Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
Doktorsritgerð MWM
9.6.2016 | 23:04
Maður hefur í gegnum tíðina strengt mörg heit, aðeins til að taka aftur upp slæma ósiði. Í mínu tilfelli hef ég margoft sagt við sjálfan mig að nú sé komið nóg af lærdómi og gráðum. Þetta sagði ég eftir að hafa fengið gráðu í fjármálum og heimspeki fyrir rúmum 20 árum síðan og einnig þegar ég kláraði MSc gráðu mína í fjármálum fyrirtækja skömmu eftir hrun árið 2009. Í síðustu viku kláraði ég enn eina gráðuna þegar að opin PhD vörn á sér stað í Háskólanum í Reykjavík.
Í doktorsritgerð minni, The Icelandic Bubble and Beyoned: Investment Lessons from History and Cultural Effects, rannsaka ég hvaða helstu þættir í menningu okkar hafi ollið því að hér myndaðist svo mikil bóla sem olli því að hér átti sér stað jafn mikið fjármálalegt hrun og raun bar vitni. Athugaði ég til dæmis hvort að aðstæður hér voru með einhverjum hætti öðruvísi en annars staðar í heiminum og að hvaða marki.
Innan ofangreinds ramma rannsakaði ég í fyrstu með Þresti Olaf Sigurjónssyni stækkun íslenska fjármálakerfisins borið saman við stækkun fjármálakerfisins á hinum Norðurlöndunum árin fyrir bankakreppuna sem þeir gengu í gegnum í upphafi tíunda áratugarins.* Að segja að íslenskt fjármálalíf hafi þannist meira og hraðar er vægt til orða tekið. Hér er ein mynd úr þeirri grein sem sýnir þróun á hlutfallslegri stækkun fjármálakerfisins hvað útlán varðar (heildarlán miðað við að stuðullinn 1 sé upphafspunktur), þar sem að tímabilið 1982-1990 fyrir Norðurlöndin er sett samhliða tímaásnum 1999-2007 fyrir Ísland.
Útlánin voru svipuð fyrstu sex árin en þá hófst íslenska útrásin fyrir alvöru og varð aukningin á sambærilegum tímabilum um það bil þrefalt meiri í íslenska bankakerfinu miðað við Norðurlöndin. Það er þó ekki þar með sagt að íslensk heimili beri alla sök á þessari þenslu, þó svo að hér hafi verið stöðug herferð í gangi með það að markmiði að fólk skuldsetti sig. Skuldir íslenskra heimila stórjukust frá árinu 2005 þegar fasteignaverð, til dæmis, hækkaði gríðarlega en sá vöxtur var lítilfjörlegur miðað við útlán til fyrirtækja eins og þessi mynd ber með sér.
Útlán til heimila meira en tvöfölduðust frá miðju ári 2005 til lok árs 2008 en þau sexfölduðust hjá eignarhaldsfyrirtækjum. Þetta skýrir að einhverju leyti mismuninn á útlánaaukningunni
Íslendingar eru einstaklingshyggjuþjóð samkvæmt öllum mælikvörðum sem hægt er að leggja á slíkt. Að þessu leyti erum við ólíkir öðrum Norðurlandabúum og sverjum okkur meira í ætt við Bandaríkjamenn og Breta.
Mikið var fjallað um sér einkenni Íslendinga árin fyrir hrun. Við vorum á stundum borin saman við Norðurlandaþjóðirnar þar sem að einstaklingshyggja Íslendinga og þor okkar væri ástæða þess að við næðum svo góðum árangri í fjárfestingum. Þessi orðræða tók mikla sveiflu í framhaldi af hruninu en engu að síður var samt ástæða til þess að skoða þetta betur. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Svala Guðmundsdóttir og Þórhallur Örn Guðlaugsson (AGG) athuguðu þetta í nokkrum rannsóknum nýlega. Niðurstaða þeirra var að það sem skildi menningu Íslendinga frá flestum öðrum þjóðum, þar á meðal Norðurlandaþjóðum, var að Íslendingar væru svipaðir Norðurlandabúum að undanskilinni einni vídd, það er einstaklingshyggju. Íslendingar eru í þeim efnum svipaðir Bandaríkjamönnum, Bretum og Áströlum.
Þessar upplýsingar voru ákveðinn stökkpallur fyrir grein sem ég og Vlad Vaiman skrifuðum. Þegar litið er til talna varðandi sparnað þá kemur í ljós að þjóðir með litla sparnaðarvitund eru oft á tíðum sömu þjóðir og þær sem hafa hátt stig einstaklingshyggju. Íslendingar hafa til dæmis sögulega séð sparað afar lítið miðað við Norðurlandaþjóðirnar eins og sést hérna, þar sem að sparnaður sem hlutfall af tekjum er miklu minni hjá okkur samanborið við Norðurlandaþjóðirnar.
Reyndar er það svo að eftir því sem þjóðir hafa meiri einstaklingshyggju, þeim mun minni sparnaður á sér stað hjá þeim. Sést það hérna þar sem meðalsparnaður top 4 einstaklingshyggju þjóða (IDV) er langtum minni en hjá öðrum þjóðum, þjóðir númir 5-8 á IDV skalanum eru með meiri sparnað og aðrar þjóðir spara síðan töluvert meira en hinar þjóðirnar.
Hvernig stendur á þessu? Við því er ekkert einhlítt svar. Það er hins vegar hægt að líta til ýmissa þátta sem voru að eiga sér stað í íslensku þjóðlífi frá því um miðjan tíunda áratuginn sem breyttu menningu landsins gríðarlega. Það væri jafnvel áhugavert að sjá gamla fréttatíma frá þessum tíma því íslenska þjóðin hefur breyst gífurlega á tímabilinu og því vart hægt að segja að menning Íslands sé lítt breytanleg, eins og oft er gert ráð fyrir þegar talað er um menningu.
Nokkrir þættir urðu til þess að hér breytist íslenskt samfélag á svipstundu. Aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu árið 1995 opnaði upp á gátt fjárflæði til og frá Íslandi eftir að þjóðin hafði lifað í gjaldeyrishöftum frá árinu 1930. Tilkoma Internetsins og aukinn aðgangur að sjónvarpi og lægri símakostnaður opnaði á sama tíma aðgang okkar að umheiminum með hætti sem aðeins nokkrum árum áður var óhugsandi. Mitt í þessari þróun á alþjóðavísu voru Glass-Steagall lög í Bandaríkjunum sem höfðu verið við lýði frá því á árinu 1933 (lærdómur þeirra af Kreppunni miklu 1929-1932) afnumin, sem þýddi að viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi mátti á nýjan leik vera undir sama þaki. Hugsunin var sú, eins og Reinhart og Roggoff fjalla í bók sinni This Time is Different, að nú viti fólk betur. Íslenskir bankar fóru úr ríkiseigu á sama tíma og öll þessi umbrot voru að eiga sér stað, þegar að bankar í hinum vestræna heimi fóru að keyra hagnað sinn fyrst og fremst á fjárfestingabankastarfsemi sem fól í sér áhættur sem fæstir áttuðu sig á.
Eins og gerist oft við slíkar breytingar er hagnaður tímabundið mikill, en fæstir átta sig á áhættunni. Þetta átti ekki síst við um Íslendinga. Meira að segja allt sparisjóðakerfi Íslands hafði breyst í spilavíti þar sem að 60% af eigin fé alls kerfisins í árslok 2006 var bundið í einu fjárfestingafélagi, Exista. Ég hef fjallað um það á nokkrum stöðum en það félag fól í sér gífurlega mikla áhættu frá mörgum sjónarhornum, en á meðan að félagið skilaði hagnaði virtust flestir Íslendingar ekki sjá að það var spilaborg sem gæti fallið hvenær sem var.
Að lokum, þá er það merkilegt hversu mikið var kynnt undir þjóðernishyggju. Í grein sem ég skrifaði með Kristínu Loftsdóttur kemur fram að sú ímynd af útrásinni sem flestir Íslendingar muna eftir að stöðugt var verið að slá á strengi þjóðernishyggju. Farið var í smiðju (sem hafði enga stoð í sjálfu sér) ímyndar um víkinga sem væru í útrás. Fjölmiðlar, sem voru að stórum hluta til í eigu útrásarvíkinga, hömruðu á sér einkenni Íslendinga. það virðist ef til vill vera mótsagnakennt en oft á tíðum var talað um einstaklingshyggju okkur, en á sama tíma var slík orðræða tengd því að við ættum standa saman. Þegar að danskir sérfræðingar settu spurningarmerki um stoðir útrásarinnar þá komu fyrirsagnir í þeim anda að verið væri að ráðast á íslensku þjóðina, sem ætti að standa saman. Svipað andrúmsloft ríkti og þegar að Paul Warburg setti spurningarmerki við hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1929, aðeins til að vera sakaður um að vera á móti bandarískum hagsmunum.
Útrás bankanna hefði aldrei getað átt sér stað án nokkurs konar samþykki íslensku þjóðarinnar. Það sem fæstir Íslendingar vissu var hversu mikil áhætta tengdist útrásinni og hversu lítið þeir báru úr býtum miðað við þá sem hömruðu á þjóðernisvitund landsmanna. Hins vegar var það svo að íslenska þjóðin var ekki ein heild. Á meðan flestir landsmenn hafa þurft að glíma við afleiðingar hrunsins, í mismiklum mæli og vegna heppilegrar þróunar í miklu minna mæli en nokkurn hefði órað fyrir, þá hafa margir einstaklingar komið afar vel út úr hruninu. Að hvaða marki þetta var gert með meðvituðum hætti er erfitt að segja til um.
Helsti lærdómurinn er svipaður þeirri spurningu sem bankar spyrja viðskiptavini sína, sem á ensku útleggst sem Get To Know Your Customer. Við þurfum að spyrja okkur sjálf hvernig bankakerfi við viljum í framtíðinni. Einhverja hluta vegna er til dæmis ekki búið að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi, þó svo að árin fyrir hrun hafi einkennst af því að íslenskir fjárfestingabankar undir hatti almennra banka með innstæðutryggingu (IceSave?) hafi tekið áhættur sem hefði veitt eigendum þess mikinn arð ef vel hefði gengið (óvíst er hversu mikið af arðgreiðslum er á reikningum í aflandseyjum) en almenningur tók skellinn þegar að illa gekk. Oft er bent á að Evrópa sé ekki búin að lögleiða slíkan aðskilnað sem afsökun fyrir því að slíkur aðskilnaður hafi ekki enn átt sér stað. Ég spyr, ættum við ekki að nýta okkar aðstæður þó svo að aðrar þjóðir vilji eða geti ekki gert slíkt hið sama?
Margir hafa einnig farið öndverða átt þegar kemur að eignarhaldi í bönkum og vilja að ríkið eigi þá með þeirri áhættu sem fæstir (aftur) gera sig grein fyrir. Ég fjalla nánar um það síðar.
Spegillinn tók viðtal við mig um þessa ritgerð um daginn, hægt er að hlusta á viðtalið með því að ýta á þennan hlekk - http://ruv.is/frett/islendingar-med-mestu-einstaklingshyggjuthjodum.
Fyrir þá sem finnst þessi samantekt vera of stutt þá er hægt að lesa alla ritgerðina með því að ýta á þennan hlekk - https://www.academia.edu/25828003/THESIS_FOR_THE_DEGREE_OF_DOCTOR_OF_FINANCE_THE_ICELANDIC_BUBBLE_AND_BEYOND_INVESTMENT_LESSONS_FROM_HISTORY_AND_CULTURAL_EFFECTS - eða þennan hlekk - http://www.slideshare.net/marmixa/the-icelandic-bubble-and-beyond-investment-lessons-from-history-and-cultural-effects
MWM