Vaxtalækkun - Af hverju ekki fyrr?

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti rétt í þessu að stýrivextir lækki um 0,5%. Þessi ákvörðun kom ekki á óvart. Vísbendingar hafa verið að koma fram um að hagvöxtur yrði lítill sem enginn næstkomandi misseri. Leiðandi hagvísir Analytica byrjaði strax síðasta sumar að vara við samdrætti og hefur tónn þess hagvísis verið stöðugt þyngri síðustu mánuði. Nýlegt uppgjör Festis sýndi að almenningur skynjaði þetta því sala í Elko á fyrsta ársfjórðungi ársins olli vonbrigðum hjá samstæðunni. 

Þó svo að þessi ákvörðun hafi ekki komið á óvart þá var ákveðin óvissa í hugum sumra fjárfesta. Ávöxtunarkrafa allra ríkisbréfaflokka lækkaði rúmlega 10 punkta í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Líklega hafa einhverjir aðilar verið óvissir um hvort að lækkunin yrði 0,25% eða 0,5%.

Það sem þó staðfesti í hugum margra að efnahagsvöxtur væri (í það minnsta tímabundið) í rénun var fall Wow Air 28. mars. Aðeins nokkrum dögum áður hafði peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum. Óvissa um kjarasamninga var helsta ástæða þess að stýrivöxtum var haldið óbreyttum. Sú óvissa var þó fyrir bí þegar að Lífskjarasamningurinn var tilkynntur 2. apríl.

Öll rök um að lækka vexti hafa því legið fyrir í sjö vikur. Ef lækkun stýrivaxta hefur í raun áhrif á hagkerfið, þá má spyrja af hverju vextir voru ekki lækkaðir strax í kjölfar Lífskjarasamningsins. Eina útskýringin í mínum huga er að peningastefnunefndin hittist einfaldlega ekki fyrr. Undir flestum kringumstæðum væri þetta í góðu lagi. Í ljósi aðstæðna undanfarið má þó spyrja hvort ekki hefði verið skynsamlegt að halda aukafund til þess að lækka stýrivexti? Slíkt hefði haft þá fyrr áhrif á hagkerfið og einnig minnkað óvissuna?

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og núlli?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband