Hækkandi stýrivextir - hækkandi greiðslubyrði
19.5.2021 | 10:27
Það var ekki spurning um hvort heldur einungis hvenær stýrivextir kæmu til með að hækka á þessu ári. Í 4%+ verðbólgu er ekki óraunæft að stýrivextir hækki í 2,5%, sem er langtíma verðbólgumarkmið Seðlabankans, og jafnvel meira.
Eitt af því góða við óverðtryggð lán er að aðgerðir Seðlabankans í vaxtamálum hafa meiri áhrif á vaxtakostnað lána, sem í tilfelli íbúðalána má líta á sem leigukostnað þess hlutfalls húsnæðis sem eigandi þess hefur ekki greitt niður. Lækkandi stýrivextir í framhaldi af Covid-19 örvaði íbúðamarkaðinn og atvinnulíf. Hið slæma er að hugsanlega eru sumir einstaklingar sem nýlega hafa tekið óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum ekki undir það búnir að hækkandi vaxtastig gæti aukið greiðslubyrðina verulega.
Þetta á sérstaklega um þær fjölskyldur sem hafa fjármagnað sig alfarið með óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum. Greiða þarf fasta greiðslu af láninu (óverðtryggð lán eru almennt með föstum afborgunum) og auk þess leigugjald í formi vaxta. Ef vextirnir eru breytilegir, og því afar háðir skammtímavöxtum hverju sinni, þá er hætt við að þeir hækki verulega þegar að hagkerfið nær sér aftur á strik með auknum fjölda ferðamanna. Hætt er við að sumir lendi í erfiðleikum með að ráða við þá greiðslubyrði.
Rétt er þó að árétta að mikil og góð vinna hefur verið gerð undanfarin ár að vega og meta greiðslugetu fólks sem ætti að draga úr áhættu á erfiðleikum við að standa í skil á lánum.
Vegna þessa mæli ég almennt með að fólk taki hluta af óverðtryggðum lánum sínum með fasta vexti (3 eða 5 ár) eða í verðtryggðum lánum, sem eru síður viðkvæm fyrir þróun skammtímavaxta.* Þetta á sérstaklega við ef verið sé að taka lán umfram 40 milljónum króna. Sé lánaupphæðin lægri þá skiptir hækkandi "leigugjald" síður máli. Margar lánastofnanir setja upp svipsmynd á greiðslubyrði miðað við 50/50 lán í verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Því má við bæta að séu lán tekin með breytilegum vöxtum þá má greiða þau upp almennt með engum kostnaði og séu þau með föstum vöxtum þá má greiða 1 milljón á ári án kostnaðar. Taki fólk verðtryggð lán, sem eru í raun leigulán því að afborgun af þeim er hér um bil engin fyrstu árin, þá getur það þó ákveðið að greiða inná þau ef fjárhagur þess leyfir slíkt.
Þeir sem lesa þessar línur, eru með húsnæðislán, og nýta sér ekki séreignarsparnað við að greiða þau niður ættu að gera slíkt hið fyrsta.
MWM
* Yngra fólk á frekar að taka hærra hlutfall í óverðtryggðum lánum til að mynda hraðar eignamyndun í húsnæði sínu.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning