Danmörk og Ísland - að læra af reynslunni
8.11.2013 | 08:55
Jesper Rangvid hélt fyrirlestur í Seðlabankanum í gær varðandi nokkurs konar Rannsóknarskýrslu Dana varðandi hrunið 2008. Var hún birt í síðasta mánuði. Skýrslan einblíndi fyrst og fremst á fjármálalega og efnahagslega þætti í tengslum við hrunið, sáralítið annað var athugað í henni. Rangvid stýrði gerð skýrslunnar og er hún almennt nefnd Rangvid skýrslan.
Eitt af því sem fram kom í fyrirlestrinum var að Danir virtust vera almennt í miðjunni samanborið við önnur lönd varðandi áhættusækni í fjármálum. Rangvid sýndi nokkrar myndir þessu til stuðnings, meðal annars raunhækkun húsnæðis, aukningu nettó lána í þjóðfélaginu og svo niðursveifluna sem átti sér stað í kjölfar fjármálakrísuna árið 2008.
Ég var undrandi að sjá að Danir hefðu ekki verið meðal varkárari þjóða því að þeir höfðu lent í slæmri bankakrísu í upphafi tíunda áratugarins. Auk þess lentu nágranna- og frændþjóðir þeirra, Svíþjóð og Finnland (og að einhverju leyti einnig Noregur) í enn verri krísu, sem Reinhart og Rogoff hafa skilgreint sem eina af hinum 5 stórum frá seinni heimsstyrjöldinni (fram að 2008 krísunni). Spurði ég Rangvid hvernig stæði á þessu.
Rangvid hafði einnig velt þessu fyrir sér. Hann taldi að þar sem að Danir höfðu ekki lent í jafn alvarlegri krísu og Svíar og Finnar tæpum 20 árum fyrr þá hefðu þeir ekki orðið fyrir jafn slæmum áhrifum og lærdómurinn virðist hafa því verið minni en hjá frændþjóðunum, sem virðast hafa sloppið að mestu leyti frá bankakrísunni 2008 þó að efnahagur allra þjóða hafi orðið fyrir samdrætti vegna alþjóðlegra áhrifa.
Þessi skoðun Rangvid, byggð á niðurstöðum skýrslunnar, er í takti við þá niðurstöðu (eða spurningum) sem fram koma í grein sem ég og Þröstur Olaf Sigurjónsson í HR skrifuðum varðandi samanburðarrannsókn okkar á íslenskt fjármálalíf og á norðurlöndunum í undanfara fjármálahrunsins 2008 hérlendis og 1990 hjá frændþjóðum okkar. Við undruðumst að Ísland hefði ekki lært meira af reynslu nágranna- og frændþjóða okkar, sem var þó nýleg. Ísland gekk auk þess sjálft í gegnum mikla bankakrísu á sama tíma, það er í upphafi tíunda áratugarins. Áhrifin virðast þó ekki hafa verið "nægjanlega" langvinn til að lærdómur hafi verið dreginn af þeirri reynslu.
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Bandaríkjamenn voru lengi vel mjög áhættufælnir í fjárfestingum og voru hlutabréf til að mynda gróflega vanmetin gagnvart skuldabréfum í nokkra áratugi í framhaldi af Kreppunni miklu 1930-1933. Þeir Svíar sem ég hef unnið með varðandi fjárfestingar eru stöðugt að minnast á kreppuna fyrir rúmum tveimur áratugum síðan þegar fjallað er um fjárfestingar.
Vonandi læra Íslendingar varanlega (að einhverju leyti) eitthvað af fjármálakrísunni 2008. Tíminn einn leiðir slíkt í ljós. Á sama tíma má slíkur lærdómur ekki draga úr vilja fólks að dreifa ekki fjárfestingum, eins og gerðist í Bandaríkjunum. Rangvid benti á í niðurstöðum að agi þyrfti stöðugt að vera til staðar, sérstaklega á góðum tímum þegar að vel gengur. Slíkur agi má hins vegar ekki draga úr krafti atvinnulífsins eins og sumir óttast að sé að eiga sér stað hérlendis.
Hér er tengill að grein okkar Þrastar sem birtist í Tímarit um viðskipti og efnahagsmál. Í henni sést að Íslendingar voru langt frá því að vera í einhverri miðju þegar kom að fjármálagjörningum.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 13.11.2013 kl. 08:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning