Á ekki að aðskilja bankanna?

Eitt af því sem hefur einna mest verið í umræðu fjármála í kjölfar Hrunsins haustið 2008 er mikilvægi þess að aðskilja almenna viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Viðskiptabankar stunda það sem flestir skilja sem almenna bankaþjónustu, það er að taka á móti fjármagni og nýtta það við að lána til bæði skemmri og lengri tíma (já, þetta er svolítil einföldun).
Þar sem að slík starfsemi er þjóðfélaginu nauðsynlegt við að halda efnahagslífinu gangandi er eðlilegt að ríkið tryggi innstæður í slíkum bönkum (þetta var lærdómur dreginn af bankakreppunni í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar og einnig að hluta til bankahrunsins árið 1907 í Bandaríkjunum).
Hefðu bankainnstæður til dæmis ekki verið með ríkisábyrgð haustið 2008 hefðu fjármálastjórar allra íslenskra fyrirtækja tekið út allar innstæður sem þeir gátu úr bönkunum og íslenskt efnahagslíf hefði lamast með slíkum hætti að það sem gekk á hefði verið barnaleikur einn í slíkum samanburði.

Fjárfestingarbankar eru aftur á móti bankar sem fjármagna verkefni og fjárfesta jafnvel sjálfir í slíkum verkefnum. Eigendur slíkra banka græða mikið þegar að vel gengur en taka á sig tap þegar á móti blæs. Það er engin ástæða fyrir því að eigendur slíkra banka fái innstæðutryggingu frekar en að ríkið ábyrgist skipaflota Eimskips eða kvóta sjávarfyrirtækja, svo dæmi séu tekin.

Því er rétt að aðskilja slíka starfsemi sem allra fyrst. Tillaga til þingsályktunar - http://www.althingi.is/altext/140/s/1010.html - kom um málið fyrir töluvert löngu síðan en málið virðist hafa dagað uppi.

Ein af helstum rökunum fyrir því að ekki eigi að gera þetta á Íslandi er að lítill áhugi sé fyrir slíku erlendis. Það er alls ekki rétt. Þingmenn í Bretlandi eru til dæmis að kalla eftir því að slík lög verði sett í gildi - http://www.ft.com/intl/cms/s/0/57e63c4e-4f72-11e2-a744-00144feab49a.html#axzz2NK6rFDXm - og fækkar röddum um að nóg sé að mynda múra innan banka í þessu sambandi.

MWM

Að neðan er grein sem ég skrifaði um þetta skömmu eftir hrun og birtist í Morgunblaðinu. Hún hefur staðist tímans tönn og endurbirti ég því hana.

Aðskilnaður fjármálaþjónustu


    Hrun fjármálakerfisins í dag sem er að eiga sér stað á alþjóðavísu er ekki ósvipað hruninu í kreppunni miklu sem hófst árið 1930. Verið er að þjóðnýta banka víðsvegar í heiminum með beinum og óbeinum hætti. Þrátt fyrir slíkar aðgerðir er vantraust meðal almennings til þeirra það mikið að það hefði þótt vera óhugsandi fyrir einungis nokkrum mánuðum.
    Eins og í kreppunni miklu hafa margir sem lögðu fé sitt í banka í þeirri góðu trú að þar væri það öruggt einnig tapað miklum fjármunum. Árið 1933 voru lög, sem almennt er vitnað í sem Glass-Steagall Act, samþykkt í Bandaríkjunum sem kváðu um aðskilnað í fjármálaþjónustu á fjárfestingarbankastarfsemi og hefðbundinni bankaþjónustu.
    Þessi lög stóðu í 66 ár en voru afnumin árið 1999. Þau þóttu þá vera gamaldags enda töldu menn sig orðið vita mun betur hvernig stýra ætti hagkerfum og áhættustýringu innan banka. Þetta er að mínu mati ein af helstu orsökum þess að margir bankar heims fóru offörum í starfsemi sinni með þeirri afleiðingu að þeir eru í dag tæknilega gjaldþrota.
    Hægt er að benda á nokkra aðra þætti svo sem mikinn samdrátt í efnahagslífinu, flata vaxtakúrfu í Bandaríkjunum síðustu ár (sem „neyðir“ fjármálafyrirtæki til að taka meiri áhættu í stað hefðbundinna lána) og blöndu af óskynsamlegri vaxta- og hagstefnu. Sé rýnt í sögubækur fjármálafræðinnar er aftur á móti ljóst að helsti orsakavaldur slíkra hamfara sem nú ganga yfir er auðvelt aðgengi að fé og misnotkun á slíku aðgengi. Fyrst í stað liðkar auðvelt aðgengi að fjármagni fyrir einstaklingum og fyrirtækjum til framkvæmda.
    Sé slík stefna hins vegar of lengi látin viðgangast er það oftast ávísun á harða lendingu. Með því að opna dyrnar á að sameina hefðbundna bankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi voru innlán, sem í áratugi var að mestu varið í hefðbundin útlán, sett í að fjármagna miklu flóknari og áhættumeiri verkefni. Augljóst er að fjármálaeftirlit heimsins höfðu ekki bolmagn til að fylgjast með og bregðast við þessari þróun. Rétt er að benda á að sú þróun átti sér stað á afar fáum árum og aðlögunartímabilið því nánast ekkert frá því að blanda fjárfestinga- og hefðbundinnar bankastarfsemi hófst og þar til ljóst varð að í óefni væri komið.

Aftur til 1999
    Nú þarf aftur að aðskilja rekstur fjármálastofnana; það er ekki eftir neinu að bíða. Bankar sem sinna einstaklingsþjónustu eiga að njóta ríkisábyrgðar. Þeirra hlutverk er fyrst og fremst að þjónusta einstaklinga landsins og smærri fyrirtæki. Fjárfestingarbankar, sem einblína á stóra lánapakka og fjárfestingar, eiga ekki að njóta hennar. Fjárfestar sem að koma með fé í slík verkefni bera einir sér ábyrgð á nauðsynlegu aðhaldi í rekstri þeirra. Slík endurskipulagning eykur gegnsæi og einfaldleika í rekstri aðskilinnar fjármálaþjónustu. Útlánatöp bankanna snúa fyrst og fremst að lánum til stórra fyrirtækja og áhættufjárfestingum, sem þýðir að erfitt er að átta sig á nettóeign bankanna og gerir þetta endurreisn þeirra erfiðari fyrir vikið. Með þessu næst á nýjan leik nauðsynlegt traust almennings gagnvart bönkum. Með auknu trausti innstæðueigenda lækkar ávöxtunarkrafan sem þeir gera til fjármagns síns í bönkunum (hún væri miklu hærri í dag ef ríkisábyrgð væri ekki ótakmörkuð). Lækkun ávöxtunarkröfunnar veitti svigrúm til vaxtalækkana og væri þannig fyrsta jákvæða skrefið í langan tíma. Slíkir bankar væru í þjóðareign og ríkisafskipti takmörkuð við slíkar fjármálastofnanir.

Fjárfestingarbankar
    Ólíkt tillögum samræmingarnefndar undir forystu Mats Josefsson varðandi stofnun eignarhaldsfélags í eigu ríkisins yrði nýr fjárfestingarbanki stofnaður. Slíkur banki ætti aftur á móti að fara sem fyrst úr ríkiseigu og verða settur í hendur fjárfesta. Hlutafé væri gefið út fyrir hönd bankans sem sneri fyrst og fremst að rekstri þess. Fjárfestingarverkefni innan bankans væru fjármögnuð sjálfstætt með tilliti til atvinnugreina og jafnvel einstakra verkefna. Skilgreining á hlutverki bankans er einföld, arðsemissjónarmið ráða för. Pólitísk afskipti verða alltaf hluti af slíkri starfsemi, en með þessu móti væru þau eins takmörkuð og unnt er í smáu þjóðfélagi sem Ísland er.
    Það er raunar líklegt að slíkur rekstur verði í framtíðinni meira í formi sjálfstæðra eignarhaldsfélaga sem skilgreina sig sem fjárfestingarbanka. Ofangreinda hugmynd um fjárfestingarbanka má útleiða með þeim hætti að þau fyrirtæki sem héldu velli einungis vegna þjóðfélagslegs ábata væru þar áfram inni, þau félög sem hefðu framtíð fyrir sér frá fjárfestingarsjónarmiði einu færu í sjálfstæð fjárfestingarfélög. Slík félög sérhæfa sig á ýmsum sviðum og veita nauðsynlegt aðhald í fjárfestingum innan þeirra raða.

Breytt mynd óhjákvæmileg
    Í framhaldi af þeim umskiptum sem átt hafa sér stað í fjármálaheiminum undanfarna mánuði er óhjákvæmilegt að mikil endurskipulagning sé framundan. Ísland hefur tekið mestu dýfuna niður á við. Við höfum aftur á móti bestu tækifærin til að umbylta kerfinu með skynsamlegum hætti. Látum tækifærið ekki renna úr höndum okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband