Wal-mart kaupir Flipkart
9.5.2018 | 14:52
Ég mælti með kaupum í 10 fyrirtækjum í vikunni á erlendum mörkuðum. Þetta er það sem ég skrifaði um eitt þeirra fyrirtækja, Wal-mart.
Gengi bréfa Wal-mart hafði lítið hreyfst í mörg ár þangað til nýlega. Fyrirtækið var eitt sinn ráðandi á smásölumarkaði en því tókst með einhverjum hætti að klúðra netviðskiptum sínum herfilega. Það var til dæmis verið með ólíkindum hversu slappt viðmót netviðskipta var hjá fyrirtækinu í mörg ár. Þetta hefur loks verið að breytast undanfarið og hafa hlutabréf þess hækkað mikið síðustu mánuði, þó svo að þau hafi lækkað um 20% frá því sem þau fóru um stundarsakir hæst í. Fyrirtækið getur nýtt sér verslanir út um öll Bandaríkin og jafnvel víðar um heiminn mikið betur sem birgðastöðvar fyrir netviðskipti. Það má segja að kaup í Wal-mart séu ákveðið veðmál um að netviðskipti fyrirtækisins nái loks flugi.
Ég hafði vart lokið við að setja inn þessa færslu (sjá hérna: https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/2216132/) þegar að tilkynnt var að Wal-mart væri að kaupa 77% hlut í Flipkart, helsta smásöluaðila á netinu í Indlandi. Þetta eru stærstu kaup Wal-mart í sögu fyrirtækisins sem hljóða uppá $16 milljarða. Aðili sem þekkir afar vel til indversks smásölumarkaðar sagði mér að þetta væri fyrirtækið í þessum geira þarlendis. Verið er að tala um ört vaxandi markað en þar búa um 1,2 milljarða manna sem hafa stöðugt meiri pening á milli handanna til þess að versla.
Líklegt þykir að Wal-mart ætli sér stóra hluti á þessum markaði og nýta sér þær stóru verslanir sem fyrir eru þar, sem eru reyndar einungis rúmlega 20. Þetta er í anda þess sem ég skrifaði um varðandi ástæður þess að ég teldi Wal-mart vera góð kaup, þ.e. að nýta sér verslanir sínar einnig sem birgðastöðvar. Sumir greiningaraðilar telja að Wal-mart eigi mestu möguleikanna til að keppa við Amazon á sviði smásölu á netinu.
Amazon hafði einnig áhuga á kaupum á Flipkart og bauð samkvæmt óstaðfestum heimildum 10-20% hærri fjárhæð í Flipkart. Hefði það gengið í gegn þá tel ég það vera nánast öruggt mál að gengi hlutabréfa Amazon hefðu hækkað í kjölfarið, rétt eins og gerðist þegar að Amazon keypti Whole Foods síðasta sumar. Þar sem að Wal-mart kaupir Flipcart þá dregst hagnaður þess árið 2019 væntanlega saman um tæplega 10%. Ávinningurinn til lengri tíma er auðvitað erfitt að spá til um.
Hlutabréf í Wal-mart féllu í framhaldi af tilkynningunni, ólíkt því sem búast hefði mátt við hjá Amazon. Þegar að þessar línur eru skrifaðar þá er lækkunin í kringum 4%. Svarar það til $10 milljarða, eða um 60% af andvirði kaupverðsins. Þegar að fjárfestar telja að yfirtökuverð sé of hátt þá refsa þeir gjarnan fyrirtæki á verðbréfamörkuðum. Í ljósi þess að margar yfirtökur skili lítilli virðisaukningu þá er ef til vill skiljanlegt að gengi Wal-mart hafi lækkað. Þetta er aftur á móti mikil lækkun að mínu mati, því kaupin virðast mauka töluverða sultu í mínum huga. Því tel ég að fjárfesting í Wal-mart sé enn betri kostur í dag en í gær, en þó verður að geta þess að sumir gætu komið með rök fyrir því að áhættan í rekstri hafi aukist (ég tel að stöðnun væri þó enn meiri áhætta).
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning