Skuldaniðurfelling húsnæðislána - séreignarsparnaður
25.11.2013 | 03:08
Tilkynnt var um helgina að blönduð leið yrði notuð við skuldaniðurfellingar. Þýðir það í stuttu máli að bæði eru beinar skuldaniðurfellingar í farvatninu og auk þess verður hægt að grynnka á húsnæðislánum í gegnum skattakerfið.
Þetta tel ég vera góðar fréttir. Hef ég áður fjallað um það í pistlum mínum að tillögur Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda síðustu kosninga um að veita fólki allt að 40 þúsund krónur mánaðarlega í skattaafslátt vegna afborganna af höfuðstól húsnæðislána væru hvetjandi til að auka sparnað. Einnig lagði Sjálfstæðisflokkurinn til að hægt væri að nota framlag fólks og vinnuveitenda þeirra í séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána. Það tel ég vera óvitlausa sparnaðarleið fyrir þá sem ekki eru með sparnað sinn bundinn í langtímasamningum eins og hjá sumum tryggingarfélögum.
Það væri í raun hægt að bæta við þeim möguleika að hægt verði að greiða vexti og verðbætur af húsnæðislánum með séreignarsparnað. Þannig myndar fólk enn hraðari eignarmyndun í húsnæði sínu þannig að afborganir lána þegar það kemst á eftirlaun eru lægri. Þau rök að séreignarsparnaður sem fer í niðurgreiðslur verði högg á lífeyriskerfið ættu ekki við þar sem að slíkur sparnaður gerðist smám saman. Því til viðbótar tengist umræða um gjaldeyrishöft leiði til bólu í fjárfestingum innanlands þessari tilhögun því slíkar heimildir gera það að verkum að bóluþrýstingur minnkar og dregur jafnvel úr honum þar sem að fjármagn í umferð minnkar með uppgreiðslu skulda.
Auk þess er niðurgreiðsla húsnæðislána ein af bestu fjárfestingarkostum sem völ er á í dag og því eðlilegt að fólk hafi aðgang að slíkum fjárfestingarkosti eins og öðrum. Flestir sem eru með húsnæðislán borga 3,5% raunvexti eða meira ("takk" síðustu ríkisstjórnir fyrir að hafa ekki breytt lögum um lágmarksávöxtun lífeyrissjóða, sem er hvort er eð gjörsamlega óraunhæf). Sé til að mynda horft til langtímaávöxtunar bandarískra hlutabréfa þá getur hver einstaklingur ekki gert ráð fyrir slíka ávöxtun í framtíðinni með því að setja allt sitt í einungis hlutabréf með óstöðuga ávöxtun.
Hægt er að koma með þau rök að fái fólk að nota séreign sína þá taki það einungis lán á móti veðum húsnæðis (sem hefur hraðað eignamyndun með niðurgreiðslum í gegnum séreignarsparnað). Líklegt er að slíkt gerist í sumum tilvikum. Á móti er hægt að koma með þau rök að fólk í það minnsta ætti að gera sér betur grein fyrir því að verið sé að taka lán á móti veði. Það hefur nefnilega verið sýnt fram á það að reglubundin sparnaður hefur skapað brenglaða sýn hjá fólki sem telur sig hafa meiri varasjóð en það í raun hefur og skuldsettur sig þeim mun meira. Hefur Robert Shiller, nýverðlaunaður Nóbels-hafi, bent á þetta í skrifum sínum og einnig hefur Ásgeir Daníelsson skrifað um þetta.
Ég vitna (aftur) í orð Guðlaugs Þórs Þórðarson, sem skrifaði fyrir rúmu ári síðan þetta:
"Ég legg því til að fólki verði gert heimilt að nýta séreignasparnaðinn sinn til að lækka húsnæðisskuldir. Bæði með því að nýta þá inneign sem að það á og einnig með því að greiða inn á höfuðstól lánanna næstu fimm árin í gegnum séreignasparnaðar fyrirkomulagið, þ.e. nýta bæði eigin framlag og framlag launagreiðanda, ásamt skattspörun til þess að lækka höfuðstól lána og þannig vaxtakostnað á komandi árum.
Hverjir eru kostirnir?
1. Þetta léttir líf þeirra fjölskyldna sem að skulda og eiga inneign í séreign eða eru að borga í séreign.
2. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna minnkar þar sem að eignir þeirra eru nýttar til að greiða niður skuldir viðkomandi sjóðfélaga. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er mikið vandamál þegar að þeir geta ekki fjárfest í útlöndum og það býður heim hættunni á eignabólumyndun.
3. Þetta minnkar bankakerfið. Útlánasafnið minnkar sem og eignir þeirra. Að sama skapi fækkar viðskiptavinum í fjárhagsvanda.
4. Hér er leið ráðdeildar og sparnaðar nýtt til að greiða úr skuldavandanum.
5. Leiðin felur ekki í sér mismunum á milli einstaklinga, nema að í leiðinni sé skattahvati það er að segja að tekjuskattsprósentan sem tekin væri af útgreiðslunni væri lægri en almennu skattprósenturnar. Það getur verið réttlætanlegt að hafa lága prósentu til að hjálpa fólki að greiða niður skuldir sínar.
6. Þessi leið myndi auka verulega skatttekjur ríkissjóðs sem nýta mætti til skattalækkunar eða niðurgreiðslu skulda.
7. Þessi leið myndi styrkja lífeyrissjóðakerfið þar sem fleiri myndu nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið.
8. Enginn kostnaður lendir á skattgreiðendum.
9. Lægri skuldir heimila hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið."
Ég gæti ekki orðað þetta betur, nema kannski 6. lið en skatttekjur ríkissjóðs eiga ekki að aukast mikið við þetta í samræmi við ofangreindar tillögur, en þessi orð voru rituð áður en tal um skuldaniðurfellingar urðu almenn.
Ég vona því að í tillögum á skuldaniðurfellingum lána verði auk þess í blönduðu leiðinni þrír kostir í boði:
1. Skattaafsláttur vegna afborgana af íbúðalánum allt að 40 þúsund á mánuði.
2. Hægt verði að nota framlag fólks og vinnuveitenda þess til að greiða skattfrjálst niður höfuðstól lána.
3. Fólki verði kleif að nota séreign sína til greiðslu vaxta og verðbóta húsnæðislána. Þannig eykur það eignarmyndun sína enn hraðar í húsnæði sínu sem veitir því hugsanlega bestu ávöxtun sem völ er á.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 28.11.2013 kl. 09:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning