Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019

Landsbankaumræða á villigötum

Umræðan um laun bankastjóra Landsbankans ætti ekki að koma á óvart. Ég hef áður bent í greininni Landsbankinn - sala fyrir borgun (birt árið 2016) á þann umboðsvanda sem ríkir við það að banki sem er nánast eins og hver annar banki sé alfarið í ríkiseigu. Í því sambandi má benda á að SA báru saman vaxtamun íslenskra banka fyrir nokkrum árum síðan og kom í ljós að vaxtamunurinn hjá Landsbankanum var ekki lægstur meðal þeirra, hann var 3,0% á meðan hann var 2,5% hjá Arion banka, sem íslenska ríkið átti þá einungis 13% hlut í. Sé litið til útlánavaxta Landsbankans þá eru þeir svipaðir og hjá hinum tveimur bönkunum. 

Staðsetning húsnæðis

Í ofangreindri grein kom fram hjá mér eftirfarandi:

Bankastjórn Landsbankans vill reisa höfuðstöðvar í miðbænum. Margir þingmenn hafa mótmælt þessum áformum en þrátt fyrir það hefur stjórnendateymi bankans ekki gefið út neina yfirlýsingu um að til standi að hætta við slík áform. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við RÚV í framhaldi af þessu að undarlegt væri að banki ætlaði að fara gegn vilja almennings og fulltrúa hans. Sagði hann að bankinn ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör almennings.

Þrátt fyrir þessi hörðu orð þáverandi forsætisráðherra þá hefur ekkert breyst í þeim áætlunum. Núverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, er ósátt við núverandi laun bankastjórans og fjármála- og efnahagsráðherra krefst skýringa. Þó liggur fyrir að laun bankastjóra Landsbankans eru í samræmi við laun bankastjóra hinna tveggja bankanna á Íslandi, en eru þó lægri. Áhugavert væri ef að vilji almennings um byggingu höfuðstöðva breyttu engu en annað ætti við um laun bankastjórans.

Umræða á villigötum

Þessi umræða er hins vegar á villigötum. Hún ætti heldur að snúast um það hvort að það sé virkilega eitthvað vit í því að íslenskur almenningur eigi svona stóran hlut í bönkum. Sé miðað við eigið fé bankanna í dag þá á hver lögráða Íslendingur rúmlega 1,5 (eina og hálfa) milljón krónur í Íslandsbanka og Landsbankanum.

Þetta skrifaði ég fyrir þremur árum síðan:

Ef Landsbankinn væri að hluta til í eigu almennra fjárfesta (almennings, lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta) þá hefðu eigendur hans beinan hag af því að fá sem mesta ávöxtun af sölu eigna. Þeir myndu vega og meta hver eðlilegur vaxtamunur væri. Ytri aðstæður og betra útlánakerfi hefðu líklega meiri áhrif á slíkt en einhver miðstýring frá ríkinu. Ef stjórn og stjórnendateymi bankans telur hagstæðast að reisa höfuðstöðvar í miðbæ Reykjavíkur (ég tel það reyndar vera glórulaust) þá eru það fjármunir eiganda bankans sem settir væru að veði í slíkri ákvörðun.

Nú er einfaldlega hægt að bæta við að ef stjórn Landsbankans telur að það sé hagstætt að borga bankastjóranum þessi laun, þá (aftur) eru það fjármunir eiganda bankans sem settir væru að veði í slíkri ákvörðun.

Norsk leið eða samfélagsbanki

Hugmyndir um að stofna samfélagsbanka hafa stundum verið í umræðunni. Sjálfur tel ég það vera þokkalega hugmynd, þó ekki afar góða. Hún er þó skiljanleg í ljósi reynslunnar árin 2001-2008. Þá er efni í aðra grein af hverju ég er lítt hrifinn af þessari hugmynd. Rétt þykir mér að benda á að gleymst hefur að fyrstu árin eftir að íslenskir bankar urðu að hlutafélögum þá gerðist margt jákvætt í rekstri þeirra. Slíkt hefur skiljanlega fallið í skuggan á því sem miður fór. Stofnun samfélagslegs banka er ekki slæm hugmynd, en ég tel aðra vera betri, og hún er norska leiðin.

Nærtækara væri að læra af reynslu Norðmanna í kjölfar bankahrunsins þar sem hófst árið 1987. Þar hélt ríkið eftir 34% hlut í Den Norske Bank (DNB) en fjárfestar fengu 66% hlut. Með þessari norsku leið tryggði ríkið að starfsemi bankans færi ekki á áhættusama braut því ef illa færi ylli það stórkostlegu efnahagslegu tjóni og hagur almennings væri því settur að veði. Þetta er ekki gallalaus lausn en þó má segja að með þessu sé öryggisventill innbyggður í stjórn bankans, en leiðarljós bankans er þó skynsamleg ávöxtun eigin fjár.

Gaman sem það er að starfa í miðbæ Reykjavíkur þá er ólíklegra að bankinn færi að reisa höfuðstöðvar á dýrasta bletti höfuðborgarsvæðisins í slíku fyrirkomulagi þar sem að áherslan sé á skynsamlega ávöxtun eigin fjár. Þá væru kjör bankastjórans væntanlega ekki það mikla hitamál sem þau eru í dag. 

Eðlilegt væri að gefa hverjum fullráða Íslendingi bréf í hverjum banka en ríkið héldi eftir 34% hlut í öðrum þeirra. Væri það Landsbankinn þá ætti íslenska ríkið enn vel ríflega 10% hlut af bankakerfinu, auk Íbúðalánasjóðs. Hver fullráða Íslendingur fengi þá hlut sem næmi rúmlega milljón krónur. Hver og ein mannskja réði því þá sjálf hvort að hún vilji eiga hlut sinn í íslenska fjármálakerfinu áfram eða selja hann.

MWM

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband