölum um að líklegast væru sjóðir í anda George Soros, þekktur fjárfestir sem felldi meðal annars breska pundið árið 1992, að veðja á falli krónunnar sem er að veikjast hratt. Millibankamarkaðurinn hefur verið lengi óvirkur en nú lánaði ekki einu sinni Glitnir lengur og því fokið í flest skjól. Við finnum spennuna í loftinu og furðum okkur á því hversu lítið væri gert í stöðunni og spyrjum okkur hvort ef til vill sé hreinlega ekkert lengur hægt að gera á þeim tímapunkti. Það sem okkur þykir þó merkilegast er hversu fáir, jafnvel innan bankans, virtust hafa áhyggjur af stöðu mála. Tveimur dögum síðar var Bjarni látinn fara frá bankanum.
Mánudagurinn 29. september gat heldur ekki orðið annað en eftirminnilegur en þennan dag var móðir mín jarðsungin. Þetta var eini dagurinn sem ég tók mér frí frá vinnu sökum andláts hennar. Síminn hringir klukkan 9.25. Það er Hallgerður sem byrjar á því að afsaka sig að hringja þennan dag og segir í miklu uppnámi Glitnir er fallinn! Ég hváði og þá segir hún mér að tilkynning hafi nýlega borist um að ríkið væri að taka yfir rekstur bankans. Ég lít í tölvu mína og sé þar straum tilkynninga um yfirtöku ríkisins. Ég spurði sjálfan mig hvort að það gæti verið að endalok íslensks fjármálalífs væri hafið.
Morguninn einkennist því af því að útrétta vegna jarðarfararinnar og (það sem verður að venju næstu vikur og mánuði) að uppfæra stöðugt fréttavefsíður varðandi nýjustu fréttir. Það er undarlegt að bíða í hliðarherberginu í kirkjunni áður en gengið er fram í kirkjuna sjálfan. Hin ytri heimur hafði teigt sig inn fyrir veggi kirkjunnar og í hliðarherberginu sá ég tölvuskjá með uppfærslu á gengi íslenskra hlutabréfa. Ég stenst ekki mátið og lít á gengi hlutabréfa. Heimurinn fyrir utan var að hrynja. Markaðsvirði Glitnis var orðið um það bil aðeins 15% af því sem það á sama tíma árið áður. Bankinn er að þurrkast út. Fáir átta sig þó á því hversu hrikaleg staðan er á þeim tímapunkti og undanskil ég ekki sjálfan mig. Enn einu sinni átta ég mig ekki á því hvernig standi á því að gengi hinna bankanna, Kaupþings og Landsbankans, lækki lítið. Fólk í erfidrykkjunni er ekki einungis tíðrætt um móður mína heldur líka þróun íslensks bankalífs sem fólk er farið að skynja sé farið að snúast hratt til verri vegar.
Um kvöldið hringir Hallgerður aftur í mig. Hún tilkynnir að ég þyrfti nú að sjá um skuldabréfavaktina einn á morgun, til viðbótar við millibankamarkaðinn, það væri búið að segja henni upp sökum endurskipulagningar í rekstri. Henni var sagt að það ætti að leggja niður það sem áður var kallað eigin viðskipti (þar sem ég fyrst hóf störf) og fleirum úr þeirri deild yrði einnig sagt upp. Bjarni hafði verið látin taka poka sinn föstudaginn áður og auk þess var nokkrum öðrum sagt upp. Það er með öðrum orðum ákveðið að láta helsta tengilið bankans við erlendar lánastofnanir og aðra manneskjuna á innlenda millibankamarkaðinum hætta á sama tíma og íslenskt fjármálalíf er að hrynja.
Daginn eftir kemur Geir úr eigin viðskiptum til mín því verið er að flytja hann til yfir í millibankamarkaðinn og hann á því að læra helstu atriðin varðandi millibankamarkaðinn, sem ég sjálfur er rétt nýbúinn að ná einhverjum tökum á. Hann staldrar ekki lengi við. Ég var aðeins með tæplega sex vikna reynslu á millibankamarkað Icebank (Hallgerður hafði ekki mikið lengri reynslu en ég á millibankamarkaðinum) en þarf nú að hlaupa á milli fjögurra skjáa við að reyna að halda bankanum á floti, Geir er hreinlega fyrir í látunum. Það þurfti svo sem ekki mikla spádómsgáfu að vita að mikið yrði að gera þennan dag. Lánshæfismat ríkisins féll strax við yfirtökuna á Glitni og lánasamningar voru margir komnir í uppnám.
Þó hafði ég ekki búist við neitt í líkingu við þennan dag. Ég efast um að fjármagn á íslenskum bankamarkaði eigi eftir að sveiflast jafn mikið og 30. september, 2008. Milljarðar fara inn og útum bankann á augnablikum. Skuldabréfamarkaðurinn sveiflast svo hratt að NASDAQ hlutabréfavísitalan á toppi netbólunnar, tæpum áratug áður, var hálfgerður barnaleikur til samanburðar. Það þurfti að stemma saman inn- og útflæði peninga bankans og halda utan um skuldabréfamarkaðinum þar sem að panik viðskipti voru allsráðandi.
Ég lít til hliðar; búið er að færa mér kaffi og brauð úr mötuneytinu. Það var með naumindum að ég nái að fara á klósettið. Andartaki síðar er hádegisverður kominn á borðið meðal fjögurra skjáa og að því virtist vera örfáum öðrum andartökum síðar var aftur komið kaffi og kruðerí. Klukkan 15.50, tíu mínútum áður en markaðurinn lokar, er ástandið þannig að miklar tafir eru farnar að myndast í kerfinu. Þar sem að fjárhæðirnar sem voru að fara inn og út um bankann voru svo gífurlega miklar þá gat það alveg eins verið að Sparisjóðabankinn endaði deginum í mínus gagnvart Seðlabankanum og væri þannig séð tæknilega gjaldþrota. Ég spurði í kringum mig hvert Plan B væri í þeim kringumstæðum. Svarið var að engin slík áætlun væri fyrir hendi. 16.15 hættu tölurnar loks að uppfærast og í ljós kom að Sparisjóðabankinn var ekki fyrsti bankinn til að verða tæknilega gjaldþrota, ekki í það minnsta þann daginn.
Ég hef oft hugsað til þessa dags. Gaman hefði verið að eiga atburði hans á kvikmynd því auðvelt væri að klippa saman atburði dagsins og gera heimildarmynd úr þeim sem lýsir upphafið á falli íslensks fjármálalífs, sem frá sumum bæjardyrum hafði verið margboðuð.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 07:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning