Einstök "Trend"

Snemma á þessu ári mættu þrír álitsgjafar í viðtal á innlendri útvarpsstöð til að tjá sig um helstu bókmenntaverk Íslands árið áður. Þeir, ásamt tveimur spyrlum, fjölluðu mikið um þróunina á vettvangi íslenskra bókmennta og töluðu allir fimm aðilar stöðugt um nýjustu trend í þeim efnum. Svipuð þróun er að eiga sér stað hjá yngri kynslóðinni. Krakkar tala orðið um að hlutir ívolvist (enska: Evolve) í stað þess að þeir þróist.

Oft stærum við Íslendingar okkur af því hversu einstök þjóð við erum enda má sjá fyrirtæki í ferðaþjónustu auglýsa grimmt hin svokölluðu íslensku sérkenni í markaðssetningu sinni. Áherslan á tungumál okkur virðist þó ekki skipta eins miklu máli og áður. Í dag sjá auglýsendur oft ekki ástæðu til þess að nota innlend heiti og auglýsa þess í stað Halloween (hrekkjavöku) vörur og Black Friday (svarta föstudags) tilboð. Notkun erlendra orða er orðin það sjálfsögð hérlendis að sölumaður í raftækjaverslun hváði um daginn þegar að sonur minn spurði hvernig hægt væri að vista gögn í tæki sem hann seldi, enda hafði hann ekki heyrt neitt annað hugtak en seifa (enska: Save) í fjöldamörg ár.

Mitt í þessari auknu notkun erlends máls er bjórinn Einstök í töluverðri markaðssókn á erlendri grundu. Í dag flytur Einstök út um það bil 2/3 af öllu útfluttu íslensku áfengi. Bjórinn er bruggaður af Vífilfelli á Akureyri en Einstök vörumerkið og fyrirtækið er hins vegar í eigu Bandaríkjamanna. Erlendir aðilar átta sig á hversu verðmæt íslensk séreinkenni eru þegar kemur að tungumálinu, jafnvel vara sem tengist ekki ferðaþjónustu.

Það er óþarfi að nota erlendar slettur þegar töluð er íslenska. Það felast verðmæti í tungumáli okkar. Einstök ölgerðin styður þá fullyrðingu bæði frá markaðs- og fjármálalegu sjónarmiði.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband