The Big Short - sannar sögur
26.1.2016 | 13:15
Sönn íslensk saga
Einu sinni var íslenskur bankamaður sem hóf störf í banka í byrjun október 2007. Hann hefði starfað þar í 2-3 daga þegar hann var beðinn um að kanna hversu vitræn kaup væru í bandarískum banka. Íslenski bankinn hafði á þeim tímapunkti þegar keypt bréf í bankanum fyrir um það bil 300 milljónir íslenskra króna og stóð til að kaupa auk þess fyrir 700 milljón krónur í viðbót, eða fyrir samtals 1 milljarð króna.
Lítil rannsóknarvinna hafði átt sér stað vegna þessara kaupa önnur en að markaðsvirði bankans var lágt borið saman við innra virði eigin fjár hans (svokallað V/I hlutfall eða á ensku Price/Book ratio). Auk þess hafði ákveðið fjárfestingarfyrirtæki verið að spá í að kaupa hlut í bankanum en hafði af einhverjum ástæðum hætt við kaupin.
Þetta var banki sem sérhæfði sig í fasteignalánum, staðsettur í miðju Flórída fylki. Nokkrum starfsmönnum fannst að frekari rannsókn ætti að eiga sér stað varðandi bankann áður en ráðist yrði í frekari kaup (þ.e. 700 milljón krónur í viðbót). Þeir höfðu einnig áhyggjur af því að fréttir um aukin vanskil fólks af húsnæðislánum í Bandaríkjunum gætu haft neikvæðari áhrif á rekstur bankans en almennt var gert ráð fyrir.
Íslenski bankamaðurinn fór að lesa sér til um stöðu húsnæðismála í Bandaríkjunum og þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að sjá að sá markaðurinn stæði á miklum brauðfótum. Húsnæðisverð hafði hækkað gífurlega, meira en góðu hófi gegndi, sérstaklega í ljósi þess að engin kreppa hafði ríkt á þeim markaði árum saman. Nokkrar vefsíður sjálfstæðra greinenda bentu á að vanskil væru að aukast hratt og til að bæta gráu ofan á svart þá bentu sumir þeirra á að margt væri athugavert við lánveitingar til fólks; margir voru að fá húsnæðislán að því marki að vonlaust væri til lengdar að fólkið gæti staðið í skilum.
Það vildi þannig til að íslenski bankamaðurinn þekkti konu vel sem átti heima sunnarlega í næsta fylki við Flórída. Hún tjáði honum að það væru til sölu skilti út um allt í kringum hana og að þeim hefði fjölgað gífurlega síðustu mánuði. Annað símtal við verðbréfamiðlara sem átti heima í Florída jók áhyggjur íslenska bankamannsins. Verðbréfamiðlarinn sagði að fasteignir sem fyrr á árinu hefði verið veðsettar á $600.000 hefði verið nýlega seldar á uppboði á $300.000. Íslenski bankamaðurinn sá að mikið fasteignahrun væri í aðsigi; stormur væri á leiðinni en fólk sæi hann ekki ennþá. Hann hafði jafnframt áhyggjur af því að svipuð staða væri að myndast á Íslandi.
Bankamaðurinn kallaði um það bil tveimur vikum síðar bankastjóra og yfirmann fjárstýringar bankans á sinn fund. Hann sagðist hafa rannsakað stöðuna og taldi það jafnvel ekki óhugsanlegt að þessi banki í Flórída yrði orðinn gjaldþrota eftir 12 mánuði. Þetta orðaði hann varfærnislega því á þeim tímapunkti gat slík yfirlýsing haft afar neikvæð áhrif á stöðu hans innan bankans. Þegar að hann hélt áfram að koma fram með rök um slíkar áhyggjur stóð bankastjórinn á fætur og sagði eitthvað á þá leið að hann sæi alveg að búið væri að rannsaka málið og því mætti hætta við kaupin og jafnvel selja þau bréf sem þá þegar hefðu verið keypt. Að því búnu gekk hann í burtu.
Þessi ákvörðun reyndist farsæl. Bréfin sem búið var að kaupa voru seld með um það bil 100 milljón króna tapi. Ári síðar voru þau orðin verðlaus og kröfuhafar bankans áttu því aðgang að 900 milljón krónum meira en ella.
The Big Short
Ofangreind saga rifjaðist upp þegar ég sá myndina The Big Short sem var frumsýnd hérlendis um daginn á sérstakri forsýningu VÍB. Sagan er byggð á samnefndri bók Michael Lewis sem er að mínu mati meðal bestu bóka sem skrifaðar hafa verið um fjármál. Myndin fjallar um nokkra einstaklinga sem áttuðu sig á því að húsnæðisbóla væri að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Þeir tóku því stórar stöður á móti verðbréfum tengdum afurðum tengdum húsnæðislánum (skortstöður eða á ensku short selling). Ólíkt íslenska bankamanninum þá þurftu þeir að sæta gagnrýni hjá flestum samstarfsfélögum sínum og var jafnvel hlegið að fávisku þeirra. Reyndi svo mikið á þá að margir þeirra uppskáru litla gleði, jafnvel biturleika, eftir að hafa þénað jafn mikið á raun bar vitni á þessum stöðutökum.
Myndin fylgir bók Lewis í flestum atriðum vel eftir. Ég minnist þess ekki að neinu hafi verið bætt við til að gera söguna áhugaverðari, enda ekki þörf á því. Helsta breytingin er að Lewis fjallar meira um eina sögu í einu á meðan að myndin fylgir tímaröð eftir til að halda flæðinu fyrir áhorfendur. Það er áhugavert hversu þekktir leikarar leika í þessari mynd, sem fær örugglega takmarkaða aðsókn, auk þess tel ég að Christian Bale ætti að fá Óskarsverðlaun fyrir sinn leik.
Ég mæli hiklaust með þessari mynd.
MWM
ps. Ég hef heyrt því hvíslað að næsta húsnæðisbóla sem springur verði í Noregi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 29.1.2016 kl. 09:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning