Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Markaðsleiga sambærilegs húsnæðis
2.9.2024 | 09:04
Ný húsaleigulög tóku gildi í byrjun september. Megintilgangur þeirra er að bæta réttindi leigjenda. Þó leysa lögin ekki grundvallarvandann - minnkandi framboð og aukna eftirspurn á leigumarkaði sem veikir stöðu leigjenda. Þessi pistill fjallar um ákveðið álitamál varðandi lagabreytinguna, þótt margt í henni sé jákvætt.
Eitt af því sem gæti virkað illa í uppfærslu þessara laga varðar ákvæði um leiguhækkanir. Nú má ekki lengur hækka leigusamninga sem eru innan 13 mánaða. Þetta eykur fyrirsjáanleika fyrir leigjendur, en gæti leitt til þess að leigusalar setji leiguverð hærra í upphafi til að verjast verðbólgu. Almennt er helsta óvissa leigenda fólgin í því að eftir ákveðið tímabil hækki leigan fyrirvaralaust án nokkura skýringa langt umfram eðlilegri verðlagsþróun, ekki að leigja hækki innan skamms tíma umfram verðbólgu.
Nýju lögin reyna að taka á þessu, en með umdeilanlegum hætti. Eftirfarandi kemur þar fram: Þegar meira en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistöku leigusamnings og umsamin leigufjárhæð íbúðarhúsnæðis eða annars húsnæðis sem leigt er til íbúðar er lægri eða hærri en markaðsleiga sambærilegs húsnæðis, að teknu tilliti til þeirra atriða sem greinir í 2. mgr. 37. gr., getur aðili leigusamnings farið fram á leiðréttingu leigufjárhæðar að allt að markaðsleigu að teknu tilliti til þeirra atriða. ...Komist aðilar ekki að samkomulagi um leiðréttingu leigufjárhæðar skal vísa ágreiningi um leigufjárhæðina til kærunefndar húsamála til úrskurðar svo fljótt sem verða má, sbr. 2. mgr. 85. gr.
í 85. gr. sem vísað er til að ofan kemur fram: Kærunefnd skal láta í té rökstutt álit svo fljótt sem kostur er og jafnan innan tveggja mánaða frá því að erindi barst henni. Ágreiningsefnum verður eigi skotið til annars stjórnvalds. ... Aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
Segja má að með þessu sé kominn ákveðin bremsa varðandi hækkun a leigu. Þessi nálgun er flókin í framkvæmd. Hvernig á að skilgreina "sambærilegt húsnæði"? Líklega þarf að nota leiguvísitölu sem viðmið. Þetta gæti bætt stöðu leigjenda, en einnig leitt til aukinnar flækju sem hvetur smærri leigusala til að hætta útleigu og minnka því þannig framboð enn frekar. Leigjendur eru einnig oft illa í stakk búnir til að mótmæla óeðlilegum hækkunum og veigra sig sjálfssagt í mörgum tilvikum við að koma með mótrök. Augljóslega munu samt koma mörg tilvik upp þar sem tekist verður á varðandi slíkar hækkanir og ljóst er að það verður nóg að gera hjá kærunefnd húsamála eftir nokkrar vikur.
Ég legg til aðra lausn: Að binda bæði leiguhækkanir og verðtryggð lán við húsnæðisvísitölu. Þetta myndi auka fyrirsjáanleika fyrir alla aðila og skapa hvata hjá allri þjóðinni, ekki einungis núverandi eigendur húsnæðis, til að halda húsnæðisverði stöðugu. Slík breyting væri einfaldari og gagnsærri en núverandi fyrirkomulag.
Engin tilnefningarnefnd í augSýn?
12.10.2022 | 14:15
Hluthafafundur Sýnar hf. verður haldinn 20.10.2022. Á vef mbl.is kemur eftirfarandi fram: Boðað er til fundarins eftir að þrír hluthafar, sem eiga rúmlega 10% hlutafjár í félaginu, kröfðust þess að nýr fundur yrði boðaður, en síðasti hluthafafundur fór fram 31. ágúst. Vilja hluthafarnir endurtaka fyrra stjórnarkjör, en með því þarf að binda enda á kjörtímabil stjórnarinnar sem var kjörin í ágúst og svo kjósa nýja stjórn. Semsagt, verið er að reyna að breyta núverandi stjórn, sem er í sjálfu sér ekki nauðsynlega óeðlilegt í ljósi nýlegra breytinga á eignarhaldi.
Þetta er eina tilefni fundarins, enda kemur fram í fundarboði:
Dagskrá fundarins
1. Tillaga um að bundinn verði endir á kjörtímabil sitjandi stjórnar félagsins.
2. Með fyrirvara um að tillaga undir tölulið 1. hér að framan verði samþykkt, fer fram stjórnarkjör.
3. Önnur mál.
Neðar í fundarboði kemur eftirfarandi fram (ég feitletra nokkur orð):
Með fyrirvara um að tillaga samkvæmt 1. tölulið dagskrár verði samþykkt, er auglýst eftir framboðum til stjórnar. Með vísan til þess hve skammur tími er liðinn frá síðasta hluthafafundi þar sem stjórnarkjör var á dagskrá hefur stjórn ákveðið í þetta sinn að víkja til hliðar reglum um Tilnefningarnefnd og að reglur hlutafélagalaga og samþykkta félagsins skuli einar gilda um stjórnarkjörið ef það fer fram.
Með öðrum orðum, nú virðist ekki vera þörf á tilnefningarnefnd af því að nýlega var annar fundur. Þetta finnst mér vera undarlegt. Vekur þetta upp spurningu um hvort að tilnefningarnefnd sé alltaf nauðsynleg eða bara stundum. Einnig spyr ég hvort að stjórn hverju sinni ákveði fyrir hönd hluthafa hvort nauðsyn sé á tilnefningarnefnd eða ekki eða hvort að hluthafar sjálfir þurfi að fara fram á slíkt.
Ég á bágt með að sjá af hverju tilnefningarnefnd skipti síður máli þegar að stutt sé síðan að hluthafafundur var haldinn, sérstaklega í ljósi þess að nú er annar fundur með aðeins eitt markmið; að breyta núverandi stjórn.
MWM
Hækkun leiguverðs rétt að byrja
30.5.2022 | 15:54
Leiguverð hækkaði samkvæmt Þjóðskrá um rúmlega 2% á milli mánaða í Apríl á höfuðborgarsvæðinu. Þetta ætti ekki að koma á óvart. Ólíkt húsnæðisverði þá lækkaði leiguverð mánuðina eftir að Covid-19 skall á. Leiguvísitalan var til dæmis 204,5 í byrjun árs 2020 en aðeins 203,9 í júlí 2021.
Airbnb og þjónusta
Ástæðan er augljós; margar íbúðar sem áður voru á Airbnb skammtímaleigumarkaðinum fóru á almennan leigumarkað þegar að ferðamenn hættu að koma til landsins. Nú, þegar að ferðamenn eru aftur að koma í svipuðum takti og árin 2016-2017 þá fara margar leiguíbúðir aftur á Airbnb markaðinn og framboð fyrir venjulegt fólk á langtímaleigumarkaði fer aftur að minnka.
Auk þess fjölgar eftirspurn nú eftir leiguíbúðum því það þarf að þjónusta ferðamenn og þarf til þess erlent vinnuafl að einhverju leyti; fólk sem þarf sjálft á leiguíbúðum að halda.
Fyrirsjáanlegur raunveruleiki
Í nýlegri grein, Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst, kemur fram að óöryggi fólks á leigumarkaði hjaðnaði lítt við aukið framboð á leiguhúsnæði á Covid tímum. Flestir viðmælendur sem fjölluðu um málið sögðust vita að það væri skammgóður vermir. Slíkt er nú að koma á daginn. Þar sem að húsnæðisverð og leiguverð hefur almennt mikla samfylgni þá er líklegt að leiguverð hækki mikið næstu mánuðina.
MWM
Stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð - allir á leigumarkaði meðtaldir
5.5.2022 | 11:16
Tíð skrif mín um nýtingu séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána var stór liður í því að þáverandi ríkisstjórn kom árið 2014 því í verk að fólk gæti nýtt hluta af séreignarsparnaði sínum í að greiða niður húsnæðislán. Þetta gerði það til dæmis að verkum að fólk gat jafnvel tekið verðtryggð lán en greitt þau niður með svipuðum hraða og um óverðtryggð lán væri að ræða. Eitt af því sem að féll þó á milli þilja var að leigjendur fengu ekki sömu hagstæðu möguleika, þó svo að óbeint fengu sumir þeirra möguleika á því með svokölluðu fyrstu fasteign úrræðinu. Þetta átti hins vegar ekki við um alla.
Nýlegt frumvarp beinir sjónum að möguleikum allra á leigumarkaði að komast af honum og kaupa sitt eigið húsnæði. Ég skrifaði nýlega jákvæða umsögn um frumvarpið sem ég vona að öðlist framgang. Sjá hér að neðan.
Efni: Umsögn um 74. mál á 152. Löggjafarþingi þingskjal 74.
Stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð (stuðningur til öflunar íbúðarhúsnæðis)
Í stuttu máli er lagt til í frumvarpinu að fólki á leigumarkaði sé veitt sömu tækifæri til að kaupa íbúð og fólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign.
Mörg rök hníga að því að þetta sé góð tillaga. Í henni er til að mynda verið að útvíkka þann hóp sem getur nýtt séreignarsparnað til kaupa á fasteign. Þetta mál stendur mér nærri því skrif mín um nýtingu séreignarsparnaðar til þess að greiða niður lán og einnig nýta sem útborgun á íbúð árin 2009-2013 höfðu mikil áhrif á setningu laga árið 2014 um að fólk gæti nýtt sér séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislán og þannig sparað í sínu eigið húsnæði[1]. Fólk á leigumarkaði féll hins vegar í mörgum tilvikum á milli þilja í þessari umræðu og er þetta frumvarp frábært skref til að bæta það.
Hrunið og fólk á leigumarkaði
Stærstur hluti fólks á leigumarkaði á Íslandi vill ekki vera á leigumarkaði heldur er þar af illri nauðsyn. Nýleg rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gefur til kynna að tæplega 90% einstaklinga myndu kjósa að vera í sínu eigin húsnæði. Stór hluti þess hóps glímir við tvísýnleika (e. Precarity). Íslensk húsnæðisstefna miðar fyrst og fremst að því að sem flestir eigi húsnæðið sem þeir búa í. Á Íslandi var hlutfall heimila á leigumarkaði fyrir hrun 2008 í kringum 17%. (Már Wolfgang Mixa, Kristín Loftsdóttir & Anna Lísa Rúnarsdóttir, 2021).
Í hruninu veiktist íslenska krónan um 100% frá því sem hún var gagnvart öðrum gjaldmiðlum í árslok 2007. Með öðrum orðum, innfluttar vörur kostuðu tvöfalt meira en ári áður. Þar sem stór hluti neysluvísitölunnar er samsettur af innfluttum vörum þá hækkaði neysluvísitalan um 30% næstu þrjú árin. Samhliða þessu lækkaði nafnverð húsnæðis næstum um 15% á sama tímabili (Már Wolfgang Mixa, Kristín Loftsdóttir & Anna Lísa Rúnarsdóttir, 2021). Þetta fyrirkomulag, sem felur í sér að binda verðtryggð húsnæðislán við neysluvísitölu, sem getur sveiflast í allt aðra átt en húsnæðisverð þegar síst skyldi, olli því að sparnaður fólks í sínu eigin húsnæði gufaði upp og því til viðbótar gátu margir ekki staðið í skilum[2].
Samkvæmt gögnum Alþingis (2017) neyddust um 5.500 einstaklingar til að selja húsnæði sitt árin 2010-2013. Þórólfur Matthíasson (2021) áætlar að í kringum 2.000-3.500 af þeim nauðungarsölum hafi verið beintengdar hruninu, eða um helmingur þeirra sem neyddust til að selja húsnæði sitt, sem svarar til um það bil 1% þjóðarinnar. Ekki aðeins neyddist þessi hópur til þess að fara á leigumarkaðinn heldur missti hann einnig þann sparnað sem hann hafði lagt til hliðar. Hlutfall heimila á leigumarkaði fór úr 17% árið 2007 í 28% árið 2012. Mesta aukningin var hjá fólki á aldrinum 25-34, láglaunafólki, og einstæðum foreldrum (Félagsmálaráðuneytið, 2015).
Hagsæld og litlar breytingar á stöðu leigjenda 2012-2022
Þrátt fyrir mikinn hagvöxt flest ár eftir 2010 þá hefur hlutfall fólks á leigumarkaði haldist tiltölulega stöðugt. Sú staðreynd, sérstaklega í ljósi þess hversu stórt hlutfall fólks kýs ekki að vera á leigumarkaði, sýnir að stjórnvöld hafi ekki staðið sig nægjanlega vel í að finna úrræði fyrir þennan hóp. Það er ekki þar með sagt að stefna stjórnvalda hafi verið andstæð leigjendum í sjálfu sér, heldur má frekar segja að stefnuleysi hafi ríkt.
Hagvöxtur síðustu ára hefur til dæmis verið drifinn að stórum hluta til af ferðaþjónustunni. Hún hefur bæði dregið til sín erlent vinnuafl og dregið fjölda íbúða sem áður voru á almennum leigumarkaði í Airbnb leigu (Már Wolfgang Mixa & Kristín Loftsdóttir, 2021). Stjórnvöld hafa til að mynda veitt lítinn stuðning við leigjendur vegna þessarar þróunar. Lítil hækkun leiguverðs síðan Covid-19 faraldurinn skall á, sérstaklega þegar leiguvísitalan er borin saman við húsnæðisvísitöluna, sýnir að samband aukins fjölda ferðamanna hefur slæm áhrif á stöðu leigjenda. Viðbúið er að staða leigjenda versni á nýjan leik þegar ferðamannastraumurinn eykst á nýjan leik. Við þessu þarf að bregðast sem fyrst.
Þetta frumvarp er ákjósanleg leið til þess að opna dyr margra aftur inná húsnæðismarkaðinn, það er að breytast úr leigjendum í eigendur húsnæðis. Með því að veita fólki á leigumarkaði aukið tækifæri til þess að safna fyrir útborgun á íbúðarhúsnæði myndast möguleiki á því að lækka varanlega hlutfall fólks á leigumarkaði.
Með ofangreindum rökum tel ég það vera rétt að frumvarpið verði þróað áfram með þeim hætti að það verði að lögum.
Virðingarfyllst,
Már Wolfgang Mixa
[1] Sjá meðal annars hérna a) https://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/981433/, hérna b) https://www.slideshare.net/marmixa/sreignarsparnaur-fjtrum, og hérna c) https://www.visir.is/g/2009627681736/sereignarsparnadur---husnaedislan
[2] Þetta er ein af helstu ástæðum þess að ég tel að miða eigi verðtryggð lán til kaupa á húsnæði við húsnæðisvísitölu en ekki neysluvísitölu.
Heimildir:
Alþingi. (2017). Þingskjal 1370/148 svar: nauðungarsala og gjaldþrotaskipti Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti. https://www.althingi.is/altext/148/s/1370.html
Félagsmálaráðuneytið. (2015). Upplýsingar um stöðuna á húsnæðismarkaði. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2015/09/23/Upplysingar-um-stoduna-a-husnaedismarkadi/
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. (2021). Október 2021 Húsnæðismarkaðurinn Mánaðaskýrsla. https://hms.is/media/11070/manadarskyrsla_oktober.pdf
Már Wolfgang Mixa & Kristín Loftsdóttir. (2021). Tourism Development and Housing after the 2008 Crash in Iceland: The Reykjavík Case. Í J. Domínguez-Mujica, J. Mcgarrigle Carvalho og J. M. Parreño Castellano (ritstj.), International Residential Mobilities: from lifestyle migrations to tourism gentrification. Springer Publications.
Már Wolfgang Mixa, Kristín Loftsdóttir, & Anna Lísa Rúnarsdóttir. (2021). Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst: Tvísýnleiki og upplifun leigjenda af íslenskum húsnæðismarkaði. Íslenska þjóðfélagið, 12(1), 87-104. https://thjodfelagid.is/index.php/Th/article/view/196
Þórólfur Matthíasson. (2021). Er það rétt að hátt í 14 þúsund fjölskyldur á Íslandi hafi verið bornar út á götu í kjölfar efnahagshrunsins 2008? Vísindavefurinn. http://www.visindavefur.is/svar.php?id=79336
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Almenni lífeyrissjóðurinn - stjórnarframboð
28.3.2022 | 14:31
Ég er að bjóða mig fram í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins. Atkvæðagreiðslan er í fullum gangi og lýkur þann 30. mars. Tíu hafa gefið kost á sér í tvö stjórnarsæti og ég er einn af þeim. Hér er hlekkur á atkvæðagreiðsluna.
Verði ég kosinn í stjórn mun ég leggja áherslu á að auka vægi erlendra fjárfestinga. Ég hef lengi lagt til að lífeyrissjóðir hefðu að lágmarki, ekki hámarki, 50% eigna sinna erlendis. Með þessu er áhættu betur dreift og einnig hækka erlendar fjárfestingar í virði í íslenskum krónum talið þegar að mest liggur við, þ.e. í kreppuástandi eins og árið 2008. Þeir sem hafa lesið pistla mína undanfarin ár (þau eru reyndar orðin heldur mörg) vita að ég hef lengi fjallað um þetta. Má meðal annars minna á þennan pistil minn á þessum vettvangi - https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/2272134/
Slíkar fjárfestingar yrðu að mestu í "leiðinlegum fyrirtækjum" í stöndugum rekstri og veita reglulegar arðgreiðslur. Áhersla yrði lögð á að halda kostnaði við slíkar fjárfestingar í lágmarki enda skiptir kostnaður enn meira máli en nokkru sinni fyrr þegar að ávöxtunarkröfur í heiminum eru að raunvirði nálægt núllinu.
Muna - greiða atkvæði hið fyrsta því kosningu lýkur á miðvikudaginn.
https://www.almenni.is/stjornarkjor-2022?fbclid=IwAR3i3SjoPcyd8zB9kmbSgqZzPFWPaFbJzTXJE-gZWqC8QUCM4eCaW_0uFR8
Galin hugmynd - álit
23.2.2022 | 14:18
Landsbankinn stígur skref í að minnka vaxtamun
17.2.2022 | 09:42
Í pistli mínum Tölur varðandi ofurhagnað íslenskra banka, þar sem ég gagnrýndi málflutning um ofurhagnað íslenskra banka, kom í niðurlaginu fram: Nú, þegar að rekstur banka er að verða skilvirkari má þó gera kröfu um að hann lækki niður í 2.0%. Bankarnir geta stigið stórt skref nú þegar í þá áttina með því að hækka breytilega vexti sína minna en sem nemur stýrivaxtahækkunum.
Landsbankinn tilkynnti í morgun uppfærða vaxtaskrá. Breytilegir vextir íbúðalána hækka um 50 punkta og hið sama á við um kjörvexti á óverðtryggðum útlánum. Engar breytingar eru á föstum vöxtum óverðtryggðra íbúðalána. Þá eru engar breytingar á vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum, hvorki breytilegum né föstum.
Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 50 punkta. Engar breytingar eru hins vegar á kjörvöxtum á verðtryggðum útlánum. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 50 punkta og yfirdráttarvextir hækka um 75 punkta.
Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka meira en sem nemur útlánavöxtum, eða allt að 75 punktum, vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka um allt að 60 punktum en vextir almennra veltureikninga hækka þó einungis um 10 punkta.
Bankinn er með öðrum orðum í heildina að minnka vaxtamun. Breytilegir útlánavextir utan yfirdráttarlána eru að hækka 50 punkta, sem er 25 punktum minna en nýleg stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Vextir sparireikninga hækka í takti við stýrivextina. Má segja að Landsbankinn sé hér að stíga skref í þá átt að minnka vaxtamun í átt að 2%. Vaxtamunurinn á síðasta ári var 2,3% og þessi aðgerð fer hugsanlega langleiðina með að færa hann niður í það viðmið.
Hér eru tölur dregnar saman varðandi bankanna -
https://www.dropbox.com/s/n4rcs4f09jbklur/islenskir%20bankar%202017%202021.xlsx?dl=0
Hér er einnig góð grein sem Samtök atvinnulífsins skrifuðu fyrir nokkrum árum síðan. Þessi skrif hafa sannarlega staðist tímans tönn - https://cdn.nfp.is/sa/gamaltefni/hvernig-minnkum-vid-vaxtamun-a-islandi.pdf
MWM
Tölur varðandi ofurhagnað íslenskra banka
14.2.2022 | 13:24
Mikið hefur verið rætt um stórkostlegan hagnað íslenskra banka undanfarið. Einn ráðherra hefur gengið svo langt að tala um að taka skref í átt að þjóðnýtingu banka með því að leggja til að setja á ný bankaskatt því þeir séu með vaxtaokur. Kannski er rétt að líta á tölurnar.
Arðsemi eigin fjár
Einfalt er að líta á hagnaðartölur og segja að fyrirtæki hljóti að vera að hagnast með óeðlilegum hætti þegar að tölurnar eru háar. Arðsemi eigin fjár er betri mælikvarði, hversu mikill er hagnaður af fjárfestingu eiganda, sem hlýtur að skipta máli ef verið er að bera saman fjárfestingu uppá 650 milljarða króna og smærri fjárhæða.
Arðsemin árið 2021 var góð hjá bönkunum. Hún lá á bilinu 11-15% hjá bönkunum, meðaltalið var 12,6%. Þetta er samt ekki ofurhagnaður á starfsemi þeirra. Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, hefur yfirlýsta stefnu um að þetta arðsemishlutfall verði að lágmarki 10%. Sé litið til meðaltals síðustu fimm ára hefur Landsbankinn staðið sig best í þessum efnum, ef svo mætti að orði komast, með 7,8% arðsemi eigin fjár. Meðaltalið hjá Íslandsbanka var 6,9% og hjá Arion banka var það aðeins 6,4% á þessu tímabili.
Því má bæta við að arðsemi eigin fjár Haga, sem reiðir sig aðallega á rekstri hinna ódýru Bónus verslana, á síðustu fimm árum var töluvert hærri, eða 14.8%. Á síðasta ári (2020-2021) var hún rúmlega 10% og árið þar áður var hún 12.6%, sem er nákvæmlega sama arðsemi og meðaltalið hjá bönkunum á síðasta ári. Á að leggja sérstakan skatt á starfsemi Bónus verslana?
Ávöxtun eigin fjár umfram "áhættulausum fjárfestingum"
Sé litið til atvinnugeira eins og fjármálastofnanir að gefnu tilliti til áhættu þá má gera ráð fyrir að ávöxtunin sé árlega um 5% hærri en á ríkisbréfum sem falla ekki á gjalddaga fyrr en eftir langan tíma. Ég miða hér við lengsta flokkinn á Íslandi, RB31. Ávöxtunin hjá bönkunum var á síðasta ári langt umfram 5% en hún hefur verið slök síðustu fimm ár. Hjá Arion banka hefur ávöxtunin síðustu fimm ár umfram því sem að eigendur skuldabréfa gátu vænst einungis 2% árlega og árin 2018 og 2019 var betri ávöxtun af áhættulausum ríkisbréfum en fyrir hluthafa bankans.
Vaxtamunur
Vaxtamunur á Íslandi er, andstætt almennri umræðu, að lækka. Árið 2017 var hann hjá öllum bönkunum í kringum 3% en hefur verið að lækka hjá þeim öllum, þó minnst hjá Arion banka. Meðaltalið í dag er 2,5%. Vaxtamunurinn í dag er raunar sá lægsti hjá íslensku bönkunum síðan að hrunið 2008 átti sér stað. Nú, þegar að rekstur banka er að verða skilvirkari má þó gera kröfu um að hann lækki niður í 2.0%. Bankarnir geta stigið stórt skref nú þegar í þá áttina með því að hækka breytilega vexti sína minna en sem nemur stýrivaxtahækkunum.
MWM
Hér að neðan er hlekkur að Excel skjali með ofangreindum tölum.
https://www.dropbox.com/s/n4rcs4f09jbklur/islenskir%20bankar%202017%202021.xlsx?dl=0
75 punktar - fyrstu viðbrögð
9.2.2022 | 14:48
Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,75% í morgun. Þetta er töluverð hækkun, sérstaklega í ljósi þess að vextirnir voru 2,0% áður og hækka því um ríflega þriðjung. Ólíkt því sem áður var þá hefur þetta gríðarleg áhrif á mörg heimili, sum hver sem hafa nýlega tekið húsnæðislán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum og í sumum tilvikum gerandi ráð fyrir stöðugu lágvaxtaumhverfi. Það hefur verið gagnrýnt í gegnum tíðina hversu lítið stýrivextir bíta á fasteignamarkaðinn en núverandi aðstæður sýna að sveiflur í stýrivöxtum geta aftur á móti gert almenningi enn meiri grikk því þessi hækkun kemur strax fram í greiðslubyrði fólks. Hækki vextir húsnæðisláns með breytilegum vöxtum til dæmis úr 4,15% í 4,85% þá hækkar vaxtakostnaður þess heimilis um 17%. Heimili sem skuldar 40 milljónir króna þarf því að borga 25 þúsund krónur meira á mánuði í vaxtakostnað. Þetta getur verið þungt högg fyrir marga.
Fólk með fasta vexti finnur ekki strax fyrir þessu en vextir eru ekki fastir í nema 3 eða 5 ár. Eftir það fylgja þeir breytilegum vöxtum svo gleðin við slík lán eru skammvin.
Þó svo að verðbólguvæntingar hafi aukist mikið síðustu mánuði þá gera spár Seðlabankans engu að síður ráð fyrir að verðbólga hjaðni örlítið á þessu ári en sú hjöðnun taki aftur á móti töluverðan tíma. Ekki er því útilokað að stýrivextir hækki enn frekar. Ég hef áður sagt að ég geri ekki ráð fyrir að þær hækkanir verði jafn miklar og sumir greinendur hafa spáð. Sú skoðun er óbreytt. Íslenska krónan hefur styrkst undanfarnar vikur og hefur Seðlabankinn jafnvel unnið á móti þeirri styrkingu, svolítið sem ég skil ekki alveg. Hluti af skýringunni er sú að peningastefnunefndin telur að launahækkanir séu aðal drifkraftur hækkandi verðbólgu. Því eigi að leggja áherslu á að hemja þenslu.
Í því sambandi hefur nefndin áhyggjur af því að stjórnmálamenn séu að vinna á móti stefnu nefndarinnar. Seðlabankastjórinn sagði meira að segja orðrétt að "við verðum að vinna saman." Fram kom að breytingar á greiðslubyrði eigi að draga úr lántökum vegna húsnæðiskaupa.
Augljóst er að vaxtastig getur ekki verið langt undir verðbólgu til lengri tíma. Ávöxtunarkröfur á erlendum mörkuðum gera aftur á móti ráð fyrir því að hátt verðbólgustig sé tímabundið. Helstu liðir sem eru að hækka í BNA eru til dæmis þættir sem tengjast orku og svo bílar, aðallega notaðir bílar, en vöntun á tölvukubbum hefur skapað flöskuháls í eftirspurn. Ég tel líklegt að hækkanir á húsnæði hjaðni verulega í ár og að áhrif erlendra verðhækkana verði óveruleg. Ef vel tekst við að draga úr þenslu þá kemur verðbólga til með að hjaðna sem dregur úr þrýsting vaxtahækanna.
MWM
Viltu nammi væni?
13.12.2021 | 09:41
a. Þegar ég var þriggja ára fékk ég nokkrar krónur gefins. Mamma mín spurði hvað ég ætlaði að gera við peninganna. Ég sagðist ætla að fara út í Freyjubúð til að kaupa meiri pening. Þetta vakti mikla kátínu og var þessi saga fastur liður í fjölskylduboðum í mörg ár; allir hlógu.
b. Árið 2007 auglýsti ákveðinn sparisjóður íbúðalán í sjónvarpinu. Fyrst sást í tening með íslenskum krónum og háum vöxtum og svo breyttust hliðar teninganna í erlendar myntir með lægri vöxtum. Ekki kom fram eitt orð um hversu áhættusöm slík lántaka var. Engin manneskja hló vegna þessa í árslok 2008.
c. Árið 2021 er verið að auglýsa í útvarpinu að hægt sé að kaupa pening. Ég heyri þó enga manneskju hlæja.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)