Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021
Leitin að peningunum - Már Wolfgang Mixa
29.1.2021 | 09:06
Leitin að peningunum er þáttur sem fjallar um fjármál. Eitt af markmiðum þáttarins er að stuðla að fjárhagslegu sjálfsstæði fólks. Þættirnir eru framleiddir af umboðsmanni skuldara með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu.
Í nýjasta þættinum er viðtal við mig þar sem farið er um víðan völl. Það er ekki ofsögum sagt því hann er heilir tveir tímar. Í þættinum er fjallað meðal annars um fjárfestingar, húsnæðismál, séreignarsparnað og hvað megi læra af sögunni. Hægt er að nálgast þáttinn hérna.
MWM
Fjármagnstekjuskattur liðin tíð hjá flestum einstaklingum
22.1.2021 | 10:06
Skömmu fyrir jól var nýtt frumvarp samþykkt um breytingu á lögum í tengslum við fjármagnstekjuskatt. Tvö atriði skiptir einstaklinga sem fjárfesta í hlutabréfum (bæði í dag og hugsanlega í framtíðinni) miklu máli. Áður fyrr gátu einstaklingar notið skattfrelsis upp að 150.000 krónur á ári (300.000 hjón). Nú er sú upphæð komin í 300.000 krónur (600.000 hjón).
Það sem skiptir einstaka fjárfesta jafnvel enn meira máli er að nú geta einstaklingar ekki bara nýtt frítekjumark vaxtatekna (það er vaxtatekjur vegna innstæðna og vaxtagreiðslur skuldabréfa) eins og verið hefur hingað til heldur nær frítekjumarkið nú einnig til arðstekna og söluhagnaðar félaga sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, eða markaðstorgi fjármálagerninga, sem þýðir að einstaklingar þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af samanlögðum vaxtatekjum og tekjum af hlutafjáreign í formi arðs eða söluhagnaðar allt að 300.000 kr. á árinu 2020 í slíkum félögum.
Samkvæmt mínum heimildum nær ofangreind skilgreining til verðbréfasjóða og einnig erlendra félaga, svo lengi sem þau séu skráð í viðurkenndum erlendum kauphöllum. Staðfesting hefur þó ekki enn fengist.
Fyrir flesta Íslendinga gerir frumvarpið það að verkum að þeir þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt. Þetta sést í umsögn Ríkisskattstjóra í tengslum við frumvarpið. Þar kemur fram að við framtalsskil árið 2020 (fjármagnstekjur 2019) voru vaxtatekjur einstaklinga undir ofangreindum frítekjumörkum (þ.e. 300.000 krónur á einstakling, vaxtatekjur, arðgreiðslur og söluhagnaður)í tæplega 93% tilvika.
Ríkisskattstjóri bendir einnig á að samkvæmt framtali ársins 2020 voru heildarfjármagnstekjur einstaklinga 111 milljarðar króna. Af því voru vaxtatekjur einstaklinga tæpir 33 milljarðar króna, arður af hlutabréfum tæpir 50 milljarðar króna og söluhagnaður hlutabréfa tæpir 29 milljarðar króna. Athygli vekur að fjármagnstekjur einstaklinga vegna arði af hlutabréfum sé 50% meiri en vaxtatekjur. Prósentan væri enn hærri ef fleiri einstaklingar ættu í dag hlutabréf, en eins og fram kom í fyrri pistli mínum er sú tala afar lág í dag. Þar kemur fram að hlutfall einstaklinga á Íslandi sem eigi í hlutabréfum sé miklu lægra en í öðrum nágrannalöndum og gæti hæglega tvö- til þréfaldast næstu árin.
Í dag fá flestir einstaklingar 0,05% vexti af bankainnstæðum án bindingar en eftir því sem ég kemst næst veitir Landsbankinn hæstu ávöxtun óverðtryggða reikninga, 3,2% á ársgrundvelli, en þá þarf viðkomandi að binda peninginn í fimm ár. Ekki þarf mikið til að raunávöxtunin verði neikvæð á því tímabili, sérstaklega (augljóslega) ef verðbólguskot eigi sér stað. Þetta sögulega lága vaxtastig ætti að draga úr vilja fólks að geyma allt sitt sparifé í bankainnstæðum, en sú upphæð jókst mikið í skugga Covid-19 óvissu.
Ríkisstjórnin hefur með samþykkt þessa frumvarps aukið hvata almennings til að fjárfesta í hlutabréfum. Nú geta flestir einstaklingar fengið skattfrjálsan hagnað af bæði vaxtatekjum og hlutabréfum. Í lágu vaxtaumhverfi þar sem að vaxtatekjur eru vart til staðar er líklegt að aukning verði á því að einstaklingar flytji hluta sparnaðar sín yfir í hlutabréf. Í ljósi þess hversu stór upphæð fjármagnstekna einstaklinga fæst frá arði hlutabréfa þá má gera ráð fyrir því að margir líti til væntra arðgreiðslna hlutabréfa í framtíðinni, þá sérstaklega þeirra fyrirtækja sem eru í stöndugum rekstri og veita jafnar arðgreiðslur, sem svipar til vaxtagreiðslna skuldabréfa, en arðgreiðslur eru vel að merkja ekki jafn tryggar.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þátttaka almennings á íslenskum hlutabréfamarkaði
21.1.2021 | 13:42
Haustið 1929 féll gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum mikið. Það er almennt gleymt, meðal annars í bókum sem fjalla um Kreppuna miklu í grunnskólum Íslands, að gengi þeirra hækkaði töluvert aftur fram að vorinu árið 1930. Eftir það hófst samfelld lækkun sem stóð yfir í tvö ár. Gengi Dow Jones hlutabréfavísitölunnar féll tæplega 90% frá hæsta punkti samhliða Kreppunni miklu. Margir Bandaríkjamenn sóru þess eið að fjárfesta aldrei aftur í hlutabréfum.
Á Íslandi hefur svipuð lexía verið dregin af mörgum. Sárafáir einstaklingar fjárfestu sparnaði sínum í hlutabréf áratuginn eftir að hrunið átti sér stað. Örlítil breyting hefur þó átt sér stað síðustu mánuði. Útboð Icelandair hreyfðu við mörgum sem höfðu ekki komið nálægt fjárfestingum í hlutabréfum lengi vel. Auk þess hefur lágt vaxtastig gert hlutabréf að áhugaverðari kosti en áður. Í dag fá flestir einstaklingar 0,05% árlega ávöxtun fyrir að geyma pening inná lausum innstæðureikningum. Ef fólk er tilbúið til að binda pening í fimm ár inná innstæðureikningum í Landsbankanum þá fást aðeins 3,2% árlegir vextir á innstæðunni, sem veitir vart jákvæða raunávöxtun miðað við verðbólguspár.
Nýleg ritgerð Eddu Jónsdóttur og Sóleyjar Evu Gústafsdóttur rannsakaði helstu ástæður þess að almenningur fjárfesti jafn lítið í hlutabréfum á Íslandi og raun ber vitni. Það ætti ekki að koma á óvart að traust spilaði stóran þátt í því. Þær vitna í rannsóknir Capacents þar sem fram kom að traust almennings til fjármálakerfisins varð nánast að engu í framhaldi af hruninu en það er smám saman á nýjan leik að aukast aftur.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í nýlegu viðtali að ekki væri óeðlilegt að þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði væri um tvöfalt til þrefalt meiri miðað við nágrannaþjóðir okkar.
Það þarf reyndar ekki mikið til. Edda og Sóley benda á að þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hafi verið í kringum 5% og hafi lítið breyst fram að síðasta ári. Hún hafi verið um tvöfalt meiri hjá flestum Evrópuþjóðum og margfalt meiri í Bandaríkjunum. Eitt af því sem þær nefna sem hugsanlega leið til að auka þátttöku almennings eru skattaívilnanir vegna hlutabréfakaupa. Slík aðgerð átti sér stað í lok síðasta árs. Tel ég að þær, ásamt auknu trausti og lágvaxtaumhverfi, eigi eftir að leiða til þess margir einstaklingar fari á þessu ári að fjárfesta í hlutabréf á nýjan leik. Fjalla ég aðeins um það á morgun.
Fyrir áhugasama þá er hægt að nálgast ritgerð Eddu og Sóleyjar hérna.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)