Bloggfærslur mánaðarins, september 2021
Már Wolfgang Mixa - Við og hinir
7.9.2021 | 09:54
Að stilla upp andstæðunum Við og hinir er algeng leið til að fá fólk í lið með sér. Stundum myndast nokkurs konar Dýrabær í Orwell anda, þar sem ákveðnir aðilar í við hópnum hafa dulda hagsmuni . Auk þess verða hinir oft blórabögglar alls hins versta í mismunandi formum. Grein (Nations of bankers and Brexiteers? Nationalism and hidden money) sem ég og Kristín Loftsdóttir skrifuðum og birtist í ritinu Race and Class kemur inn á slík atriði. Þar beinum við sjónum okkar að stemmningunni sem ríkti á Íslandi árin fyrir hrun þar sem að Danir voru í aðalhlutverki blórabögglanna. Mikil áhersla var lögð á okkur Íslendinga sem eina þjóð sem þyrfti að standa saman. Rétt eins og dýrin í sögu Orwell voru þeir sem höfðu mestu lætin alls ekki að vinna að hagsmunum fjöldans því samtímis voru, samkvæmt gögnum Seðlabankans, peningar að fara í stórum stíl til aflandseyja og því úr íslensku efnahagskerfi (tímabundið í það minnsta).
Í tilfelli Brexit kosningabaráttunnar voru innflytjendur helstu hinir blórabögglarnir. Þar lék ný tækni á samfélagsmiðlum, aðallega Facebook, stórt hlutverk. Hulið fé (e. Dark money) fjármagnaði slíka baráttu að stórum hluta. Almenningur vissi í mörgum tilvikum ekki að verið væri að hafa áhrif á skoðanir þess með kerfisbundnum hætti og enn síður hver væri að fjármagna slíkt, en innflytjendamál, sem höfðu ekki verið megin áhyggjuefni fram að árinu 2016 urðu skyndilega í aðdraganda Brexit kosninga mjög ofarlega í hugum almennings í Bretlandi.
Þetta er umhugsunarvert fyrir okkur (við) Íslendinga í dag. Eitt af því sem ég tók sérstaklega eftir við heimkomu eftir 10 ára veru í Bandaríkjunum árið 1996 var hversu einsleitt samfélag við værum. Þetta hefur gjörbreyst, meðal annars með fjölgun innflytjenda. Við erum fjölbreyttari í hugsun og sem þjóð meira víðsýn. Auk þess hafa innflytjendur verið drifkraftur í íslensku efnahagslífi. Í grein sem Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA skrifaði í fyrra, kemur eftirfarandi fram:Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, við að festa rætur, meðal annars með því að tryggja sem bestan aðgang að íslenskukennslu. Styðja þarf sérstaklega við börn innflytjenda svo þau standi jafnfætis innfæddum. Því skiptir það máli að leggja áherslu á við og síður á hinir.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)