Fyrirsagnir fjölmiðla og allur textinn - áhrif á fjárfestingar
9.5.2019 | 12:53
Arion banki, sem ég á beinan hlut í, tilkynnti afkomu sína fyrstu þrjá mánuði ársins eftir lokun markaða í gær. Eins og við var að búast var hún ekki glimrandi, því áður hafði komið fram að bankinn hefði þurft að afskrifa enn frekari upphæðum vegna gjaldþrots WOW air og auk þess gjaldfærði bankinn kostnað vegna dóms í tengslum við lögsókn Wikileaks gegn Valitor, sem er í eigu Arion banka.
Orðrétt stendur eftirfarandi í fyrstu línum tilkynningar Arion banka til Kauphallarinnar:
Jákvæð þróun í kjarnastarfsemi en óreglulegir liðir hafa neikvæð áhrif
Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrsta ársfjórðungi 2019 nam 1,0 milljarði króna samanborið við 1,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 2,1% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 3,6% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi eigin fjár að Valitor undanskildu var 6,2% á fyrsta ársfjórðungi 2019 samanborið við 4,8% á sama tímabili árið 2018. Valitor er skilgreint sem eign til sölu.
Semsagt, hagnaður dregst saman og arðsemi eigin fjár er enn einn ársfjórðunginn slök. Það sem ætti þó að hafa vakið mestu athygli fjárfesta var að arðsemi eigin fjár var 6,2% að undanskildu tapi á fyrirtæki sem Arion banki er með í söluferli og er að aukast verulega.
Fyrirsagnir fjölmiðla einblíndu hins vegar á fyrstu stærðirnar. Dæmi um slíkt eru Hagnaður Arion helmingast á milli ára, Hagnaður Arion um helmingi minni en í fyrra og Arðsemi eiginfjár Arion banka aðeins 2,1 prósent.
Gengi á bréfum bankans féll í fyrstu viðskiptum dagsins í dag sem var þá 77,7 krónur á hlut. Þegar þessar línur eru skrifaðar (hádegi 9.5.2019) er gengið komið í 80,1 krónur á hlut, sem er rúmlega 3% hækkun frá fyrstu viðskiptum.
Hægt er að álykta að einhverjir fjárfestar hafi selt bréfin með upplýsingar sem tengjast fyrst og fremst fyrirsögnum. Þetta er algengt dæmi í fjármálum sem er á ensku skilgreint sem Availability, það er hvaða upplýsingar skjóta auðveldast upp í kolli fólks. Líklegt er að þeir fjárfestar sem hafi keypt í morgunsárinu, og nú, hafi hins vegar lesið allan textann, ekki bara fyrirsagnirnar.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning