The Manic Millennium - Áhyggjur og áhyggjuleysi 3

Bókin Ævintýraeyjan eftir Ármann Þorvaldsson er áhugaverð og skemmtileg lesning. Eitt af því sem vakti sérstaka athygli mína við lestur hennar var það hversu litlar áhyggjur hann hafði af ástandinu seint í september árið 2008. Hann var á leið í frí til Feneyja þegar að hann fékk boð um að fresta þeim áformum og koma til baka í vinnu; það væri mikil vandræði í gangi. Þessi kafli lýsir því vel að Ármann var ekki sá eini sem sá ekki storminn sem var að myndast á þeim andartökum.

Þeir sem hafa ekki lesið fyrri tvo kaflanna sem ég birti úr bók minni sem er í bígerð ættu að byrja lesturinn hérna.

Áhyggjur og áhyggjuleysi

Í framhaldi af þessu fer af stað atburðárás sem er óljós í huga mínum. Allir dagar næstu vikuna fara í að hugsa leiðir til að bjarga fallandi banka og undirbúa jarðarför móður minnar; kvöldin fara í að ræða við fólk sem hefur samband við mig til að gera upp fortíðina gagnvart móður minni.  Garðar er þó reglulega að uppfæra mig um stöðuna og hans aðgerðir við að bjarga því sem bjargað verður. Hann er þó frekar einsamall í þeirri vegferð.  Hann hefur mikið fyrir því að ná fundi með Björgvini Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, til að gera honum grein fyrir stöðu mála og að snör handtök séu nauðsynleg í að forða sparisjóðunum frá hruni. 

Einn sparisjóðsstjóri á landsbyggðinni sem hefur greiðari aðgang að ráðherranum er að mati Garðars heldur linur við að koma þessum skilaboðum á framfæri.  Hann hafði hitt Björgvin einu sinni en Garðari fannst hann ekki hafa komið neyðarástandinu nægilega vel á framfæri.  Þegar kom í ljós að sparisjóðsstjórinn ætlar að hitta Björgvin aftur kallar Garðar mig á fund niður í stóra fundarherbergið. Garðar biður mig um að koma áhyggjum mínum á framfæri gagnvart sparisjóðsstjóranum. Garðar kynnir mig og segir að þar sem að ég hafi starfað við flest allt sem hægt er að hugsa sér innan sparisjóðakerfisins þá hef ég væntanlega góða hugmynd um ástand mála.  Þó svo að samskipti fólks innan sparisjóðanna væri frekar óformlegt, enda minnti samstarfið stundum á stór fjölskylduboð, þá var svona kynning afar fátíð.

Ég byrja á því að ræða um stöðu mála og að sparisjóðakerfið væri líklegast ekki einungis að glíma við tímabundna lausafjárþröng heldur væri kerfið jafnvel á góðri leið með að verða gjaldþrota ef ekki kæmi til  innspýting nýs fjármagns.  Síðan fjalla ég um nauðsyn þess að fá frá stjórnvöldum nýtt fjármagn og að endurskipuleggja þurfi sparisjóðakerfið frá grunni, helst með hraði.  Þetta eru stór orð sem undir sumum kringumstæðum hefðu sjálfkrafa orðið til  þess að maður hefði  verið látinn taka poka sinn á staðnum.  Undir þessum kringumstæðum vorum við að vonast til þess að þau myndu vekja menn til umhugsunar. 

Viðbrögðin komu á óvart. Hann lítur vart upp frá tölvu sinni og hamast þess í stað við að sinna tölvupósti sínum.  Ég bíð í nokkrar sekúndur eftir viðbrögðum, gefst loks upp og sný við til að labba út úr herberginu. Við það fást loks viðbrögð hjá honum, hann biður mig að snúa við og útskýra málið aftur, hann var ekki að hlusta almennilega.  Eftir að hafa endurtekið mál mitt segist hann ætla að bera þetta undir ráðherra. 

Þessi sparisjóðsstjóri er ekki sá eini sem hefur takmarkaðar áhyggjur af stöðu mála.  Síðar í vikunni dregur Garðar mig aftur niður á fund með öðrum sparisjóðsstjóra.  Ég fer enn einu sinni yfir stöðu mála og segi enn á ný að ég hafi áhyggjur af því að sparisjóðakerfið í heild stæði á svo veikum grunni að það væri í þann mund að bresta.  Eftir að hafa hlustað á mál mitt lítur sparisjóðsstjórinn á mig eins og ég sé ekki með öllum mjalla.  Hann horfir djúpt í augu mín og segir ákveðið að jafnvel þó að allt sparisjóðakerfið yrði gjaldþrota þá muni sparisjóður „hans“ halda velli.  Að þeim orðum sögðum finn ég að andrúmsloftið sé með þeim hætti að skynsamlegt væri að ég færi af fundinum.  Við töluðumst nokkrum sinnum saman eftir Hrunið en aldrei minntist hann einu á orði á þennan fund.  Það leið um það bil hálft ár frá því að hann sagði að allt væri í himna lagi þangað til að hann bað um neyðaraðstoð frá skattborgurum Íslands, sem hann fékk fyrir „sinn“ sparisjóð, sem nú er í meirihlutaeigu ríkisins.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband