Íslensk ríkisbréf - samanburður við sambærileg erlend skuldabréf

Sumarið 2015 voru fyrstu áþreifanlegu skrefin tekin að losun fjármagnshafta á Íslandi þegar aðgerðaráætlun til losunar fjármagnshafta var kynnt þann 8. júní. Slitabúum fallinna fjármálastofnana, aðallega þremur stærstu íslensku bönkunum, voru settir afarkostir, sem meðal annars komu í veg fyrir að gjaldeyrir kæmi til með að flæða út úr landinu samhliða afnámi hafta, sem myndi veikja íslensku krónuna í ákveðin tíma, sem gerir innfluttar vöru í íslenskum krónum talið dýrari og myndi því leiða til verðbólgu og hækkunar  höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána hjá landsmönnum. Áhrif vegna losun gjaldeyrishafta eru nú þegar mikil og eiga að mínu mati enn eftir að verða víðtæk í íslensku efnahagslífi á næstu árum.

Vorið 2015 fram til dagsins í dag

Fyrir rúmlega ári síðan, sumarið 2015, skrifaði ég samantekt á áhrifum afnáms fjármagnshafta á íslenskan verðbréfamarkað í Frjálsa verslun þar sem að ég spáði fyrir um framvindu mála í tengslum við afnám gjaldeyrishafta. Spáði ég þar til að mynda að vaxtastig á Íslandi kæmi til með að hækka næstu misseri vegna ótta seðlabankans um verðbólguhorfur, sérstaklega í tengslum við launaskrið. Hins vegar var langtímaspáin sú að samhliða auknu fjármagni sem kæmi til með að streyma inn til landsins og bætts lánshæfismats Íslands þá kæmi vaxtastig á Íslandi smám saman að lækka. 

Þessir spádómar sumarið 2015 hafa að mestu leyti ræst. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti haustið 2015 (sú hækkun kom flestum á óvart) og erlendir fjárfestar hafa verið meðal helstu kaupendum ríkisbréfa síðan þá. Seðlabankinn var mikið gagnrýndur fyrir þessar vaxtahækkanir og má segja að hann hafi dregið í land með því að lækka nýverið stýrivexti á nýjan leik. Hins vegar hafa laun hækkað mikið og jafnvel meira á landsvísu en 10%. Eins og komið hefur fram í yfirlýsingum Seðlabankans þá hafa erlend skilyrði eins og lágt olíuverð og styrking krónunnar með auknum þunga ferðamanna hins vegar ollið því að þó svo að laun hafi hækkað mikið þá hafa þær hækkanir ekki skilað sér í verðlaginu. Ekki má gleyma að stór hluti launahækanna hefur verið í formi aukins framlags í lífeyrissjóð. Með öðrum orðum, launahækkanir fara ekki beint í neyslu í dag heldur mynda þær stöðugri grunn að bættum lífskjörum síðar á æviskeiðinu.

Nú, þegar höft eru í þann mund að verða af mestu minningin ein, fara áhrif slíkra þátta að skipta minna máli. Verðbólga virðist haldast lág með styrkri krónu, að stórum hluta til vegna þess hversu lánshæfismat Íslands er orðið gott,  og hefur verðbólguþátturinn í verðlagningu ríkisbréfa lækkað verulega. Vaxtastig á Íslandi hefur því verið að lækka. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa á gjalddaga 2031 er til dæmis núna rúmlega 2% lægri en hún var vorið 2015.

Rennt var nýlega yfir þá spádóma í nýlegu blaði Frjálsrar Verslunar, Funheitir sprotar.

FV 2016 07 sprotarÞar kemur fram sú skoðun mín að ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa eigi eftir að lækka enn frekar. Ein af þeim rökum er að hún fari að svipa meira til ávöxtunarkröfu erlendra bréfa. Þetta á sérstaklega við um skuldabréf ríkja með aðeins slakara lánshæfismat en Ísland.

Lánshæfismat og önnur ríki

Nýlega hækkaði Moody´s lánshæfismat Íslands í A3, sem er mikil hækkun á lánshæfismati Íslands og hefur það ekki verið hærra síðan fyrir hrun. Er það nú hið sama og í Lettlandi. Ávöxtunin sem fæst af lettneskum ríkisskuldabréfum til 10 ára er rétt rúmlega 0,5% en hjá íslenskum skuldabréfum er hún 5,3%. Ávöxtunin á portúgölskum ríkisbréfum er 3,0% á ári, en lánshæfi Portúgals er einungis BB, sem er ruslflokkur, þannig að ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisskuldabréfa í alþjóðlegum samanburði er lág. Jafnvel ef tekið væri tillit til hugsanlegrar verðbólgu, en hún er afar lág á þessum samanburðarsvæðum sem nefnd eru í þessu sambandi, þá er ávöxtunarkrafan hérlendis há þar sem að raunvextir eru í kringum 3% en hún er einfaldlega ekki fyrir hendi í flestum öðrum ríkjum þar sem að lánshæfiseinkunn ríkja er ásættanleg.

Þetta skýrir vel af hverju erlendir fjárfestar hafa í auknum mæli farið að fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum undanfarin misseri. Með enn frekari liðkun á afnámi hafta er líklegt að erlendir fjárfestar auki enn frekar fjárfestingar sínar í íslenskum skuldabréfum. Það innstreymi á gjaldeyri, auk alls þess gjaldeyris sem nú kemur til Íslands í gegnum ferðamenn sem veitir Seðlabankanum aukið rými til að greiða niður erlendar skuldir, styrkir efnahag Íslands og einnig íslensku krónuna, sem dregur úr verðbólgu og því einnig því verðbólguálagi sem er falið í óverðtryggðum skuldabréfum. Ekki er hægt annað en að gera ráð fyrir að afnám hafta auki enn frekar á eftirspurn skuldabréfa með samsvarandi lækkun ávöxtunarkröfunnar.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband