Viltu frían sparnað?
1.9.2014 | 11:15
Fólk leggur töluvert mikið á sig til að fá eitthvað frítt. Þetta er alþekkt á meðal markaðsfræðinga. Þeir vita að fólk er töluvert viljugra til að þiggja hluti sem fást ókeypis heldur en að fá í raun meira en leggja meira á sig í formi vinnu eða í formi peningagreiðslna. Þetta skýrir að sumu leyti af hverju oft sé augljóst að ef þú kaupir til dæmis tvo hluti þá fáir þú þriðja hlutinn ókeypis. Hversu oft er auglýst að það fáist 33% afsláttur ef þrír hlutir eru keyptir? Niðurstaðan er sú sama en seinni framsetningin virkar síður, enda er hvergi talað um að fólk fái eitthvað frítt.
Dæmi um þetta er Amazon netverslunin í Frakklandi. Lengi vel auglýsti fyrirtækið að ef fólk væri tilbúið til að láta senda sér vörur í pósti sem gæti tekið langri tíma en hraðsendingu þá var sendingarkostnaður aðeins u.þ.b. 20 íslenskar krónur. Þegar fyrirtækið breytti þessu og auglýsti fría heimsendingarþjónustu, sem hafði vart nokkur áhrif á heildarreikninginn, þá margfölduðust pantanir í slíku formi.
Helsta útskýringin fyrir þessu er að fólk er að taka enga áhættu. Þú tapar engu með því að fá eitthvað frítt. Ef þú leggur út hins vegar eitthvað, eins og 20 kall, þá er það orðin áhætta.
Íslenskur sparnaður
Í dag er seinasti dagur til að sækja um leiðréttingu/niðurfærslu lána - sjá www.leidretting.is. Margir hafa sótt um leiðréttingu fasteignalána (hún er frí) en aðeins brot af því fólki hefur sótt um að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða upp fasteignalán sín. Sú leið er ekki frí en getur í mörgum tilvikum skipt miklu máli. Rétt er að taka það fram að þetta sparnaðarform getur verið óhentugt fyrir fólk sem er í greiðsluaðlögun. Einnig geta verið aðrar góðar ástæður fyrir því að fólk taki ekki þátt í slíkum sparnaði. Fyrir flesta sem skulda í húsnæði sínu þá er þetta aftur á móti besta sparnaðarform sem völ er á í dag.
Hjón geta með þessu sparnaðarformi greitt niður fasteignalán sín upp að 2,25 milljónum króna á þremur árum. Væri þessi upphæð lögð inn í venjulegt sparnaðarform þá er sú upphæð auk ávöxtunar hennar þegar að hún er tekin út skattlögð sem tekjuskattur. Það er auðvitað óvíst hver sú prósenta yrði en líklegt er að hún verði fyrir flesta í kringum 30-45%. Ef við gefum okkur það að sú prósenta verði 40% þá er það 900 þúsund krónur (40% af 2,25 milljónum króna) sem nýtast skattfrjálst til að greiða niður húsnæðisskuldir.
Þegar að fólk fer á ellilaunaaldur þá er minna eftir í séreignasjóði þess ef það hefur lagt til hliðar pening í séreign. Sú upphæð væri þó (hér lít ég ekki til ávöxtunar á tímabilinu) u.þ.b. 1,35 milljón krónur samkvæmt ofangreindum forsendum. Fólk skuldar þá aftur á móti 2,25 milljón króna (hér lít ég ekki til sparnaðar vaxta á tímabilinu) minna í húsnæði sínu. Þetta er ekki frír sparnaður en hann skiptir líklega í mörgum tilvikum ekki síður máli en leiðrétting fasteignalána.
Það er síðasti dagur í dag að hefja slíkan sparnað sem hæfist afturvirkt 1.7 þessa árs. Þetta er ekki frír sparnaður en ég mæli með að fólk athugi þennan kost sem fyrst. Ég ítreka, það eru tilvik þar sem þetta sparnaðarform hentar ekki.
MWM
Viðbót: Þeir einstaklingar sem eiga ekki íbúð (hópur sem þetta er að miklu leyti hugsað fyrir) sækja ekki um fyrr en gengið er frá íbúðarkaupum (hafa til júní 2019 til þess að gera það) en þeir einstaklingar sem eiga fasteign geta sótt um hvenær sem er til júlí 2017 (þeir missa hins vegar þau iðgjöld sem koma inn áður en umsókn berst).
Dæmi um tilvik þar sem þetta sparnaðarform hentar ekki er komið í athugasemd við þessa grein.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning