Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018
Efnahagur og gengi hlutabréfa
9.2.2018 | 10:35
Menn vísa oft í vænta efnahagsþróun þegar fjallað er um líklega þróun hlutabréfa næstu daga, vikur og mánuði. Séu horfur jákvæðar þá er gjarnan bjartsýni á mörkuðum og eru hækkanir á gengi hlutabréfa oft skýrðar í sambandi við mikinn hagvöxt.
Slíkar skýringar eru oft réttar, en stundum þó rangar. Í fyrsta lagi er afar erfitt að spá fyrir um efnahagsþróun. Þó svo að staðan á hverju tímabili sé ágætis mælikvarði á stöðuna næstu mánuði (til dæmis, ef það ríkir efnahagsleg lægð á einverjum tímapunkti, þá er líklegt að slíkt ástand ríki sex mánuðum síðar), þá er það langt frá því líklegt að sú staða ríki enn 12 mánuðum síðar, hvað þá 24-36 mánuðum síðar. Því hefur verið raunar verið haldið fram, meðal annars þekktum sjóðsstjórum eins og Ken Fisher og Peter Lynch, að þróun á gengi hlutabréfa endurspegli oft þróun efnahagslífsins 6-12 síðar betur en nokkur annar mælikvarði.
Í öðru lagi getur efnahagsvöxtur haft til skemmri tíma neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa (áhrifin geta raunar verið neikvæð til lengri tíma, meira um það síðar). Það er einmitt raunin þessa daganna. Síðasta föstudag, 2. febrúar, voru tölur varðandi atvinnu birtar í Bandaríkjunum. Þær sýndu að bæði er verið að skapa fleiri ný störf í Bandaríkjunum en áður var talið og að sú þróun sé farin að hafa áhrif á launakjör, sem hækkuðu um 2,9% á milli ára. Það var töluvert meira en spáð var og er hækkun launa til að mynda töluvert hærri en núverandi verðbólga, sem margir óttast að smitist í verði á þjónustu og vörum á næstu misserum.
Meiri eftirspurn, meiri framleiðsla, hærra vaxtastig
Aukin framleiðsla og hækkandi launakjör auka þrýsting á aukinni verðbólgu, sem er helsti áhrifavaldurinn varðandi vaxtastig. Slík þróun veitir seðlabönkum tilefni til að hækka stýrivexti til að koma í veg fyrir ofhitnun í efnahagnum.
Þar sem að virði hlutabréfa er núvirðing á framtíðarhagnaði bréfa þá hefur hækkandi vaxtastig mikil áhrif á verðmati þeirra. Þetta á sérstaklega við þegar að vaxtastig er tiltölulega lágt, eins og staðan er í dag. Ástæðan er sú að verið er að verðmeta framtíðartekjur félaga með tilliti afvöxtunar á hagnaði framtíðar og er vaxtastig grunnur að slíkum útreikningum. Til dæmis, séu framtíðartekjur $100 eftir 5 ár þá er núvirði þeirra tekna miðað við 3% ávöxtunarkröfu $86,3 en hækki krafan upp í 4% þá er núvirðið komið niður í $82,2, eða um 5% lægra. Munurinn eykst enn frekar lengra í framtíðina þannig að hver prósentu breyting á ávöxtunarkröfu í vaxtaumhverfi þar sem að vaxtastig er undir 5% getur auðveldlega hreyft virði hlutabréfa um 20-25%, burtséð frá framtíðartekjum.
Hækkun vaxta hefur einnig áhrif á rekstrarniðurstöðu fyrirtækja þar sem að vaxtakostnaður eykst, sem dregur úr hagnaði þeirra. Áhrifin eru mismunandi eftir því hvernig fyrirtækin eru fjármögnuð.
Hækkun vaxta lækkun á virði hlutabréfa
Margir hafa bent á að hækkun hlutabréfa í Bandaríkjunum og raunar á flestum stöðum í heiminum síðan 2008 hlyti af enda á einhverjum tímapunkti. Sá tímapunktur að slíkt komi á daginn er óhjákvæmilegur. Hins vegar hefur lágt vaxtastig síðustu árin síður dregið fjárfesta í skuldabréf. Hví ætti einhver að selja hlutabréf sem miðað við virði þeirra og hagnað hafa veitt 3-5% ávöxtun þegar að ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur verið í kringum 1-3%?
Nú þegar að ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur hækkað undanfarnar vikur, sérstaklega síðustu daga, hafa verðmatslíkön greiningaraðila nánast sjálfkrafa lækkað verðmöt hlutabréfa vegna hærri ávöxtunarkröfu sem gerð eru til þeirra(vegna væntinga um að vaxtastig hækki). Þó svo að vaxtastig sé enn afar lágt í sögulegu samhengi, sjaldan verið lægra, þá má segja að nú séu fjárfestar síður vissir um að hið lága vaxtastig haldist óbreytt næstu árin. Skuldabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum sýnir klárlega að viðhorf margra fjárfesta á þeim markaði eru að breytast þessa daganna.
Því hafa betri efnahagshorfur neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa til skemmri tíma. Aukist hagvöxtur enn meira en gert er ráð fyrir má gera ráð fyrir töluverðri niðursveiflu á gengi hlutabréfa, ekki af því að þau voru nauðsynlega gróflega ofmetin heldur vegna þess að uppsveifla í efnahagslífinu getur, undarlegt sem það má vera, haft neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa.
MWM
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)