Íslandsbanki í eigu erlendra fjárfesta

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag hefur hópur erlendra fjárfesta frá Asíu áhuga á því að kaupa 95% hlut kröfuhafa í Íslandsbanka.

Íslandsbanki var stofnaður árið 1904. Þrátt fyrir nafngiftina, sem hugsanlega gefur í skyn að þetta hafi verið banki fyrir innlenda lánafyrirgreiðslu, þá var hann fjármagnaður af dönskum fjárfestum og var hann jafnframt fyrsti vísirinn að fjármálastarfsemi með alþjóðlegu ívafi.

Þróun íslensk bankakerfis byrjaði tiltölulega seint miðað við önnur evrópsk ríki. Það var ekki fyrr en á þúsund ára afmæli landsfundar árið 1874 að Íslendingar fengu fjárforræði með stjórnarskránni. Fjármálakerfið hélst þó staðbundið og takmarkaðist við nokkra litla sparisjóði og í raun kaupmenn í dreifbýlum. Landsbanki Íslands var stofnsettur af ríkisstjórninni árið 1885. Nafnið endurspeglaði tilgangi þess, það er að vera blanda af hefðbundnum banka og seðlabanka, sem með leyfi ríkisstjórnar mátti prenta takmarkað magn peninga tryggðum af ríkinu. Íslendingar höfðu þó varhug gagnvart peningum en þó jókst notkun þeirra smám saman á síðari hluta 19. aldar þar sem að þörfin fyrir notkun fjármagns og krafan um sjálfstæði jókst.

Stofnun Íslandsbanka var eins og vítamínssprauta í íslenskt efnahagslíf. Fram að því hafði fjármagnshungur heftað íslenskt atvinnulíf en með tilkomu Íslandsbanka fóru bankarnir tveir í harða samkeppni og var haft eftir Sveini Björnssyni að "peningarnir voru svo að segja boðnir út". Samhliða þessum jákvæðu hliðum jókst einnig áhættan í atvinnulífinu.

Íslandsbanki varð gjaldþrota (í fyrsta sinn) árið 1930 og töpuðu erlendir fjárfestar töluverðum upphæðum (hið sama gerðist síðan 78 árum síðar, en hann hét þá reyndar á þeim einstaka tímapunkti Glitnir).

Það sem að erlent fjármagn og þekking gerði var hins vegar það að hér jókst hagur atvinnulífsins. Svipuð rök áttu sér stað fyrir um það bil 15 árum síðan þegar sala ríkisbankanna var á dagskrá. Voru til dæmis fulltrúar SEB bankans boðnir til Íslands en ekkert varð af kaupum af hálfu þess banka. Í því sambandi var mikið rætt um að aðkoma erlendra fjárfesta myndi skapa heilbrigða samkeppni á íslenskum fjármagnsmarkaði, tengja landið betur við erlenda markaði og nýta þekkingu frá alþjóðlegum mörkuðum. Slík rök eiga enn við í dag.

Þar sem að erlent fjármagn hefur sögulega verið umdeilt á Íslandi er líklegt að sama sagan verði ef ske kynni að Íslandsbanki verði á nýjan leik í eigu erlendra fjárfesta. Það er örugglega hægt að benda á ókosti varðandi slíkt eignarhald. Það eru, hins vegar, einnig ótvíræðir kostir við að fá erlent eignarhald inn í íslenskt fjármálallíf.

MWM

Hægt er að lesa sig betur til um sögulega þróun íslensks fjármálakerfis í bókinni Rætur Íslandsbanka, ritstýrð af Eggerti Þór Bernharðssyni. Ég studdist í þessum pistli við kaflann Myndun fjármálakerfis á Íslandi eftir Guðmund Jónsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband