Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Arðgreiðslur tryggingafélaga

Óhætt er að segja að þau þrjú tryggingarfélög sem nú eru skráð á íslenskan hlutabréfamarkað séu dugleg við að greiða eigendum sínum arð. Á síðasta ári fór stór hluti hagnaðar þeirra í arðgreiðslur til eigenda sinna auk þess sem félögin keyptu eigin bréf í stórum stíl. Segja má að félögin hafi notið lítið af hagnaði sínum til að endurfjárfesta í rekstri sínum eða auka eigið fé með auknum fjárfestingum.

Arðgreiðslur síðasta árs blikna þó í samanburði við arðgreiðslur þessa árs. Félögin þrjú stefna að því að greiða í kringum 10,5 milljarða króna í arð.

Áhugavert er að bera þessa tölu saman við nokkrar stærðir þessara þriggja félaga. Samtala eigin fjár þeirra í árslok 2014 var 48 milljarðar króna. Markaðsvirði þeirra í dag er samanlagt í kringum 65 milljarðar króna. Því er verið að greiða út í arð vel ríflega 20% af eigið fé félaganna og rúmlega 15% af markaðsvirði þeirra.

Samanlagður hagnaður félaganna var árið 2014 4,8 milljarða króna. Þessi tala var árið áður, þ.e. 2013, um 6,2 milljarða króna. Samanlagðar arðgreiðslur í ár fara því langt með að dekka ekki einungis allan hagnað árið áður heldur einnig hagnað árið 2013. Því má við bæta að eina félagið sem hagnaðist af einhverju viti á tryggingarstarfseminni sjálfri var Sjóvá. Nær allur hagnaður TM og VÍS árið 2014 var vegna ávöxtunar á fjárfestingum þeirra.

Samkvæmt Markaðspunktum Arion banka 4. desember 2014 greiddu skráð íslensk félög samtals 12 milljarða króna í arð árið 2014. Tryggingarfélögin þrjú eru því að greiða um það bil 90% af þeirri upphæð í ár, þó svo að samtala markaðsvirðis þeirra sé aðeins í kringum 10% af markaðsvirði allra félaga Kauphallarinnar. 

Það er rými, ef svo mætti að orði komast, til að greiða þennan arð til hluthafa. Það felst í því að matsbreytingar eru að eiga sér stað á tjónaskuld félaganna. Sú skuld er að minnka sem gerir það að verkum að eigið fé þeirra eykst. Með því að greiða þennan arð út er líklegra að arðsemi eigin fjár verði meiri. Á móti kemur að undirstaða reksturs félaganna verður veikari. Þetta á sérstaklega við um þau félög sem reiða sig meira á hagnað í gegnum fjárfestingarstarfsemi. 

Sjálfur teldi ég það vera skynsamlegra að móta arðgreiðslustefnu sem tæki mið af hagnaði umfram verðbólgu. Með því að setja ákveðna prósentu (hún mætti vera há) af slíkum hagnaði væri verið að tryggja það að eigið fé félaganna héldi í við verðbólgu og stöðugt væri verið að tryggja undirstöðu rekstrar félaganna. Samhliða því fengju hluthafar arð sem ykist einfaldlega hraðar í framtíðinni að því gefnu að endurfjárfestingar félaganna, hvort sem það væri í rekstri þeirra eða fjárfestingum, veittu viðunandi arðsemi.

Ég fjallaði stuttlega um þetta efni í þættinum Viðskipti sem sýndur er á ÍNN. Hægt er að sjá þáttinn á netinu á þessari slóð:

http://inntv.is/Horfa_a_thaetti/Vidskipti/?play=121444852

MWM

ps. Um daginn var viðtal við aðila á Rás2 varðandi helstu íslensku bókmenntir árið 2014. Báðir þáttastjórnendurnir og gestur þáttarins töluðu í tíma og ótíma um helstu trend í íslenskum bókmenntum. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband