Made in Organic Iceland

Eitt af því sem flestir sem fara í matvælabúðir í Bandaríkjunum taka fljótt eftir er hversu mikill verðmunur er á matvæli sem eru erfðabreytt með einhverjum hætti og þeirra sem eru það ekki, almennt nefnd lífræn matvæli eða organic á enskri vísu. Mínar óformlegu athuganir benda til þess að matvæli, hvort sem verið er að ræða mjólk, kjöt eða aðrar tegundir þeirra eru um það bil tvöfalt dýrari ef þau eru lífræn.

Það er góð ástæða fyrir þessu. Erfðabreytt matvæli eru í mörgum tilvikum drasl matvæli sem fólk einfaldlega ætti ekki að borða. Þessu hefur verið lýst vel í nokkrum heimildarþáttum- og myndum, til að mynda Food Inc. (sumt í þeirri mynd er hreinlega ekki fyrir viðkvæma - http://www.youtube.com/watch?v=lD-bZkb0Aws) og SuperSize Me (http://www.youtube.com/watch?v=HDqqiWhXAFE&feature=fvwrel). Auk þess eru áhrif slíkra matvæla alls ekki ljós í dag, en ég hef ekki enn séð góð rök fyrir því að erfðabreytt matvæli séu óskaðleg. Segja má að verið sé að framkvæma stærstu rannsókn allra tíma með erfðabreyttum matvælum og eitri tengt iðnaðinum þar sem að stór hluti heimsins er þátttakandi, hvort sem fólki líkar betur eða verr.

Nýlega var birt skýrsla sem valdið hefur fjaðrafoki. Niðurstöður rannsóknarinnar sýnir fram á alvarleg eitrunaráhrif erfðabreytts maíss og illgresiseyðisins, Roundup, sem er seldur í öllum helstu garðyrkjuverslunum á Íslandi. Oddný Anna Björnsdóttir fjallar ítarlega um niðurstöðurnar hérna - http://www.mbl.is/smartland/pistlar/oddnyanna/1258458/.  (Viðbót 25.9 - Ég veit ekki hversu áreiðanleg þessi rannsókn er; hvort sem að niðurstöður halda vatni eða ekki skiptir ekki öllu máli enda er þessi rannsókn ekki meginefni þessarar greinar heldur að vekja athygli á þessu máli því að ég tel að þörf sé á umræðunni - að gera ekkert er ákveðið val)

Ó, fögur er vor fósturjörð

Nú hefur milljónum verið varið í að kynna hreinleika Íslands. Hefur þessi herferð, byggð á traustum grunni, tekist með þeim árangri að hingað flykkjast erlendir ferðamenn. Allir sem hafa farið í Flugleiðavél undanfarin ár sjá að verið er að selja túristum varning sem tengist meira og minna hreinleika náttúruauðlinda landsins. Líklegt er að helstu tækifæri útflutnings næstu ára tengist slíkum hreinleika.

Einhverra hluta vegna virðist þessi umræða ekki ná upp á pallborðið varðandi innlend matvæli. Þetta er ekki alveg rétt, umræðan hefur verið undir yfirborðinu en hefur litlu skilað. Að mínu mati ætti að banna hérlendis erfðabreytingar í matvælum (hvort sem er ræktun, korn eða annarra nota) og styrkja þann grunn búið er að byggja varðandi ímynd Íslands.

Auk þess, ef horft er til lengri tíma, á eftirspurn eftir alvöru matvælum einungis eftir að aukast. Ísland gæti verið í lykilstöðu að vera leiðandi í framleiðslu slíkra gæðamatvæla. Af hverju viljum við framleiða vörur sem kosta $1 þegar að við getum hæglega fengið $2 fyrir þær með því einu að hafa "Made in Iceland" skrifað á þær, sem jafngildir ákveðinn gæðastimpil um hreinleika sem fæli í sér lífræna vöru. Þetta myndi samhliða því styrkja ímynd sjávarafurða landsins.

Þessi umræða takmarkast ekki lengur við vísindatímarit og einhverskonar hippamenningu. Wall Street Journal fjallar um þessa rannsókn en þar kemur fram að þarlend stjórnvöld íhugi að banna innflutning á erfðabreyttum maís ef þessar niðurstöður eru staðfestar - http://www.economywatch.com/in-the-news/french-government-to-review-study-linking-monsanto-corn-and-cancer.21-09.html. Þessi þróun á einungis eftir að aukast sem gerir aðgreiningu enn nauðsynlegri.

Hvað viljum við?

Þetta er ekki einungis spurning um ímynd heldur almenn lífsgæði okkar Íslendinga. Sjálfur reyni ég alltaf að kaupa íslenskar afurðir í stað erlendra þegar kemur að matarinnkaupum. Af hverju kaupa Íslendingar grænmeti frá til dæmis Spáni þar sem að algjör óvissa ríkir um meðhöndlun þess í stað þess að kaupa innlent grænmeti sem við vitum er meðhöndlað í fínum gróðurhúsum rétt utan bæjarmarka höfuðborgarsvæðisins? Á mínu heimili höfum í þessu sambandi ákveðið að styðja íslenskan matvælaiðnað sem tekur ekki þátt í erfðabreyttum efnum og byrjuðum fyrir nokkru síðan að kaupa Bygga (sem okkur er tjáð að innihaldi ekki erfðabreytt efni) í stað Cheerios.

Gömul og lúinn rök eru að áhersla á lífrænan mat séu gamaldags og lúti ekki að framgangi tækninnar. Ég tel að það ætti að snúa þeim rökum við; það er framsækni að aðgreina sig frá öðrum (til dæmis Apple) og einblína á góðar vörur sem veita lífsgæði.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband