Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Landsbankinn - sala fyrir Borgun

Landsbankinn er í eigu landsmanna. Óbeinn hlutur hvers Íslendings í bankanum er sjálfsagt miklu meiri en flestir átta sig á, eða í kringum einn milljón króna á hvern fjárráða Íslending miðað við bókfært virði bankans.

Alþingismenn eru fulltrúar þjóðarinnar varðandi framtíð bankans. Sumir þeirra vilja að tæplega 100% eignarhlutur bankanum og því allri áhættu tengd rekstri hans verði áfram í eigu þjóðarinnar. Af orðum þeirra má ráða að með því að halda bankanum í eigu þjóðarinnar sé hægt að mynda banka sem væri fyrirmynd annarra banka hérlendis. Ég á hins vegar erfitt með að sjá slíkt gerast. Bankinn hefur verið í eigu ríkisins í meira en sjö ár en engu að síður ríkir stöðugur umboðsvandi sem engan endi virðist ætla að taka. Hér eru nokkur dæmi.

Staðsetning

Bankastjórn Landsbankans vill reisa höfuðstöðvar í miðbænum. Margir þingmenn hafa mótmælt þessum áformum en þrátt fyrir það hefur stjórnendateymi bankans ekki gefið út neina yfirlýsingu um að til standi að hætta við slík áform. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við RÚV í framhaldi af þessu að undarlegt væri að banki ætlaði að fara gegn vilja almennings og fulltrúa hans. Sagði hann að bankinn ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör almennings.

Vaxtamunur

Hefur Landsbankinn, í eigu almennings í nokkur ár, verið að bæta kjör almennings? Samkvæmt skýrslu ( http://www.sa.is/media/1826/hver-borgar_-15okt-2015.pdf ), sem Óttar Snædal hjá SA birti síðastliðinn október, er vaxtamunur (hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af heildareignum;  almenn leið til að meta vaxtakjör viðskiptavina) íslensku bankanna 2,8%. Sá vaxtamunur er ívið hærri en vaxtamunur minni banka á Norðurlöndunum og í Evrópu, þar sem hann er í kringum 2,0%. Vaxtamunurinn hjá Landsbankanum er hins vegar ekki lægstur heldur er hann 3,0% á meðan hann er 2,5% hjá Arion banka. Sé rýnt í heimasíður bankanna sést að báðir bankar veita sömu kjör á íbúðalánum og sumir lífeyrissjóðir veita sjóðsfélögum sínum jafnvel enn betri kjör. Vilji fólk leggja inn á óverðtryggðan fastvaxtareikning bundinn til 12 mánaða, veitir Arion banki betri kjör en Landsbankinn.

Óttar bendir á að ákveðnar sér-íslenskar aðstæður valdi því að vaxtamunur hérlendis sé hærri en í nágrannaríkjum. Eitt af þeim atriðum eru háar skatta- og gjaldaálögur fjármálafyrirtækja, sem renna til ríkisins, fulltrúa almennings, vegna eignarhluta í Landsbankanum.

Því má við bæta að vaxtakjör almennings í landinu bötnuðu þegar að bankakerfið komst úr viðjum ríkisvaldsins fyrir tæpum 20 árum síðan. Sú vegferð endaði illa, að stórum hluta til vegna þess að bankarnir umbreyttust í fjárfestingabanka með ríkisábyrgð sem almenningur tryggði að ákveðnu leyti. Það hefur gleymst að fyrstu ár einkavæðingar einkenndust af mikillri hagræðingu innan bankakerfisins sem skilaði sér að hluta til almennings með betri kjörum. Það afsakar auðvitað ekki glórulausa útrás síðari ára.

Borgun fyrir sölu

Ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið varðandi Landsbankann er að selja eigi frekar hluti úr bankanum í stað þess að selja hann smám saman. Það hefur hingað til tekist illa. Engin virðist vita hver ber ábyrgð á því að banki í eigu landsmanna seldi hlut sinn í Borgun á gjafverði, en fram hefur þó komið að þetta sé langt í frá í fyrsta sinn sem spurningarmerki hefur verið sett varðandi ferli á sölu eigna úr bankanum.

Sala fyrir borgun

Ef Landsbankinn væri að hluta til í eigu almennra fjárfesta (almennings, lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta) þá hefðu eigendur hans beinan hag af því að fá sem mesta ávöxtun af sölu eigna. Þeir myndu vega og meta hver eðlilegur vaxtamunur væri. Ytri aðstæður og betra útlánakerfi hefðu líklega meiri áhrif á slíkt en einhver miðstýring frá ríkinu. Ef stjórn og stjórnendateymi bankans telur hagstæðast að reisa höfuðstöðvar í miðbæ Reykjavíkur (ég tel það reyndar vera glórulaust) þá eru það fjármunir eiganda bankans sem settir væru að veði í slíkri ákvörðun. Hlutverk ríkisins, með 34% til lengri tíma, væri fyrst og fremst að tryggja að starfsemi bankans færi ekki á slíka áhættusama braut því ef illa færi ylli það stórkostlegu efnahagslegu tjóni og hagur almennings væri því settur að veði.

MWM

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband